28.7.2007 | 00:04
EYJAGÖNG, - EKKI ÞAU FYRSTU ÚT Á ENDASTÖÐ.
Göng út á endastöð gera ekki eins mikið gagn og göng sem gagnast mörgum landshlutum líkt og Hvalfjarðargöngin gera. Þetta er einn helsti ókostur Héðinsfjarðarganga og hefði verið hægt að komast hjá honum með því að fara þá leið sem Trausti Sveinsson lagði til. Með því að fara þá leið hefði unnist tvennt sem ekki vinnst með Héðinsfjarðargöngum:
1. Siglfirðingar hefðu fengið örugga leið yfir í Skagafjörð í stað hins hættulega og ótrausta vegar um Almenninga.
2. Skapast hefði örugg heilsárs hringleið um Tröllaskaga.
Eyjagöng líta út fyrir að vera göng út á endastöð en yrðu það ekki að öllu leyti ef höfnin þar yrði stækkuð og nýttist þannig til að stytta meginflutningaleiðina á sjó til landsins.
En þá er líka spurningin hvort með því að gera Eyjar að slíkri samgöngumiðstöð erils og hávaða sé fórnað þeim töfrum sem þær hafa eins og þær eru nú, - hvort þær séu að því leyti hliðstæðar Héðinsfirði.
Það er stór ókostur við Héðinsfjarðargöng, sem aldrei var reiknaður til fjár, að með þeim er eyðilagt sívaxandi gildi Héðinsfjarðar sem eina óbyggða fjarðarins frá Ófeigsfirði á Ströndum allt austur til Loðmundarfjarðar.
Vonandi fara einhverjir síðar ofan í baráttu Trausta Sveinssonar við ofurefli stjórnmálamanna, sem horfðu á samgöngumálin yst við Eyjafjörð út frá þröngum sjónarhóli samgangna um Norðausturkjördæmi, rétt eins og ekkert væri fyrir vestan kjördæmamörkin um miðjan Tröllaskaga.
Í því máli beittu þeir svipaðri þrákelkni og ofurkappi og lagt var í upphafi á hugmyndina um trukkaveg um Stórasand og Arnarvatnsheiði sem góðu heilli hefur ekki fengist fram.
Ég fylgdist á sínum tíma nokkuð vel með baráttu Trausta sem fórnaði öllu sínu fyrir sinn málstað en galt þess að þeir sem höfðu völdin og peningana gátu notað sér hrikalegan aðstöðumun.
Slíkur aðstöðumunur er í raun brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Í löggjöf fjölmargra nágrannalanda okkar er hinu opinbera skylt að veita fé til þeirra sem þurfa að greiða fyrir rannsóknir og málafylgju í rökræðu gegn opinberu valdi og berjast í því efni við aðila sem hafa, eins og áður sagði, yfirburði valda, aðstöðu og fjármagns.
Íslendingar eru eina þjóðin í okkar heimshluta sem ekki hafa staðfest svonefndan Árósasáttmála sem kveður á um þetta efni.
Héiðinfjarðargöngin, Kárahnjúkavirkjun og margar aðrar slíkar framkvæmdir eru dæmi um það hvernig þeir sem höfðu yfirburði í völdum, áhrifum og fjármunum, fengu sitt fram og vilja halda áfram að fá sitt fram.
Enda bólar ekkert á staðfestingu á Árósasáttmálanum.
Athugasemdir
Sammála þér Ómar, sérstaklega með skort á lýðræðislegu atferli í stjórnsýslu okkar.
Eru ekki göng yfir á Norðfjörð líka göng á endastöð?
Gunnar Skúli Ármannsson, 28.7.2007 kl. 23:53
Göng til Norðfjarðar koma vel til greina ef þau eru það ódýr að ekki sakar þótt þau liggi út á endastöð. En fyrir austan eru líka uppi hugmyndir um göng sem búa til hring sem liggur í gegnum Fjarðabyggð, Mjóafjörð og Seyðisfjörð.
Kostar litla 15 milljarða króna en eftir að 130 milljörðum var eytt í Kárahnjúkavirkjun finnst mönnum þessir 15 milljarðar smápeningar.
Ómar Ragnarsson, 29.7.2007 kl. 00:33
Sæll ÓMar og þakka mjög gott innlegg um Héðinsfjarðargöng
Það er "harmleikur" eins og einn starfsmaður vegagerðainnar orðaði það hér á Norð-austulandi en vill ekki láta þá skoðun uppi hvð þá heldur nafn sitt.
En mannst mótspyrnuna sem við lentum í á Skaganum þegar Hvalfjarðargöng voru gerð? Ég var þá markaðsfulltrúi Akraness. Mannstu að það var meira að segja einn þingmaður Vesturlandskjördæmis sem var harður andtæðingur okkar? Hann óttaðist að þá yrðu fjarveitinga til vega á norðanverðu Snæfellsnesi skertar? Snýst þetta ekki þegar öllu er a´botninn hvoflt um peninga frá ríkinu. Geta misvitrir stjórnmálamenn haft fyrir okkur vit?
Ég er hinsvegar ekki sammála skoðunum þínum um framkvmædir á Austurlandi en það er annar kafli.
kv
B
Björn S. Lárusson (IP-tala skráð) 29.7.2007 kl. 16:32
Það er stór ókostur við Héðinsfjarðargöng, sem aldrei var reiknaður til fjár, að með þeim er eyðilagt sívaxandi gildi Héðinsfjarðar sem eina óbyggða fjarðarins frá Ófeigsfirði á Ströndum allt austur til Loðmundarfjarðar.
Er það sem sagt málið, að best sé að hafa landsbyggðina óbyggða? Leyfa þeim sem vilja ferðast um óbyggðir gangandi, njóta?
Gunnar Th. Gunnarsson, 31.7.2007 kl. 17:37
Sæll Ómar
Ég er hjartanlega sammála þér um tillögur Trausta Sveinssonar. Það er vont að vita til þess og að upplifa slíka þröngsýni sem stjórnmálamenn sýndu við ákvörðunartökuna um Héðinsfjarðargöng. Hefði verið farið að tillögu Trausta hefðu öll tengsl Norðlendinga orðið betri og það er að mínu áliti eina byggðaaðgerð sem dugar, þ.e. að stytta vegalengdir milli fólks, hjálpa fólki að ná saman, þá sér það um sig sjálft. Með því að stytta vegalengdir virkjum við mannauðinn. Hugsaðu þér hvílík lyftistöng það yrði fyrir Siglufjörð að verða aðal upp- og útskipunarhöfn á Norðurlandi. Naflinn er alltof lítið svæði til að einbeita sér að , við verðum að horfa á allan líkamann. Það eru tímar alþjóðavæðingar hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Lambi
Jón Einar Haraldsson (IP-tala skráð) 1.8.2007 kl. 23:03
Sæll Ómar og hafðu þökk fyrir þína viðleytni til að bjarga okkar gersemum sem að margar hafa sokkið í (ekki sæ) stóriðjuvatn. En takk fyrir að minnast á leggi og skeljar að þessu lék ég mér sem krakki og fram á unglingsárin það Þá var eins og að þú segir ekki komið neitt nema bara vísir að þessu sjónvarpi en seinna kom svo bylgjan af öllum rásum. En samstaðan hjá Íslendingum ( þeim Íslendingum sem kunna að hugsa) hún skilaði sér of seint því miður og því miður elsku karlinn minn þá er fólkið farið að hugsa sig núna um því miður of seint. En Ómar mikill hluti af þjóðinni stendur með þér og það sem að þú berst fyrir haltu áfram.
Baráttukveðjur
Örninn
Örn Ingólfsson, 10.8.2007 kl. 08:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.