29.6.2007 | 14:45
LENGDARGJALDIÐ ENN OG AFTUR.
Síðustu misseri hef ég kynnt hugmyndir um svonefnt lengdargjald af farartækjum þar sem eigendur þeirra borguðu hlutfallslega fyrir afnot sín af gatna- og vegakerfinu. Íslandshreyfingin er eini flokkurinn sem hefur slíkt gjald á stefnuskrá sinni. Þetta er ekki skattur heldur það eitt að menn borgi fyrir afnot sín af vegakerfinu í hlutfalli við afnot. Ég tók sem dæmi umferðina um Miklubrautina.
100 þúsund bílar aka um Miklubraut á hverjum degi og væri helmingur þeirra tveimur metrum styttri myndi losna 100 kílómetra rými á þessari einu götu á hverjum degi, rými sem annars væri þakið bílum.
Fólk virðist hafa átt erfitt með að átta sig á þessu en um síðustu helgi blasti þetta ljóslega við þegar 80 kílómetra bílarröð myndaðist frá Hvalfjarðargöngum að Kambabrún.
Í þessari bílaröð voru ekki aðeins bílar í langferð heldur líka bílar sem á þessum vegaköflum eru nánast í innanbæjarumferð, því að nú orðið má skilgreina Mosfellsbæ og Hveragerði sem úthverfi á höfuðborgarsvæðinu.
Meginhluti bílanna var ekki með tjald- eða húsvagna í eftirdragi og sjá má á hverjum degi að stór hluti bíla sem ekið er í umferð innan höfuðborgarsvæðisins er alltof stór miðað við not.
Í borgarumferð eru aðeins 1,1 manneskja um borð í hverjum bíl og augljóst að ekki þarf 5-6 metra 2ja til 3ja tonna dreka til þess að flytja 100 kíló af mannakjöti.
Það er sanngirnismál að menn borgi fyrir afnot af rándýrum samgöngumannvirkjum í samræmi við það hve mikið rými þeir taka í vegakerfinu.
Í Japan hefur í bráðum hálfa öld verið notað skattakerfi sem miðast við ákveðna lengd og breidd bíla, - nú er þetta takmark 3,40m á lengd og 1,48 á breidd.
Íslenskt kerfi gæti verið mun sveigjanlegra og betra, aðeins yrði tekið gjald af hverjum sentimetra sem bíllinn er lengri en 3 metrar.
Það myndi þýða að Smart-bílarnir yrðu gjaldfrjálsir og minnstu bílarnir með tiltölulega mjög lágt gjald.
Þessir 4-5 sæta bílar, svo sem Toyota Aygo/Citroen C!/ Peugeot 107 og Fiat Seicento eru fullboðlegir til meira en 90 prósenta af erindagerðum nútímafólks.
Lengdargjaldið ætti ekki að verða viðbót við álögur á bíleigendur heldur þyrfti að endurskoða gjaldakerfið í heild sinni.
Lengdargjaldið myndi stuðla að minni mengun og eldsneytis- og rekstrarkostnaði bílaflotans.
Ég hef ekki enn heyrt rök fyrir því að hvaða leyti það gæti talist ósanngjarnt.
Athugasemdir
Tæknilega finnst mér þetta langbesta hugmyndin þín. Hins vegar, eftir að hafa rætt við fólk þá held ég að fáir muni samþykkja hana. Að skattleggja stóru jeppana eðlilega er fyrsta skrefið.
Ef það væri svo hægt að þvinga ökumenn til að virða hámarks hraða og sýna gangandi og hjólreiðamönnum tillitssemi, þá yrðu hjól og smábílar öruggari í umferðinni og markaður fyrir smábíla gæti aukist.
Stærstu umbótum í umhverfis- og atvinnulöggjöf var þvingað upp á okkur í gegnum EES samninginn. Ég giska á að svona hugmyndir verði að koma sömu leið.
Kveðja, Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 16:12
Sammála þessu hjá Ómari. Ég vil reyndar ganga mun lengra og beinlínis einskorða bæjarumferð við sparneytna smábíla. Rafmagns og gasbílar ættu að vera gjaldfrjálsir og fá ókeypis bílastæði. Ef spáð er í það pláss sem hver bíll tekur á götunni er líka óhjákvæmilegt að skoða ökuhraðann því að því hraðar sem ekið er, því lengra pláss verður á milli bíla.
Svo finnst mér sem reiðhjólamaður á góðviðrisdegi eins og í dag það hljóta að vera dauðadómur yfir skynsemi vegfarenda að sjá þá flesta innilokaða í bílunum sínum.
Sigurður Hrellir, 29.6.2007 kl. 16:23
Ég er reyndar ekkert hrifinn af lengdarkerfi. þegar sagðir eru hundrað kílómetrar, hljómar það það voða mikið, en það spannar yfir heilan dag. Þyngdarálögur eru skynsamlegri uppá það hversu mikið bílar eru að slíta göturnar. Vissulega taka lengri bílar meira pláss, en það er einungis þegar kerfið teppast ein og gerðist um helgina að það skiptir einhverju máli. Bilið á milli bíla fer þá reyndar að skipta meira máli, og þá er þeir sem best fylgja umferðarlögum sem að taka mest pláss, þeas þeir sem að halds sig við 3 sekúndurnar. Ég er ekki að lasta þeim, en það er mikið af ónotuðu bili þar sem að má nota. Einnig er fólk mis-viðbragðsfljótt á ljósum. Það getur skipt voðalega miklu máli í þröngri teppu, hvort að 2 bílar komist á ljósum eða 10. Ætti þá að setja gjald á fólk sem að þarf að nota kerru? Eða ætti að vera gjald á öllum pörtum sem eru löglegir á götuna (hjólhýsi, kerrur, mótorhjól, og ýmis aftanívagnar) þar sem að allir fá gjald eftir lengd? Þetta er falleg hugmynd, en hún er ekki raunhæf. lengd á bíl, litið til heils dags, skiptir sama og engu máli. Kurteisi og góð viðbrögð gera svo miklu meira.
Ég sting frekar uppá að skylda alla sem fá umferðasekt að fara í stutt ókeypis námskeið þar sem að almenn kurteisi er kennd í umferðinni (eða eitthvað þannig). Þungir bílar taka meira pláss á götunni heldur en langir bílar. Hvernig? þeir bregðast hægar við og taka meiri tíma í að gera hlutina.
Annars er ég sammála Nafna í því að betur mætti gera fyrir umhverfisvæna bíla umhverfivænt val á farkostum og eldsneyti. Ríkið er ekki að standa sig þar.
Sigurður Jökulsson, 29.6.2007 kl. 17:46
Ómar, ég held að þessi hugmynd þín um lengdarskatt sé byggð á misskilningi. Það er reyndar gott að hvetja fólk til að aka á sparneytnari bílum og lengdarskattur myndi hugsanlega hafa einhver áhrif í rétta átt ef skatturinn yrði hafður rosalega hár og þá er ég að tala um upphæð sem er töluvert hærri en munurinn á eldsneytiskostnaði trukka og smábíla.
Þessir reikningar þínir um notkun á vegakerfinu er hins vegar villandi og rangir að mínu mati. Í þínum röksemdum tekur þú bara sjálfa lengd bílsins og segir að lengri bílar noti umtalsvert meira af veginum. Þú gleymir að notkun hvers bíls af vegakerfinu er lengd bílsins að viðbættu bilinu yfir í næsta bíl og það bil er háð bæði hraða og aðstæðum og er að jafnaði nokkrar bíllengdir, þannig að 1-2 metrar til og frá í lengd bíls skipta nánast engu máli.
Einfalt dæmi til skýringar:
Það er algjört lágmark að hafa 2 sekúndur í næsta bíl, þar sem viðbragðstíminn er oftast meiri en l. sek. Á 90 km/klst. fer bíll 50 m á 2 sek. Við þessa vegalend getur bæst hemlunarvegalend, en hún er yfir 40 m á 90 km/klst. við bestu aðstæður (þurrt malbik). Hemlunar vegalengd er óháð þyngd og lengd. Hún er eingöngu háð hraða og núningsstuðli milli vegar og dekks.
Það er því lágmark að hafa að minnsta kosti 90 m milli bíla á 90 km/klst til að lenda ekki aftan á bílnum á undan ef hann þarf að nauðhemla eða lendir í árekstri við bíl úr gagnstæðri átt. Því miður fara fáir íslenskir ökumenn eftir þessu og hafa allt of stutt bil á milli bíla, enda eru aftaná keyrslur algengar.
Toyota er vinsæl bílategund hér á landi. Stysta gerðin er Aygo, sem er 3,4 m að lengd. Slíkur bíll myndi þá nota stöðugt 93,4 m af veginum ef hann keyrði á hraðanum 90 km/klst. Lengsta gerð af Toyota er HiLux sem er 5,3 m. HiLux tæki þá 95,3 m af veginum, eða 2% meira. Þetta er miðað við bestu aðstæður til aksturs. Hlutfallið minnkar enn eftir því sem aðstæður versna.
Miðað við 4 m lengd á bíl og 90 m bil milli bíla, þá komast 10,7 bílar á hvern km og ef hraðinn er 90 km/klst, þá afkastar vegurinn um 960 bílum/klst.
Þegar bílum fjölgar á veginum, þá lækkar hraðinn ósjálfrátt, því þannig afkastar vegurinn fleiri bílum. Ef ekið er á 40 km/klst., þá fer bíllinn 22 m á 2 sek og hemlunarvegalengdin e
Það er því þrennt í stöðunni:
Niðurstaðan:
Munur á notkun vegar eftir lengd bíls er óverulegur. Lendarskattur gæti hugsanlega fjölgað lengri bílum, því dýrari bílar eru glæsilegra stöðutákn en ódýrari. En fólk velur sér oftast ekki bíla út frá skynsemi. Dýrari bílar virðast vinsælli en ódýrir.
Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 01:26
Sæll aftur,
Textinn minn skolaðist eitthvað til. Það vantaði afan á eina málsgrein neðarlega :
[Þegar bílum fjölgar á veginum, þá lækkar hraðinn ósjálfrátt, því þannig afkastar vegurinn fleiri bílum. Ef ekið er á 40 km/klst., þá fer bíllinn 22 m á 2 sek og hemlunarvegalengdin ] er 8 m við bestu aðstæður, þannig að bilið milli bíla ætti að vera 30 m í stað 90 m á 90 km/klst. 4 m bíll tæki þá 34 m af veginum og tæplega 30 bílar kæmust fyrir á einum km. Miðað við 40 km/klst. ættu því vegurinn að afkasta 1170 bílum /klst., eða 22% meira en ef ekið væri á 90 km/klst. (960 bílar/klst.).
Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 01:34
Með fullri virðingu, ég álít hugmynd ÓR um lengdargjald eitthvað það vitlausasta sem heyrst hefur og Geir á þakkir skildar fyrir að útskýra málin fyrir honum á skýran og einfaldan hátt. Stundum espa menn upp hjá hver öðrum algerar apakattahugdettur þar til þeir fara sjálfir að álíta sig uppfinningamenn og séní. Það er varasamt í besta falli - hættulegt í versta falli.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 30.6.2007 kl. 03:03
Þetta er stórfín hugmynd hjá Ómari þó að lógíkin virki ekki á Miklubrautinni. Með minni bílum er til dæmis hægt að byggja þéttar og minnka landþörfina undir bílastæði. Það eru margir fleiri kostir.
Annars held ég að það sé enginn pólitískur vilji fyrir svona breytingum. Það er miklu mikilvægara að sameinast um það litla sem hægt er að breyta heldur en að koma með byltingarkenndar skattahugmyndir.
Upptaka á ökutækjum ökuníðinga er eitthvað sem við ættum til dæmis að fagna því slíkt gerir smábíla öruggari.
Það væri kannski hægt að skattleggja risajeppana sem fólksbíla en ekki flutningabíla.
Þessar tvær aðgerðir myndi mér finnast mikill sigur.
Kveðja, Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 07:21
ómar
ég held þú ættir að halda þig við skemtanabransann því stjórnmálamaður verður þú aldrei.
fannar (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 11:44
Plássið sem bílar taka í umferðinni er tvenns konar, bil á milli bíla og lengd bílsins sjálfs. Í biðröðinni síðustu helgi sást hvað lengd bílanna hefur mikið að segja og það er aðeins hægt að breyta þeirri lengd, - en bilið á milli bíla breytist ekki.
Útskýring hér fyrir neðan: Efri línan er með sex metra löngum bílum, - neðri röðin með þriggja metra löngum bílum og bilið er áfram jafnt á milli bíla. Teljið síðan bílana sem komast fyrir í hvorri röð. Til einföldunar er bilið á milli bíla alls staðar jafnt, sex metrar.
:::::: :::::: :::::: :::::: :::::: :::::: :::::: :::::: :::::: ::::::
::: ::: ::: ::: ::: ::: ::: ::: ::: ::: ::: ::: ::: :::
Í efri röðinni komast tíu bílar fyrir á vegarkaflanum, en í þeirri neðri komast fjórtán bílar fyrir. Á bið um betri rökstuðning fyrir því að hugmyndir mínar séu heimskulegar.
Ómar Ragnarsson, 30.6.2007 kl. 12:55
Ómar, þessi lógík virkar bara þegar það er alvarleg umferðarteppa. Í venjulegum akstri eru ekki 6 metrar milli bíla, einfaldlega vegna þess að það væri stórhættulegt, eins og Geir bendir réttilega á. Sex metrar eru ekki hemlunarvegalengd á 40 km hraða - hvað þá að gefa tíma fyrir viðbragðstíma ökumanns. Pláss á vegum með 40 km hámarkshraða hefur ekki verið vandamál, heldur á meginsamgönguæðum sem hafa 80 km hámarkshraða, þar sem hemlunarvegalengdin er miklu lengri.
Prófaðu að setja dæmið þannig upp að það sé 90 metra bil milli bíla - sem er eðlileg lengd á 80 km hraða. Við getum líka gert ráð fyrir glannaskap Íslendinga í umferðinni og minnkað það niður í 45 metra (helminginn) - athugum hvernig dæmið þitt gengur upp þar...
Kristófer Sigurðsson, 30.6.2007 kl. 13:44
En er ekki miklu betra að hafa lægri skatt á lengri bílum. Ef vel tekst til mun ekki verða pláss fyrir bílana á götunum og umferðin standa kyrr. Þá fer fólk bara að ganga eða hjóla og skýringarmyndin þín stenst fullkomlega :)
Kveðja, Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 30.6.2007 kl. 16:53
Dæmið sem ég sýni breytist ekki þótt vegalengdin á milli bíla sé einhver önnur en sex metrar, t.d. þrettán metrar eins og ég sýni hér að neðan. Við skulum athuga að vegarkaflinn á myndinni er aðeins rúmlega hundrað metra langur.
Lengd bílanna hefur mest að segja þegar umferðin verður svo þétt að bílaraðir myndast, en stytting bílanna er einmitt hugsuð til að draga úr hættunni á því. Eitthvert besta dæmið sem ég þekki er kaflinn milli umferðarljósanna á Hringbrautinni í austanverðri Vatnsmýri, en þar myndi stytting bíla hamla gegn því að bílakösin verði lengri en á milli ljósanna.
:::::: :::::: :::::: :::::: :::::: :::::: ::::::
::: ::: ::: ::: ::: ::: ::: ::: ::
Ómar Ragnarsson, 30.6.2007 kl. 19:45
Sko þetta með umferðarteppurnar og littla bíla er allt góðragjalda vert. Ég er samt að eiginlega ósammála þessu með að þurfa að borga lengdarskatt. En það er einfaldlega vegnaþess að sumt fólk ÞARF einfaldlega að nota langa bíla. Ég er td einn af þeim sem á 4 börn og ekkert af þeim er á bílprófsaldri. Ég ÞARF að nota og eiga 7 manna bíl. Ég hreinlega hef ekki fundið 7 manna smábíl. Og þarsem ég veit að það eru margir aðrir í minni stöðu þá hreinlega finnst mér algerlega útí hött að við þurfum að borga enn hærri skatta af bílnum. Við borgum gersamlega nóg samt í bifreiðagjöld og eldsneitis gjöld og hvað þetta heitir allt.
Páll (IP-tala skráð) 1.7.2007 kl. 22:30
Ég er sammála Páli. Ég bý á Vestfjörðum þar sem smábíll kemur mér og minni stóru fjölskyldu ekki langt þá níu mánuði á ári sem vetur ríkir á Íslandi. Og þar sem ég á töluvert af börnum þarf ég stóran bíl. Mér finnst ástæðulaust að mér sé refsað fyrir að: a) vera dugleg að eignast börn, b) nenna að ferðast með þau um landið, c) fyrir að búa á snjóþyngra svæði en Miklubrautin er. d)fyrir það að sunnlendingar séu að missa sig í jeppafíkninni.
Við eigum Hyundai Starex, afbragðs ferðabíl, enda ferðumst við mikið á sumrin og jafnvel á veturnar. En hann er stór og langur. Hér í bæ, sem og annarsstaðar á Vestfjörðum er fólk töluvert að aka á jeppum og stærri bílum. Einfaldlega vegna þess að hér duga engir smábílar. En í þau skipti sem neyðin rekur mig í borgina rekur mig í rogastans. Þar eru ótrúlega margir á jeppum. Jafnvel breyttum. Þar sem varla snjóar. Á ég að greiða hærri skatt af mínum fjölskyldubíl af því að það er öngþveiti á Miklubraut? Eða á ég kannski bara að fá mér sparneytin vetnisbíl sem rúmar tvo og segja fjölskyldunni minni að "við getum því miður ekki ferðast lengur. Við búum nefnilega á Vestfjörðum og verðum bara að sætta okkur við það??"
Ég skil þetta ekki alveg.
Ylfa Mist Helgadóttir, 1.7.2007 kl. 23:44
Í einni nýrri blogfærslu þinni talar þú um vanhugsun, að ekki sé horft til framtíðar og slíkt. Hér aftur á móti ert þú að breiða út nákvæmlega þann boðskap. Þú vilt berjast við afleiðingarnar í stað þess að laga bara orsökina.
Gerum vegina þannig að þeir beri umferðina frekar en að standa í misgáfulegum aðgerðum til að minnka hana. Það hefði ég mikið frekar viljað sjá á þinni stefnuskrá. Það er bæði ódýrara og gáfulegra.
Arni Halldorsson (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 12:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.