18.6.2007 | 11:47
GOTT AÐ STURLA VARÐ EKKI RÁÐHERRA.
Ef Sturla Böðvarsson hefði orðið ráðherra hefði hann ekki getað sagt það sem hann sagði á Ísafirði í gær því að Geir sagði í sinni ræðu:..."ráðherrarnir munu standa þétt að baki sjávarútvegsráðherra við ákvörðun þorskkvótans.".... Davíð hefði ekki þurft að segja þetta til að tryggja að Sturla ekki komist upp með múkk. Þá réði einn vilji, einn foringi. Það er líka gott að gamla stjórnin sat ekki áfram með eins atkvæðis þingmeirihluta, þá hefði enginn stjórnarþingmaður mátt segja neitt.
Sturla ræddi um olíuhreinsistöðvar sem lausn byggðavandans. Á svæðinu frá Snæfellsnesi og hringinn norðurfyrir til Víkur í Mýrdal eru rúmlega þúsund manns á vinnumarkaði. Tvær olíuhreinsistöðvar myndu gefa rúm 2% af vinnuafli þessa svæðis.
Það myndi því augljóslega þurfa miklu fleiri olíuhreinsistöðvar til að leysa vandann og þær myndu keppa við álverksmiðjur um orkuna sem okkur liggur svo mikið á að bruðla með og eyðileggja með því miklu meiri verðmæti sem felast í náttúru landsins.
Enn einu sinni dettur mönnum fyrst og fremst í hug sú "redding" að henda stórverksmiðjum inn í hverja byggð með þeirri orkueyðslu, umhverfisröskun og einhæfni í störfum sem því fylgir og breikkar aðeins menntunargjána milli landsbyggðar og suðvesturhornsins.
Sturla má að vísu eiga það að hann minntist líka á þá lausn sem er ekki eins einföld, að efla samgöngur, fjarskipti, menntun og skapa jarðveg fyrir þau störf sem þurfa á framantöldu að handa í tengslum við ónotaða möguleika í menningu, sögu og náttúru.
Fyrir mig hefðu orð Sturlu um þetta efni alveg dugað fyrir mig til að segja: Sturla, það var gott að þú varðst ekki ráðherra. Haltu svona áfram !
Athugasemdir
Heill og sæll, Ómar !
Þakka þér innleggið, en........... Sturla er, viðlíka mörgum í mínum frændgarði;; allseinþreyttur til vandræða, en þá piltur tekur af skarið, þá munar um liðveizlu hans. Hefir ekkert með það að gjöra, þótt hann hefði haldið ráðherra störfum, að óbreyttu. Það er; Ómar, svolítill neisti enn, í nokkrum okkar niðja Kveldúlfs gamla, úr Hrafnistu, gættu að.
Dárar þeir; Geir H. Haarde og Hannes Hólmsteinn Gissurarson þurfa nú að fá þá ráðningu, hverja þeir eiga skilið. Menn, sem spauga með þjóðarheill, í glýju og af kerskni, til að gangast upp í ranni útlendra kapítalista, og annarra viðlíkra, mega að ósekju ganga af, í stjórnmálalegum skilningi. Nóg er að gjört.
Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 18.6.2007 kl. 12:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.