FERÐAMENN OG ÁLVER, - ÓJAFN LEIKUR.

Morgunblaðið og fleiri fjölmiðlar hafa dregið upp dökka mynd af þeirri vá sem íslenskri náttúru stafar af ágangi ferðamanna og lagt það að jöfnu við virkjanaframkvæmdir. Á þessu tvennu er þó mikill munur. Kárahnjúkavirkjun veldur mestu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrifum sem möguleg eru á þessu landi en án virkjunar hefði verið hægt að fá út úr því svæði meiri tekjur með hverfandi umhverfisáhrifum.

Ef svæðið þar sem virkjunin er hefði verið sett á heimsminjaskrá og aðeins broti af því fé sem eytt hefur verið í virkjunina notað til þess að auglýsa og markaðssetja svæðið sem ferðamannasvæði hefði verið hægt að frá af því meiri tekjur og bæta ímynd og orðspor lands og þjóðar í stað þess að að standa að þeirri miklu eyðileggingu náttúruverðmæta sem þarna á sér stað.

Eftir að hafa farið um Hjalladal gangandi, fljúgandi og siglandi get ég fullyrt að hægt hefði verið að hafa í dalnum meira 100 kílómetra langa göngustíga í þremur mismunandi hæðum yfir dalbotninum þar sem ferðamaðurinn hefði getað séð einstæð listaverk og ótrúleg afköst Jöklu.

Tíu dögum fyrir drekkingu dalsins uppgötvaði ég að á botninum tók sköpunargleði Jöklu öllu fram sem hægt er að taka til samaburðar í heiminum.

Í þjóðgörðum erlendis má sjá hvernig höfð er fullkomin stjórn á umferð milljóna ferðamanna án þess að þeir valdi óafturkræfum umhverfisspjöllum.

Þetta er hægt með því að þaulkanna og skipuleggja svæðið og skipta því í minni svæði með mismunandi mikilli umferð.

Yellowstone er 9000 ferkílómetrar og þar tekst mönnum að skipuleggja umferð ferðamanna þannig að ekki hljótist spjöll af af þeim tveimur milljónum ferðamanna sem þangað koma.

Það þarf að vísu að beita ítölu á 1600 km langa göngustíga garðsins en með ítölunni er ferðamanninum tryggð sú einvera eða fámenni sem hann sækist eftir.

Hér á landi er öllum ferðamönnunum beint að örfáum stöðum þar sem ekki er hætta á að þurfi að virkja en forðast að láta nokkurn mann vita eða gera neitt til þess að opna fjölmörg önnur svæði þangað sem hægt væri að dreifa ferðamannastraumnum.

Þess vegna liggur lélegasti malarvegur Suðurlandsundirlendisins að Urriðafossi. Þess vegna er mjög erfitt að komast að hinum stórkostlegu fossum i Þjórsá, sem þurrka á upp með Norðlingaölduveitu.

Þess vegna kostar það daglanga gönguferð að skoða hina tignarlegu fossa í Jökulsá í Fljótsdal sem þurrka á upp að ekki sé talað um hina mögnuðu fossa í Kelduá sem er enn betur varðveitt leyndarmál.

Þess vegna hefur ekkert verið gert með þá stórkostlegu og einstæðu möguleika sem svæðið norðaustan við Mývatn getur boðið upp á ef það verður látið ógert að fara þar frekar fram í virkjunum með tilheyrandi borholum, leiðslum, stöðvarhúsum og raflínum.

Þess vegna gat Samfylkining ekki komið því í gegn í stjórnarsáttmálanum að verðmæti íslenskrar náttúru yrði nú loksins rannsakað ítarlega og endanlega.

Það er notuð tangarsókn gegn íslenskri náttúru.

Úr einni áttinni sækja þeir sem vilja að íslensk náttúra sé sem minnst könnuð og verðmæti hennar ósnortinni haldið kyrfilega leyndri svo að engin hætta sé á að hún ósnortin veiti stóriðjunni samkeppni. Ekki má eyða krónu til þess að ósnortin náttúra njóti jafnræðis gagnvart virkjunum hvað snertir rannsóknir, markaðssetningu og fjárfestingar til framtíðar.  

Úr annarri átt sækja þeir sem nýta sér þetta framtaksleysi og benda á að í óefni stefni vegna átroðnings skipulagslausrar og einhæfrar ferðamennsku og leggja það að jöfnu við margfalt verri umhverfisspjöll virkjananna.

Úr þriðju áttinni sækja þeir sem segja: Þarna sjáið þið, - eina leiðin til að nýta landið er að virkja fyrir stóriðjuna.  

Síðan er klykkt út með því að segja að ferðamannastraumur til landsins auki á mengun andrúmsloftsins.

Þá gefa menn sér það að ferðamenn sem koma til Íslands hefðu annars ekki ferðast neitt.

En það er ekki rétt. Eldfjallaþjóðgarðar norðan Vatnajökuls allt niður til Húsavíkur og á Reykjanesskaga myndu keppa um ferðamenn við svipuð svæði á Hawai, Nýja-Sjálandi og Kamsjatka.

Til allra þessara staða er miklu lengri leið en til Íslands. Það er styttra frá París til Íslands en frá New York til Yellowstone.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Minn kæri Ómar.

Ferðamennska er og verður láglaunaatvinnugrein og því tæplega boðlegt,a ð leggja ofuráherslu a´hana.

Skemmdir af þeirra völdum eru nú þegar orðanar þó nokkrar og fara frekar vaxandi en hitt.

Svo er það þetta með óafturkræfu spjöllin.  Er ekki hún Hekla mín að undirbúa gos, með stórkostlegum óafturkræfum spjöllum á hrauni, sem nú er búið að friða að hluta, þannig að bændur geta ekki einusinni selt drenefnið sem hingaðtil hefur verið fengið úr námum  í hrauninu? 

Svo er hún ekki með neinn helv. Kioto kvóta fyrir öllum útblæstrinum maður minn.  allskonar gróðurhúsalofttegundir og þaðan af verri munu spýtast úr úr gígum hennar.

 Sama ku vera að gerast víðar á sprungubeltinu og jafnvel fryrir norðan Vatnajökul, hvar friðlandið er.  Iss sendum draslið allt í Umhverfismat og bönnum gosin.

Nei annars að öllu gamni slepptu, þá líkar mér ekki þessi ofuráhersla á ferðamannaþjónustuna, þar eru afar fáar greinar sem eitthvað gefa í aðra hönd og ágangur mjög vaxandi.

Svo geta menn ekki einusinni látið sömu lög gilda um ferðamenn og okkur hin, hvað varðar tollskoðun.  Túristarnir koma frá borði með nánast allann proviant fyrir ferðina.

Kærar kveðjur

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 24.7.2007 kl. 14:47

2 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Ég veit ekki á hvaða launum maðurinn er á sem tjáir sig hér að ofan er hann heldur því fram að ferðaiðnaður er og verður láglaunagrein! Í það minnsta veit ég til þess að bæði hoteleigendur og farastjórar eru á hinum ágætustu launum og gerast þau störf ekki beintengdari ferðaiðnaði. Ef viðkomandi líkar ekki þessa ofuáherslu á ferðaiðnað get ég bent honum á að það er líka hægt að virkja vitið og hafa íslenskir hugvitsmenn náð ágætum árangri á þeim sviðum upp á síðkastir. Nægir að nefna því til rökstuðnings tölvufyrirtækið CCP ... sem er orðið gríðalega stórt fyrirtæki á heimsvísu. Einn besti vinur sjálfstæðisflokksins er að fnikra sig áfram með því að selja vatn og verður forvitnilegt að fylgjast með því hvernig honum vegnar á þeim vetfangi í framtíðinni. Í það minnsta eru nóg af möguleikum ef menn leggja hausinn í bleiti og er ég sannfærður að það hefði verið hægt að gera ýmislegt betre við þessa milljarða sem sólundað var í þessa árvirkjun.

Brynjar Jóhannsson, 24.7.2007 kl. 18:26

3 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Í náttúru Íslands Skrattinn skálmar.

Skjálfandi lýðurinn buktar og mjálmar.

Þar eru auðvaldsins sungnir sálmar.

Svigna þar járnblendnir-álklæddir pálmar. 

Íslandshreyfing Ómars dó,

Ásgeir grét en Skrattinn hló.

Eins og lóan suður um sjó.

Sveif hún burt í nýjan mó.

--------------------------------------

 

Eða hvað?

Ásgeir Rúnar Helgason, 24.7.2007 kl. 21:19

4 identicon

Hafðu ekki áhyggjur af blaðurmönnum Moggans. Þetta lið situr límt við tölvuna daginn út og daginn inn, allan ársins hring, og hefur engan sans fyrir náttúru, sama af hvaða tagi hún er.

Fiðrildasafnarinn frá Perú (IP-tala skráð) 24.7.2007 kl. 21:36

5 identicon

"Síðan er klykkt út með því að segja að ferðamannastraumur til landsins auki á mengun andrúmsloftsins."

Áttu við að ferðamannastraumurinn mengi ekki andrúmsloftið? Nepalbúi eyðir 25 lítrum af olíu á ári, Íslendingur 3.000. Hvort er stærra 25 eða 3.000?

Það er styttra til Íslands en BNA frá sumum stöðum í heiminum en það er ekki nógu stutt til að þú getir kallað Íslandsferð umhverfisvæna.

Þú ert álversandstæðingur en ekki náttúruverndarsinni Ómar.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 10:36

6 identicon

Frábær pistill Ómar, meira svona.

 Ari

Ari Jón (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 11:33

7 Smámynd: Sigurpáll Björnsson

Sæll Ómar.

Merkilegt við alla viðlíka umræðu eru öll þessi ef. Ég er ekki að sjá að þetta blessaða svæði hefði nokkurntímann komist á nokkrar skrár hvar sem er, burtséð frá okkar óspilltu náttúru almennt. Aðeins umræðan um virkjunina kallaði fram þessa ofurást á svæðinu. Mér er enn í fersku minni allt það fjaðurfok sem varð á sínum tíma í kringum Blönduvirkjun, verandi Húnvetningur. Ekkert af því hefur komið fram síðan. Og það landsvæði sem fór undir lónið, hefur jafnt fyrir sem eftir verið jafnónýtt.

Það má hins vegar alltaf rökræða hvað telst skynsamlegt þegar kemur að stóriðjuáformum, hvort sé verið að drekkja landinu öllu eða ekki. Það er flestum ljóst að við búum yfir mikilvægum orkulindum, sem eru bæði kalt vatn sem og jarðhiti. Okkur ber að sjálfsögðu skylda til að reyna eftir fremsta megni að nýta þær á eins skynsamlegan máta og okkur er unnt hverju sinni.

Kveðja.

Sigurpáll Björnsson, 25.7.2007 kl. 13:19

8 identicon

Því miður hef ég ekki þá hæfileika að geta tjáð mig í bundnu máli eins og gert er hér í athugasemd nr. 3, en ég græt líka Ásgeir.  Ekki vegna Íslandshreyfingarinnar, hún er ekki dáin.  Það er óviðjafnanleg náttúra Hjalladals með sjálfa Jöklu og 40 ferkílómetra af vel grónu og blómum skrýddu landi, heimkynnum 296 smádýra, varplandi 24 fuglategunda og burðarsvæði hreyndýra sem er að hverfa undir lón.  Allt þetta mun hafa gríðarleg óafturkræf áhrif allt til sjávar.

Það vill svo til að ég var að koma af þessu svæði þar sem ég m.a. gekk upp með Jökulsá í Fljótsdal og niður með Kelduá, sem samkvæmt áælun munu báðar hverfa í haust.  Þeirri nátttúrufegurð og þessum lífæðum umhverfisins með öllum sínum fallegu fossum er vart hægt að lýsa í orðum.  Þessum dásemdum hefur verið haldið frá þjóðinni.   Miðað við þá ógnar fjármuni sem lagðir hafa verið í að eyðileggja land hefði mátt kynna þetta svæði betur, lagfæra vegslóða og brúa stórfljótin til að auðvelda fólki að ferðast um þessa paradís.  Ég veit að alþingsmenn sem ákváðu spjöllin höfðu ekki einu sinni fyrir því að kynna sér hvað raunverulega var í húfi.

Meira stendur til, því miður, og umhverfismál verða ofarlega á dagskrá um fyrirsjáanlega tíð.  Framboð Íslandshreyfinginarinnar hafði örugglega miklil áhrif og vakti marga til vitundar um að náttúruna er oft hægt að nýta með sjálfbærum hætti  og að hana ber að umgangast af virðingu.  Nauðsyn þess að breikka hóp alþingsmanna sem sér aðrar lausnir en að eyðileggja Ísland er enn til staðar, og því mun Íslandshreyfingin - lifandi land halda baráttunni áfram.  Ómar mun halda áfram svo lengi sem stætt er og hugsjónastarf hans mun seint gleymast.  

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 13:32

9 identicon

Veit einhver hvað Landsvirkjun er að gera með Rio Tinto í Afríku?
Eru til einhverjir blaðamenn sem eru til í að skoða það og fræða okkur hin um málið?

Gústa (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 13:39

10 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Snorri,

við ættum kannski að hittast yfir kaffibolla og ræða framhaldið?

Ég veit að það er ennþá framtíð fyrir Íslandshreyfinguna. Hreyfingin fékk ótrúlega mörg atkvæði þrátt fyrir þá vanhugsuðu (að mínu mati) ákvörðun að reyna að selja kjósendum landbúnaðarstefnu í anda frjálshyggju. Ég þekki sjálfur 3 einstaklinga sem ætluðu að kjósa Íslandshreyfinguna en hættu við vegna landbúnaðarstefnunnar.

Íslandshreyfing sem þorir að vera BARA náttúruverndarflokkur með hugmyndir um nýsköpun í atvinnuvegum sem eru ekki háðar erlendum auðhringjum er hreyfing sem á framtíðina fyrir sér.

Ásgeir Rúnar Helgason, 25.7.2007 kl. 20:25

11 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

 p.s.

E-póst addressan mín =

asgeir.helgason@sll.se

Ásgeir Rúnar Helgason, 25.7.2007 kl. 21:26

12 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem er að vaxa mest í dag.  þó að sumir telji að ferðaþjónusta sé láglaunagrein þá er vel hægt að byggja upp góða ferðaþjónustu sem gefur vel af sér til starfsmanna og til landsins.  Það sem þarf að gera er að skipuleggja svæðin vel og vera með góða stjórnun á þeim ferðamannastöðum sem mikið af ferðamönum fara á.  Stóriðja á ekki heima nálgat ferðamannastöðum.  Ég fór á ráðstefnu á Húsavík í vetur um heilsutengda ferðaþjónustu sem á að byggja upp á þvi svæði.  En það er eitt sem ég get ekki skilið hvernig þeir ætla að láta það ganga upp að vera með álver með mikilli mengun og heilsutengdaferðaþjónustu á sama svæði.  þetta tvennt á ekki saman og það er mikið betra að halda áfram að byggja upp ferðaþjónustuna á þessu svæði sem er mikil í dag.

Þórður Ingi Bjarnason, 25.7.2007 kl. 23:32

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mikill snillingur ertu Ómar. Í hverju blogginu á fætur öðru tekst þér að koma áltrúboðunum úr jafnvægi og fá þá til að hlaupa á sig í ofboðinu.

Þeir hamast við að sýna fram á að svæðið sem fer undir Hálslón hafi ekki nema örfáir smalar og ennþá færri bændur nokkru sinni leitt augum!

Það,að þessi víðerni hafi verið svona vel varðveitt leyndarmál í náttúru Íslands hlýtur að margfalda þau í verðmæti.

Árni Gunnarsson, 25.7.2007 kl. 23:56

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Úr einni áttinni sækja þeir sem vilja að íslensk náttúra sé sem minnst könnuð og verðmæti hennar ósnortinni haldið kyrfilega leyndri svo að engin hætta sé á að hún ósnortin veiti stóriðjunni samkeppni. Ekki má eyða krónu til þess að ósnortin náttúra njóti jafnræðis gagnvart virkjunum hvað snertir rannsóknir, markaðssetningu og fjárfestingar til framtíðar"

Hvað er hægt að segja um svona kexruglað bull

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.7.2007 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband