LAXVEIÐIPERLAN MIKLA !

Hugmyndir um að gera Jökulsá á Dal að einhverri bestu laxveiðiá landsins vegna þess að fyrir neðan Kárahnjúkastíflu verði tær bergvatnsá eru í meira lagi hæpnar. Áin verður að vísu tær á vorin og allt fram í ágúst en þá breytist hún í grugguga jökulsá sem getur orðið með þeim stærri á landinu. Ástæðan er sú að aðeins 100 rúmmetrar af vatni fara á sekúndu um göngin austur í Fljótsdal og þegar áin er 5-800 rúmmetrar í hitaleysingum síðsumars fara því 400-700 rúmmetrar af dökkbrúnum flaumi um yfirfallið niður í Jökuldal.

Þótt talið sé að 80-90 prósent af aurnum í Jöklu setjist til í Hálslóni er þetta svo langaurugasta á landsins að afgangurinn gerir ána á yfirfallinu jafngrugguga og aðrar jökulár eru óstíflaðar.

Samanburður við Blöndu, miklu minna vatnsfall og hvergi nærri eins aurugt, er út í hött.

Ég á eftir að sjá að lax geti þolað svo stórkostlega og snögga árlega umbreytingu á vatnsfalli og blasir við að verður síðsumars ár hvert.

Í góðum vatnsárum mun þetta flóð hugsanlega koma í júlí og gaman væri að heyra álit sérfræðinga um laxagengd á þessu.

En auðvitað er langbest að lifa í trúnni á hin miklu búdrýgindi á alla lund sem óspart er haldið á lofti að Kárahnjúkavirkjun veiti þjóðinni.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Einnig töluðu einhverjir um að Hálslón yrði fullt af fiski.

Pétur Þorleifsson , 5.7.2007 kl. 15:33

2 Smámynd: Púkinn

Tja, það eru fiskar sem lifa góðu lífi í leðju - ákveðnar tegundir lungnafiska til dæmis. 
Kannski á bara rækta upp leðjulax

Púkinn, 5.7.2007 kl. 18:25

3 Smámynd: Brynjar Hólm Bjarnason

Ég þekki nokkra laxveiði menn og þeir eru búnir að bíða eftir að komast í ána til að veiða þar. Þetta verða mikil vonbrigði fyrir þá að ekki verði einu sinni hægtað nota hana til veiða

Þetta eru meira svo miklir veiðibrjálæðingar að þeir gætu fallist á hvað sem er bara ef þar kæmi lax og það hlakkaði í þeim þegar þeir áttuðu sigá því að kannski yrði Jökla besta á landsins vegna þess hversu löng hún er.

Brynjar Hólm Bjarnason, 5.7.2007 kl. 20:53

4 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

   Þetta er nú ekki flóknara en það að ef að leðjan verður meiri en hann á að venjast hörfar hann bara uppí þverárnar eða til hafs og svo fer hann bara aftur á stjá þegar umhægist og kemur til með að hrygna í þverárnar, ég held að þetta verði ekki vandamál, svo lærist mönnum hvaða tími þetta er og aðlaga veiðina eftir því.

  Þetta er ekki slæm hugmynd, hvernig væri það að setja kvíar í lónið og ala Bleikju þarna það þarf ekki að dæla þarna.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 5.7.2007 kl. 20:56

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Spurningin gæti kannski hvort laxarnir nái sér á strik í þveránum þann tíma sem áin er tær. En það er erfitt að sjá hvernig laxinn geti ráðið við foraðið Jöklu síðsumars.

Hálslón verður langgruggugasta vatn landsins allan ársins hring og í skýrslum um virkjunina kemur fram enda þótt aðeins tíundi hluti aursins fari yfir í Lagarfljót muni litur Lagarfljóts dökkna og Lögurinn kólna.

Ég á erfitt með að ímynda mér að hugmyndir sem ég hef séð settar fram um stórkostlega fiskirækt í Hálslóni geti orðið að veruleika.

Mun nær væri að athuga fyrst með Þórisvatn, Sultartangalón eða Blöndulón sem eru mun minna gruggug.

Raunar eru allar þessar hugmyndir um gríðarlega útiveru á Hálslóni í ætt við þær hugmyndir sem einn af yfirmönnum Landsvirkjunar setti fram þegar Landsvírkjun sýndi nýju brúna sína yfir Tungnaá og malbikaða veginn, sem liggur þaðan inn að Búðarhálsvirkjun.

Þar sem fólk stóð við Sultartangalón lýsti hann því fjálglega hvernig útivistarfólk myndi flykkjast með báta sína og útivistarbúnað til að njóta lónsins.

Í mörgum tugum skipta sem ég hef flogið yfir þetta lón árlega hef ég aldrei séð kjaft á þessari leið frekar en við Styggevatn hjá Jóstedalsjökli í Noregi, sem virkjanamenn þar í landi stækkuðu á þeim tíma sem mönnum var ekki ljóst hver slæm áhrif það hafði á ímynd jökulsins og þjóðgarðsins sem seinna kom þar.   

Ómar Ragnarsson, 5.7.2007 kl. 21:09

6 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Það á eftir að verða fiskur í öllum þessum lónum með hlýnandi umhverfi. En bíddu Ómar ertu ekki þá að segja, sama og margir eru búnir að vera að segja, að það hefur yfirleitt enginn komið þarna, skiptir þá nokkru máli hvort að virkjun er þarna eður ei ef aldrei kom fólk né að það eigi eftir að koma þar fólk, við vitum að gæsin færir sig aðeins með varpið að ári aðrir fuglar eiga hugsanlega eftir að sækja að vatninu og síðan einhver gróður með auknu hitastigi umhverfisins og á komandi árhundruðum er ekki að sjá að landið þarna muni þola stóraukna umferð ferðamanna sem eftir allt voru ekkert þarna og voru svo ekkert á leiðinni þangað.

  Ég er ekki viss um að ég sé með lengur.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 5.7.2007 kl. 21:42

7 identicon

Ég myndi halda að það væri alveg möguleiki að Jökla ætti sjens. Og ef einhver er nógu hugaður til að reyna þetta þá ætti að klappa fyrir viðkomandi. Ef að 80-90 prósent af aurnum í Jöklu sest til þá er áin jafn drullug og hver önnur jökulá segirðu Ómar. Dæmi um jökulár sem hafa góða laxgengd hér á landi eru Þjórsá, Skjálfandafljót, Hvítá í Árnessýslu og það væri jafnvel hægt að halda áfram.

   Það er staðreynd að göngufiskur, lax, sjóbirtingur og sjóbleikja, hefur gengið í Jöklu alla tíð og alveg ráðið við fljótið. Sá fiskur hefur átt heimili í ám á borð við Kaldá, Fossá, Laxá og hugsanlega fleiri. Ég hef rætt við fiskifræðinga og heimamenn um möguleikana. Heimamennirnir segja að þarna hafi alltaf verið glettilega mikill fiskur, en lítið verið nýtt til stangaveiða, eðli málsins samkvæmt. En ef menn slengdu út neti var yfirleitt fiskur undir. Fiskifræðingarnir telja kannski ekki gefið að Jökla sjálf muni fóstra laxastofn, en þverár hennar sumar geta það tvímælalaust. Athuganir á seiðabúskap, t.d. í Laxá og Fossá gefa til kynna að þær geta fóstrað lax. Kaldá er erfiðari, en var þó á árum áður oft að gefa góða laxveiði, þannig að í góðæri gæti áin fóstrað laxastofn.

Það sem í gangi er við Jöklu og þverár hennar er að Veiðiþjónustan Strengir hefur tekið svæðið í langtímaleigu. Forkólfur Strengja, Þröstur Elliðason, er margreyndur í að koma upp mikilli laxgengd með því að ala seiði upp í gönguseiðastærð og sleppa þeim úr þar til gerðum sleppitjörnum. Hann gerði Ytri Rangá að frábærri laxveiðiá, flutti sig síðan þaðan til Breiðdalsár og hefur breytt henni úr 100 laxa á í tæplega þúsund laxa á á fáum árum. Hann er að gera það sama á Jöklusvæðinu. Hann er byrjaður að setja gönguseiði í tjarnir, hefur leyfi Veiðimálastjóra til að nota lax úr Breiðdalsá til undaneldis og eru tjarnir komnar upp við Kaldá, Fossá, Laxá og Hrafnkelu. Þröstur, sem  er menntaður fiskeldisfræðingur, hefur svo góða þekkingu á þessu sviði að hann er vís með að ná góðum laxagöngum í þessar ár á fáum árum og til þess að ganga í þær fer öll þessi laxaaukning um Jöklu og veiðist þá í henni líka á meðan hún er tær. Og jafnvel eftir að yfirfallið kemur, ef Jökla verður þá ekki verri heldur en hver önnur jökulá.

 Það er gott og blessað að vera á móti Kárahnjúkavirkjun og stóriðjubröltinu og undirritaður er í þeim hópi. En það verður að reyna að gera það besta úr öllu saman. Ég sá Jöklu tæra fyrir nokkrum dögum. Hún er auðvitað gjörbreytt, en hún er líka falleg í þessum ham.

                   mbkv.Guðmundur Guðjónsson, ritstjóri www.votnogveidi.is

Guðmundur Guðjónsson (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 21:54

8 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Verið er að byggja stíflur og lón austan Snæfells. "Lífríki Folavatns er sérstætt að því leyti m.a. að það er meðal örfárra stöðuvatna á Íslandi, jafnt á láglendi sem hálendi, sem ætti vegna dýpis, stærðar og frjósemi vel að geta hýst fisk en er samt fisklaust. Þannig vistkerfi eru mjög forvitnileg í vísindalegu tilliti, m.a. sem viðmið í samanburði á áhrifum fiskstofna á orkuflutningsleiðir og byggingu fæðuvefs í stöðuvötnum."  Kelduárlón með 15 metra vatnsborðssveiflu á að gleypa Folavatn. Hér eru myndir úr lónsstæði.  Ekki náðist að rannsaka lífríki Sauðárvatns.

Pétur Þorleifsson , 5.7.2007 kl. 23:13

9 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

  Ég hef hug á að lesa þessar skýrslur sem þú Pétur bendir á þarna og mér finnst þetta forvitnilegt með vatn eins og Folavatn, hefur ástæða fyrir fiskleysi verið hitastig eða efnasamsetning vatns?

 Ég er ekki en búinn að fara þarna inneftir en geri það við fyrsta hentuga tækifæri, en er samt ennþá á þeirri skoðun að þar sem okkur fjölgar orðið tiltölulega ört þá verður ekki bæði slept og haldið í þesum málum sveitastjórnamenn stóðu frammi fyrir fólksflótta af svæðinu vegna atvinnuleysis og svo er nú einhvernvegin þannig að þar sem maðurinn fer um verða spor.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.7.2007 kl. 00:27

10 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Guðmundur G. ritstjóri ... eftir að hafa lesið lofrullu þína um afrek fiskeldisfræðingsins Þrastar Elliðassonar þá segi ég bara að lengi má manninn reyna. Þröstur gerði ekki Rangárnar að fræbærum laxveiðiám. Þröstur kom af stað hafbeit í einum allra bestu sjóbirtingsám í heimi. Rangárnar eru ekki og verða aldrei laxveiðiár. Þetta átt þú að vita.

Jökulsárævintýrið sem nú er í pípunum og sem þú og fleiri virðast missa munnvatn yfir, er hættulegur leikur og ég efa að það standist lög að leyfa sleppingar á seiðum af Breiðdalsárstofni í Jökulsá á Dal. Ég á eftir að kynna mér lagalegt ferli á þeirri gjörð, sem getur ekki hafa átt sér stað nema að undangenginni beiðni um undanþágu frá lögum um silungs og laxastofna. Ég hef nú þegar lagt inn fyrirspurnir til lögaðila um þá afgreiðslu og bíð spenntur eftir svari. Eitt er ljóst; svo mikið liggur mönnum á að hefja ræktun í Jöklu að ekki er hægt að bíða meðan þeir stofnar sem hugsanlega eru fyrir eru rannsakaðir til hlýtar. Áætlanir um að sleppa fleiri hundruð þúsunda af seiðum með hafbeitaraðferðafræði Þrastar er ógn við nærliggjandi vatnasvæði, en tvær af þekktustu laxveiðiám landsins eru rétt handan við hornið og ekki er langt í þekktar laxveiðiár í Þistilfirði. Til að kóróna þvæluna við Jöklu, þá eru uppi áætlanir um að sleppa laxi í Fögruhlíðará sem er fyrst og síðast einstök sjóbleikjuveiðiá. Laxveiðiá er hún ekki og hefur aldrei verið. Hvar eru rannsóknir á þessum svæðum staddar, því þetta fimbulfam?

Mér blöskrar málflutningur þinn Guðmundur og er nær ómögulegt að skilja afstöðu þina sem ábyrgs ristjóra tímarits um veiði. Ég hélt satt best að segja að þú værir nægjanlega upplýstur um þessi mál, en miðað við flugeldasýninguna hér á undan sýnist mér þú vaða í villu og svíma. Það sem er að gerast við Jökulsá á Dal er botnlaus gróðahyggja, bændur komnir með dollaramerkin í augun, Þröstur boðar nýtt Ranárævintýri og nýir lénsherrar eru komnir á jarðabeit fyrir austan. Hið fornkveðna máltæki „Money talks, shit walks“ á hér við sem aldrei fyrr.

Pálmi Gunnarsson, 8.7.2007 kl. 00:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband