Nú þegar standa launþegar frammi fyrir mikilli skerðingu kaupmáttar. Seðlabankastjóri lýsir yfir undrun yfir því ef þau dirfast að reyna að ná einhverju af þeirri miklu kjaraskerðingu, sem nú er í gangi.
Fyrir nokkrum árum náðust samningar sem fengu heitið Lífskjarasamningar.
Þeir reyndust skár en margir höfðu búist við, en spurningin er hvort aftur sé hægt að endurtaka svipaðan leik.
Eina landið sem brást við með launahækkunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Undrunin gæti einnig verið vegna þess að eftir yfir 70 ár þar sem nærri því hver einasta launahækkun skilaði verðbólgu skuli fólk enn halda að næsta launahækkun geti bætt fyrir skaðann sem síðasta launahækkun olli.
Vagn (IP-tala skráð) 5.10.2023 kl. 11:57
Seðlabankastjóri (og menn eins og Vagn) verða að taka af skarið og segja hreint út hvaða launakjör við "megum" (að þeirra mati) fara fram á svo það valdi ekki verðbólgu samkvæmt trúarbrögðunum sem þeir aðhyllast.
Eigum við samkvæmt þeim að sætta okkur við launakjör sem þýða að við þurfum að búa í tjaldi, borða kvöldmat einu sinni í viku og fara aldrei til tannlæknis? Eða eigum við að sætta okkur við launakjör sem nægja til að halda látlaust heimili og eiga til hnífs og skeiðar, jafnvel að geta leyft okkur að gera einhvern hóflegan dagamun endrum og sinnum?
Hvar liggja mörkin á launakröfum = lífsgæðum áður en þær "skila verðbólgu" samkvæmt þeim kenningum sem slíkur málflutningur byggist á?
Þessari einföldu spurningu hafa andvígismenn lífskjara almennings aldrei svarað og er orðið löngu tímabært að þeir standi skil á þeim svörum!
Guðmundur Ásgeirsson, 5.10.2023 kl. 16:23
Í upphafi hverrar samningalotu hefur verið sagt hvað hagkerfið þoli án þess að hætta sé á að verðbólga éti upp launahækkanirnar. Því er náttúrulega ekki trúað, fljótlega gleymt og kröfur um margfalt það hámark settar fram....Og svo spyrja einhverjir af hverju sögðuð þið okkur ekki að kröfurnar væru ávísun á verðbólgu.
Hvað er til skiptana sveigist ekki og beygist eftir því hvaða lífskjör fólk vill. Ráði hagkerfið ekki við annað en að fólk búi í tjaldi, borði kvöldmat einu sinni í viku og fari aldrei til tannlæknis, eins og sum hagkerfi gera, þá verður bara þannig að vera.
Þrátt fyrir sigurræður baráttuglaðra verkalýðsleiðtoga þá búa kjarasamningar ekki til nein verðmæti sem réttlættu kauphækkanir umfram þol hagkerfisins. Og útkoman verður að hagkerfið skaddaðist og lífskjör versna. Gömul saga og ný, margoft sögð og jafn oft gleymd.
Vagn (IP-tala skráð) 5.10.2023 kl. 19:37
Vagn.
Þú svaraðir því ekki hver lífskjör mega vera svo það valdi ekki verðbólgu samkvæmt þeim kenningum sem þú trúir á. Að vísa til þess að einhversstaðar annarsstaðar sé fátækt er ekki svar við þeirri spurningu.
Margumtalað er að Ísland sé eitt ríkasta land í heimi og því hlýtur að vera nóg til skiptanna hér svo að enginn þurfi að búa við fátækt. Ef við byrjum á að skipta því þannig, hvað er þá mikið eftir?
Veldur það verðbólgu ef ég fæ laun sem duga mér til að borga fyrir húsnæðið og kaupa í matinn? Veldur það verðbólgu ef ég get líka komist til tannlæknis? Veldur það verðbólgu ef ég get svo endurnýjað fötin mín nógu reglulega til að vera ekki alltaf í gatslitnu og líta út eins og flækingur?
Þetta eru einfaldar spurningar.
Segðu okkur endilega hvaða lífskjör má fara fram á án þess að það valdi verðbólgu að þínu mati. Ef þú getur ekki svarað því ertu ekki viðræðuhæfur um þetta málefni sem þú þykist hafa svona obboslega mikið vit á.
Guðmundur Ásgeirsson, 5.10.2023 kl. 19:57
Það er alltaf spurningin hvort kemur á undan eggið eða hænan.
Valda launahækkanirnar verðbólgu eða veldur verðbólgan launahækkunum?
Ekki er að sjá annað en að síðustu misseri hafi verðbólga valdið launahækkunum en ekki öfugt. Stríðið í Úkraínu olli verðhækkunum erlendis frá og svo er hér heimatilbúinn góðærisvandi í ferðamannageiranum sem er að valda heimatilbúinni kreppu vegna húsnæðisverðbólu.Fólk hreinlega getur ekki lifað af lægstu launum.
Seðlabankastjóri kaus þá furðulegu leið að slá húsnæðisverðbóluna með hávaxtastefnu til að drepa eftirspurnina. Hefur síðar komið sjálfur og ráðlagt mönnum að fara í verðtryggð lán til að þeir finni nú ekki eins fyrir há vöxtunum sem hann sjálfur hefur komið á.
Lausn vandans er og verður að auka framboð á húsnæði og draga úr þenslu í ferðaþjónustunni svo bæði útleiga á íbúðarhúsnæði sem og eftirspurn erlends vinnuafls eftir húsnæði, minki. (Sjá t.d. ýmis viðtöl við Ólaf Margeirsson og nú nýlega viðtal við Ásgeir Brynjar Torfason á Sprengisandi)
Allar aðrar lausnir verða að tómu ráðaleysi ef þetta er ekki gert.
Bjarni Bjarnason (IP-tala skráð) 6.10.2023 kl. 02:14
Bjarni.
Það sem veldur öðru fremur verðbólgu er of mikil aukning peningamagns í umferð. Á undanförnum 2-3 árum hefur það aukist um hátt í 30% sem jafngildir því að fimmta hver króna í umferð hafi orðið til á því tímabili. Þau sem leyfðu því að gerast bera ábyrgð á verðbólgunni.
Vísbending: Launagreiðslur auka ekki peningamagn í umferð. Þegar laun eru greidd færast þeir peningar bara úr einum vasa í annan.
Guðmundur Ásgeirsson, 6.10.2023 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.