26.7.2007 | 22:38
UTANVEGAAKSTUR - ÓKLÁRAÐ MÁL.
Dómstólar landsins eru að mínum dómi á réttu róli þegar þeir túlka vafa og óljós ákvæði laga um utanvegaakstur hinum ákærða í vil. Í forystugrein Morgunblaðsins í dag kemur fram að höfundur leiðarans fylgist ekki nógu vel með ástandi þeirra mála. Í fyrra kynnti Jónína Bjartmars þáverandi umhverfisráðherra fyrirætlanir um það hvernig staðið yrði að merkingu viðurkenndra vega og slóða og þá kom fram að mikið verk er enn óunnið í þeim efnum.
Það er því ótímabært að hamast í þessu máli fyrr en því verki er lokið, en það felst í því að merkja inn á kort Landmælinga Íslands alla þá vegarslóða sem viðurkenndir eru þannig að eftir það verði hægt að dæma með vissu um það hvort lög hafa verið brotin eða ekki.
Sem dæmi um það verk sem ólokið er má nefna, að þegar ég leit af handahófi á það á þáverandi korti Landmælinga hvort vegarslóði, sem liggur inn að Brúarjökli væri á kortinu, kom í ljós að hann var það ekki.
Það hefði þýtt eftir strangri túlkun laganna að allir þeir fjölmörgu sem óku þá leið á þeim tíma hefðu verið að brjóta lögin.
Afar ósanngjarnt hefði verið á þeim tíma að ákæra allt þetta fólk. Ástæðurnar voru tvær: Þar sem slóðinn byrjaði var og er stórt skilti vegagerðarinnar sem á stendur: "Brúarjökull 8 km."
Þetta skilti er jafn vandað og traust og venjuleg skilti Vegagerðarinnar sem allir helstu þjóðvegir landsins eru merktir með.
Í öðru lagi var það fáránlegt að ekki væri viðurkennd eina slóðin vestan Jökulsár á Dal sem liggur upp að Brúarjökli.
Rétt eins og þessi slembiathugun mín leiddi í ljós að hér þyrfti að vinna betur að verki hefur komið í ljós að engin leið er að klára það á vandaðan hátt nema hafa samráð við kunnugustu menn í héraði sem og önnur samtök ferðamanna svo sem Ferðaklúbbinn 4x4.
Þessi vinna stendur nú yfir og það er ekki fyrr en henni er örugglega lokið sem hægt verður að fara að dæma menn af sanngirni og viti.
Sem dæmi um menn sem hafa allt að hálfrar aldar reynslu af slóðum og leiðum á hálendinu vil ég nefna Völund Jóhannesson á Egilsstöðum sem á sínum tíma vann með Vegagerðinni og öðrum sem fóru um hálendi Austurlands að finna bestu slóðirnar og merkja þær.
Slíka menn þarf að leita uppi og fá til samstarfs um þetta mikilvæga verk.
Mér er kunnugt um að á því svæði sem Völundur hefur verið manna kunnugastur um í nær hálfa öld er ekki enn búið að fara um og ákveða um merkingar slóða en það mun standa til síðar í sumar.
Þangað til held ég að menn ættu að geyma stríðsaxirnar og lofa þeim sem verkið vinna að ljúka því vel og örugglega.
Völundur hefur sagt mér að mjög miklu hafi alltaf skipt að merkja leiðirnar vel og hafa um þær góðar upplýsingar.
Sé það ekki gert villast margir og slóðarnir liggja út um allt.
Athugasemdir
Hér kemur að minn kæri vinur Ólafur Helgi Sýslumaður. Hann hreyfir allmörgu, frá nýjum aðflugshornum.
Skyldi hann ná góðri lendingu með þetta mál? Vonandi.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 27.7.2007 kl. 08:57
Sammála þér um þetta efni, Ómar.
Hins vegar legg ég til að við notum frekar kvenkynsorðið slóð í þessu efni heldur en karlkynsorðið slóði. Við viljum engan slóðaskap þegar farnar eru góðar og viðurkenndar slóðir.
Þetta er líkt og orðin krap og krapi. Allan veturinn er maður að heyra af óförum umferðar sem virðist vera akandi í einhverjum eftirrétti -- þegar við nánari skoðun kemur í ljós að aðeins er átt við gamaldags krap!
Mbk
Sigurður Hreiðar, 27.7.2007 kl. 11:12
Ómar hér ér er ég þér innilega sammála og skemmtilegt innleg frá Sigurði Hreiðari.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 27.7.2007 kl. 12:28
Ég er sammála þér Ómar, Það er ekki hægt að dæma okkur jeppamenn fyrir utanvegaakstur þar sem við erum á slóða sem hefur verið keyrður í mörg ár. Í mínum jeppaferðum keyri ég ekki vísvitandi utanvegar og svo er spurnig hvort slóðinn sem ég er á sé túlkaður utanvegaslóði eða slóð sem lagi er að keyra.
Þórður Ingi Bjarnason, 27.7.2007 kl. 16:31
Nú er ég alveg sammála þér Ómar. Takk fyrir umfjöllunina.
Ágúst H Bjarnason, 27.7.2007 kl. 17:03
Ég vil benda á eitt sem hefur ekki farið hátt, en það er utanvega akstur innanbæjar... Menn eru að stytta sér leið inn á afreinar með því að aka upp á kanntinum og skemma þá í kringum sig.. Menn eru að leggja bílum á grasblettum og skilja þá eftir sem moldarflag.
En þetta var bara smá...
Hallgrímur Egilsson, 27.7.2007 kl. 20:40
Það hefur einginn haldið þvi fram að ný hjólför sé slóð. að keyra á stað sem er ósnortinn og ekki verið ekkið áður er ekki í lagi en þeir slóðar sem við jeppamenn allavega flestir velja eru slóðar sem eru til fyrir. Dómurinn var mjög góður þar sem hann dæmdi rétt miðað við löginn.
Þórður Ingi Bjarnason, 27.7.2007 kl. 22:41
Það er ekki bara að nýir vegir/slóðir séu ekki inni á kortum sem er vandamál. Það er líka dæmi um að ófærir og aflagðir slóðar séu enn inni á kortum og akstur á þeim getur valið “löglegu” tjóni á landi.
Nú er það svo að þegar Vegagerðin tekur veg út af vegaskrá, t.d. vegna þess að nýr vegur kemur í staðinn fyrir þann gamla, þá eignast landeigendur gamla veginn og hann verður einkavegur. Þessi gamli þjóðvegur sem nú er orðinn einkavegur er áfram sýndur á kortum og vef Umhverfisráðuneytisins sem löggildur vegur. Hins vegar hættir Vegagerðin að sinna viðhaldi á þessum vegi og innan nokkurra áratuga verður hann að illfarinni slóð ef eigendur jarðanna sem hann liggur um sinna ekki viðhaldi á eigin kostnað.
Ég þekki dæmi um slíkar slóðir þar sem ræsi hafa grafist í sundur og slóðin orðin ófær, en jeppamenn halda áfram að keyra slóðina og fara þá út fyrir slóðinn til að komast framhjá hinum ónýtum ræsum. Við það myndast ný slóð sem heldur áfram að grafast í sundur og veldur loks landeyðingu. Bílstjórar eru hins vegar í fullum rétti samkvæmt lögunum, því þessi einkaslóð er á kortum og því leyfilegt að keyra hana. Það þýðir ekkert fyrir landeigendur (í þessu tilfelli eyðijörð) að reyna að loka slóðinni því það er ekki virt.
Það er því full ástæða að fara yfir öll þessi mál og merkja alla “löglega” og ökufæra vegi og slóðir og uppfæra þær upplýsingar árlega eða oftar og hafa upplýsingar á einum stað.
Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 28.7.2007 kl. 00:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.