12.6.2007 | 01:33
AF HVERJU "TVEIR SNIGLAR"?
Vélhjólaslys helgarinnar var harmleikur á alla lund og þarf ekki að orðlengja það mikið frekar, - fólki er kunnugt um það hvað gerðist. Í frétt eins fjölmiðilsins var sagt að "tveir Sniglar" hefðu verið á ferð. Mér er að vísu málið skylt þar sem ég er Snigill nr. 200 en verð þó að segja að mér er ekki ljóst hvers vegna þurfti að taka fram að þessir vélhjólamenn hefðu verið félagar í Bifhjólasamtökunum.
Setjum sem svo að tveir menn hefðu þeyst á hestum sínum inn í mannþröng í miðborg Reykjavíkur, valdið þar stórhættu og annar þeirra hefði stórslasast. Hefði verið sagt: "tveir félagar í Landssambandi hestamanna" ef það hefði komið í ljós við eftirgrennslan að svo hefði verið ?
Það eru ekki allir eigendur vélhjóla "Sniglar" og ekki heldur allir eigendur hesta í Landssambandi hestamanna. 'Ég sé ekki ástæðuna fyrir því að blanda félagsskírteinum manna í frásagnir af atburðum á borð við þessa nema þeir séu í forystu félaga sem láta sig málefni sportsins eða málefnisins varða.
Ég þekki vel af eigin raun mikinn vanda blaða- og fréttamanna þegar greina þarf frá því hverjir lenda í atburðum sem þessum og ætla mér alls ekki að setja mig á háan hest í þessum málum, - gerði sjálfur mín mistök á sínum tíma og veit að oft er umdeilanlegt hvernig tekið er á málum.
En fróðlegt þætti mér að heyra hvert álit fólks er á þessum máli.
Athugasemdir
Mikið er ég sammála þér. Þetta voru tveir bifhjólamenn ... og búið!!! Skiptir engu í hvaða félagi þeir eru nema fréttamenn hafi ætlað að draga úr trúverðugleika Sniglanna á einhvern hátt með þessu.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 12.6.2007 kl. 01:59
Er ekki ástæðan fyrir því að það var tekið fram að þeir væru sniglar því að meðlimir snigla hafa alltaf lýst yfir því að þeir hagi sér betur í umferðinni en aðrir. Og augljóslega fyldu þessir meðlimmir og fyrrum stjórnarmaður félagsins ekki settum reglum.
Þorgeir (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 09:37
<>Ég er sammála Ómari en Þetta er algengt meðal blaða-fréttamanna að þurfa að taka fram ef eitthvað svona gerist ekki þar fyrir að það skipti einhverju máli hvort er að þeir séu / hafi verið / eru verðandi etc. Sniglar en einhvern vegin er það nú svo að ef maður brýtur af sér í Breiðholtinu er það tekið fram sérstaklega " maður stórslasast eftir slagsmál í BREIÐHOLTI" en ef hann býr í smáíbúðarhverfinu er það bara "maður stórslasast í átökum í Austurhluta Rvk". þannig hefur þetta verið og verður sennilega um ókomna tíð, vegna þess að það þarf alltaf að vera einhversstaðar eitthvað sem er slæmt ........ ég er sjálfur snigill og mér finnst þetta vítavert kæruleysi af þessum mönnum, og vona að engin fari nú að leika þetta eftir ............. er ekki skárra ef að menn vilja aka eins og fávitar, að virða stöðvunarmerki lögreglu og missa "teinið" smá stund frekar en að stórslasa sjálfan sig og jafnvel aðra .
Rúnar (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 11:00
Það þarf eitthvað að gera í þessum málum. Mér sýnist sem lögreglan sé ófær um að stöðva þennan ofsaakstur - enda hafa slíkar eftirfarir endað með slysum, þótt ég sé fráleitt að leggja slíkt mat á þetta einstaka tilfelli. Vélhjólaklúbbar landsins verða að taka upp n.k. innra eftirlit þar sem meðlimir halda uppi aga og eftirliti með sínu fólki. Í lögum Sniglanna er t.d. ákvæði um að hægt sé að vísa félaga úr klúbbnum, komi hann óroði á Sniglana. Mér virðist sem reynt hafi á þetta ákvæði laga þeirra að undanförnu. Sniglarnir hafa sjálfir lýst því yfir að aðeins nokkrir svartir sauðir liti alla hjörðina. Mér virðist sem hinir lituðu "sauðir" séu orðnir nokkuð margir, hvort sem þeir eru meðlimir í Sniglunum eða öðrum samtökum vélhjólamanna.
Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 12.6.2007 kl. 11:12
Öll slys eru harmleikur, en er það slys ef að maður setur sig í hættulegar aðstæður algerlega að óþörfu og í andstæðu við landslög t.d. akstur á 170 km hraða eða hraðar? Mesti harmleikurinn er þegar að saklausir blæða fyrir óþarfa áhættu sem aðrir taka. Fæst orð minnst ábyrgð.
Annars hlýtur að skipta máli hvort menn eru í samtökum sem hafa stefnu í örrygismálum og þá einmitt skaðar það samökin eða orðspor þeirra ef þeir haga sér illa eða eru bara eintaklingar á ferð á eigin ábyrgð. Þarf maður ekki annars að vera í hestamannfélagi til að komast í landsamband hestamanna, ekki eru sniglarnir heildarsamtök minni mótórhjólasamtaka. Þannig þætti mér alveg fréttnæmt að félagar í Fáki gerðu eitthvað af sér.
Pétur Henry Petersen, 12.6.2007 kl. 12:04
Ekki sé ég á það minnst hvaða samtökum þeir 14 sem voru teknir fullir um helgina tilheyra. Það að vísa manni úr Sniglunum hefur tæplega áhrif á aksturslag hans þar sem viðkomandi ber greinilega enga virðingu fyrir lögum eða samborgurum sínum. Af þessum ástæðum sé ég ekki tilganginn að nefna Sniglana eða einhvern annan klúbb á nafn í tengslum við þessa menn.
Einar (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 12:05
Ég er sammála þér Ómar það á ekki að nefna þau samtök eða félög sem viðpkomandi eru í hverju sinni, Ekki frekar en að segja að sjómaður eða smiður hafi brotið reglur eða lög
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 12.6.2007 kl. 12:45
Sem stofnfélaga í Sniglunum rennur mér blóðið til skyldunnar og ég verð að taka undir með Ómari hér.
Það fer ekkert á milli mála að hér var um háskaakstur að ræða, sem sést á afleiðingunum. Einnig er óumdeilt að óverjandi er að reyna að stinga lögreglu af eins og þarna virðist hafa verið reynt.
Kjarni málsins er sá að þarna voru á ferðinni tveir einstaklingar, á eigin vegum en ekki Sniglanna, þrátt fyrir að þeir kunni að vera í þeim tvö þúsund manna og kvenna hópi, sem gerst hafa meðlimir í Sniglunum.
Bifhjólasamtök Lýðveldisins, Sniglarnir, hafa unnið ötult forvarnarstarf fyrir bættri umferðarmenningu í gegnum árin. Meðlimum Sniglanna væri holt að hafa í huga hvernig hegðun þeirra endurspeglast í allri umræðu um samtökin, en það væri verulega slæmt ef illa grundaður fréttaflutningur yrði til þess að skaða orðspor samtakanna og þannig grafa undan fórnfúsu starfi hugsjónafólks innan þeirra fyrir bættu umferðaröryggi allra.
Með kveðju,
Snigill #22
Sigurður Ingi Jónsson, 12.6.2007 kl. 13:15
Ég verð að taka undir þetta með Ómari og Snigli #22
Ég sit sjálf í stjórn samtakanna og við vinnum ötult starf í umferðaröryggismálum og hvetjum okkar félagsmenn að aka samkvæmt lögum. En auðvitað hjá okkur eins og allstaðar annarstaðar eru svartir sauðir inn á milli.
En svo merkilegt sem það er nú, alltaf þegar Sniglar eru að gera eitthvað gott, eins og td 1 mai keyrslan sem var samtvinnuð við forvarnardaginn okkar þá höfðu fjölmiðlar engan áhuga á okkur, en alltaf þegar um háskaakstur bifhjólamanna komast í fréttirnar þá eru Sniglarnir fyrstir til að fá skellinn frá fjölmiðlum.
Kveðja Inda
Inda (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 13:41
Ef Sniglarnir eru samtök sem beita sér fyrir bættri umferðarmenningu, þá hlýtur fréttapunkturinn að blasa við. Rétt eins og ef fyrrum stjórnarmaður í Framtíðarlandinu yrði staðinn að því að kveikja í sinu í viðkvæmu varplendi að gamni sínu.
Hafsteinn Þór (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 13:44
Er svo sammála þér Hafsteinn Þór.
Guðrún Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 13:54
Einhver hluti bifhjólamanna virðir ekki umferðarlög, ein stærstu samtök þeirra taka til sín réttilega að reyna að bæta bæði það og ímynd bifhjólamanna. Ekkert nema gott um það að segja. Svo eru meðlimir þessara samtaka staðnir að því að brjóta lög. Auðvitað er það frétt sbr. dæmið hans Hafsteins hér að ofan, þó að reyndar séu örrygismál ekki aðalmál sniglanna á sambærilegan hátt og umhverfismál eru aðalmál framtíðarlandsins. Og ætli þessi umræða snúist ekki um það að einverju leyti.
Pétur Henry Petersen, 12.6.2007 kl. 15:09
Mér finnst ekkert eðlilegra en að þarna hafi verið tekið fram að um Snigla væri að ræða og að annar þeirra væri meira að segja fyrrverandi stjórnarmaður í Sniglunum. Ástæðan er sú að þarna var um mjög svo grófan akstur og mjög gróf lögbrot að ræða sem hefðu augljóslega getað kostað óbreytta borgara lífið og það er nauðsynlegt að Sniglarnir svari fyrir slíkt og upplýsi almanning um það hvernig þeir muni bregðast við í kjölfarið nú þegar umferð bifhjóla á þjóðvegum er að aukast verulega.
Stefán
Stefán (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 15:38
Sniglar hafa verið að beyta sér gegn hraðakstri og ég er ekki alveg viss en ég heyrði að annar þeirra hafi verið í stjórn sniglanna, gæti verið ástæðan. Menn sem skrá sig í klúbb sem stendur þvert á móti hraðakstri eiga að sjálfsögðu að keyra í samræmi við það. Auðvitað er litið á mennina sem fulltrúa klúbbsins það er ekkert nema sjálfsagt, sniglarnir hafa lengi sett fyrirmynd fyrir ökumenn mótorhjóla.
steini ego (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 16:17
Í gamla daga var alltaf sagt, tveir sjómenn slógust á skemmtistað.Því miður er þetta svona er þetta ekki bara léleg blaðamennska?
Eysteinn Skarphéðinsson, 12.6.2007 kl. 16:31
Það má náttúrulega lengi deila um hvar draga eigi mörkin í upplýsingaflæði fjölmiðla. Í þessu tilviki er eins og verið sé að vara fólk við að allir Sniglar séu stórhættulegir í umferðinni og að þá beri að varast. En frá fréttalegu sjónarhorni þættu mörgum fréttir hálf litlausar ef smáatriðum væri sleppt. Það eru oft þau sem selja.
Ég þekki það frá Danmörku að þar er alltaf tekið skýrt fram í afbrota málum, ef um er að ræða útlendinga, innflytjendur eða jafnvel 2. kynslóðar innflytjendur. Hér myndi það líta svona út.
*2. kynslóðar innflytjandi frá Víetnam ók á kind á Þingvallavegi í nótt.
Ef um Íslending væri að ræða stæði aðeins
*Karlmaður ók á kind á Þingvallavegi í nótt
Og eins og mbl.is hefði birt það
* Karlmaður ók á kind á Þingvallavegi í nótt. Tekið skal fram að maðurinn er í félagi FÍB.
Og hvers vegna þessi mismunur ? Jú, það selur fréttir að geta tilgreint og skilgreint einhverja ákveðna hópa sem fólk hefur mjög sterkar skoðanir á.
Varðandi þín skrif Ómar þá er þetta spurning um hvar eigi að draga mörkin. Hvar liggja mörk upplýsinga og hvar mörk heilbrigðar skynsemi. Mér finnst vítavert að fólk keyri svona háskalega, en að bendla það við einhvern ákveðinn hóp.. þar sé ég ekki tilganginn.
Hinrik (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 16:57
"...það selur fréttir að geta tilgreint og skilgreint einhverja ákveðna hópa sem fólk hefur mjög sterkar skoðanir á..."
sem eru með öðrum orðum fordómar.
Varðandi fréttagildið: Frétt er m.a. eitthvað sem er nýtt, óvenjulegt eða snertir marga. Það er óvenjulegt ef (fyrrum) stjórnarmaður í samtökum sem vilja stuðla að bættri umferðarmenningu reynir að stinga af lögreglu. Þess vegna er það frétt. Af því að um forystumann samtakanna er að ræða. Annars hefði ekki verið ástæða til að taka fram að hann væri félagi í Sniglunum. Ekki frekar en að hann hefði verið í FÍB eða KR.
Hinsvegar hefði hreint ekki verið fréttnæmt að hann væri annarrar kynslóðar Víetnami úr Breiðholti. Það kemur málinu einfaldlega ekki við.
Guðrún (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 17:33
Það er í fínu lagi að segja að þetta hafi verið sniglar þar sem þessi samtök hafa sagt stuðla að umferðaröryggi og annar þeira sem lenti í þessu hörmulega slysi var fyrrum stjórnarmaður í sniglunum og ætti þess vegna að sýna smá fyrirmynd til annara félagsmanna. Sem betur fer eru haga flestir móturhjóla menn sér vel í umferðinni en það eru alltaf einhverjir vitleysingar innan um sem skemma fyrir allri heildinni.
Þórður Ingi Bjarnason, 12.6.2007 kl. 17:54
Að mínu mati algerlega óþarft að nefna Sniglana í fréttum af þessu slysi - sé ekki tilganginn.
Hins vegar legg ég til að nafni Húsbílafélagsins verði breytt í Sniglana - þeir flytja jú húsið sitt með sér.
Jóhann (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 19:22
Hér að ofan kemur fram að annar ofsaakstursmannanna sé fyrrverandi stjórnarmaður í Sniglunum. En hinn var það ekki og þess vegna sé ekki tilganginn með því að taka sérstaklega fram hvaða félagsskírteini þessir menn höfðu.
Vegna þess að forsvarsmenn Sniglanna hafa beitt sér fyrir bættri hegðan bifhjólamanna í mörg ár mætti kannski réttlæta það að segja að annar mannanna hafi verið áður í stjórn Sniglanna.
Ómar Ragnarsson, 12.6.2007 kl. 20:44
Þetta hörmulega atvik vekur mann til umhugsunar hversu tillitslaus mannskeppnan er, EKKERT réttlætir hraðakstur. En talandi um SNIGLANA þá er ég íbúi í Breiðholtin og á þar bílskúr og við hliðina er annar skúr sem vélhjólamaður leigir ( SNÍGILL ) mörg hjól eru þar á ferðinni og ítrekað hefur þetta fólk lagt fyrir framan bílskúrinn minn og finnst ekkert tiltöku mál skilið einkabílana eftir á bílastæðunum svo dögum skiftir, einnig lagt bílum upp á gras á lóðinni, þegar ég geri athugasemd við þessa aðila þá er eins og að tala við vegginn. Þarna sjáið þið tillitsemina sem SNIGLARNIR eru að tala um. Ég tek það fram að ekki er ég á móti þessum farartækjum, en lágmarks kurteisi kostar ekki krónu.
Þorleifur Helgi Óskarsson, 12.6.2007 kl. 21:58
Ég tel það ekki vera höfuð málið í hvaða klúbbi þessir menn eru, stjórn snigla í dag og aðrir sniglar geta ekki tekið ábyrgð á einstaklingsframtaki sem þessu. Ég er sjálfur hjólamaður og í forsvari fyrir bifhjólaklúbb út á landi sem berst fyrir bættri umferðamenningu en það þýðir ekki að ég geti tekið ábyrgð á þessum 150hausum með mis stóra heila sem eru í klúbbnum. Verum málefnanleg í umræðunni og reynum að læra af svona heimskupörum. Fjölskyldur þeirra eiga um sárt að binda núna því skulum við ekki gleyma og aðgát skal höfð í nærveru sálar. Við eigum jú börn,maka,foreldra og systkini, við gætum gert mistök og hver vill að aðstandendurnir þurfi að líða fyrir það ? Strákarnir geta ekki sakast við neinn nema sjálfan sig, þeir tóku ákvörðun um snúa uppá rörið og reyna að sleppa.
Baldur (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 22:32
Hraðakstur þessara manna var vítaverður, hvaða klúbbi sem þeir kunna að tilheyra og tengist það á engan hátt klúbbnum.
Það að virða ekki stöðvunarmerki er hins vegar alvarlegt afbrot og enn alvarlegra virðingarleysi við lög og reglur landsins.
Einn af sonum mínum mældist á ofsahraða á bíl sínum fyrir nokkru síðan. Hann sagði mér að hann hefði eitt andartak látið sér detta í hug að reyna að stinga lögregluna sem gaf honum stöðvunarmerki af. Ég er mjög stoltur af því að hann lét ekki undan þeirri freistingu og hef átt við hann langar samræður um hversu röng slík ákvörðun hefði verið. Þetta slys, sorglegt sem það er, hnykkti verulega við stráknum og hefur óneitanlega hjálpað honum við að gera sér grein fyrir að hann brást rétt við þegar hann stöðvaði bílinn í stað þess að reyna að stinga af. Það að vera stöðvaður af lögreglu fyrir ofsaakstur er í raun hagstæðasta útkoman af öllum mögulegum afleiðingum svo glæfralegs háttalags.
Ég veit til þess að hann hefur einu sinni áður gerst sekur um svipað athæfi. Í það skiptið varð afleiðingin önnur þar sem vél bílsins hans sprakk og kostaði það hann nokkra hundrað þúsund kallana og hann og mig allmargar vinnustundir í bílskúrnum að vinna úr því máli. Þá hafði ég á orði við hann að sú útkoma væri sú næst besta sem komið gat út úr stöðunni. Betra hefði verið ef hann hefði verið stöðvaður af lögreglunni og misst teinið. Það hefði verið ódýrara. Allir aðrir valkostir hefðu hins vegar verið óbærilegir fyrir alla aðila. Ég vona að hann skilji betur núna hvað ég átti við, ef hann skildi það ekki þá. Hann er búinn að reyna 2 útkomur og megi forsjónin forða honum frá því að reyna þær fleiri.
Karl Ólafsson, 13.6.2007 kl. 01:32
Alveg sammála þér Baldur, enda félagar þínir einstaklega heppnir með sinn formann.
Sniglar hafa oftar en einu sinni og oftar en tvisvar fordæmt bæði hraðakstur og ætlaðar afstungur. Eins og Snigill #22 bendir á, hafa Sniglar í gegn um árin sinnt miklu og óeigingjörnu starfi í þágu umferðaröryggismála. Ég er sammála þér Ómar með að sennilega verðum við að kyngja því að það sé frétt að annar mannana hafi gengt trúnaðarstörfum fyrir samtökin en Sniglarnir eiga ekki að þurfa að glata trúverðugleika sínum sökum slæmrar ákvarðanatöku fyrrum stjórnarmanns. Þetta er hans val og hans dómgreindarleysi.
Addý #1680 (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 04:16
Það má eflaust endalaust þræta um það hvort mennirnir voru núverandi eða fyrrverandi Sniglar eða ekki, en eitt er víst að þetta var frétt sem þurfti að flytja. Hins vegar vil ég spurja við hvaða mörk af of hröðum akstri er hraðaksturinn orðinn af fréttaefni. Af þeim sem hafa tjáð sig um þessi skrif Ómars hér að ofan er örugglega enginn sem ekki hefur brotið umferðarlögin einhvern tíman með einum eða öðrum hætti. Hraðakstur er fyrir mér ekki ósvipaður og áfengissýki þetta er bara spurning um að gefa aðeins of mikið í og þá er fjandinn laus rétt eins og hjá drykkjusjúklingnum sem fær sér í eitt glas og er fullur í mánuð.
Það sem sló mig við þessa frétt þegar ég heyrði hana fyrst var fyrirsögnin: bifhjólamaður hálsbrotnar: og þegar ég sá myndir í sjónvarpi og blöðum var það fyrsta sem sýnt var hjálmur viðkomandi liggjandi á götunni. Þegar slys verður á mótorhjólamanni og hugsanleg höfuðmeiðsli eða hálsmeiðsli þá á sá slasaði að vera með hjálminn á hausnum eins lengi og hægt er. Hjálmar eru hannaðir til að verja og halda saman hausnum á þeim sem hann nota, og því spyr ég: Hver tók af hinum slasaða hjálminn? Er sá ábyrgur fyrir hálsbrotinu? Þetta finnst mér vera ransóknarefni fyrir fréttamann.
Undirritaður er Snigill no 56, en ég tel mig vita meira um hjálma og notkun þeirra en flestir landsmenn. Hjörtur Líklegur
Hjörtur L. Jónsson (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 08:03
Mín reynsla af bifhjólamönnum er sú að þeir taka næstum alltaf framúr manni þó að keyrt sé á hámarkshraða og jafnvel yfir honum. Þetta fullyrði ég af 33 ára reynslu í akstri. Upp til hópa virða þeir sjaldnast reglur um hámarkshraða.
Þeim til vorkunnar er að hjólin þeirra komast svo miklu hraðar en leyft er að það er eiginlega skrýtið að leyft skuli svona mikið vélarafl miðað við þyngd farartækisins sem gerir ekki annað en að vekja upp freistingarnar. Ég raunar fæ á tilfinninguna að þeir sem keyra á 130-150 á þjóðvegum gagnrýni þá sem keyra á 170-220 og kalli þá vitleysinga. Þarna er viðhorfið greinilega bara að brjóta umferðarlögin hóflega eða mikið.
Ég er sammála um að félagsaðildin sé ómaklega tiltekin í fréttum og er til þess fallið að sverta félagsskap Sniglanna. Þó sumir þeirra séu duglegir að hvetja til þess að félagarnir haldi sig innan ramma laganna þá gengur það lítið sem ekkert að mínu mati.
Haukur Nikulásson, 13.6.2007 kl. 09:53
Haukur Nik,
Ein af megin ástæðunum fyrir því að bifhjólamenn taka framúr er eflaust afþví að fæstir bifhjólamenn vilja vera á eftir bilum, þar sem bilar eru yfirleitt með öflugri bremsur fljótari að lækka hraðann og fæstir bifhjólamenn vilja lenda aftaná bil sem snögghemlar.
Þorgeir (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 12:29
Ég skil ekki svona röksemdafærslu Þorgeir. Eiga þá bifhjólamenn ALLTAF að vera á undan? Ég kannast heldur ekki við að vera að snögghemla hvort sem bíll er fyrir aftan mig eða bifhjól. Mér finnst einmitt að við ökumenn bíla þurfum að sýna bifhjólamönnum sérstaka athygli ekki síst vegna þess að þeir eru ekki eins vel sýnilegir í umferðinni og líka vegna þess að þeir keyra oft á milli bíla á tvöföldum akreinum til að komast fram úr.
Haukur Nikulásson, 13.6.2007 kl. 13:29
@Haukur: "Mín reynsla af bifhjólamönnum er sú að þeir taka næstum alltaf framúr manni þó að keyrt sé á hámarkshraða og jafnvel yfir honum. "
Keyrir þú á hámarkshraða og jafnvel yfir honum sérðu að sjálfsögðu ekki þá sem keyra á löglegum hraða. Þeir ná þér aldrei til að taka fram úr ;) Mín reynsla í umferðinni er að næstum allir ökumenn taki fram úr mér, enda keyri ég bara á 90-95 og sé aldrei nema þá sem keyra of hratt og taka fram úr mér.
Annars með þetta mál þá finnst mér í raun eðlilegt að taka fram að annar hafi verið fyrrverandi stjórnarmeðlimur. Þetta kemur einfaldlega af því að Sniglarnir eru samtök sem hafa lengi barist fyrir bættri umferðarmenningu og unnið mikið starf til að bæta ímynd vélhjólamanna. Þeir sem gegna störfum fyrir slík samtök ættu þá auðvitað að hegða sér eftir því. Og í raun kom það mér á óvart að maður sem hafi unnið fyrir þessi samtök skuli hegða sér svona. Þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að allir Sniglar aki eins og brjálæðingar, en það eru alltaf svartir sauðir inni á milli alls staðar.
Þetta er samt alltaf spurning um hversu langt má ganga í umfjöllun í fjölmiðlum. Oft finnst mér fjölmiðlar vera að taka fram eitthvað sem kemur ekki málinu við. Eins og til dæmis hvort einhver sé útlendingur eða ekki. En svo eru önnur tilvik þar sem það er nauðsynlegt. Það er auðvitað grundvallarmunur á því að segja að karlmaður hafi stolið frá Þjóðleikhúsinu, eða að alþingismaður hafi stolið frá þjóleikhúsinu.
Davíð (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 16:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.