STAÐSETNING ÞJÓNUSTU.

Þegar flugvél fer í ársskoðun þarf að sinna nokkrum erindum og þá kemur í ljós hve mikill tími fer í erindi af þessu tagi hjá nútímamanni. Svona var þetta hjá mér að þess sinni: Frá flugvélaverkstæði í Skerjafirði með slökkvitæki til skoðunar í Borgartúni, sæti til lagfæringar í Ármúla, upp á Höfða að ná í málningu, en þá kemur í ljós að hún fæst í Skefunni. Farið í lyfjabúð í Kringlunni til að fá sjúkrakassa skoðaðan og vottaðan, síðan suður á Hvaleyrarholt syðst í Hafnarfirði með björgunarvesti til prófunar. Það tekur auðvitað tíma að reka erindið á hverjum stað.

En þetta er aðeins hálfur gerningurinn því að síðan tekur við annað eins ferðalag nokkrum dögum síðar vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið til þess að ná í hlutina, slökkvitækið, sætin, björgunarvestin og sjúkrakassann og fara með suður í Skerjafjörð, og aftur tekur tíma að reka erindið á hverjum stað.

Þetta ferðalag gefur athyglisverða vísbendingu. Ef dregin er lína frá Hvaleyrarholti um Ártúnshöfðann, Skeifuna, Borgartún og Kringluna sést vel að staðirnir sem þurfti að reka erindin á liggja út frá austurhluta Reykjavíkur. Þegar ég þurfti að reka sams konar erindi fyrir 20-30 árum lágu þessir staðir allir á svæðinu frá vesturhöfninni inn að Suðurlandsbraut.

Á hverju ári rekur maður sig á það að fyrirtæki flytji þjónustu sína í austurátt og til suðurs í Kópavog og Hafnarfjörð. Í fyrradag ætlaði ég að reka erindi í Borgartúni en fyrirtækið var flutt suður í Heiðarsmára. Tilviljun?  

Það held ég ekki. Mannkynssagan sýnir að byggð, verslun og þjónusta þróast í kringum krossgötur og samgönguæðar. Ef dregin er lína frá Reykjanesbæ upp í Mosfellsbæ eða jafnvel áfram til Akureyrar og síðan önnur lína frá Suðurlandi til borgarinnar mætast þessar línur á svæðinu Ártúnshöfði-Mjódd-Smárahverfi.

Þetta svæði er í vexti og ekkert getur stöðvað það nema plássleysi sem mun hrekja sumt af aukinni starfsemi til beggja átta, ekki í áttina að miðborg Reykjavíkur, heldur eftir ásnum Reykjanesbær-Mosfellsbær.

Ef menn hefðu verið framsýnni og haft víðsýni til að bera hefði verið reiknað með mun stærra svæði fyrir þjónustubyggðina í hinni óhjákvæmilegu nýju miðborg heldur en gert var. ´

Ég man þá tíð fyrir 50 árum þegar hlegið var að því að gera ráð fyrir nýjum miðbæ í sunnanverðri Kringlumýri og í allmörg ár virtust hrakspár um þennan miðbæ ætla að rætast. Svæðið stóð lengi autt og það sýndist ljóst að þetta væri tálsýn og svæðið þar að auki of stórt.

Fyrir allnokkru kom í ljós að svæðið var alltof lítið til þess að geta orðið nýr miðbær.

Staðsetning Morgunblaðsins segir kannski sína sögu. Fyrst í Austurstræti og Aðalstræti, síðan við Kringluna og nú við Rauðavatn.

Tökum dæmi um hliðstæður í nágrannalöndunum.  

Þegar ekið er þjóðleiðina norður með austurströnd Svíþjóðar liggur leiðin meðfram eða í gegnum miðborg Stokkhólms. Úr vestri enda þjóðleiðirnar frá Osló og Gautaborg í Stokkhólmi og mæta þar leiðinni norður austurströnd Svíþjóðar.

Þetta eru T-gatnamót alveg eins og eru hér heima þar sem Suðurlandsvegur mætir þjóðleiðinni Vesturlandsvegur-Reykjanesbraut.

Osló liggur líka á T-gatnamótum þjóðleiðarinnar fyrir botn Oslófjarðar og leiðarinnar þaðan norður til Þrándheims og á enda Noregs.

Munurinn á Stokkhólmi og Reykjavík er sá að miðborg Stokkhóms er í meginþjóðleiðiinni meðfram austurstönd landsins, en svokölluð miðborg Reykjavíkur liggur ekki við þjóðleið.

Miðborg Reykjavíkur lá í þjóðleið fyrir 1930. Þá lá þjóðleiðin lá úr austri niður að Reykjavíkurhöfn og þaðan á sjó norður og vestur um Faxaflóa. Þetta er liðin tíð.

Allar tilraunir til þess að gera "miðborg" Reykjavíkur að aðalmiðju frjálsrar verslunar og þjónustu eru dæmdar til að mistakast nema með óhemju róttækum aðgerðum sem myndu felast í því að gera þjóðbraut frá Hafnarfirði um Álftanes, Skerjafjörð, "miðborgina" og norður um Kollafjörð.

Jafnvel þetta allt myndi ekki nægja, - Mjóddin er í miðju T-gatnamótanna eftir sem áður.

Til þess gera "miðborg" Reykjavíkur að slíkri allsherjarmiðborg á ný þarf gríðarlegar samgönguframkvæmdir, ekki síst til þess að leysa þann vanda sem skapast af hinni auknu umferð sem sóst er eftir að beina til "miðborgarinnar".

Ég held að eina leiðin til að efla "miðborgina" sé að hið opinbera setji þar stofnanir sínar og menningarmiðstöðvar og að gera þar hið sama og gert var í borginni Santa Barbara í Kaliforníu, að að hafa þar gjaldfrjáls bílastæði.

Á þann hátt má gefa elsta hluta Reykjavíkur þokka og sjarma sem verður ólíkur streitukenndu yfirbragði verslunar- og þjónustuhverfanna á ásnum Ártúnshöfði-Mjódd-Smárahverfi.

 Ein þjóðleið liggur þó enn við "miðborgina". Það er þjóðleið innanlandsflugsins sem er forsenda fyrir því að Akureyri og Egilsstaðir hafi svipaða aðstöðu og Borgarnes, Akranes, Hveragerði og Árborg, en allir þessir staðir eiga tilveru sína undir því að þaðan er innan við klukkustundar ferð til Reykjavíkur.

Ef innanlandsflugið verður flutt upp á Hólmsheiði bætist enn ein þjóðleiðin við "öfugu" megin við ásinn Reykjanesbraut-Vesturlandsvegur/Sundabraut og sú hálf milljón manna sem kemur árlega flugleiðis til borgarinnar mun þá reka sín erindi í austanverðri borginni fremur en að fara vestur eftir Seltjarnarnesinu.     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar L Benediktsson

Veistu hvað þetta tekur langan tíma ef farið er með strætó þennan rúnt ?

Ragnar L Benediktsson, 4.7.2007 kl. 12:11

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Nú er ég aldeilis sammála þér, félagi Ómar! Hef sosum aldrei skilið þetta miðbæjardekur sem miðast við útnárann í kringum Lækjartorg! Hvað heldurðu að þú hefðir verið lengi í þessum skoðunarsnúningum þínum með því að nota almenningssamgöngur? Kveðja

Sigurður Hreiðar, 4.7.2007 kl. 12:14

3 Smámynd: Baldvin Jónsson

Hefur margt til þíns máls. Er þó ósammála þér með það að flytja meiri starfsemi ríkisstofnana vestur í bæ.  Er algerlega á því að það eigi frekar að flytja stóran hluta þeirra vel út fyrir höfuðborgina.

Þróunin í miðborginni er sú að fjármálafyrirtæki og þjónustufyrirtæki fyrir þau og einstaklinga leitast við að reka sig þar svo lengi sem þeim er það fært, og virðast næst horfa til Borgartúnsins sem hefur byggst upp hratt undanfarin 5 ár.

Verkstæði og tengd þjónusta leitast hins vegar yfirleitt við að vera í sem ódýrustu húsnæði og það húsnæði finnst almennt í útjöðrum byggða og þ.a.l. mun þess háttar rekstur áfram leita í ystu mörk óháð því hvernig miðborgin mun þróast.

Mitt mat er það að höfuðborgarsvæðið muni byggja á nokkrum stórum þjónustukjörnum til framtíðar, þróun gamla miðbæjarins verður vonandi áfram í þá átt að verða grænni og vænni og aðdráttarafl fyrir afslöppun, afþreyingu og ferðafólk.

Væri ekki yndislegt að sjá þá þróun?

Fjarlægðirnar eru kannski meira vandamál hérna heldur en erlendis vegna þess hversu fáir aðilar sinna ákveðnum tegundum af þjónustu, sbr. t.d. skoðunarvottun á björgunarvestum. Merkilegt að það skuli ekki líka vera boðið upp á þá þjónustu við Reykjavíkurhöfn eða í grennd við hana.

Samgöngumálin eru síðan að sjálfsögðu langloka sem verður í endalausri þróun, vonandi að okkur takist að verða framsýnni við þróunina héðan í frá og lítur reyndar út fyrir það með vandaðri vinnubrögðum.

En með almenningssamgöngur??  Úff, ég veit ekki hvað skal segja. Við viljum flest vera umhverfisvæn, en á sama tíma virðist afar fáum takast að aðlaga líf sitt að strætó. Hvers vegna?  Er kerfið of flókið? Of dýrt? Of fáar ferðir?  Er ekki fráhrindandi að kerfið sé þannig að það geti tekið allt að 2 tíma að komast á milli tveggja staða á hbsv.?

Baldvin Jónsson, 4.7.2007 kl. 17:41

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Baldvin, ég hef kannski ekki skilgreint nógu vel þetta með opinberu þjónustuna. En þar á ég við afmarkaða þjónustu við "toppinn", þ. e. æðstu stofnanir þjóðarinnar. Í þeim flokki er tónlistarhús, Þjóðleikhús, Listasafn Íslands, Alþingi o. s. frv.

Tónlistarhúsið er það nýjasta og kannski getur fleira slíkt orðið á dagskrá. Ég er einmitt að hugsa svipað og þú að gera yfirbragðið og stemninguna í miðbænum eins og hæfir vel slíkri hámiðju þjóðlífsins, merkum sögustað sem eykur gildi sitt með tímanum sem slíkur, - svæði sem getur sameinað alla þjóðina.

Nýjasta tækni gerir það hins vegar að verkum að vel mætti færa ýmsa opinbera þjónustu út fyrir borgina og jafnvel langt út á land, - starfsemi sem ekki krefst persónulegrar viðveru kúnnans.

Ómar Ragnarsson, 4.7.2007 kl. 22:35

5 Smámynd: Sigurður Hrellir

Fyrir 5-6 árum síðan var gerð hagkvæmnisathugun á lagningu og rekstri rafmagnslestar á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Niðurstaðan var sú að reksturinn myndi standa undir sér en mjög hár stofnkostnaður stöðvaði hins vegar frekari áform.

Á þessum örfáu árum hefur hins vegar margt breytst. Herinn er farinn og skyndilega er orðið til nýtt svefnhverfi á vallarsvæðinu. Mikið af því fólki sem þangað flytur þarf að fara daglega til Reykjavíkur. Erlendum ferðamönnum fjölgar á ári hverju og sömuleiðis ferðum Íslendinga erlendis. Á einhverjum tímapunkti hlýtur það að teljast hagkvæmt að leggja slíka lest. Hún hefði marga stóra kosti, s.s. helmingi styttri ferðatíma, gengi fyrir vistvænni innlendri orku og sparaði innflutning á olíu - engin umtalsverð mengun eða CO2 útblástur. Hafa mætti slíka lest ómannaða og þannig spara laun bílstjóra auk þess sem viðhald á vegum myndi minnka. Síðast en ekki síst ætti öryggi hennar að vera mikið í samanburði við hefðbundna umferð á vegum.

En ekki mætti láta þar við sitja. Lestin sú arna myndi vera upphafið að lestarkerfi fyrir höfuðborgarsvæðið og jafnvel austur fyrir fjall. Hún myndi tengja úthverfin við "nýja miðbæinn" og "gamla miðbæinn" og gera fólki kleift að eiga fleiri mínútur á hverjum degi fyrir annað en að sitja stressað undir stýri. Það mætti lesa blöðin eða skrifa á bloggið á leiðinni úr og í vinnu. Þeir sem nefnt hafa tímafrekar almenningssamgöngur hér á síðunni ættu að vera jákvæðir fyrir þessu en svona lest gæti hæglega ekið á 5 mín. fresti yfir háannatímann og komið fólki mjög hratt á milli staða.

En hvaðan ættu svo peningarnir að koma til að fjármagna alla dýrðina? Með því að minnka Reykjavíkurflugvöll niður í eina flugbraut eða leggja hann alfarið niður. Eins og oft hefur verið bent á liggja gífurlegir fjármunir í öllu því byggingarlandi sem bíður í Vatnsmýrinni. Það er rosalegt bruðl að reka 2 stóra flugvelli með 50 km millibili og þó svo að sumir telji það nánast því guðlast að ætla leggja Reykjavíkurflugvöll niður þá hlýtur annar hvor völlurinn að þurfa að víkja. Ekki má heldur gleyma því að Reykvíkingar kusu um það á sínum tíma að hann skyldi víkja. En með 20 mín. lestarferð til Keflavíkur væri það heldur engin goðgá að fara með innanlandsflugið þangað. Það er nefnilega rétt sem Ómar segir að ein þjóðleið liggi enn við "miðborgina", en það er ekki þar sem meginþorri fólksins býr.

Sigurður Hrellir, 5.7.2007 kl. 01:57

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég geri mér grein fyrir því að það er þverpólitískur klofningur í stjórnmálaflokkunum um Reykjavíkurflugvöll.

Ég blogga því eingöngu um það mál sem einstaklingur.

Þegar litið er á kort af Reykjavík sést að Sundahöfn tekur jafn mikið rými í borginni og flugvöllurinn en engum dettur í hug að gera íbúðahverfi á þeim frábæra stað við Viðeyjarsund sem á eftir að liggja við þjóðleið Sundabrautar.  

Ástæðan er sú að þéttbýli verður til vegna samgangna og borginni er nauðsyn að hafa góða höfn nálægt borgarmiðju, alveg eins og að í hverri íbúð er nauðsynlegt að hafa forstofu þar sem gestir koma inn.

Akbrautir og bílastæði í borginni skilst mér að taki margfalt meira rými en flugvöllurinn, - helminginn af öllu rými í borginni, -  og Miklabraut og Hringbraut einar eru hálfdrættingar á við flugvöllinn í því rými sem þær taka.

Gallinn við að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur er margþættur.

Við það að flytja völlinn á þennan hátt lengjast ALLAR innanlandsflugleiðirnar og maður sem fer fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur fer 160 kílómetrum lengri vegalengd heldur en ef hann flýgur frá Reykjavík.

Akureyri og Egilsstaðir flytjast í ferðatíma upp úr því hámarki sem klukkustundar ferð til Reykjavíkur er fyrir þær byggðir sem þurfa að vera samkeppnisfærar um fólk.

Að flytja flugvöllinn í burtu jafngildir því að Reykvíkingar kasti frá sér hátt í 20 þúsund manns, sem í raun búa í úthverfum borgarinnar á Akureyri og Egilsstöðum.

Að flytja flugið til Keflavíkur kostar tvöfalt meiri lengingu ferðaleiðarinnar en lenging landleiðarinnar með því að aka fyrir Hvalfjörð.

Reykjavíkurflugvöllur er varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll og nauðsynlegur vegna þess að skyggni og aðflugsskilyrði suðurfrá eru af veðurfarslegum ástæðum verri en í Reykjavík.

Í blautum sunnanáttum skýlir Reykjanesfjallgarðurinn Reykjavíkursvæðinu og gerir flugvallarstæði á Álftanes-Skerjafjarðarsvæðinu það besta sem völ er á veðurfarslega á ölllu svæðinu frá Snæfellsnesi austur á Austfirði.

Selfoss kemur ekki til greina, - er á sama veðurfarssvæði og Miðnesheiði.

Ef ekki er varaflugvöllur í Reykjavík þarf að gera ráð fyrir varaflugvelli á Egilsstöðum eða Akureyri sem þýðir að burðast með aukaeldsneyti yfir hafið og henda oft á tíðum út farþegum.

Reykjavíkurflugvelli er auðvelt að breyta svo að meira land fáist fyrir önnur not.

Það má gera með því að lengja austur-vestur-brautina nánast að vild (þess vegna allt upp í 2700 metra) og gera nýja, stutta norður-suður-þverbraut þar sem nú eru leifarnar af olíustöð Skeljungs við Skerjafjörð.

Í allri umfjöllun um flugvöllinn er alltaf talað niður til þeirrar starfsemi sem flugvellinum fylgir, - talað um að skipuleggja atvinnustarfsemi hátækni og íbúðabyggð í stað þess rýmis sem  nú sé"fórnað" er fyrir flugið.

Rétt eins og að þau hundruð eða jafnvel þúsundir fólks sem vinna við flugið og afleidd störf af því stundi einhvers konar óæðri starfsemi, - að flugstarfsemin og útrásin í kringum hana kalli ekki á vel menntað og í mörgum tilfellum hámenntað fólk.

Það er engin tilviljun að þingmenn Suðurkjördæmis og forráðamenn Reykjanesbæjar sæki það stíft að fá flugstarfsemina suður eftir.

Alls staðar í heiminum þar sem slík starfsemi er sogar hún að sér byggð og atvinnu rétt eins og öll starfsemi sem byggir á samgöngum og þjónustu.  

Flugvöllur í landi Reykjavíkur er nauðsynlegur á sama hátt og önnur samgöngumannvirki þótt hann taki rými.

Ómar Ragnarsson, 5.7.2007 kl. 11:25

7 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ómar, ég ber sjálfur miklar taugar til Reykjavíkurflugvallar því að ég ólst þar upp að hluta í flugskýlum en faðir minn var flugvirki og rak Flugstöðina ásamt 3 öðrum. Sjálfur hef ég alls ekki þekkingu á flugi eins og þú en skynsemi mín segir að það það sé tómt bruðl að reka 2 stóra flugvelli svo að segja á sama stað. Þetta er ósköp einfaldlega spurning um fjármagn og hvernig það nýtist best. Hversu oft er Reykjavíkurflugvöllur nýttur til lendinga af því að ekki er hægt að lenda í Keflavík? Væri ekki nóg að halda austur-vestur flugbrautinni eftir fyrir Reykjavík en helminga svæðið sem flugvöllurinn tekur? Hin leiðin væri að flytja allt millilandaflugið til Reykjavíkur og loka Keflavík en væntanlega yrði það mjög umdeild tillaga. Í öllu falli finnst mér 20 mínútna lestarferð til Keflavíkur ekki hljóma mjög illa. Annað eins þurfa flestar höfuðborgir í nágrannalöndunum að búa við.

Meginatriði þess sem ég hélt fram er að það ríkir algjört metnaðarleysi í almenningssamgöngum hér. Okkur ber siðferðisleg skylda til þess að nýta innlenda og vistvæna orkugjafa til þess að komast á milli staða. Forsætisráðherrann talar stöðugt um þá miklu velsæld sem hér ríkir en samt er ekkert gert til að koma þessum málum af stað. Á síðustu 2-3 árum hafa meiri peningar farið í kaup og rekstur á einkaþotum heldur en það myndi kosta að koma upp 1. hluta rafseglullestar.

Varðandi hitt sem þú nefnir að akbrautir og bílastæði taki allt of mikið pláss í Reykjavík, þá er ég því hjartanlega sammála. Því miður hafa skipulagssnillingar okkar horft allt of stíft til Bandaríkjanna í leit að fyrirmyndum og því sitjum við uppi með þennan óskapnað. Bílaumferðin í Reykjavík hefur verið sett í algjöran forgang á kostnað fólks og íbúa borgarinnar. Það ætti að snúa við blaðinu og kíkja á hvernig Evrópubúar hafa leyst svipuð vandamál. Á dögunum heyrði ég hugmynd um að byggja háar skrifstofubyggingar þétt að helstu umferðaræðunum í stað þess að hafa þar ekki neitt. Með því skapaðist mjög mikið byggingarland auk þess sem að íbúabyggð myndi vera frekar í skjóli af þessu nýja atvinnuhúsnæði. Ef maður horfir á nýju Hringbrautina og allt það land sem þar fer til spillis verður manni ekki um sel.

Sigurður Hrellir, 5.7.2007 kl. 14:23

8 identicon

Ómar,

Ég er mjög sammála þér.  Þegar fólk talar um framtíðar flugvöll fyrir innanlandsflug eru menn einnig að tala um framtíðar höfuðborg Íslands.  Ef innanlandsflug flyst t.a.m. til Keflavíkur, verða gerðar kröfur um að sú þjónusta sem, landsbyggðarfólkið þarf að sækja, flytjist þangað líka.  Tel ég því næsta víst að þar myndi byggjast upp ný höfuðborg Íslands.

Sigurbjartur Helgason (IP-tala skráð) 8.7.2007 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband