RÆTIN ÁRÁS Á STARFSHEIÐUR, BYGGÐ Á UPPSPUNA.

Í netgrein 19. júní fullyrðir Snorri Zophaníasson að ég hafi viljandi og hvað eftir annað laumað á sínum tíma inn í sjónvarpsfréttir röngum myndum af því svæði sem sökkva átti undir lón Norðlingaölduveitu í því skyni að koma inn hjá þjóðinni ranghugmyndum um það land sem ætti að sökkva. Þetta er óvenjulega rætin árás á starfsheiður minn og fréttastofu Sjónvarpsins, einkum vegna þess að myndskeiðin, sem Snorri talar um, voru þau einu réttu og þau einu sem voru til og birtust í fjölmiðlum á sama tíma og aðrir fjölmiðlar birtu rangar myndir. 

Ég fer þess á leit við Snorra að hann dragi ummæli sín til baka og biðjist afsökunar á þeim opinberlega vegna þess að hann birti þau opinberlega í vefmiðli sem er ígildi dagblaðs. Ef hann gerir það ekki verður hann eins og sannur vísindamaður að birta gögn sem sanna fullyrðingar hans og ásakanir um alvarlegt brot mitt í starfi. 

Ég vil trúa því að uppspuni hans byggist á misskilningi eða misminni og það ætti að vera auðvelt fyrir hann að nálgast rétt gögn til að leiðrétta ranghugmyndir sínar.

Þessi gögn eru mjög aðgengileg. Sumarið 2002 fjallaði ég "hvað eftir annað" eins og Snorri orðar það um úrskurð Skipulagsstofnunar um Norðlingaölduveitu og þær fréttir eru til í safni Sjónvarpsins. ´

Ég byrjaði að fjalla um úrskurðinn rétt áður en hann féll og gerði það síðan ítrekað næstu daga meðan málið var heitt og aðalfréttin í fjölmiðlum.

Þegar þessar fréttir Sjónvarpsins eru skoðaðar sést ótvírætt að eini fjölmiðillinn sem sýndi nokkrar myndir af lónstæðinu og einu réttu myndirnar var Sjónvarpið. Þessar myndir sýndu bæði gróðurlendið sem sökkva átti sem og þann hluta áreyra og farvegar Þjórsár sem fara myndi undir vatn.  

Einnig sýndi Sjónvarpið einu kvikmyndirnar sem til eru, svo vitað sé, af fossunum neðan við Norðlingaöldu sem veitan myndi hafa áhrif á.

Fyrr um sumarið hafði ég farið á eigin kostnað á landi upp í Eyvafen og þann hluta Tjarnarvers sem fara átti undir lónið, auk þess hluta Þjórsár sem Norðlingaölduveita myndi hafa áhrif á. Enginn fjölmiðlill hafði þá tök á eða nægan áhuga á að gera slíkt.

Við fórum akandi upp eftir á tveimur bílum, ég og Jóhann Ísberg ljósmyndari. Þar tók ég einu kvikmyndirnar sem til eru af þessu svæði og fór einnig fljúgandi yfir það á eigin kostnað og tók kvikmyndir af því, einu loftmyndirnar sem birtar hafa verið.

Engin stofnun eða fyrirtæki virðist hafa lagt í það að taka slíkar myndir og segir það sína sögu um ástand upplýsingamiðlunar í mörgum mikilsverðum umhverfis- og virkjanamálum á Íslandi.

Þegar aðrir fjölmiðlar birtu myndir með fréttum sínum notuðu þeir þær gamlar myndir sem þeir áttu af Þjórsárverum og voru teknar mun ofar í verunum og enginn annar miðill fjallaði um áhrifin á Þjórsá.

Ég efast ekki um að Snorra hafi eins og mér ekki líkað sú myndbirting en hún byggðist vafalaust á vanþekkingu viðkomandi blaða- og fréttamanna á staðháttum og hefur áreiðanlega ekki verið viljandi.

En í stað þess að gera við þetta athugasemdir opinberlega þá, kýs Snorri að bíða í fimm ár og snúa þessu öllu núna upp á eina fjölmiðlamanninn sem sýndi rétt gögn varðandi þetta mikilsverða mál og hnykkir á ummælum sínum með mjög rætinni ásökun um siðlausar rangfærslur mínar í fréttaflutningi þeirrar fréttastofu landsins, sem skoðanakannanir sýna að nýtur mests trausts.  

Landsvirkjun sendi fjölmiðlum aðeins loftmyndir af öllu virkjanasvæðinu teknar mjög hátt úr lofti sem gáfu enga mynd af því gróðurfari sem um ræddi í lónstæðinu.

Hér fyrir neðan fer orðréttur pistill Snorra um þetta með leturbreytingum mínum:

Það er ekki góður fréttaflutningur þegar fólk byggir hugmyndir sínar á misskilningi sem hefur viljandi verið laumað inn. Ómar Ragnarsson sýndi hvað eftir annað myndskeið af gróðurlendinu í Þjórsárverum á meðan hann fjallaði um Norðlingaölduveitu og lón hennar í sjónvarpsfréttum. Niðurstaðan er sú að stór hluti þjóðarinnar heldur að þar hafi verið sýnt land sem ætti að sökkva. Það er ekki rétt og stóð ekki til að spilla að neinu marki því sérstæða votlendi sem jafnan er vísað til í umræðunni." 

Fyrrnefndar fullyrðingar Snorra voru, eins og áður sagði, birtar á opinberum vettvangi fjölmiðils sem er ígildi dagblaðs. Þær eru því opinberar og ekkert einkamál okkar Snorra, enda hafði hann ekkert samband við mig áður en hann birti uppspuna sinn og ásakanir um siðlausar rangfærslur mínar sem vonandi eru byggðar á hans eigin misskilningi eða misminni.

Þess vegna er það sjálfsögð krafa að hann leiðrétti mistök sín og biðji mig og fréttastofu Sjónvarpsins opinberlega afsökunar á þeim.

Fram að þessu hef ég ekkert annað en gott að segja af kynnum mínum og samskiptum við Snorra og er reiðubúinn að sýna því skilning ef misminni hans hefur leitt hann á villigötur eins og komið getur fyrir hjá okkur öllum.

En vísindamaður eins og hann hlýtur að hafa það er sannara reynist og taka undir þá kröfu að rétt skuli vera rétt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Á Austurvelli var myndasýning á stóru tjaldi við lok Jókulsárgöngunnar. Þar voru sýndar myndar af svæðum sem fórnað var við Kárahnjúka, en einnig myndir af svæðum sen ekki var fórnað, t.d. stærsta og fallegasta hluta Hafrahvammagljúfurs. Þeir sem ekki til þekkja á svæðinu voru ekki upplýstir sérstaklega um þetta. Finnst þér það allt í lagi?

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.6.2007 kl. 16:00

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég get engan veginn séð hvernig þetta tengist fullyrðingum Snorra um að ég hafi viljandi laumað inn röngum myndum í Sjónvarpsfréttir tl að afvegaleiða þjóðina.

Ég stóð ekki að myndasýningunni á Austurvelli heldur var mitt hlutverk eingöngu að ganga í broddi þessarar göngu og afhenda stjórnvöldum áttblöðunginn "Íslands þúsund ár."

Það voru aðrir en ég sem stóðu að myndasýningunni, ég skoðaði ekki myndirnar og get ekki tekið ábyrgð á þeim.

Ég veit ekki hvort og þá hvaða skýringartexti stóð undir mynd af Hafrahvammagljúfri sem þú segir að hafi verið þarna, - veit bara að virkjunin mun hafa þau áhrif á gljúfrið að það verður þurrt langt fram eftir sumri og að við það að ánin er tekin úr þeim mun hún ekki viðhalda þeim og sverfa í burtu grjót og skriður sem falla í þau.

Af þessum sökum er viðurkennt að gljúfrið er á áhrifasvæði virkjunarinnar og þeir sem kynnt hafa sér það vita vel að gljúfrinu verður ekki sökkt í vatn báðum megin við stífluna.

Ég reyni ævinlega að hafa réttar upplýsingar og rétt gögn í minni umfjöllum og myndi í þessu tilfelli hafa sett texta með viðkomandi mynd sem útskýrði áhrif virkjunarinnar á þau.

Það kom fram hér að ofan hjá mér að aðrir fjölmiðlar hafi sýnt rangar myndir af landinu sem sökkva átti undir lón Norðlingaölduveitu og ég get ekki tekið á mig ábyrgð á því.

Ómar Ragnarsson, 28.6.2007 kl. 17:44

3 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Sæll Ómar

Ég tek ofan hattinn fyrir þér, þeim fréttamanni sem hefur reynt hvað harðast að sýna hlutina í réttu ljósi. Og eins að hafa kostað svo mikið sjálfur til að ná í fréttamyndir.

Ólafur Björn Ólafsson, 28.6.2007 kl. 20:34

4 Smámynd: halkatla

ég tek bara undir með seinasta ræðumanni. gaurinn er afbrýðissamur útí þig, vísindamenn hafa líka tilfinningar og kunna stundum ekkert með þær að fara. það gæti líka verið að hann sé að reyna að dempa sína eigin samvisku þarsem hann veit að þú hefur svo gasalega rétt fyrir þér. Úps, smá sálgreining í gangi.

halkatla, 29.6.2007 kl. 00:02

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Grein Snorra (HÉR) er mjög góð, burt séð frá því hvort um misskilning sé að ræða hjá honum í sambandi við myndbyrtingar þínar Ómar. Hann fjallar t.a.m. mjög faglega um meint sand og moldrok sem þú og aðrir andstæðingar Karahnjúkaverkefnisins hafið haldið hátt á lofti og var á sínum tíma ykkar stærsta tromp í áróðursheferð ykkar. Ég hef talað hér og víðar um ýkjur og bull í málflutningi virkjunarandstæðinga og Snorri virðist á sama máli og rökstyður það ágætlega. Ég hvet alla til að lesa grein hans.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.6.2007 kl. 05:02

6 identicon

Jæja Gunnar. Ég held að við verðum að passa okkur áður við verðum brenndir á báli. Það fer bráðum að verða öruggara að teikna skopmyndir af Múhameð en að reyna að tala af skynsemi um virkjanir.

Ómar hefði nú einfaldlega getað tekið undir með Snorra. Það er leiðinlegt þegar myndir eru birtar úr samhengi og beðið fólk að gera það ekki.

Ég held að Ómar græði jafn mikið á þessu útspili sínu og þegar Bush kom óbeint núverandi forseta Írans til valda með því að tala um "öxul hins illa".

Ef þú vilt láta öfgaöfl stýra virkjanavæðingu Íslands, kæri Ómar, þá er þetta leiðin.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 07:47

7 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þetta eru skondnir fýrar sem hafast við hér á blogsíðu Ómars, þeir Gunnar Gunnarsson og Guðjón Guðjónsson. Þeir eiga greinilega margt sameiginlegt eins og að gjamma í hvert sinn sem Ómar lætur í ljós skoðanir sínar og espa vitleysuna upp hvor í öðrum. Þeir félagar hljóta að vera hæst ánægðir nú fyrst að Samfylkingin hefur sett "Fagra Ísland" ofan í skúffu og álfurstar flykkja liði um héruð landsins.

Guðjón virðist óttast um öryggi þeirra fóstbræðra þegar þeir "reyna að tala af skynsemi um virkjanir". Sá ótti er algjörlega ástæðulaus því að virkjanaandstæðingar eru flestir friðsemdarfólk sem hatast ekki við þá sem eru annarrar skoðunnar. Hins vegar er þeim félögum nokkur vorkunn því að skynsemina virðist vanta í flestar þeirra vangaveltur.

Sigurður Hrellir, 29.6.2007 kl. 11:02

8 identicon

Þið hafið tvo möguleika Siguður og Ómar.

1. Að sættast á staðreyndir og hvetja þá sem þora að setja þær fram áfram.

2. Að halda áfram þessum árásum ykkar, hindra skynsama embættismenn í að tjá sig og enda með dómstól götunnar.

Þið, ásamt fleirum hafið hrakið mig yfir í fullan stuðning við "álfursta".

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 11:39

9 Smámynd: Sigurður Hrellir

Guðjón, ég veit að skoðanabróðir þinn er leigubílstjóri á Reyðarfirði (eins og lesa má á blogsíðu hans) og hef ég vissan skilning á afstöðu hans, enda þyrfti hann örugglega að finna sér annað starf ef hann héldi öðru fram. Áhugavert þætti mér að heyra hvort þú sjálfur hefur beina hagsmuni af því að vera stuðningsfulltrúi "álfursta" eða hvort þetta er einungis áhugamál. Ef ég sjálfur á einhvern þátt í að hafa "hrakið" þig yfir í þetta hlutskipti þá finnst mér það leitt og bið þig að afsaka það. Þú varst vitaskuld heitur umhverfissinni þangað til fólk fór almennt að tjá sig á þessum nótum!?

Sigurður Hrellir, 29.6.2007 kl. 12:18

10 identicon

Ég er ótengdur öllum álfyrirtækjum og var heitur álveraandstæðingur þangað til ég fór að tala betur við umhverfissinnuðu vini mína og komst að því hvað þeir vildu í raun og veru. Uppgangur í fátækum ríkjum og þörf þeirra fyrir hráefni hafði líka mikil áhrif á mig.

Það verður að skoða bílaeign, malbikun, flugferðir, húsasmíði, landbúnað, fiskveiðar og álframleiðslu út frá sömu forsendum og reyna að minnka áhrif þessara framkvæmda á jörðina. Ekki bara ráðast á álver sem eina óvininn.

Ef allir neyttu olíu á við Íslendinga þyrfti að fimmfalda heimsframleiðslu dagsins í dag. Þú hlýtur að sjá að í þessu ljósi er Ísland hvorki hreint né fagurt.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 12:54

11 identicon

Ps. Eins og ég hef margsagt þá er ég tilbúinn að styðja virkjanastopp ef menn eru tilbúnir að minnka mengun almennt á Íslandi.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 13:01

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Þetta eru skondnir fýrar sem hafast við hér á blogsíðu Ómars, þeir Gunnar Gunnarsson og Guðjón Guðjónsson. Þeir eiga greinilega margt sameiginlegt eins og að gjamma í hvert sinn sem Ómar lætur í ljós skoðanir sínar og espa vitleysuna upp hvor í öðrum".

Málefnalegt hjá þér Sigurður Sigurðsson, eða hitt þó heldur. Athugasemdadálkarnir eru fyrir skoðanaskipti, fyrir alla, enn ekki bara já-bræður. Þetta klagar ekkert upp á Ómar eða hans færslur, þær standa áfram "ómengaðar". Þeir sem hafa áhuga á skoðanaskiptunum þurfa að smella sig áfram, úr aðalfærslunni í athugasemdarfærsluna. Ef þér líkar ekki að sjá önnur sjónarmið en Ómars, þá geturðu bara sleppt því að smella á "athugasemdir".

Og ekki eru allir andstæðingar Kárhnjúkavirkjunarinnar friðsemdarfólk eins og þú heldur fram, heldur þvert á móti ofbeldisfólk, eins og dæmin hér eystra hafa sannað.

Afstaða mín til þessara framkvæmda hefur aldrei byggst á persónulegum hagsmunum, einungis hagsmunum mannlífsins á Mið-Austurlandi í heild, sem ég er vissulega þáttakandi í.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.6.2007 kl. 14:11

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í tengslum við ummæli Gunnars Th. Gunnarssonar um grein Snorra og umfjöllun hans um sandrok og gróðureyðingu vil minna á að hætta á sandfoki úr þurru lónstæði Hálslóns fyrri part sumars var viðurkennd í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og gerður 18 kílómetra langur mótvægis-varnargarður á austurbakka lónsins.

En kannski voru þessar mótvægisaðgerðri óþarfar?

Ómar Ragnarsson, 29.6.2007 kl. 15:00

14 identicon

Af hverju heyrist ekkert frá Snorra? Tæplega er honum sama um rangar fullyrðingar sínar, eða hvað?

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 16:05

15 Smámynd: Sigurður Hrellir

Gunnar, ég er síður en svo að kalla á að þú hættir að tjá skoðanir þínar hvorki hér né annars staðar. Það væri vissulega leiðinlegt ef hér væru einungis tómir já-bræður og já-systur með athugasemdir sínar. Hins vegar skal ég fúslega viðurkenna að ég er ósammála nokkurn veginn öllu því sem þú hefur skilið við hér á síðunni og það er ekki lítið! Haltu endilega áfram að rýna í þau mál sem þú telur þig varða og tjá skoðanir þínar. Ég tek mér líka það bessaleyfi að gera slíkt hið sama.

Eitt að lokum, tókstu sjálfur þátt í Ómarsgöngunni sl. september? Af hverju í ósköpunum ertu að blanda saman myndasýningu á Austurvelli við fréttaumfjöllun þá sem Ómar gerir að umræðuefni sínu hér. Þú verður sjálfur að vera málefnalegur ef þú gerir þá kröfur til annarra.

Sigurður Hrellir, 29.6.2007 kl. 16:12

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ábending mín er augljóslega skyld færslu Ómars, þ.e. hún fjallar um villandi myndasýningar, þó staðirnir séu ekki þeir sömu.

Og Ómar, að sjálfsögðu var tekið tillit til ALLRA umhverfisþátta í umhverfismati, líka hugsanlegu moldroki. Gætt er ýtrustu varúðar á öllum sviðum og betra að reikna of en van. Mótvægisaðgerðirnar gagnvart breytilegu vatnsborði Hálslóns gera ráð fyrir hinu versta. En upphrópanir virkjunarandstæðinga voru á þann veg að moldrokið eitt og sér var nægileg ástæða til að hætta við alt saman. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.6.2007 kl. 17:45

17 identicon

Sammála Gunnar. Ég renndi í gegnum færslurnar þínar Ómar og þú hefur nægar rangfærslur að biðjast afsökunar á ef þú vilt fara út í slíkt.

Það er hins vegar miklu áhugaverðara að finna leiðir til að gera umræðuna málefnalegri heldur enn að tönnlast endalaust á einhverjum mistökum. Legg enn og aftur til að við sameinumst um að hafa myndbirtingar og upplýsingar um umhverfismál réttar.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 19:35

18 identicon

Gunnar: Hefur þú tekið eftir því að við fáum aldrei svör við vinsamlegum, vel meintum ábendingum.

Undanfarið hef ég alltaf orðið sannfærðari um það að þeir sem kalla sig "náttúruverndarsinna" á Íslandi hata mest heiðarlega umræðu og staðreyndir.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 08:54

19 identicon

Vegma færslu 14. - Spuni um hugsanlega uppblásturshættu af völdum Hálslóns er ekki frá Ómari komin það bezt ég veit, en þessu hefur verið klifað á og með því að endurtaka það nógu oft er eins og þetta verði einhvers konar sannleikur. Efni þarf að þorna til þess að fjúka. Fínefnið sem fellur úr virkjanalónum getur ekki fokið nema lenda á leku efni. Eina leka efnið sem til greina kemur í Hálslóni er sandur sem myndi verða til við strandrof. Ströndin er brött og lítil skilyrði fyrir sandsöfnun. Bergrunnurinn er þéttur en ekki míglekur eins og við Jökulsá á Fjöllum eða Hagavatn. Setið sem fór á kaf í Hálslóni er af svipaðri gerð og það set sem kemur til með að setjast til í lóninu. Þetta gamla set varð fyrir vindrofi, og á hvössum dögum varð ryk í lofti yfir þessum hluta Jöklu, en það var fjarri því að þetta ryk ylli skaða á gróðri. Hvort meira eða minna ryk verður í lofti eftir virkjun en fyrir er ekki ljóst, en það er alveg á hreinu að uppblástur verður ekki af völdum Hálslóns.

Skúli Víkingsson (IP-tala skráð) 2.7.2007 kl. 16:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband