29.7.2007 | 00:52
ÞÓRUNN OG ÖSSUR, YKKAR TÍMI ER KOMINN EÐA HVAÐ?
Það hefur legið ljóst fyrir síðustu misserin hvernig menn hafa farið á ráði sínu í framkvæmdagleðinni á ýmsum stöðum við virkjanir. Öll kurl eru ekki komin til grafar í Múlavirkjun ef marka má frásögn vinar míns í kvöld sem segir frá mikilli röskun á jarðvegi í Hraunsfjarðarvatni, sem liggur þétt norðan að Baulárvallavatni. Allar götur þaðan norður i Hraunsfjörð blasa við ljótar efnistökunámur og má segja að nú sé allt svæðið frá Straumfjarðará norður í Hraunsfjörð orðið að sorglegu minnismerki um þá framkvæmdagleði á þessu svæði sem hefur skaðað ásýnd þess og orðstír Snæfellinga.
Engu virðist hafa skipt þótt margtuggið hafi verið í fréttum um þessi spjöll öll og er skemmst að minnast algerlega óþarfra spjalla við mynni litfegursta gils á öllu Suðvesturlandi, en það eru Sogin við Trölladyngju.
Um það var fjallað í fréttum Sjónvarpsins með ítarlegri myndvinnslu án þess að það virtist hafa nokkur áhrif.
Afspyrnu vond vegagerð á fráleitu vegastæði og sögun stóreflis borplans inn í græna hlíð við mynni þessa stórkostlega gils kom hvorki á borð Skipulagsstofnunar né Umhverfisráðuneytisins heldur var þetta gert í krafti rannsóknaleyfis.
Það er fyrir löng kominn tími til að nýjir umhverfis- og iðnaðarráðherrar láti til sín taka í að breyta þeim lögum, sem gefa færi á svona framkvæmdum.
Jóhanna Sigurðardóttir segir þessa dagana: Minn tími er kominn!
Hvað um ykkur, Þórunn og Össurar? Er ykkar tími ekki kominn?
Ráðherra leggur til að stjórnsýsla lítilla virkjana verði tekin til endurskoðunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Heyr heyr
Ganga enn lengra, allar framkvæmdir skv. 2. viðauka í umhverfismat.
kveðja
namretaw, 29.7.2007 kl. 01:05
Ég hef aldrei áttað mig á afstöðu þinni og annarra "náttúruverndarsinna" til Skipulagsstofnunar. Ertu almennt hlynntur Skipulagsstofnun eða villtu hafa Skipulagsstofnun þegar úrskurðurinn er þér hagstæður en dómstól götunnar annars?
Kveðja, Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 11:24
Hvað borgaðirðu björgunarsveitinni frá Reyðarfirði fyrir að bjarga bílhræinu þínu úr Hálslóni?
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.8.2007 kl. 01:23
Þegar Landsvirkjun ákvað að kaupa eintak af myndinni "Örkin" sagði forstjórinn að fyrra bragði að fyrirtækið myndi veita mér aðstöðu og aðstoð ef með þyrfti, til dæmis við að koma bílnum burtu og gista í vinnubúðunum á Kárahnjúkum.
Ég hef reynt að sjá um mig sjálfur á svæðinu allan tímann og aðeins gist í eina nótt í vinnubúðunum af þeim tugum nátta sem ég hef dvalið þarna.
Fyrir viku þegar starfsmenn Landsvirkjunar voru á ferð á gúmmíbáti á lóninu til eftirlits með stíflunum kipptu þeir í Örkina smáspöl upp við lendingu eftir að drepist hafði á vélinni hjá mér.
Þórhallur Árnason, sem málið heyrir undir, sagði mér s. l. laugardag að vegna sumarleyfa og mannfæðar gætu starfsmenn Landsvirkjunar ekki farið í astoðarleiðangur við að taka bílinn en kvaðst myndu hafa samband við aðra varðandi hugsanlega aðstoð.
Úr varð að björgunarsveitin Ársól á Reyðarfirði kom á vettvang. Það er ófrágengið um eftirmála þess því ég hef verið á ferðalagi á hálendinu síðan.
Gerð svona heimildarmyndar kostar heilmikla peninga og þessi óhjákvæmilegi leiðangur einnig, þar með talin drengileg og aðstoð góðra björgunarsveitarmanna á sunnudag.
Ég ætlaði mér upphaflega að sækja bílinn á snjó og hjarni á útmánuðum en snjóleysi kom í veg fyrir það.
Eftir að það mistókst var ætlun mín að hörfa með bílinn undan hækkandi lóninu inni í lónstæðinu og skilja hann að lokum eftir í haust í 624,7 metra hæð, þ. e. á 30 sentimetra dýpi fyrir neðan lónbakkann.
Með því átti að verða tryggt að hjól þessa bíls snertu aldrei jörð á hinum friðlýsta svæði í Kringilsárrana.
Í tengslum við kærumál vegna bílsins var mér gefið í skyn að ég mætti eiga von á frekari kærumálum ef ég fjarlægði hann ekki í sumar og því bauðst ég til að fá minni þyrlu Landhelgisgæslunnar til að gera það þótt bíllinn væri verðlaus eftir að hann var grýttur og sparkað í hann allan af óþekktum mönnum í fyrravor.
Ég hafði sambandi við Gæsluna og þetta átti að vera hægt.
Tvö slys komu í veg fyrir að þyrlan tæki bílinn, - í óvæntri og miklu hraðari hækkun Hálslóns en séð var fyrir var bíllinn sokkinn til hálfs þegar ég kom að honum til að hörfa frekar með hann og þarna megin í lóninu er ekki hægt að koma neinum tækjum við á landi.
Ótrúleg tilviljun réði því að þyrlan, sem boðin var til að bjarga honum sökk þann sama dag. Þar með var þyrlubjörgunarhugmyndin dauð.
Ef ég hefði skilið bílinn þarna eftir hefði hann orðið á þurru næsta vor fyrir ofan vatnsbakka lækkaðs lóns og þá hefði verið auðvelt að fara að honum og umlykja hann belgjum og fleyta yfir lónið án þess að þurfa aðstoð , en hætt er við að ísrek hefði getað eyðilagt hann endanlega og að kærumál héldu áfram vegna þeirra umhverfisspjalla sem þessi aðskotahlutur í lóninu teldist vera.
Þessi bíll, sem ég hef gefið nafnið Rósu, á það sameiginlegt með Kristínu, bílnum sem var sprelllifandi í sögu Stephen King, að hvorki misþyrmingar né drekking virðist geta komið honum fyrir kattarnef.
Hann var gangfær þrátt fyrir árásina á hann í fyrravor og nú má allt eins búast við að eftir lífgunartilraunir færist aftur líf í Rósu.
Munurinn á Rósu og Kristínu er sá að Rósa er ljúf og meinlaus og góður andi sem fylgir henni, - en Kristín var haldinn illum anda.
Ómar Ragnarsson, 1.8.2007 kl. 04:35
Gott svar Ómar. Ég fordæmi það ofbeldi sem Rósa litla hefur orðið fyrir og skil ekki hvað vakir fyrir ofbeldismönnunum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 2.8.2007 kl. 13:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.