SÖNN OG EINLÆG ÁLGLEÐI

Það er mikið tilefni til gleði álfurstanna á Íslandi þessa dagana. Alcan borgar fjórðung af orkuverði nágrannalandanna, Alcoa hefur fengið vilyrði um álver á Bakka til að tryggja að íslendingar muni bæta upp töf á orku frá Kárahnjúkavirkjun. Mikið sjónarspil er á Reyðarfirði í dag þótt raforkan nægi aðeins til lítils hluta af framleiðslunni enda dýrt og óhagkvæmt að búa til rafmagn í hverfli sem fær rafmagn leitt í sig með hundi úr byggðalínu í stað vatnsorku.

Á meðan lífríkinu er drekkt og stækkandi Hálslón kæfir raddir vorsins uppi við Kárahnjúka gleðja töframenn börnin á Reyðarfirði og þar er skálað og haldnar ræður. "The show must go on."

Orkuveita Reykjavíkur fer létt með að gera orkusölusamning sem borgar virkjunina ekki upp í stað þess að hinkra í eitt ár og nýta sér 40 prósent hækkun orkuverðs í nágrannalöndunum.

Ætla má að mismunurinn á þessu umsamda orkuverði og því sem hefði getað orðið síðar nemi alls um 15 milljörðum króna en það eru smápeningar í stóriðjukapphlaupinu.

Tveimur dögum fyrir kosningar var veitt rannsóknarleyfi í Gjástykki sem mun tryggja næg umhverfisspjöll líkt og gerðist við Sogin hjá Trölladyngju, þannig að það verður bara formsatriði að setja þar upp virkjun.

Þjóðin nærist á fáfræði um þau ótrúlegu náttúruspjöll sem í vændum eru fyrir austan og norðaustan Mývatn.

34 beiðnir um rannsóknarleyfi liggja fyrir. Jakob Björnsson skrifar heila opnu í Morgunblaðinu um að það standi í Biblíunni að Íslendingum beri skylda til að virkja allt sem virkjanlegt er fyrir álver upp á 2,5 milljóna tonna ársframleiðslu.

Geir H. Haarde hafði viðrað svipaða hugsun í Silfri Egils og heldur nú væntanlega fjálglega ræðu um það á Reyðarfirði hvernig þessi framtíðarsýn muni leysa vandann í atvinnumálum á Íslandi.

Sú "lausn" felst í því að við álver uppá 2,5 - 3,0 milljóna tonna ársframleiðslu vinni um 2% af vinnuafli þjóðarinnar!

Í viðtali á Stöð tvö komst talsmaður Alcoa auðveldlega upp með það að segja að aðeins séu notuð koltrefjaefni í nokkrar stórar flugvélar. Hið rétta er að vinsælasta einkaflugvél heims er nú úr slíkum efnum sem eru að ryðja álinu burtu.

Hann komst líka upp með það að segja að mest af framleiðsluaukningu áls fari í bíla, en það er alrangt.

Mest af framleiðsluaukningunni fer í áldósir og umbúðir sem Bandaríkjamenn henda í stað þess að endurvinna.

Sú umbúðanotkun ein samsvarar endurnýjun alls flugflota Bandaríkjamanna fjórum sinnum.

Stóriðjustefnan er sprelllifandi. Steingrímur J. gaf í stjórnarmyndunarörvæntingu grænt ljós á Helguvík ef ekki líka Bakka ef Sjálfstæðismenn vildu fara í stjórn með VG.

Ekki er orð í stjórnarsáttmálanum um að hætt verði við Norðlingaölduveitu, Grændal eða Neðri-Þjórsá.   

Þórunn Sveinbjarnardóttir og fleira gott fólk í núverandi stjórnarsamstarfi þarf á miklum styrk og stuðningi að halda til að standast þá áraun sem stóriðjuóðagotið veldur. Bara að Þórunn standi sig jafnvel og hún gerði í Kárahnjúkamálinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar,

Þetta ætlar engan enda að taka þessi virkjanaáform stjórnvalda sýnist mér.  Eftir um 20-30 ár hef ég þá trú að fólk sjái hversu framsýnn þú varst á sínum tíma en það er víst dagurinn í dag sem blívar, þannig er nú það.  Gangi þér allt í haginn.

P.s.  Hvernig er það, nú hafa t.d. Danir engar ár til að virkja og lítið af fjöllum og dölum til að fylla eða hvað?  Ég spyr svona í rælni, á hverju lifa þeir eiginlega?  Ekki á fjallagrösum er það nokkuð, því þau eru ekki til þar?  Kannski á hugvitinu....njaaa varla og þó,  jafnvel á þessu "einhverju öðru". 

Seifur (IP-tala skráð) 9.6.2007 kl. 11:49

2 identicon

Var að koma frá Reyðarfirði. 

Þvílík gleði!!!  

Þvílík jákvæðni og bros að hvers manns brá!!!! 

Þeir sem þekkja ástandið eins og það var fyrir nokkrum árum eru klökkir yfir öllum þessum framkvæmdum. 

Við hin eldri, sem erum fædd og uppalin á Austurlandi, sjáum ekki eftir einhverjum þúfum við Kárahnjúka sem fara undir vistvænt vatn.  Við sáum hins vegar á eftir börnunum okkar út af svæðinu.  Þau voru menntuð í burt, vegna þess að hér var litla vinnu að hafa fyrir menntað fólk. Það voru hamfarir, sem eru nú hefur tekist að snúa á betri veg og börnin eru að koma aftur í heimahagana, -hvert af öðru. 

Við sem höfum þau forréttindi að vera með einkaflugmannspróf og getum séð landið okkar fagra frá öðru sjónarhorni en margir, sjáum það eitt sem stingur í augun við ferð okkar um loftin blá.  Innflutt malbik og aftur malbik sem teygir sig um allar grundir í landnámi Ingólfs.  Það eru hamfarir af manna völdum, sem einhver ætti að hafa áhyggjur af.  Þar eru skemmdir á okkar fagra landi sem þorri fólks hefur ekki minnstu áhyggjur af.  Það er ekkert annað en sóun á því landrými, sem brutt er undir hús og hallir.

En, fjarlægðin gera fjöllin blá og mennina mikla, - sérstaklega mennina í 101 Reykjavík. 

=========================

Astfirðingar og aðrir hugsandi Íslandingar, - til hamingju með daginn!! 

Benedikt V Warén (IP-tala skráð) 9.6.2007 kl. 16:32

3 Smámynd: Gísli Gíslason

Ómar, það eru ekki bara Alcoa sem gleðst, það eru líka íbúa austurlands og það eru líka  íbúa höfuðborgarinnar eins og undirritaður sem gleðst fyrir hönd austfirðinga og landsmanna allra að við séum að byggja upp atvinnulíf, nýta vistvænar og endurýjan legar náttúruauðlindir okkar eins  og  gert er með Kárahnjúkavirkjun.

Uppbyggingin fyrir austan með virkjun Kárahnjúka og byggingu álvers við Reyðarfjörð er fyrsta uppbygging út á landsbyggðinni, síðan skuttogaravæðingin átti sér stað á frá 1971-1980.  Enginn alls ENGINN hefur getað bent á aðrar  leiðir sem byggir upp atvinnulíf og spornar við fólksfækkun á landsbyggðinni.  Það er full ástæða að gleðjast með austfirðingum í dag.

Gísli Gíslason, 9.6.2007 kl. 17:04

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hverskonar gelding hugarfarsins er orðin landlæg hjá þessari upplýstu þjóð?

Það hefur enginn bent á neitt annað!!!!!!!!

Við eyðum milljörðum eftir milljarða til háskólanna og afraksturinn er þessi.

Það er semsagt ekkert annað sýnilegt en málmbræðsla til að auka þjóðarframleiðsluna. Og þetta er starfsemi sem flestar aðrar þjóðir eru að ýta frá sér eftir megni. Fortíð iðnríkjanna er hin glæsta framtíð okkar Íslendinga.

Ef við horfum tuttugu ár fram í tímann verðum við búin að nýta alla okkar virkjunarkosti með sama framhaldi. Þá verða margar okkar dýrustu náttúruperlur horfnar. Landið skreytt raflínum og gufuleiðslum.

Þá upphefst að nýju ramakveinið:----En á hverju eigum við að LEEEEEVA?

Þvílík guðsgelding!

Árni Gunnarsson, 9.6.2007 kl. 19:43

5 Smámynd: Björgvin Valur - Bæjarslúðrið

Ein lítil spurning sem þú kannski getur svarað Ómar og hún er svona:  Nú segja nýjustu spár að jöklar á Íslandi verði horfnir eftir 200 ár og þar með allar jökulsárnar, væntanlega.  En hvenær verða þær orðnar svo litlar að allar virkjanirnar í þeim verða ónýtar - 50, 100, 150 ár? 

Björgvin Valur - Bæjarslúðrið, 10.6.2007 kl. 19:54

6 Smámynd: Lýður Árnason

Sæll, Ómar.

Málið er svoldið þetta, eins og ein athugasemdin bendir á, að íbúar þessara svæða eru himinlifandi að fá ungana sína heim aftur.  Hér fyrir vestan eru ótrúlega margir spenntir fyrir olíuhreinsunarstöð, einfaldlega vegna kyrrstöðunnar.  Aðrir kostir eins og opnun sjávarauðlindarinnar eða ferðamennska fá lítinn hljómgrunn ráðamanna og því er öllum hálmstráum fagnað, jafnvel þó morkin séu.

Lýður Árnason, 14.6.2007 kl. 02:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband