10.6.2007 | 17:55
HRIFLU-JÓNAS ENDURLIFNAR Í GUÐNA.
Í spjalli um kosningarnar var oft talað um að þjóðin hefði hafnað Framsóknarflokknum en meginatriði málsins var einfaldara: Það voru fyrrum kjósendur Framsóknarflokksins sem fóru frá honum eins og ég tók þá margoft fram. Þetta skynjar Guðni Ágústsson nú og horfir inn á við til orsakanna í eigin flokki. Hann setur fram hugmynd um þriggja flokka kerfi, einn hægri flokk,einn vinstri flokk og Framsókn vinstra megin á miðjunni.
Þarna er hin gamla Framsóknarhugmynd Jónasar frá Hriflu enn sprellifandi, 90 árum eftir að Jónas setti hana fram.
Gallinn er bara sá hve allt hefur breyst á þessum 90 árum. Það var mjög breitt pólitískt bil á milli Íhaldsflokksins og hins sósíalíska Aþýðuflokks. Auk þess gat Framsókn höfðað til fjölmennrar bændastéttar og nærst á óréttlátri kjördæmaskipan.
Tími Hriflu-Jónasar er liðinn og það verður erfitt fyrir Guðna að endurvekja hlugmyndafræði Jónasar. Þetta sýnir hins vegar vel hvað það hefur verið mikið til í því að kalla Guðna síðasta Framsóknarmanninn.
Það má Guðni eiga að mörg óborganleg gullkorn hafa komið úr munni hans við ýmis tækifæri þegar frábær flutningur hans á umfjöllunarefni hans hverju sinni hafa skapað eftirminnileg augnablik. Á góðum stundum hefur Guðni verið einhver besti tækifærisræðumaður íslenskra stjórnmála.
Þegar maður minnist þess að á safni í Bretlandi má sjá stóra brúðu í líki Winstons Churchills sitja og flytja valda kafla af ræðum sínum dettur manni í hug að einhvern tíma í framtíðinni megi sjá og heyra Guðna fara á kostum á sama hátt.
Þetta gæti átt heima á minjasafni um Framsóknarflokkinn eftir að plássleysið á miðju íslenskra stjórnmála hefur eytt honum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fært sig svo mikið inn á miðjuna frá hægri og Samfylkingin inn á miðjuna frá vinstri að Framsóknarflokkurinn lendir í andnauð.
Hann getur aldrei aftur náð þeim 28 prósentum kjósenda sem honum tókst í stjórnarandstöðu á Viðreisnarárunum.
Auk þess voru Frjálslyndi flokkurinn og Íslandshreyfingin að berjast um kjósendur á þessu sama miðjusvæði í síðustu kosningum.
En það er ekki öll nótt úti á þeim miðum miðjukjósenda í stjórnarandstöðu sem nú er hægt að róa á. Það væri hægt að sameina þessa þrjá hópa í einum ef Framsókn lærði af öllum mistökum sínum og breytti um stefnu í stóriðjumálum og kvótamálum. Þá yrði gaman að lifa fyrir afl sem gæti sótt fylgi frá óánægðum kjósendum núverandi stjórnarflokka.
En því miður sýnir Hriflu-Jónasar-hugmynd Guðna Ágústssonar að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Tilvistarkreppu Framsóknarflokksins er því ekki lokið, - því miður, segi ég, - og á þá við það hve fín stefna endurnýjaðs frjálslyndis- og mannúðarafls á miðjunni gæti orðið. ,
Athugasemdir
Rétt hjá þér. Tilvistarkreppan heldur áfram fyrst gamla settið var kosið. Sem betur fer heldur hún áfram.
Björgvin Valur - Bæjarslúðrið, 10.6.2007 kl. 19:56
Þú segir: "Hugsanlega full ástæða til að stoppa Guðna upp þegar hann lýkur göngu sinni". Finnst þér þetta viðeigandi í pólitískri umræðu, Ómar? Finnst þér við hæfi að taka svona til orða um pólitískan andstæðing þinn ? Þetta á kannski að vera fyndið. En svona skot finnst mér hitta skyttuna.
Eiður Svanberg Guðnason, 10.6.2007 kl. 20:01
Þakka mínum gamla vini, Eiði, fyrir ábendingu sem mér fannst nú kannski byggjast á full mikilli viðkvæmni.
"Allt orkar tvímælis þá gert er" var eitt af efirlætis orðtökum Bjarna heitins Benediktssonar og í ljósi þess hef ég nú breytt þeim kafla af umsögn minni um Guðna Ágústsson sem Eiður vísar til.
Mér hefur alltaf verið hlýtt til Guðna og vil að það komi skýrt fram.
Ómar Ragnarsson, 10.6.2007 kl. 21:00
EF Hriflu Jónas er við að aganga aftur, jafnvel í svo huggulegum umbúðum sem Guðni er, er kominn tími til að Jesúsa sig ærlega.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 11.6.2007 kl. 08:49
Ég minni bara á þá staðreynd að yfirlæknirinn á Kleppi mat Hriflu-Jónas geðveikan.
Stefán
Stefán (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 16:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.