3.7.2007 | 00:24
VANRÆKTAR AXLIR.
Fór austur fyrir fjall á 35 ára gömlum örbíl á sunnudag. Hann getur haldið nærri 100 kílómetra hraða á láréttum vegi en eins og margir fornbílar og þunglamalegir flutningabílar getur hann ekki haldið 90 kílómetra hraða upp allar brekkur á móti vindi. Við slíkar aðstæður reyndi ég eins og ég gat að víkja bílnum út á öxl vegarins í brekkum til að hleypa umferðinni fram úr mér.
En tvennt er það sem hamlar því að axlirnar á vegunum út frá höfuðborginni geti gegnt því hlutverki að liðka fyrir umferð.
Annars vegar er allt of algengt að bílstjórar sem fara hægt geri ekkert til að liðka fyrir umferðinni fyrir aftan sig með því að fara út á axlirnar, heldur haldi sig inni við miðlínu og gerist "lestarstjórar" með langar bílalestir fyrir aftan sig.
Þetta er allt of algengt t. d. á Reykjanesbrautinni þar sem axlirnar eru breiðar og sléttar.
Raunar virðast margir þessara bílstjóra vera nánast meðvitundarlausir við aksturinn og hvorki skeyta um né fylgjast með annarri umferð en lötrinu í sjálfum sér.
Hins vegar hamlar það því að menn leggi í að fara út á axlirnar hve illa Vegagerðin sinnir þeim á öðrum vegum en Reykjanesbrautinni út frá borginni, svo sem Suðurlandsvegi.
Það þarf mikla útsjónarsemi og að sjá langt fram fyrir sig til þess að leggja út í að aka á öxlinni ef bílröðin er samfelld sem fer fram úr.
Sums staðar eru axlirnar breiðar og sléttar en hvenær sem er getur malbiksræman mjókkað stórlega eða breyst í ferlegar holur, og stundum lendir maður í mikilli möl á þeim.
Það er vont að lenda í mölinni, ekki aðeins vegna þess að á fornbíl er það bannorð að aka hratt á möl og skemma lakkið neðan á bílnum, heldur ekki síður vegna þess að það er vont að róta möl á bílana sem á eftir koma.
Þetta ástand er bagalegt og óþarft þegar um er að ræða bíl eins og Fiatinn minn sem er aðeins 1,32 metrar á breidd og því auðvelt að nota malbikaða öxlina þótt hún sé mjó.
Ef bílaröðin er samfelld sem fer fram úr geta hlotist vandræði þegar skyndilega birtist skarð í malbiknu eða stór hola því að bílstjórarnir sem fara fram úr hugsa yfirleitt ekkert um aðstæður þess sem víkur fyrir þeim.
Mjóstu bílarnir sem nú eru seldir eru rúmlega 1,60 metra breiðir og gætu auðveldlega ekið úti á öxl vegarins og hleypt umferð fram úr sér þótt einhverjir sentimetrar bílsins séu fyrir innan útlínu sjálfrar meginakbrautarinnar.
Í þessari umferð, sem var áberandi prúðmannlegri og skynsamlegri en venja hefur verið, kom í ljós hvað stórir pallbílar og jeppar, 2,10 - 2,40 m á breidd, geta verið fyrirferðarmiklir og erfiðir í umferðinni.
Þar sem ástand axlarinnar var lélegast og ég neyddist til að færa mig að hluta til inn fyrir ytri línu akbrautarinnar urðu bístjórar slíkra dreka að hætta við að fara fram úr mér þótt aðrir ættu auðvelt með það.
Ég beini því til ágætra manna hjá Vegagerðinni, að á meðan Suðurlandsvegurinn og fleiri slíkir fjölfarnir vegir hafa ekki verið breikkaðir, hugi þeir að því hvernig megi lagfæra axlirnar þannig að þær geti nýst betur en nú er.
Þetta getur varla verið dýrt en auðvitað þarf síðan að halda þeim í góðu ástandi þar til nýja vegabótin kemur.
Athugasemdir
Sæll Ómar,
ég skil hvað þú átt við með að hægfara bílar víkji út á vegöxl í brekkum. Hinsvegar er ég ósammála því á Reykjanesbraut, því þar er umferð á miklum hraða. Ef eitthvað færi úrskeiðis á meðan minn bíll væri á öxlinni, þá væri ég einfaldlega ekki tryggður. Ég þyrfti að treysta öllum þeim sem fram úr mér fara (og þeim sem mæta) fyrir því að hegða sér skikkanlega. Og eins og þú minnist á, þá er enginn vissa fyrir því að öxlin muni ekki gefa sig.
Jón Arnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 3.7.2007 kl. 10:00
En að fara bara út í vegkantinn, þar sem hann er breiður og nema þar staðar með stefnuljósið á rétt á meðan umferðin fer fram úr?
Svartinaggur, 3.7.2007 kl. 10:24
Ég hef aldrei verið eins mikið sammála þér Ómar eins og núna, þá bæði hvað varðar að nota axlirnar og eins með vegagerðina á suðurlandi að gera þær nothæfar. Að mínu mati eru yfirmen vegagerðarinnar á suðurlandi ekki starfi sínu vaxnir.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 3.7.2007 kl. 12:09
Kæri Svartinaggur. Á sunnudag var ekkert færi á að bíða rétt á meðan umferðin færi fram hjá því að samfelld bílaröð var í báðar áttir um Suðurlandsveg.
Ef ég hefði átt að fara út á öxlina, staðnæmast þar og gefa stefnuljós þangað til færi gafst á að halda áfram hefði ég hvorki komist austur né til baka fyrr en ösin var búin um kvöldið.
Það er heldur ekki góð latína að vera kyrrstæður á öxlinni. Þar með stend ég í vegi fyrir öllum þeim ökumönnum sem vildu nota axlirnar og veld jafnvel hættu.
Ómar Ragnarsson, 3.7.2007 kl. 17:30
Sammála þessum hugleiðingum Ómars. Vegaxlir virðast illa skilgreindar sem öryggissvæði í íslenskri vegagerð, öfugt við það sem tíðkast í öðrum Evrópulöndum. Í þessu sambandi er ekki úr vegi að benda einnig á að víða úti um land eru vegaxlir nýttar af hestamönnum, hvort sem reiðvegir hafa verið lagðir um svæðið eða ekki. Þegar mikil brögð eru að slíku, er vegöxlin orðin beinlínis hættuleg bílum vegna þess að hrosshófarnir spæna hana upp og skapa einnig vondar brúnir á malbikið/klæðinguna, auk þess að brjóta hana smám saman upp og gera vond skörð. Af því að nú er sá tími í hámarki, þegar ökufólk sem alla jafna er ekki á ferð um þjóðvegina flykkist út á þá, langar mig að minnast á eitt atriði enn. Fæstir almennir ökumenn virðast kunna að staðsetja sig á sínum vegarhelmingi með því t.d. að nota speglana. Það virðist svo sem mjög fáir ökumenn venjulegra heimilisbíla hafi nokkra hugmynd um hvar hægri hjólin á bílnum eru að rúlla. Þetta er ekki síst slæmt, þegar þetta sama fólk er komið með breiða aftanívagna og heldur samt þeim sið að að vera með vinstri hjólin á bílnum á miðlínu vegarins. Auðvitað eru vegirnir alltof mjóir, satt er það, en þetta er nú samt algjör óþarfi í flestum tilvikum.
Nöldrari (IP-tala skráð) 6.7.2007 kl. 07:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.