HINN LEYNDI SANNLEIKUR KÁRAHNJÚKAVIRKJUNAR

"Afhendingu rafmagns Kárahnjúkavirkjunar seinkar meira en talsmenn Landsvirkjunar hafa sagt fram að þessu."  Þetta er pen lýsing í útvarpsfrétt á þeim blekkingarleik sem viðhafður hefur verið til að fela fyrir þjóðinni hvers eðlis þessi endemis virkjun er og helst að láta sem minnst af því leka út fyrir kosningar. Upplýsingarnar um töfina eru hins vegar ekki endanleg sannindi um málið því að löng þrautaganga er framundan fyrir þá sem reyna eins lengi og unnt er að neita að horfast í augu við hinn bitra sannleika sem á eftir koma í ljós.  

Öllu þessu var spáð í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" fyrir þremur árum og meira mun á eftir koma.

Í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" í fyrra var vitnað í greinargerð lögfræðings Landvirkjunar um það hve áhættusöm framkvæmdin er. Eitt af því var að virkjunin er "eyland í raforkukerfinu" án þess að því væri lýst nánar.

Það felst meðal annars í því hve lítið þarf útaf að bregða til að álverið og þar með Landsvirkjun verði fyrir stórtjóni ef eitthvað bregður út rafmagnið bregst. 

Í febrúar í fyrra fékkst játning stjórnanda rannsókna jarðfræðirannsókna um það að því var alveg sleppt að kanna misgengiskaflann fyrirfram þar sem vandræðin hafa verið mest.  Talsmaður virkunarinnar lýsti því síðan svo dásamlega vel hvers vegna því var sleppt: "...við þurftum að fara þarna í gegn hvort eð er."

Já, íslenskir ráðamenn ákváðu fyrir sex árum að fara út í þessa fráleitu framkvæmd, sama hvað það kostaði. Þeir vissu að þegar öll kurl kæmu til grafar stæði þjóðin frammi fyrir orðnum hlut,  - og þeim var það ekki nóg að stefna að því að verða á bak og burt þegar þetta kæmi allt fram, heldur tryggðu þeir sér sjálfum þar á ofan sérkjör með eftirlaunafrumvarpinu illræmda.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sæll Ómar. Afhverju bíðurðu ekki með svona yfirlýsingar þangað til allt er komið á hreint? Eða veist þú eitthvað meira en fram hefur komið í fréttum?

Ef ég man rétt þá átti bókin þín "Kárahnjúkar - með og á móti" að vera hlutlaus en samt koma svartsýnispádómar fram þar sem þú flaggar núna. Þorsteinn Siglaugsson gerði skýrslu um virkjunina og spáði bullandi tapi á framkvæmdinni. Að vísu notaði hann til þess forsendur sem enginn annar notaði og gaf sér m.a. að álverð færi lækkandi, en í fréttum í dag er verið að spá því að álverð muni tvöfaldast fyrir árið 2020.

 Ég held þú ættir að spara yfirlýsingarnar í 2-3 mánuði í viðbót. Spyrjum að leikslokum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.6.2007 kl. 15:26

2 Smámynd: Snorri Hansson

Sæll Ómar. Það hlítur að vera sálarslítandi að stunda þetta sífelda og algjörlega  gagnslausa svartagallsraus.   

Snorri Hansson, 4.6.2007 kl. 18:39

3 identicon

Af hverju láta menn eins og það sé staðreynd að allar stórar verklegar framkvæmdir á Íslandi fram til þessa hafi staðist tímaáætlun? 
Það er enginn að fara á taugum yfir þessu máli nema andstæðingar þessarar "fráleitu framkvæmdar" eins og þú leyfir þér að kalla hana.   Þið eruð eflaust með lausnir á hraðbergi fyrir sjávarbyggðir landsins, nú þegar talið er nauðsynlegt að skera aflaheimildir niður um þriðjung.  Nei, sem betur fer mun það áfall sem kvótaniðurskurðurinn kemur til með að valda, hafa mun minni áhrif hér fyrir austan en ella hefði verið. Það verður ekki þannig á Vestfjörðum þar sem "náttúruverndarsinnar" ætluðu að sjá um að atvinnutækifæri væru næg.  Þaðan fóru fyrir skömmu á þriðja tug "hátæknistarfa" (sem ykkur eru svo einstaklega hugleikin) þegar eitt af "óskabörnunum" ykkar, Marel keypti þar rótgróið hátæknifyrirtæki, lagði það niður og flutti starfsemina til Reykjavíkur.  Það fór lítið fyrir formlegum mótmælum ykkar þá.

Gunnar Geirsson (IP-tala skráð) 4.6.2007 kl. 19:48

4 identicon

Vinnubrögðin við þessa "stærstu framkvæmd Íslandssögunnar" eru auðvitað hneyksli. Það er ekki of snemmt að gagnrýna slíkt. Stjórnmálahneyksli eins og Kárahnjúkavirkjun á að gagnrýna bæði seint og snemma. Það hefur verið gert en því miður ekki dugað til. Krafa um opinbera rannsókn mun koma fram um síðir:

"Einhverjir myndu segja að ástæðulaust sé að nöldra út af faglegu hliðinni á verkinu hjá Landsvirkjun, þetta sé allt að reddast. En þá má taka samlíkingu úr umferðinni. Ef vinnubrögð Landsvirkjunar eru ekki talin aðfinnsluverð þá er það hliðstætt því að segja að ofsaakstur sé í lagi svo fremi sem að ekki verði stórslys. Á sama hátt og ábyrgur akstur stuðlar að fækkun slysa eru vandaðar undirbúningsrannsóknir besta leiðin til að forðast aukinn kostnað, áföll og erfiðleika í stórframkvæmdum, jafnvel þótt þær séu mun minni í sniðum en Kárahnjúkavirkjun," segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands."

Sjá: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1106571

"Til stendur að bora jarðgöng virkjunarinnar með tækni sem er óþekkt og óreynd á Íslandi. Þétting jarðganga getur orðið tímafrek og tafsöm, og þannig hægt á lúkningu virkjunar."

Sjá nánar grein dr. Gríms Björnssonar, "Kárahnjúkavirkjun, sýnd veiði en ekki gefin": http://www.savingiceland.org/node/630

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 4.6.2007 kl. 20:47

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bókin Kárahnjúkar- með og móti fékk þá dóma að hún væri faglega óhlutdræg bók þótt þar væru andstæð sjónarmið látin vegast á á óvenjulegan hátt en þó í fullkomnu jafnvægi.

Mýgrútur skoðana og staðreynda kom fram um báðar hliðar málsins, - bæði þær ljósu og þær dökku, bjartsýnisspádómar og svartsýnisspádómar.

Meðal svartsýnisspádómanna voru þeir sem ég vitna í núna. Best væri fyrir Snorra Hansson að lesa bókina til að sjá hvernig í þessu liggur.

Ómar Ragnarsson, 4.6.2007 kl. 22:42

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Besta fiskiveiðistjórnunarkerfi í heimi, Kárahnjúkar, tannheilsa heillar kynslóðar barna og bestu ráðherralífeyrissjóðir í heimi, það eru engir smá minnisvarðar sem þeir hafa reist sér.

Helgi Jóhann Hauksson, 4.6.2007 kl. 22:47

7 identicon

Fyrst eftirlaunaólögin eru nefnd  til sögu má eins rifja þau upp. Sérstaklega þarf þó að fylgjast með því að heit núverandi stjórnar um að þrífa óþverran verði ekki tómur kattarþvottur. Ekki þarf síður að fylgjast með framgöngu stjórnarandstöðunnar. Mjög mörgum þingmönnum - sennilega flestum - væri ósárt um að sitja áfram að forréttindunum.

Eftir þarsíðustu alþingiskosningar tóku Össur, Steingrímur J. og Guðjón Arnar höndum saman við Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Steingrímur og félagar lögðu sem sagt niður stjórnarandstöðu um stund og undirbjuggu frumvarp um eftirlaun sem fól í sér tugmilljóna ávinning fyrir hvern og einn þeirra. sjá: http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/3546/

Frumvarp þetta - sem varð að lögum í desember 2003 - var samið á bakvið þing og þjóð. Þingflokkur Samfylkingarinnar fékk að líta frumvarpið augum 40 mínútum áður en það var lagt fram - en kokgleypti það samt. sjá http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=776653

Sama gerði þingflokkur VG og frjálslyndra og síðan var forsætisnefnd þingsins látin flytja frumvarpið til þess að gefa í skyn að hér væri á ferð sérstakt þjóðþrifamál en ekki einhver versta tegund spillingar sem hægt er að hugsa sér. Lesa má nánar um málmeðferðina hér: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1112177

Fylgjumst með framvindunni, rekum flóttann. Líðum engin undanbrögð. Landsmenn búa í grundvallaratriðum við sömu lífeyrisréttindi. Alþingismenn og ráðherrar eiga einfaldlega að njóta sömu réttinda og aðrir opinberir starfsmenn, en engra sérréttinda. Sú leiðrétting þolir enga bið. Að því fengnu ber að jafna lífeyrisréttindi þannig að fólk á almennum vinnumarkaði njóti ekki lakari réttinda en opinberir starfsmenn gera nú.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 09:11

8 identicon

Talandi um sannleikann varðandi virkjanamál datt mér í hug að benda á þetta. Staðreyndin að sannleikanum er gjarnan haldið til hliðar en myndir segja oft meira en orð.

http://visir.is/article/20070605/FRETTIR01/70605015

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 11:59

9 Smámynd: Magnús Paul Korntop

Sæll Ómar.
Það er mín skoðun að Kárahnjúkavirkjun er mesti skandall í íslandssögunni,stöndum vörð um það náttúruverndarsinnar að svona vitleysa gerist aldrei aftur.

Magnús Paul Korntop, 6.6.2007 kl. 01:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband