MÚLAVIRKJUN,- ÚTSMOGIN FRAMKVÆMD.

Í íslenskum lögum eru ákvæði um mat á umhverfisáhrifum sem sýna gamlan hugsunarhátt, því að í lögunum er miðað er við stærð virkjunar en ekki umfang umhverfisáhrifanna. Mér er minnisstæð virkjun við Hvestu í Arnarfirði þar sem sú virkjun varð að hlíta lögum um mat á umhverfisáhrifum þótt um væri að ræða svo lítið rask að maður varð að leita að virkjuninni úr lofti og sá hana alls ekki af landi.

Ástæðan var gríðarleg fallhæð sem skóp aflið, en aðeins voru beislaðir litlir lækir.

Á sama tíma blasir við hvernig virkja á við Fjarðará í Seyðisfirði með því að skipta ánni í nokkrar virkjanir sem eru undir viðmiðunarmörkum.

Múlavirkjun á Snæfellsnesi er sér kapítuli út af fyrir sig þar sem menn sitja báðum megin við borðið sem virkjunaraðilar og sveitarstjórnarmenn.  

Þar með hafa þeir eftirlit með sjálfum sér og skrifa upp á hjá sjálfum sér.

Ef fallhæð virkjunar er nógu lítil er hægt að setja upp virkjun sem er undir viðmiðunarmörkum um afl en hefur samt margfalt meiri umhverfisáhrif en lækjasprænuvirkjunin í Arnarfirði.

Það eru sérkennilegar mótsagnir í því hvort betra sé að hið opinbera eða einstaklingar standi að virkjunum.

Þannig hefði aldrei verið hægt að fara út í Kárahnjúkavirkjun nema með því að láta ríkið ábyrgjast og standa að þessari dæmalausu framkvæmd.

Múlavirkjun og fleiri slíkar sýna hins vegar að draumsýn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um að einstaklingar standi ávalt best að nýtingu landsins gengur ekki upp.

Besta dæmið um það er hrikaleg meðferð á afréttum og beitarlöndum um allt land.

Ég kom hér á árum áður oft á svæði þar sem gróðureyðingin af völdum beitar blasti við en bændurnir sögðu alltaf: Þetta hefur alltaf verið svona og ekkert breyst. Þetta vitum við, sem erum kunnugir þessu,  þú veist ekki hvað þú ert að tala um.

Ég átti ekkert svar við þessu fyrr en ég kom á svæði fyrir sunnan Hafnarfjörð þar sem fjáreigendur sögðu þetta sama við mig.

Þá loksins gat ég svarað þeim því að ég hafði verið þarna tvo mánuði á sumri í þrjú sumur og vissi sjálfur hve mjög landinu hafði farið aftur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll, Ómar !

Sem betur fer, hafið þið Reykvíkingar ekki lögsögu enn; yfir Eyja- og Miklaholtshreppi. Legg til, að þið hættið að garfa í málefnum landsbyggðarinnar; andskotans nóg komið.

Líklegast, ef bjarga mætti því; ; sem eftir lifir dreifbýlisins, væri, að landinu yrði skipt upp í ömt, eða þá; að sýslurnar fái mun meira sjálfstæði, í sínum málum.

Nóg komið, af afskiptum Reykvíkinga, almennt; af högum okkar landsbyggðarfólks, svo sem dæmin sýna, til lands og sjávar.

Kannski megi bjóða Reykjavík eina olíuhreinsistöð ? Varla risi mikil mótmælaalda syðra, af því tilefni ? En...................... Vestfirðir;; ? hvað þá aðrir landshlutar ?,nei gjörsamlega ómögulegt  

Með beztu kveðjum suður, úr Efra- Ölfusi / Óskar Helgi Helgason  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 01:32

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Óskar Helgi!Þú ert áhugamaður um fornmenntir Persa, Grikkja og Rómverja. Ég þekki marga frá þessum svæðum sem þola ekki útlendinga sem eru að hafa skoðanir á þeirra menningu. Ég hef alltaf rifið kjaft við þessa vini mína og reynt að sýna þeim fram á að þeirra saga er saga okkar allra.Ef fólk frá Reykjavík má ekki hafa skoðanir á þróun mála nokkrum kílómetrum norðan, austan, vestan (eða neðan) við borgarmörkin þá veit ég ekki hvert við erum að stefna.

Ásgeir Rúnar Helgason, 26.7.2007 kl. 20:06

3 identicon

Ég ber mikla virðingu fyrir þér og þínum hugsjónum, Ómar, og finnst aðdáunarverð þrautseigjan hjá þér við að berja inn umhverfissjónarmiðum inn í freðinn haus mörbúans.

Vona að þú látir ekki bugast undan þröngsýnum og miðstýrðum skoðunum almúgans sem snýr óæðri endanum upp í loftið þegar honum sagt að gera það af stjórnvöldum, eða ætti maður að segja stórfyrirtækjunum sem stjórna Íslandi í gegnum leikbrúðurnar sínar á þingi.

Birkir (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 20:08

4 identicon

Heill og sæll, Ómar og aðrir skrifarar !

Ásgeir ! Þakka þér andskoti snaggaraleg viðbrögð, við mínum ritlingi. Jú, jú.... víst skyldu Reykvískir hafa skoðanir ýmsar, á hinum aðskiljanlegustu málum; skárra væri nú, en.......... Ásgeir minn. Mikið er nú að landsbyggðinni sótt, af hálfu rycktis Geirs H. Haarde og þess stáss alls, með þeim hætti, að allt stjórnskipulag, á landsvísu; verður að endurskoðast, eigi ekki skeið enn frekara niðurdrabbs og annarrar óáranar, að ganga í garð; miklu frekar, en nú er orðið.

Þakka Birki; enn fremur, orðkynngi hans og innlegg gott.

Með beztu kveðjum, enn frekar / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 21:07

5 Smámynd: Sigurður Hrellir

Óskar Helgi virðist haldinn þeirri skynvillu að Reykvíkingar vilji sjálfir fá allan óskapnaðinn til sín og að andstæða þeirra við manngerðar náttúruhamfarir á landsbyggðinni sé óviðeigandi afskiptasemi eða jafnvel öfundsýki. Sjálfur myndi ég ekki setja mig upp á móti því ef hann byggði litla olíuhreinsunarstöð í garðinum heima hjá sér.

Ég segi nú bara guði sé lof að Óskar er ekki enn kominn á þing. Nógu slæmt er að hafa fengið Bjarna Harðar úr hans kjördæmi.

Sigurður Hrellir, 26.7.2007 kl. 21:24

6 identicon

Heill og sæll, Ómar og annað kneckti, hér á síðum !

Ágæti Sigurður Hr. Fjarri mér, að ætla, að Reykvískir hyggi til olíuhreinsistöðvar. Því miður, Sigurður minn, er lóðarspilda mín ekki svo mikil umfangs, að nokkur verksmiðja rýmist, að nokkru.

Alls engin hætta er á, að ég muni nokkurn tíma; á Alþingi setjast. Miklu fremur vil ég beita mér fyrir afnámi þess; væri þess nokkur kostur, og upp taka ömt þau, hver plöguðust hér, áður fyrri eins og ég vísaði til, lauslega; á síðu minni; fyrir stundu.

Hvað Bjarna Harðarson varðar, að þá fer þar drengur góður, og bókelskur mjög;; og gættu að, Sigurður Hr. ! Þótt svo Bjarni fylgi Framsóknarflokknum að málum, þá á hann ekki að þurfa að líða  persónuleg köpuryrði, þess vegna, þótt svo ég, hefði; fyrir hans hönd miklu fremur kosið að sjá hann innan vébanda hins ágæta Frjálslynda flokks, með þungavigtarsveit þeirri. 

Þótt að ýmsu megi finna, á Suðurlandi og Reykjanesi; að þá hafa margir góðir og vísir þaðan komið, í aldanna rás; Sigurður minn.  

Með ítrekuðum kveðjum / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 26.7.2007 kl. 22:05

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Nú eru liðsmenn Saving Iceland sakaðir um hryðjuverkastarfsemi fyrir að mótmæla. Lögreglan er kvödd til og hlýðir samviskusamlega. Hvað hafa margir lögreglumenn mætt til að handtaka forsvarsmenn Múlavirkjunar?

Þorsteinn Siglaugsson, 26.7.2007 kl. 22:07

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Óskar Helgi Helgason virðist ekki fylgjast með því sem hefur verið að gerast í Reykjavík og nágrenni hennar síðan deilan um stækkun álversins í Hafnarfirði komst á suðupunkt. Það hvernig farið er með landið er hvergi einkamál heimamanna.

Þannig er það alls ekki einkamál höfuðborgarsvæðisins hvort að í heimreið og forstofu landsins alls rísi álver, - heldur ekki hvort og hvar flugvöllur eða flugvellir eru á höfuðborgarsvæðinu.

Ábyrgð landsbyggðarfólks og fólks á höfuðborgarsvæðinu hlýtur að vera gagnkvæm.

Raunar er það ekki einu sinni einkamál okkar Íslendinga hvernig við förum með þau verðmæti lands og þjóðar sem teljast geta eign mannkyns alls, fremur en það er einkamál Egypta hvernig farið er með píramídana, einkamál Ítala hvernig staðið er að varðveislu Colosseum, eða einkamál Bandaríkjamanna hvernig farið er með helstu náttúruundur þeirra lands.  

Ómar Ragnarsson, 26.7.2007 kl. 22:17

9 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Sigurður Hr. það er alveg rétt hjá þér Reykvíkingar vilja ekki óskapnaðinn allann í garðinn sinn þeir vilja hafa hann úti í næsta garði og hirða svo af honum tekjurnar, þið hljótið að sjá og skilja að austfirðingar vildu virkjunina og álverið og meirihluti Íslendinga yfirleitt, það er bara þannig og það er ekki verið að skemma neitt sem eftirsjá er í þarna og ekki verið að gera neitt sem ekki er hægt að taka aftur.

Persónulega vildi ég alveg sjá Óskar Helga á þingi og trúi að hann mundi ota að mér góðum bitlingi ss, eins og góðu embætti þar sem ég þyrfti ekkert endilega að vinna neitt

Högni Jóhann Sigurjónsson, 26.7.2007 kl. 22:34

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Múlavirkjun á Snæfellsnesi er sér kapítuli út af fyrir sig þar sem menn sitja báðum megin við borðið sem virkjunaraðilar og sveitarstjórnarmenn.

 Það jafnast ekkert á við rammíslenska spillingu. Ísland, best í heimi!

Múlavirkjun og fleiri slíkar sýna hins vegar að draumsýn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um að einstaklingar standi ávalt best að nýtingu landsins gengur ekki upp.

Besta dæmið um það er hrikaleg meðferð á afréttum og beitarlöndum um allt land.

Þarna tek ég heilshugar undir með þér. Ég held reyndar að engin(n) með réttu ráði trúi lengur bullinu í Hannesi Hólmsteini. Það er alvarlegasta umhverfisvandamálið að við skulum gera okkur að þeim fíflum að láta skepnur éta undan okkur landið.

Theódór Norðkvist, 26.7.2007 kl. 22:51

11 identicon

Heill og sæll, Ómar og aðrir skrifarar !

Er reyndar frekar seinn til andsvaranna, en.......... ítreka enn og aftur, hvað sem tautar og raular. Góðbændur, á sunnanverðu Snæfellsnesi eiga ekki að þurfa, að leita eftir ásjá eða umsögn einhverra skrifstofublóka, suður í Reykjavík, þá framkvæmdir, sem ekki eru öðrum til tjóns eru unnar, í þeirra heimahögum.

Kynntu þér, ágæti Ómar; aldagamlan rétt bænda til nýtingar bújarða sinna.

Mér og þér kemur það hreinlega ekkert við.

Í Guðs bænum, Ómar;; ekki taka kersknina í Högna alvarlega. Gamansamur og góður drengur þar á ferð, má ekki vamm sitt í neinu vita.

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 28.7.2007 kl. 01:41

12 Smámynd: Theódór Norðkvist

Óskar það er til nokkuð sem heitir umhverfismat. Virkjanir eiga að fara í slíkt umhverfismat, svo lengi sem umhverfisráðuneytið er ekki viljalaus stimpilstofnun fyrir stóriðjuna og Landsvirkjun.

Okkur kemur ekki við landeyðing bænda á jörðum sínum? Samt þurfum við að fjármagna þá helstefnu með skattfé okkar. Kemur okkur þá ekkert við hvernig farið er með landið og skattpeninga okkar?

Íslendinar þurfa að vakna af værum blundi og hætta að kjósa eins og viljalaus verkfæri sömu flokkana, sem verja hina botnlausu hít landbúnaðarkerfisins með kjafti og klóm og skammast sín ekki einu sinni fyrir það.

Sem neytendur þurfum við líka að hætta að kaupa landbúnaðarafurðir, nema vistvænar og lífrænar. Þannig væri hægt að knýja á um umbætur og sennilega er þetta eina leiðin til þess. 

Theódór Norðkvist, 28.7.2007 kl. 01:59

13 Smámynd: Kári Gautason

Hvaða umbætur vilt þú helst fá í landbúnaðinn Theódór?

Kári Gautason, 28.7.2007 kl. 10:08

14 Smámynd: Theódór Norðkvist

Því er fljótsvarað:

Fyrst og fremst banna lausagöngu búfjár. Sauðfé, hross og nautgripir séu girtir inni á afreitum. Það á ekki að skylda landeigandann við hliðina, ef hann vill ekki að búfé nágrannans vaði inn á landið hans, að girða land sitt. Auðvitað á hver bóndi að girða sitt búfé inni á sínu landi.

Síðan vill ég að niðurgreiðslum sé hætt. Það á ekki að niðurgreiða vonlausan rekstur sem eyðileggur landið. Ef einvher vill stunda landbúnað á hann að gera það á eigin kostnað, eða finna sér fjárfesta.

Theódór Norðkvist, 28.7.2007 kl. 16:32

15 Smámynd: Kári Gautason

Sammála þessu fyrsta algjörlega. Nú bý ég í sveit og veit hversu leiðinlegt það er að reka annarra manna fé eða kýr úr túnum.

 Varðandi niðurgreiðslunar þá er útlit fyrir að þeim verði hætt. Allaveganna í nýjasta mjólkursamningi er ákvæði að beingreiðslur til bænda verði dregnar saman um 1% á ári. Þannig að smá saman verður þetta ,,phasað" út.

Svo eru ekki þessar niðurgreiðslur til sauðfjárbænda neitt rosalegar, lítið mál er að reka saufjárbú án þess að eiga eitt einasta ærgildi. 

Kári Gautason, 28.7.2007 kl. 17:12

16 identicon

Heilir og sælir, Ómar og skrifararnir !

Þakka þér drengilegt liðsinni Kári; og alla einurð. Theódór ! Hvað áttu við, með ''vonlausan rekstur'' ? Veit ekki betur, en íslenzk bændastétt, ekki síður en sjómenn og verkafólk og iðnaðarmenn beri uppi þetta þjóðfélag, þótt svo við ramman reip sé að draga, og gættu að,....... ''fjárfestar'' þeir, sem þú vísar til; eru að verða plága íslenzks samfélags og vinnandi fólks. Bankakerfið, ásamt Reykjavíkur stjórninni mergsýgur hverja þá krónu, sem þeir ná að hrammsa, í vef sinn, til alls konar afglapa háttar, utanlands sem innan, eða veizluhöld þessarra andskota, hverjir borga þau, Theódór minn ? 

Það getur nú fokið í mann, piltar.

Stöndum þétt, að baki þeim driftarmönnum; í Eyja- og MIklaholtshreppi, hverjir hafa þor og nennu, til að bæta gróanda og mannlíf, í sinni sveit. Ekki veitir af, yfir landið flæðir ''mótmælenda'' hjarðirnar, sem aldrei fyrr. Einhverjir þurfa að vinna, til þess að gefa þessum Guðs voluðu sálum að éta, ekki satt ? Þá þarf kaffihúsalýðurinn, í 101 Reykjavík sína fóðrun.

Og Ómar! mættir fara að huga að mannlega umhverfinu. Hvað með okkur, og þau hin; sem borguðum upp, refjalaust lán eldri kynslóðanna, með upptöku helvítis verðbótanna, skömmu upp úr 1980, og súpum enn seyðið af þessu andskotans óréttlæti ???? 

Með ítrekuðum, en blendnum landsbyggðarkveðjum / Óskar Helgi Helgason    

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 28.7.2007 kl. 23:46

17 Smámynd: Theódór Norðkvist

Við erum kannski komin út fyrir efni þessa bloggs hjá Ómari. Ég er tilbúinn að ræða þessi mál á minni bloggsíðu, eða þinni, Óskar ef þú vilt, en vil þó segja þetta:

Það var ekki ætlun mín að gera lítið úr bændum. Þeir eru yfirleitt harðduglegir menn, ég er sjálfur kominn af bændum og sjómönnum langt aftur í ættir. Bóndi er bústólpi. Það er kerfið sem þeir búa við, sem ég gagnrýni.

Hvernig getur það samt staðist að bændur beri uppi þjóðfélagið ef það þarf að borga þeim 400 kr. fyrir að framleiða hvert kíló af kjöti, áður en það er keypt út úr verslun? Geturðu bent mér á einhver bú sem bera sig, fyrir utan þessi stærstu?

Hvernig þætti trésmiðum að þurfa að borga rafvirkjum 400 kr. á tímann fyrir að stunda sína iðn? Og trésmiður og rafvirki væru að vinna í sama húsinu, með 5.000 kr. á tímann frá eiganda hússins, en trésmiðurinn fengi 4.600 kr., eftir að hafa þurft að greiða niður vinnu rafvirkjans, sem fengi þá 5.400 kr. í sinn hlut?

Ég tek hinsvegar undir gagnrýni þína á blóðsugurnar í fjármálaheiminum, sem sjúga allan mátt úr ekkjum, einstæðingum og skuldum vöfnum atvinnufyrirtækjum. Nota síðan hagnaðinn til að fjármagna eigin ólifnað, sölsa undir sig jarðir um land allt og kaupa banka og verslanakeðjur í útlöndum til að geta féflett útlendinga líka.

Theódór Norðkvist, 29.7.2007 kl. 00:46

18 identicon

Heilir og sælir, Ómar og skrifararnir !

Theódór ! Ekki víst, að ég komi með réttu svörin, en........... þurfum að byrja á að brytja niður einokunaraðstöðu matvæla stórmarkaðanna; og hefja kaupfélögin aftur til vegs, og þeirrar virðingar sem þeim ber, jafnhliða því, að efla, á nýjan leik kaupmanninn á horninu.

Bið þig vel að virða, sé ég ekki með patent lausnina í handraðanum þarna, en... reyna má, að nokkru. Viss um, að sé djúpt grafið; megi finna öllu fleirri lausnir, en við hyggjum, og teljum ólíklegt í dag. Síðan þarf að stinga á eftirlits möppudýra  flórunni, jafnt í verzlun; sem og landbúnaði og víðar. Allmörg kýli, sem útungunarstofnanir Háskóla bábiljunnar hefir varpað inn á vinnumarkaðinn, öllum til tjóns, þá upp er staðið, og atvinnuvegir, sem sárvantar fólk í framleiðsluna hafa mátt súpa seyðið af. Og borga offjár fyrir, gætum að.

Theódór ! Þarna má vera, að ég eigi kollgátuna. Allavega er samþjöppunin, og samrunabrjálæðið, í þjóðfélaginu; meginskaðvaldur atvinnulífsins, að minni hyggju.

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason 

    

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 29.7.2007 kl. 02:44

19 Smámynd: Kári Gautason

,,Það var ekki ætlun mín að gera lítið úr bændum. Þeir eru yfirleitt harðduglegir menn, ég er sjálfur kominn af bændum og sjómönnum langt aftur í ættir. Bóndi er bústólpi. Það er kerfið sem þeir búa við, sem ég gagnrýni."

Það eru náttúrulega allir íslendingar komnir af bændum og sjómönnum. Kerfið er úr sér gegnið og er barn síns tíma. Það er á hreinu að þar þarf að taka til hendinni. 

,,Hvernig getur það samt staðist að bændur beri uppi þjóðfélagið ef það þarf að borga þeim 400 kr. fyrir að framleiða hvert kíló af kjöti, áður en það er keypt út úr verslun? Geturðu bent mér á einhver bú sem bera sig, fyrir utan þessi stærstu?"

Beingreiðslur til bænda eru ekki greiddar á framleitt kíló og því er þessi 400 kall eitthvað gisk. Beingreiðslurnar eru á ærgildi, sumsé ríflega 4000 kr á ærgildið. Ærin þarf að gefa af sér 10 kg til að þetta sé 400 kr á kg og fyrir þá sem ekki vita er 10 kg lambaskrokkur smátittur og er ekki mikið um slíkt. En svo er ekkert algilt að sauðfjárbú hafi ærgildi fyrir ölllu því fé sem er á bænum. Þannig að þetta meðaltal þitt um 400 kr er afskaplega mikil einföldun. Raunhæfara væri að segja 200-250 kr á kg. 

En varðandi þetta meinta jarðrask og að sauðfjárrækt eyðileggi landið þá fá bændur ekki gæðastýringargreiðslurnar (sem eru inní þessum 4000 kr pr ærgildi) nema að þeir uppfylli ákveðin skilyrði. Meðal annars eru þau skilyrði að fénu sé ekki beitt á afréttir sem taldar eru viðkvæmar fyrir jarðraski. 

En ég er sammála flestu sem þú segir og sérstaklega því að umbóta sé þarft, óþarft er að mála bændur sem einhverjar afætur án þess að hafa eitthvað fyrir sér í þeim efnum.

Kári Gautason, 29.7.2007 kl. 12:20

20 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég heyrði þessar 400 kr á hvert kíló einhvers staðar, veit ekki alveg hverjar forsendur þeirra útreikninga eru. Í þínum útreikningum, Kári, tekurðu bara beingreiðslurnar, þá eru ótalinn ýmis annar kostnaður, þ.a. þá er augljóslega um meira en 200-250 kr. að ræða.

Aðalatriðið er þó að þetta eru miklir peningar, sem skila litlu. Samkvæmt þessum upplýsingum eru greiðslur vegna búvöruframleiðslu 8,5 milljarðar á fjárlögum 2007.

Hver metur það hvað afréttir eru viðkvæmir fyrir jarðraski? Ég held að öll lausaganga búfjár sé einfaldlega ofbeit. Rollan rótnagar landið, þangað til ekkert er eftir. Það þarf ekki annað en fara um landið og hafa augun opin til að sjá alla landeyðinguna.

Og ef rökin fyrir vitleysunni eru þau að það þurfi að halda landinu í byggð, hvers vegna getur þá bóndinn sem á landið selt það hvenær sem hann vill til auðjöfra í Reykjavík, sem búta síðan löndin upp í sumarbústaðabyggðir?

Réttast væri að öllum beingreiðslum væri þinglýst sem kvöðum á jarðirnar. Þannig gæti enginn selt land sitt nema endurgreiða ríkissjóði allar niðurgreiðslur sem hann hefur fengið, uppreiknað með vísitölu á verðlagi söludags. 

Theódór Norðkvist, 29.7.2007 kl. 23:40

21 Smámynd: Kári Gautason

Hvaða ýmsi annar kostnaður? Beingreiðslurnar eru það eina sem fer til bænda frá ríkinu.

,,Miklir peningar sem skila litlu."  Beingreiðslurtil sauðfjárbænda eru 3 milljarðar. Ef þessar greiðslur verða skornar niður þá leggst þessi grein af. Heil atvinnugrein og allt sem því fylgir. Sláturhús, vélaþjónusta og annað slíkt. Það finnst mér ekkert voðalega lítið.

,,Hver metur hvað afréttir eru viðkvæmar fyrir jarðraski?" Það er landsgræðslan sem verður að samþykka bændur annars fá þeir ekki gæðastýringarálagið. Svo þurfa þeir að uppfylla ýmis önnur skilyrði um umhirðu dýranna og lyfjagjöf.

,,Ég held að öll lausaganga búfjár sé einfaldlega ofbeit." Ég held að þetta sé bara vitleysa sem hefur lítil eða enginn rök.

,,Það þarf ekki annað en fara um landið og hafa augun opin til að sjá alla landeyðinguna."

Landeyðing á íslandi held ég að sé fyrst og fremst vegna þess að við búum á landi með viðkvæmasta jarðveg í Evrópu, ofan á það eru eldgos tíð og margt fleira sem ég gæti tínt til en nenni ekki þarsem ég er í kaffipásu. En landeyðing í dag er ekki mikil það er víst.

,,Og ef rökin fyrir vitleysunni eru þau að það þurfi að halda landinu í byggð, hvers vegna getur þá bóndinn sem á landið selt það hvenær sem hann vill til auðjöfra í Reykjavík, sem búta síðan löndin upp í sumarbústaðabyggðir?"

Yfirleitt er það þannig þegar bændur selja jarðir þá eru þeir orðnir gamlir og slitnir og eiga enga afkomendur sem vilja halda áfram búskap. En svo er það oftast þannig að bændur vilja helst selja jarðirnar þannig að þær verði í rekstri áfram. Og ekki er það bændunum að kenna að auðjöfrar í Reykjavík eru tilbúnir að borga þessi klikkuðu verð fyrir jarðir. Eiga þeir kannski að heimta að selja þær á lægra verði?

Kári Gautason, 30.7.2007 kl. 09:51

22 Smámynd: Theódór Norðkvist

Kári mér hefur fundist þú vera mjög skynsamur ungur maður með heilmikla þekkingu á mörgum málum miðað við ungan aldur. En í þessu síðasta innleggi þínu skýturðu nokkuð yfir markið.

En við skulum ekki plaga Ómar meira á bloggsíðu hans. Ég kem eflaust til að blogga á minni eigin síðu um þessi mál. Þér er velkomið að svara mér þar.

Theódór Norðkvist, 30.7.2007 kl. 15:56

23 Smámynd: Kári Gautason

ok

Kári Gautason, 30.7.2007 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband