17.7.2007 | 11:59
STÓRIÐJU Í HVERN FJÖRÐ!
Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði hefur nú komist að sömu niðurstöðu og verið hefur aðal röksemd stóriðjusinna um árabil: Stóriðja er eina lausnin í atvinnumálum landsbyggðarinnar, reynslan sýnir að ekkert annað er framkvæmanlegt. Þegar þessi niðurstaða er krufin til mergjar sést að hún er byggð á vanþekkingu og viljaleysi.
Halldór segir að náttúruverndarsinnar hafi boðið Vestfirðingum upp á þá lausn að leysa vandann með því að auglýsa Vestfirði sem eina stóriðjulausa landsfjórðunginn, nátturuverndarsinnar hafi boðið upp á nokkur hundruð störf við þetta en ekki getað skapað eitt einasta.
Ástæða þess að ekki var hægt að uppfylla "loforðið" var tvíþætt:
1. Það það þarf peninga til að skapa peninga.
Íslenska þjóðin varð að eyða 130 milljörðum króna og fá erlendan aðila til að eyða 100 milljörðum í viðbót til þess að reisa risavirkjun sem verður í raun rekin með tapi og til frambúðar aðeins lítilsháttar fólksfjölgun í næsta nágrenni álverksmiðjunar en fólk og fjármunir sogað frá öðrum byggðum á Austurlandi.
Náttúruverndarsinnar hefðu getað gert sitthvað við 230 milljarða króna í til að frjámagna nýja möguleika á Vestfjörðum sem gætu gefið aðra atvinnu en störf í mengandi stórverksmiðjum.
En þessa peninga höfðu náttúruverndarsinnar ekki og enginn hefur lýst því betur en Kristinn H. Gunnarsson hvernig Vestfirðir hafa verið sveltir af stjórnvöldum í þessu efni. Í eldhúsdagsumræðu sagði hann að með sama áframhaldi þyrftu Vestfirðingar 2000 ár til þess að fá í sinn hlut jafn mikið fé og ausið var í Austfirðinga.
2, Við núverandi aðstæður eru Vestfirðir sá landshluti sem hvað erfiðast er að markaðsetja sem ferðamannasvæði. Samgöngur við svæðið eru þær langverstu á landinu og fjórðungurinn afræktur með það að erlendir ferðamenn komist þangað með skaplegum hætti frá Keflavíkurflugvelli.
Í nýlegri bók sem inniheldur 100 mestu undur veraldar eru aðéins sex náttúrufyrirbrigði í Evrópu á lista.
Fremst í bókinni eru tvö þessara undra: 1. Norsku firðirnir. 2. Hinn eldvirki hluti Íslands.
Tvennt vekur athygli í sambandi við þetta:
1. Vestfirðír, Tröllaskagi og Austfirðir eiga ofjarl þar sem eru norsku firðirnir.
2. Það er hinn eldvirki hluti Íslands, samspil elds og íss, sem er einstæður og það sést best á því að í Norður-Ameríku er mikill fjöldi náttúrufyrirbæra sem kemst á listann samt kemst frægasti þjóðgarður heims, Yellowstone, ekki á listann. Hvers vegna? Vegna þess að hann kemst ekki í hálfkvisti við hinn eldvirka hluta Íslands.
Til að "selja" hlut þarf tvennt: Hann þarf að vera sá besti, vera einstakur, og það þarf að kynna hann.
Hinn eldvirki hluti Íslands er einstakur en vegna stóriðjufíknar er í raun leitast við að fela þetta mikla verðmæti til þess að geta sagt að svo fáir hafi séð það eða viti á því deili að það skipti ekki máli.
Það nöturlegasta við þetta allt er það að Vestfirðir, sem eru sá landshluti sem erfiðast á að keppa við ofjarla sína í nágrannalöndunum, er sá landshluti þar sem vatnsaflsvirkjanir yllu minnstu umhverfisspjöllum á landinu og að þess vegna hefði fyrsta álverið átt að rísa þar!
Meint "tilboð" náttúruverndarsinna byggðist á ónógri þekkingu á verðmætunum sem málið snerist um.
Halldór segir að nú sé fullreynt að aðeins stóriðja geti bjargað byggð á Vestfjörðum. Það er auðvelt að segja þetta þegar fyrir liggur að engu hefur mátt kosta til til þess að markaðssetja það sem "selja" á.
Það er nefnilega þrátt fyrir allt ekki rétt að Vestfirðir eigi enga möguleika í ferðamennsku.
Ég minntist áðan á nauðsyn þess að bjóða eitthvað einstakt. Á ferð minni um vesturströnd Írlands komst ég að því að Írar auglýsa fuglabjarg eitt sem hið stærsta í Evrópu og græða á því drjúgan skilding.
Á Vestfjörðum eru þrjú miklu stærri fuglabjörg en það er dæmi um hve lítið menn gera með þessi verðmæti að nýlega var flugbraut Patreksfjarðarflugvallar, sem liggur næst Látrabjargi, stytt úr 1400 metrum niður í 800 metra og þar með tryggt að nýjasta flugvél flugfélagsins Ernis gæti ekki notað hana!
Sagnaslóðir og tengsl Vestfirðinga við sjóinn, sérstæð menning Vestfirðinga, eru líka atriði sem vert væri að huga að.
En ekkert af þessu þykir brúklegt. Nei, nú er farið vík úr vík og fjörð úr firði til þess að leita að stöðum fyrir stóriðju Vestfirðinga, olíuhreinsistöðvar.
Ekkert er skeytt um það hvort til sé kvóti samkvæmt Kyoto-samkomulaginu til þess arna, - nei við segjum okkur bara frá því samkomulagi ef þurfa þykir, - annað eins hefur nú verið gert.
Að lokum má benda á dæmi um hugmyndir sem þóttu fáránlegar fyrir 15-20 árum og þeir menn taldir skýjaglópar sem héldu þeim fram: Hvalaskoðun frá Húsavík, gljúfrasiglingar í Jökulsám Skagafjarðar og Vesturfararsetur á Hofsósi.
Ekkert af þessu þrennu er meðal 100 merkustu undra heims og enginn skilningur var hjá stjórnvöldum við þær en samt urðu þær að veruleika.
Athugasemdir
Béndi á bloggsíðu Dofra Hermannssonar um sama mál í dag.
Ómar Ragnarsson, 17.7.2007 kl. 12:07
Minni tekjur þýða minni bíla og minni mengun. Og það er fullt af feitum konum fyrir vestan sem þurfa að fara í megrun. Minni þorskveiðar er því hið besta mál fyrir alla aðila fyrir vestan.
Herra Jákvæður (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 13:02
Ég reikna með því að Vestfirðingar fari í sama biðleik og Austfirðingar gerðu í 25 ár. Í staðinn fyrir að gera eitthvað í málunum sjálfir, þá biðu þeir eftir kísilmálmverksmiðju í 10 ár og síðan álverum í önnur 10. Nú er álverið loksins risið og vissulega hefur atvinnulífið eitthvað lagast. Spurningin er hvað menn munu bíða lengi á Vestfjörðum. Munu menn þar setja sig í stellingu fórnarlambsins sem verið er að leiða upp að altarinu eða munu þeir taka á sig rögg og leysa málin sjálfir. Það er vissulega freistandi að bíða eftir töfralausninni, en hún láta standa á sér alveg eins og atvinnubótaverkefni ríkisstjórnarinnar.
Varðandi það að markaðsetja Vestfirði frekar fyrir ferðamenn, þá vil ég benda á að á Kauai eyju við Hawaii er vinsælt að fara í siglingu fyrir utan stórbrotna vesturströnd eyjunnar. Þar er vissulega hægt að kafa innan um skrautfiska og höfrunga í hlýjum sjónum, en það eru ekki allir að leita eftir slíku. Þeir sem hafa siglt úti fyrir Vestfjörðum og að ég tali nú ekki austur fyrir Hornbjarg vita að fegurð landsins frá sjó er ólýsanleg. Nú ég hef bæði siglt fyrir utan Kauai og inn og út úr nær öllum fjörðum Vestfjarða, þannig að ég hef góðan samanburð og mæli hiklaust með hvoru tveggja.
Marinó G. Njálsson, 17.7.2007 kl. 17:27
,,Það er alltaf sama sagan hjá umhverfissinnum,það má bókstaflega ekkert gera!"
Hvernig væri að nefna dæmi fyrir þessari fullyrðingu?
,,Segðu fólkinu sem er að fara í gjaldþrot á vestfjörðum að hvalaskoðun muni nú aldeilis bjarga málunum!!!"
Friður
Kári
Ekkert eitt mun bjarga vestfjörðum, hvorki olíuhreinsun né hvalaskoðun. Það þarf margskonar atvinnuuppbyggingu en ekki setja öll eggin í sömu körfuna.
,,Það hefur engin leyfi að tala um vestfirðinga með þessum hætti"
Ég vísa í 73. grein stjórnarskráarinnar ,,73. gr. [Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða."
Semsagt, nei þú hefur rangt fyrir þér, það mega allir tala svona um Vestfirðinga, en fólk þarf svo ekkert að vera sammála því.
,,þeir hafa að sjálfsögðu fullan ákvörðunar rétt um að fá stóriðju eða hvað sem þeim hentar til að verða ekki öreigar og þessum umhverfiskvöbburum sem gengur kannski gott eitt til þó margir segi nú að þetta sé bara gróðrabrall hjá þeim og athyglissýki á ekki að takast að skemma fyrir þeim með þessu endalausa svartagallsrausi sínu."
Jáhá, ég veit svei mér ekki hvað þú ert að tala um þarna. Auðvitað eiga Vestfirðingar fullan ákvörðunarrétt. Það er ekki málið að þeir séu að verða öreigar. Vandamálið er að mestu leiti landflótti, þegar störfin hverfa flytja þeir suður til að finna störf.
Gróðrabrall hjá umhverfissinnum? Hvernig eru umhverfissinnar að græða á því að mótmæla stóriðju. Það væri aldeilis áhugavert að sjá það.
Hinsvegar neita ég því ekki að það gætu verið einstaka ,,umhverfissinnar" sem eru bara að mótmæla til að fá athygli. Svo gæti alveg verið að það væri sama upp á teningnum hjá álverssinnum.
Kári Gautason, 17.7.2007 kl. 19:53
æji hver þremillinn, setti kveðjuna í mitt bréfið .
skítur skeður
Kári Gautason, 17.7.2007 kl. 19:55
Mín óbifanlega sannfæring er sú að Vestfirðingar séu dugmeira og nægjusamara fólk en aðrir Íslendingar. Það er tæplega við því að búast að þeir átti sig á því á nokkrum vikum að stjórnvöld okkar hafa ákveðið að félagsleg aðstoð við sægreifana verði tekin fyrst að þeim.
Þessi orð er auðvelt að misskilja fyrir þá sem ákveðnir eru í að misskilja.
En Vestfirðir byggðust upp með sjósókn. Það eru langsótt vísindi að betur borgi sig fyrir þjóðarbúið að synja þeim aðgengi að þessari auðlind sem þeir myndu nýta sér með MARGFALT minni kostnaði á hvert landað kíló en risaútgerðir með risaskipum.
Það er ljóst að innan örfárra ára verðum við þvingaðir til að draga botnvörpunga okkar í land. það á öllum sem sjósókn þekkja að vera ljóst að lífríki sjávar stendur ógn af þeim tröllauknu mulningsvélum sem botntrollið er orðið. Olíukostnaðurinn er gífurlegur og mengun því samfara í sama hlutfalli.
Það er því tímaspursmál hvenær sægreifar LÍ Ú verða að lúta í lægra haldi fyrir smærri útgerðum með vistvæn og kyrrstæð veiðarfæri. Um þetta mun verða tekist á eftir pólitískum þrýstingsleiðum.
Spurningin er því ekki hvort heldur hvenær þetta gerist. Mín trú er sú að samtrygging sægreifanna við Sjálfstæðisflokkinn muni hindra að rétta leiðin verði valin fyrr en það verður orðið um seinan fyrir Vestfirðinga og aðra þá sem látnir eru blæða fyrir hina óhugnanlegu félagsmálaaðstoð við sægreifana.
Vestfirðingar þurfa enga aðstoð frá stjórnvöldum. Þeir þurfa aðeins leyfi til að bjarga sér á eigin forsendum.
Árni Gunnarsson, 17.7.2007 kl. 20:03
Leiðr. Lok 1. málsgr: tekin fyrst af þeim.
Árni Gunnarsson, 17.7.2007 kl. 20:06
Milljarðavatnssamningur Jóns Ólafssonar, netþjónabúshugmyndirnar, ferðamennskan kringum eldfjallastöðvar, Látrabjarg og slíka staði, hvalaskoðun, hálendis- og hestaferðir, framleiðendur Kalda bjórsins, Bændur í Þykkvabænum, fjallagrasið í hálstöflunum..............
Þetta er spurningin um nýsköpun ekki að gera Ísland að verksmiðjuspúandi þriðja heims landi. Og eins og Ómar segir: Ef 230 milljarðar hefðu farið í samgöngur , menntun og nýsköpun væri staðan vænlegri.
Ævar Rafn Kjartansson, 17.7.2007 kl. 20:14
Þú talar um Ómar að peningum sé ausið í Austfirðinga. Þú ert náttúrulega ekkert annað en dóni að koma með svona skítkast í samlanda þína á Austfjörðum. Kárahnjúkaverkefnið er arðbært sem sýnt hefur verið fram á með nákvæmum úreikningum. Auk þess hefur ekki farið króna af fjárlögum íslenska ríkisins í Kárahnjúkaverkefnið og auðvitað ekki í álverið hedur.
Ef það er svona mikið gróðafyrirtæki að markaðssetja Vestfirði fyrir ferðamennsku, þannig að þar geti allir vel við unað, þá er öruggt að einhverjir kapitalistar muni nýta sér það. En hvernig á ríkissjóður að koma að því, umfram það sem hann hefur gert hingað til? Með því að ríkisstyrkja eitthvað upp á von og óvon? Það hefur verið gert töluvert af því að kynna land og þjóð á erlendum vetfangi undanfarin ár með ágætum árangri. E.t.v. mætti gera enn betur. En voðalega finnst mér þú vera mótsagnakenndur Ómar, þegar ekki má byggja almennilegar samgöngur yfir hálendið, því þá skemmum við ósnortnar víðátturnar sem miljónir ferðamanna vilja koma til að skoða (hvað verður þá um ósnertilegheitin?), en svo á að gera stórátak í samgöngumálum fyrir Vestfirðinga. Er ekki alveg eins hægt að gera bara ekkert í samgöngumálum á Vestfjörðum? Svo auglýsum við bara vilta náttúruna þar og víðáttuþyrstir erlendir ferðamenn koma í löngum fjallabílalestum til að skoða undrin.
Svo bendið þið á hitt og þetta sem gert hefur verið, sem einhverntíma átti að vera glapræði. Gott og vel, en hvað kemur það stóriðjunni við? Og er það ekki bara hið besta mál, nú sem áður, að fólk stofni fyrirtæki? Ekki geta allir verið í stóriðjunni.
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.7.2007 kl. 02:42
Auk þess var Landsvirkjun ekki að "eyða" peningum í Kárahnjúka, frekar en Alcoa var að "eyða" peningum í verksmiðjuna á Reyðarfirði. Þetta eru fjárfestingar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.7.2007 kl. 02:51
,,Þú talar um Ómar að peningum sé ausið í Austfirðinga."
Hvað er það annað en að ,,ausa" peningum þegar 230 milljörðum króna hefur verið eytt í þetta verkefni (Kárahnjúkastíflu+Reyðarál)?
,,Þú ert náttúrulega ekkert annað en dóni að koma með svona skítkast í samlanda þína á Austfjörðum."
Persónuárásir, flottur. Svo sé ég ekki þetta skítkast, kannski þú vildir vera svo vænn að benda okkur á það.
,,Kárahnjúkaverkefnið er arðbært sem sýnt hefur verið fram á með nákvæmum úreikningum."
Það vill nú svo til að það hefur oft sannað sig að ,,nákvæmir útreikningar" standast ekki alltaf. Sérstaklega þegar tekið er til greina að virkjunin er á virku sprungusvæði og annað fleira skemmtilegt. Það voru t.d. nákvæmir útreikningar sem áttu sér stað þegar Sovétmenn ákváðu að gera Bajkalsvæðið að miklu bómullarhéraði. Í dag er það skólabókardæmi um umhverfis, efnahags og allsherjarklúður.
,,Auk þess hefur ekki farið króna af fjárlögum íslenska ríkisins í Kárahnjúkaverkefnið og auðvitað ekki í álverið hedur."
En Landsvirkjun er ríkisrekin og ríkissjóður er ábyrðaraðili Landsvirkjunar. Þannig að ef eitthvað fer úrskeiðis þá fer sko örugglega einhverjar krónur í þetta. Það er hinsvegar rétt að það fer ekki neitt í álverið sjálft.
,,Ef það er svona mikið gróðafyrirtæki að markaðssetja Vestfirði fyrir ferðamennsku, þannig að þar geti allir vel við unað, þá er öruggt að einhverjir kapitalistar muni nýta sér það."
Heldurðu að það væri ekki meiri líkur á að ,,kapítalistar" myndu reyna að hefja starfsemi þarna ef einhver mannsæmandi ,,grunngerð" (infrastructure) væri til staðar?
,,En hvernig á ríkissjóður að koma að því, umfram það sem hann hefur gert hingað til? Með því að ríkisstyrkja eitthvað upp á von og óvon?"
Já til dæmis, gefa styrki og annað slíkt til aðila sem þurfa þess. Það er ódýrara heldur en að fara út í eitthvað þungaiðnaðsþrugl.
,,Það hefur verið gert töluvert af því að kynna land og þjóð á erlendum vetfangi undanfarin ár með ágætum árangri. E.t.v. mætti gera enn betur."
Ekkert út á þetta að setja.
,,En voðalega finnst mér þú vera mótsagnakenndur Ómar, þegar ekki má byggja almennilegar samgöngur yfir hálendið, því þá skemmum við ósnortnar víðátturnar sem miljónir ferðamanna vilja koma til að skoða (hvað verður þá um ósnertilegheitin?), en svo á að gera stórátak í samgöngumálum fyrir Vestfirðinga."
Alveg gjörsamlega fáránlegt að líkja þessu saman. Á hálendinu býr enginn. Á Vestfjörðum býr fjöldi fólks sem þarf að komast milli staða hvað sem öllum ferðamönnum líður. Sandkassalegt að koma með svona líkingu.
,,Er ekki alveg eins hægt að gera bara ekkert í samgöngumálum á Vestfjörðum? Svo auglýsum við bara vilta náttúruna þar og víðáttuþyrstir erlendir ferðamenn koma í löngum fjallabílalestum til að skoða undrin."
Það er góð kenning en þarsem Vestfirðir innihalda fólk og rollur og bæji þá er ekki vænlegt að auglýsa þá sem villta víðáttu.
,,Svo bendið þið á hitt og þetta sem gert hefur verið, sem einhverntíma átti að vera glapræði. Gott og vel, en hvað kemur það stóriðjunni við? Og er það ekki bara hið besta mál, nú sem áður, að fólk stofni fyrirtæki? Ekki geta allir verið í stóriðjunni."
Einmitt, það geta ekki allir verið í stóriðju, jú það er sko fínt að fólk er að stofna fyrirtæki. Endilega gerið sem mest að því. Mér finnst bara að ríkið eigi að styðja betur við innlend fyrirtæki heldur en að vera að fá erlend stórfyrirtæki hingað til að setja upp mengandi þungaiðnað
Friður
Kári
Kári Gautason, 18.7.2007 kl. 09:12
Í loforðum andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar kom hvergi fram að þeir þyrftu einhverja miljarða til að efna loforð sín, sjá HÉR
HÉR má sjá margfeldisáhrif áversins á Reyðarfirði, einnig HÉR
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.7.2007 kl. 12:08
Kári: „Mér finnst bara að ríkið eigi að styðja betur við innlend fyrirtæki heldur en að vera að fá erlend stórfyrirtæki hingað til að setja upp mengandi þungaiðnað.“
Og hvaðan á ríkið að fá peningana? Hver á að velja hina meintu/mögulegu winnera? Gæti ég þá fengið ríkisstyrk til að kaupa mér leigubíl? Til að opna lögmannsstofu? Til að opna ísbúð? Væri það sanngjarnt að leigubílstjórar, lögmenn og íssalar á Egilsstöðum, Reykjavík og Selfossi greiddu hærri skatta til ríkisins svo þú og þínir líkar gætuð setið á fínum fundum og ráðstafað þeim fjármunum í einhver hugsanleg tækifæri annars staðar? Væri ekki a.m.k. æskilegra að leyfa þeim sem sjálfir vilja fjárfesta í atvinnustarfsemi að gera það? „Ríkið“ skapar engin verðmæti.
Gústaf (IP-tala skráð) 19.7.2007 kl. 15:39
Gústi...
,,Og hvaðan á ríkið að fá peningana? Hver á að velja hina meintu/mögulegu winnera? Gæti ég þá fengið ríkisstyrk til að kaupa mér leigubíl? Til að opna lögmannsstofu? Til að opna ísbúð?
Reyndar var ég nú að meina styðja betur við fyrirtækin með einhverri manneskjulegri gengisstefnu. Hefði átt að taka það fram, mitt klúður.
En svo þurfa þetta ekki að vera háir styrkir til að koma svona smáiðnaði af stað.
Ein milljón hér og ein milljón þar. Ég var alls ekki að meina styrki upp á einhverja milljarða :).
,,Væri það sanngjarnt að leigubílstjórar, lögmenn og íssalar á Egilsstöðum, Reykjavík og Selfossi greiddu hærri skatta til ríkisins svo þú og þínir líkar gætuð setið á fínum fundum og ráðstafað þeim fjármunum í einhver hugsanleg tækifæri annars staðar? "
Hvað heldurðu að það hafi tapast mörg störf vegna þess hve krónan hefur verið sterk undanfarið? Til hvers var það? Til að skapa tækifæri annars staðar. Alveg sami hluturinn nema að það er verið að spila með hærri upphæðir.
Ég held að þú sért að miðskilja skoðanir mínir á ríkinu og hlutverki þess við verðmætasköpun. Ég sagði aldrei að ríkið ætti að skapa verðmæti.
Er alveg nógu vel að mér í sögu til að vita að það gengur aldrei. Þarf ekki að líta lengra aftur heldur en til Sovétríkjanna.
Kári Gautason, 19.7.2007 kl. 22:05
Ómar verður nú seint kallaður dóni og trúlega er vandfundinn kurteisari maður en hann. Hins vegar ætla ég að gera mig sekan um hreinskilni sem vel gæti flokkast sem dónaskapur:
Þeir sem sjá ekkert athugavert við að taka beint eða óbeint við 230 milljörðum af opinberu fé og finnst þeir eiga það fyllilega skilið, jafnvel þó að það renni í framkvæmdir sem hálf þjóðin fordæmir, hvað kallar maður svoleiðis lið? Ég kalla þá afætur.
Sigurður Hrellir, 20.7.2007 kl. 01:03
Ég er sammála Sigurði. Það er ótrúlegt að álsinnar tala mest allra um verðmæta- og atvinnusköpun, þrátt fyrir að það fyrirfinnist sennilega ekki nein störf á landinu sem eru með meiri fjárfestingu á bak við sig.
Það hefur verið margreiknað út að það væri ódýrara fyrir þjóðarbúið að borga þessum fáu hræðum sem vinna í álverinu (Íslendingum) þrefaldar lágmarksatvinnuleysisbætur, heldur en eyðileggja náttúru Íslands og setja efnahagslífið í uppnám, eins og gert hefur verið með þessum framkvæmdum.
Ég viðurkenni þó að það færi á sálina hjá Austfirðingum að sitja heima og gera ekki neitt og fá borgað fyrir það. Að vinna í álveri er erfiðisvinna þó að afraksturinn af erfiðinu fari á bankareikning erlends auðhrings með sterk tengsl við hergagnaiðnaðinn.
Theódór Norðkvist, 20.7.2007 kl. 23:08
Ómar minn hættu nú þessu, eg á heima fyrir vestan og er viss um það að eg lifi ekki á því sem ÞÚ hefur gaman að skoða.
Það getur vel verið að menn geti lifað af berja týnslu og einhverju þannig,en ekki hef eg dottið um þig við slíka iðju.
HÆTTU að segja okkur að við megum ekki bjarga okkur! ekki hefur þú bjargað neinum um vinnu hingað til!!!!
Guðjón Magnússon (IP-tala skráð) 21.7.2007 kl. 01:46
Furðulegt að sjá menn aftur og aftur koma með þessa frasa um fjallagrös og berjatínslu. Minntist einhver á það rétt í þessu? Að vísu finnst mér sjálfum það aðdáunarvert að fólk eins ogAðalbjörg Þorsteinsdóttir á Tálknafirði hafi byggt upp fyrirtæki á framleiðslu smyrsla úr fjallagrösum en það hentaði örugglega ekki öllum að fara út í þann bransa.
Það er hins vegar þessi skortur á sjálfsbjargarviðleitni sumra sem gengur fram af manni. Þegar fólk æpir á stjórnvöld að setja niður stóriðju í flestum landshornum í stað þess að hrinda sjálft góðum hugmyndum í framkvæmd. Ég veit ósköp vel að flestir Vestfirðingar eru alls engir aumingjar enda hefðu forfeður þeirra ekki lifað af ef svo væri. Stjórnvöld eiga að bæta samgöngur og skapa hagstæðara umhverfi fyrir hverns konar rekstur, hvort heldur sem menn vilja tína ber eða gera eitthvað annað. Þegar kórinn byrjar að syngja um olíuhreinsunarstöð í Dýrafirði er hins vegar voðinn vís og fólk fer að sitja og bíða eftir að fá störfin upp í hendurnar. Svo þætti mér athyglisvert að heyra hvernig þessi 500 meintu störf verða mönnuð. Eru margir atvinnulausir á þessum slóðum?
Þeir sem kalla á stjórnmálamenn (Ómar er formaður Íslandshreyfingarinnar) að HÆTTA að berjast fyrir stefnumálum sínum ættu að hugsa betur sinn gang. Það er gamaldags, úreld og skaðleg stefna að byggja upp atvinnu með mengandi stóriðju sem ryður í burtu fjöldamörgum nýjum möguleikum, fælir frá fólk með góðar hugmyndir og skaðar umhverfið um alla framtíð.
Sigurður Hrellir, 21.7.2007 kl. 12:10
Samkvæmt útvarpsfréttum í dag eru 63 á atvinnuleysisskrá á Vestfjörðum. Ekki er nú líklegt að þeir séu allir tilbúnir að starfa í hugsanlegri olíuhreinsunarstöð. Gæti skeð að það sé alls engin þörf fyrir slíka stóriðju? Er þetta kannski bara eintóm græðgi?
Sigurður Hrellir, 21.7.2007 kl. 12:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.