STEFNAN SEM HEFUR FÁFRÆÐI AÐ FORSENDU.

Var að koma úr þriggja daga ferð um Kárahnjúkasvæðið og svæðið norðaustan Mývatns, - svæði sem stóriðjustefnan elskar að fólk viti sem minnst um, - helst ekki neitt. Töfrafoss, Hraukar og Gjástykki eru þar á meðal. Við Friðþjófur Helgason sigldum á Örkinni upp hinn nýja Kringilsárvog í Hálslóni, þar sem áður var Stuðlagátt, - að Töfrafossi og einnig sunnar að Hraukunum sem hvort tveggja er að sökkva.

Og hvað með það? Var ekki allt umtalið um Eyjabakka út af götu í Breiðholtinu, eins og Davíð orðaði það. Hraukar hvað?

Jú, í bátsferðum okkar undanfarið höfum við fylgst með þeim hluta Hraukanna, sem liggja niður vesturhlíð Hjalladals og sökkva hratt og örugglega. Hraukar eru fyrirbæri sem bara eru til við Eyjabakka og Kringilsárrana.

Sá hluti Hraukanna, sem nú er verið að sökkva, eru þeir einu í heiminum sem liggja svona í brekku. Afsakið, voru þeir einu í heiminum.

Í einni af greinargerðunum um Kárahnjúkavirkjun var sagt að hjallarnir og aðrar einstæðar jarðmyndanir í Hjalladal yrðu "varðveittir" í Hálslóni.

Hið sanna blasir við: Aldan í lóninu étur bæði hjallana og Hraukana í sundur á ótrúlega magnaðan hátt.

Í siglingunum upp að Töfrafossi hafa blasað við brekkur gilsins fyrir neðan fossinn, þaktar þykkum grænum og blómskrýddum gróðri að mestu.

Í blaðagreinum um virkjanamálin er reyndar tönnlast á því að verið sé að sökkva "eyðisöndum", - stóriðjustefnan nærist líka á því að endurtaka sömu lygina nógu oft.

Núna hefur verið einstætt tækifæri til að sjá stóra og kröftuga foss í síðasta sinn með sínu ósnortna umhverfi. Næsta vor verður hann að vísu sýnilegur snemmsumars áður en lónið kemst að honum og drekkir honum, en þá verða brekkurnar þaktar eðju úr Jöklu og leirfok úr þeim ef hreyfir vind.

Sem sagt, - sýn sem aðeins er hægt að sjá einu sinni og hvorki fyrr né síðar. Mikil umferð ferðamanna? Nei, ekki kjaftur enda er allt samgöngukerfið nú á þann veg á því svæði Brúardala sem liggur að vesturbakka Hálsóns í að kerfi vega og slóða er að mestu ónothæft.

Hálslón hefur drekkt slóðinni sem lá yfir Sauðá að Töfrafossi og engin verið gerð í staðinn. Að vísu er til slóð sem notuð var í nokkra áratugi á síðustu öld sem aðalleiðin um Brúardali og lá um svonefndan "flugvöll" sem svo var kallaður en varð að tilefni kærumáls nokkrum dögum fyrir síðustu kosningar.

Ég sá úr flugvél í dag stikur á þessari einu slóð sem hugsanlega er hægt að fara að vesturbakka Hálslóns en um hana ríkir fáfræðin ein. Enda langbest að sem minnst sé vitað um það sem þarna getur að líta, jafnvel þótt að aldrei verði aftur hægt að sjá þessi fyrirbæri.

Ég skoðaði virkjanasvæðið fyrir austan og norðaustan Mývatns í dag úr lofti og tók loftmyndir. Á þessu svæði urðu fjórtán hraungos á níu árum 1975 - 1984 og af þeim er til mikið af mögnuðum kvikmyndum.

Ef þetta svæði væri í Ameríku væri búið að nýta sér þetta til hins ítrasta fyrir ferðamenn, enda á svæðið, gosin, myndefnið og sagan sér enga hliðstæðu í heiminum. Þjóðina órar ekki fyrir því hvað virkjanafíknin á eftir að hafa í för með sér þarna og ég verð tímans vegna að geyma það að greina nánar frá því.

Því miður er þetta svo vita vonlaust hjá mér að ætla sér að reyna að miðla einhverri þekkingu um þetta í tíma, - hraði stóriðjulestarinnar er meiri en svo og virkjanasvæðin svo mörg.

Þegar er búið að veita rannsóknarleyfi í Gjástykki og reynslan af rannsóknarborholum frá Trölladyngju og Sogunum lofar ekki góðu.

En um þetta svæði gildir það sama og gilt hefur um virkjanframkvæmdir stóriðjustefnunnar að forsenda þess að hún hafi sinn framgang er að almenningur viti sem minnst um virkjanasvæðin og helst ekki neitt.

Nú er hádegi, 27. janúar, og ég hef fengið mjög athyglisverða athugasemd sem ég hvet lesendur þessa bloggs til að lesa, svo og andsvar mitt við henni. Það varpar kannski enn skýrara ljósi á það sem ég hef bloggað hér að ofan.

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vont ef fáfræði er forsenda einhvers. Gott framtak að fólk reyni að miðla þekkingu. Hins vegar þarf líka að stíga varlega til jarðar í uppfræðsluhlutverkinu. Snorri Zóphóníasson jarðfræðingur hefur starfað á Orkustofnun í 37 ár. Hann ritar afar áhugaverða netgrein á Mbl.is þar sem hann gagnrýnir þátt „sjálfskipaðra sérfræðinga“ í uppfræðslu landans um virkjanir og náttúruvernd. Læt eina tilviljun fylgja hér til gamans: „Það er ekki góður fréttaflutningur þegar fólk byggir skoðanir sínar á misskilningi sem hefur viljandi verið laumað inn. Ómar Ragnarsson sýndi hvað eftir annað myndskeið af gróðurlendinu í Þjórsárverum á meðan hann fjallaði um Norðlingaölduveitu og lón hennar í sjónvarpsfréttum. Niðurstaðan er sú að stór hluti þjóðarinnar heldur að þar hafi verið sýnt land sem ætti að sökkva. Það er ekki rétt og þá stóð ekki til að spilla að neinu marki því sérstæða votlendi sem jafnan er vísað til í umræðunni.“Grein Snorra má nálgast hér: http://sz.blog.is/blog/sz/entry/242930/

Gústaf Adolf Skúlason (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 10:16

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fullyrðing Snorra um frásagnir mínar af Norðlingaölduveitu er eitthvert besta, - eða eigum ið að segja versta dæmi sem ég hef séð lengi um það hvernig hægt er að snúa sannleikanum við.

Í öllum fréttaflutningi mínum af Norðlingaölduveitu var sýnt nákvæmlega hvar lón ættu  að koma og ekki bara það, - það voru einu réttu upplýsingarnar sem birtust í nokkrum fjölmiðli um þetta því að enginn, segi og skrifa enginn fjölmiðill sá ástæðu til þess að fara á vettvang.

Þegar stefndi í úrskurð um veituna þar sem gert var ráð fyrir lóni sem færi yfir Eyvafen og neðsta hluta Tjarnarvers færu fór ég þangað upp eftir og kvikmyndaði nákvæmlega það sem sökkva átti.

Ég fór sérstaka flugferð og kvikmyndaði þetta líka úr lofti og þessar ferðir fór ég á eigin kostnað því að enginn fjölmiðill hafði áhuga á því að fjalla um þetta á þennan hátt.

Landsvirkjun hvorki sýndi né lét í té myndir af þessu tagi og heldur ekki aðrir aðilar að málinu.

Þetta voru einu kvikmyndirnar sem teknar voru á landi af fyrirhuguðu lónstæði og einu réttu myndirnar sem nokkur fjölmiðill birti af því sem stóð til að gera.

Allir aðrir fjölmiðlar, Morgunblaðið, Stöð tvö og aðrir, birtu rangar myndir, - myndir af þeim hluta Þjórsárvera sem ekki stóð til að sökkva.

Það er helvíti hart að hafa verið eini fjölmiðlamaðurinn sem fór, og það meira að segja á eigin kostnað, á svæðið sem sökkva átti, - hafa verið eini fjölmiðlamaðurinn sem birti réttar myndir en allir hinar rangar, - og þurfa síðan að sæta árás á starfsheiður af því tagi sem Snorri lætur sér sæma að birta.

Eftir úrskurð Jóns Kristjánssonar gerði ég síðan grein fyrir því að Eyvafen myndi samkvæmt nýjustu upplýsingum ekki sökkva og enn var ég eini fjölmiðlamaðurinn sem gat birt mynd af því svæði þar sem setlón átti að koma fyrir norðan Kvíslaveitu 5.

Enn og aftur voru þetta einu myndirnar sem til voru og það er lýsandi um ástand fjölmiðlunar á Íslandi að einstaklingur skuli hafa útvegað þau gögn sem stórar og ríkar stofnanir og fyrirtæki í almannaþágu öfluðu sér ekki.  

Ég er tilbúinn til þess að bjóða Snorra að sjá allar fréttirnar sem um ræðir og hann yrði maður að meiri að biðja mig afsökunar á því sem hann birtir í grein sinni.

Ég skil hins vegar vel gremju hans yfir margítrekuðum röngum myndbirtingum fjölmiðla af þessu máli á sínum tíma.

Eins og ég hef rakið hér að framan var ég eini fjölmiðlamaðurinn sem fjallaði rétt um þetta mál. Snorri talar með lítilsvirðingu um "sjálfskipaða" fjölmiðlamenn og nafngreinir síðan mig einan.

Ég hef starfað við fréttamennsku í sjónvarpi í 38 ár og hef upplifað það hvað eftir annað síðustu árin rétt eins og í Norðlingaölduveitumálinu að vera eini fréttamaðurinn sem hefur kynnt sér ákveðin atriði á umhverfismálasviðinu, - nú síðustu árin á eigin kostnað, til þess að efla rétt og faglegt upplýsingaflæði.

Að baki skrifum Snorra og sérstakri nafngreiningu á mér og ákveðnu máli sem ég fjallaði um, liggur greinilega ósk um að slíkir "sjálfskipaðir" fjölmiðlamenn séu ekki að vasast í fjölmiðlun af þessum málum.

Eftir að fréttir úr fjármálalífinu urðu eftirlæti fjölmiðlunga sýnist mér enginn kollega minna hafa sökkt sér niður í umhverfismálin og ritstjórnirnar hafa orðið að láta þá sem eru á vaktinni á hverjum tíma reyna að fjalla um þau.

Þrátt fyrir að ég sýndi ævinlega réttar myndir í sambandi við Norðlingaölduveitu og önnur hliðstæð mál á sínum tíma gat það komið fyrir þegar ég var ekki á vakt að aðrir fréttamenn sýndu rangar myndir.

Fáfræði fjölmiðlamanna um mörg þessara mála er stundum yfirgripsmikil enda ekki hægt að ætlast til þess að fjölmiðlungar kunni skil á öllum málum.

Ég minnist nokkurra tilfella þar sem ég reyndi að hringja upp á fréttastofu til þess að láta leiðrétta slíkar villur.

Verði Snorra að ósk sinni um að útrýma "sjálfskipuðum" fjölmiðlamönnum á umhverfismálasviðinu mun það væntanlega þýða að allri umfjöllun um þau mál verður hætt.

Þá verður gaman að lifa fyrir virkjanasinna, - aðeins innvígðir munu útdeila þeim upplýsingum sem hentar.

Ég hef áður átt góð samskipti við Snorra í sambandi við fréttaflutning af starfi hans og get borið honum góða sögu.

Ég vona og trúi því að skrif hans um umfjöllun mína um Norðlingaölduveitu byggist á misskilningi vegna gremju út af mistökum annarra fjölmiðlamanna.   

Ómar Ragnarsson, 27.6.2007 kl. 12:25

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ómar segðu mér. Hver er afstaða þín og Íslandshreyfingarinnar til olíuhreynsunar stöðvar á Vestfjörðum?

Fannar frá Rifi, 27.6.2007 kl. 13:10

4 identicon

sæll Ómar. Ekki ætla ég að argast út í þessi skrif þín en er það viljandi að þú skrifar að það sé hádegi 27.janúar í lok bloggsins. 

Annars er gott að þú skulir nenna þessu og haltu því áfram. 

Matti Skratti (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 14:37

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Marg ítrekað hafa verið sýndar myndir af hálendinu norðan Vatnajökuls og þær sagðar eyðilagðar. "Land that will be destroyed", vegna Kárahnjúka. Myndir sem eru ekki einu sinni nálægt Hálslóni. Einnig sá ég í Jökulsárgöngu þinni Ómar, á Austurvelli voru sýndar fallegar myndir af svæðum sem ekki er fargað vegna Kárahnjúka. Þú hefur margoft verið staðinn að verki Ómar! Ekki reyna að ljúga þig út úr því.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.6.2007 kl. 14:53

6 identicon

Nú get ég ekki orða bundist Gunnar Th. 

Ef til er sá maður sem vill hafa það sem sannara reynist, þá er það Ómar Ragnarsson.  Fádæmi, jafnvel einsdæmi, er hvað hann hefur af hugsjón einni  lagt á sig til að kynna náttúruverðmæti fyrir þjóðinni, verðmæti sem orkufyrirtækjum og stjórnvöldum virðist í mun að draga ekki fram í dagsljósið.

Eins og Ómar segir hér að framan þá er það rétt að stundum eru birtar villandi myndir með fréttum en ég dreg þá ályktun að slíkt gerist vegna þekkingarleysis fjölmiðlamanna.  Auðvitað á ekki ekki að taka slíku þegjandi frekar en því að stjórnvöld láti undir höfuð leggjast að kynna sér og þjóðinni þau landsvæði sem  fórna skal á altari stóriðjunnar, en það er annað og alverlegra mál í svokölluðu lýðræðislandi.  

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 15:20

7 identicon

Í guðs bænum farðu nú að hætta þessari krossför þinni gegn Kárahnjúkavirkjuninni. 

 Þetta virkar á mig eins og þú sért einn af þessum höfuðborgarbúum sem eru á móti framförum og atvinnuuppbyggingu úti á landi.  Þetta er eins og barátta við vindmyllur hjá þér, virkjunin er er svo til tilbúin og fer brátt í gang - (þrátt fyrir bölbænir andstæðinga þessarar virkjunar).   Þetta er orðin þráhyggja hjá þér þetta endalausa ergelsi þitt út af Kárahnjúkavirkjuninni.  Þú verður bráðum "persona non grata" á Austurlandi.

Má ekki alveg eins segja að verið sé að eyðileggja t.d. Úlfarsfellssvæðið með því að grafa það í sundur fyrir íbúðabyggð?  Um er að ræða einstakt svæði sem hvergi er til í heiminum nema þarna undir Úlfarsfelli.  Og hvað með öll óafturkræfu svæðin sem lögð hafa verið undir malbik á Höfuðborgarsvæðinu?   Þar er um að ræða "eyðileggingu" á landi sem aldrei aftur verður eins og það var áður en þau voru lögð undir malbik.

Í guðs bænum hættu þessari þráhyggju þinni út af Kárahnjúkavirkjun.  Fáðu þér líf!  Þú varst eins skemmtilegasti maður landsins, farðu aftur að verða svona skemmtilegur eins og þú varst áður en að þú byrjaðir á þessari Kárahnjúka-þráhyggju þinni.

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 16:35

8 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Ómar ég vil þakka þér fyrir þessa umfjöllun alla og hvernig þú hefur gegnum árin kennt mér að elska Ísland og náttúru þess. Án þín væri þjóðin öll mun fáfróðari um sitt eigið land.

Ég vona að myndasafn þitt sem ég veit að er einstakt, sé vel varðveitt svo komandi kynslóðir geti séð þessa staði alla sem eru ekki öllum aðgengilegir.

Takk fyrir

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 27.6.2007 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband