EITT HINNA 20 "STRÖNGU" SKILYRÐA.

Siv Friðleifsdóttir þáverandi umhverfisráðherra gerði mikið með hin tuttugu "ströngu" skilyrði, sem hún gerði fyrir Kárahnjúkavirkjun, þ. m. t. skilyrði um vatnsheld göng. Eitt skilyrðanna var brandari, krafa um að fyrirtækið ylli sem minnstu raski í þeirri þriggja metra fjarlægð sem berggangur í Valþjófssstaðafjalli væri frá framkvæmdasvæðinu.

Þetta var byggt á prentvillu, - gangurinn er í þriggja kílómetra fjarlægð! Hin "ströngu" skilyrði kostuðu Landsvirkjun líklega ekki nema um eitt prósent af kostnaði við virkjunina.

Sett var sem skilyrði að grunnvatnsstöðu yrði ekki raskað "marktækt" með gangagerðinni. Orðið "marktækt" er að sjálfsögðu matsatriði og miklu meira vatnsrennsli í göngunum en búist var við olli víst kannski ekki svo "marktækum" breytingum á grunnvatnsstöðu að hægt verði að hanka Landsvrikjun á því. 

Nú notar Landsvirkjun þetta vatnsrennsli á lokasprettinum til að fylla hluta ganganna og flýta fyrir verkinu.

Sú aðgerð er svosem ekkert meira á skjön við skilyrðið en vatnsrennslið hefur verið allan þann tíma sem göngin hafa verið boruð.

Hafi fyrirtækið brotið gegn þessu skilyrði er vatnsfylling ganganna aðeins endahnúturinn á því, - hið meinta ólöglega vatnsrennsli er beislað í lokin.  

Ég hef undanfarin misseri fylgst eins vel með vatnsstöðunni í vatnakerfinu á yfirborði þess hluta Fljótsdalsheiðar sem göngin liggja undir og sé ekki svo "marktæka" breytingu á tjörnum og lækjum að hægt sé að hengja Landsvirkjun fyrir það að svo komnu máli þótt brotið sé gegn hinu "stranga" skilyrði um vatnsheld göng sem vatn úr jarðlögum renni hvorki út úr né inn í.

Landsvirkjun hefur áratuga reynslu af því að fara eins létt framhjá "ströngum" skilyrðum og loforðum og hún kemst upp með og nýta sér umdeilanleg ákvæði sem hægt er að túlka og teygja út og suður. 

Fyrir nokkrum árum var gefin út fróðleg bók um Blönduvirkjun þar sem þetta kemur átakanlega fram. En slíkar upplýsingar og bókin sjálf vöktu enga athygli.

Þetta koma of seint fram, og því er skákað í því skjólinu að eftir á leggi menn ekki í að rukka fyrirtækið um efndir loforða og uppfyllingu skilyrða.

Fyrirtækið hafði lag á að setja landeigendur og bændur sem hagsmuna áttu að gæta vegna Blönduvirkjunar í vont ljós og láta þá líta út sem algera eiginhagsmunaseggi.

Þannig var þeirri sögu dreift sem víðast að smalakofarnir sem virkjunin lét reisa fyrir bændurna væru þvílíkar hallir að sérherbergi væri fyrir hvern smalahund!

Jafnvel þótt smalakofarnir hefðu verið hallir hefði kostnaðurinn við þá aðeins numið örlitlu broti af virkjunarkostnaði.

En aðferðin svínvirkar og á að virka núna þegar landeigendum á virkjanasvæðinu í Neðri-Þjórsá er boðið GSM-samband og lagfæring á veginum að hinum horfna Urriðafossi.

Þar eystra segja menn að Landsvirkjun hafi beitt sér fyrir því gagnvart Vegagerðinni og Símanum að láta þessar framkvæmdir eiga sig.

Er það tilviljun að vegurinn að Urriðafossi er með þeim lökustu sem finnast á Suðurlandi?

Ofangreint er ekki hugsað sem sérstakt níð um Landsvirkjun. Hjá því fyrirtæki vinnur fjölmargt gott fólk sem er aðeins að framkvæma það sem stjórnvöld hafa ákveðið og reynir að gera það eftir bestu getu.

En við eigum öll Landsvirkjun og hljótum að hafa rétt til að vera ósammála ýmsu sem fyrirtækið gerir og vilja að öðruvísi sé staðið að málum á ýmsa lund. Vinur er sá er til vamms segir.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Ólafsson

Sæll Ómar,

þetta er ágætis grein hjá þér og ljótt, ef satt er, að Landsvirkjun stuðli að töfum á úrbótum í vega- og GSM-málum. Ekki get ég dæmt um hvort eitthvað er til í því og væri fróðlegt að fá einhverjar staðfestar heimildir fyrir þessu, því hér væri þá á ferðinni reginhneyksli.

Eitt verð ég þó að gera athugasemd við hjá þér, en það er að það er engin tilviljun að vegurinn meðfram Þjórsánni hjá Urriðafossi er með þeim lökustu á Suðurlandi, því hann hefur alltaf verið svona, svo lengi sem ég man eftir. Keyrði þarna um daginn en þá var vegurinn bara ágætur af svona óuppbyggðum sveitavegi að vera. Ég held að Landsvirkjun hafi ekkert haft með þetta að segja, fram að þessu alla vega.

Veit svo sem ekki hvort þessi vegspotti ætti að fá einhverja andlitslyftingu akkúrat núna, óháð virkjunarpælingum, nema ef vera kynni að hann ætti eftir að þjóna hlutverki margrædds Suðurstrandarvegar. Það er augljóst að einhverjar áætlanir eru í gangi í vegamálum þarna í nágrenninu því verið er að byggja upp veginn austan Stokkseyrar  og hluta Gaulverjabæjarvegar. Svo skilst mér að til standi að byggja upp Hamarsveginn. Spurningin er væntanlega hvar Suðurstrandarvegur á að liggja og hlýtur framtíð vegarins við Urriðafoss að ráðast að nokkru af svarinu við þeirri spurningu. Ég veit að sumir bændur í Pörtunum hafa nokkrar áhyggjur af hvar væntanlegt vegstæði verður.

Mér finnst satt að segja betra að hugsa til þess að spottinn upp með ánni við Urriðafoss fái að halda sér eins og hann er, frekar en að hann verði upphækkaður og breikkaður, því óneitanlega yrðu all nokkur umhverfisspjöll af slíkum vegi á þessum fallega stað.

Karl Ólafsson, 3.8.2007 kl. 16:40

2 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Aftur á móti er gert ráð fyrir hærri grunnvatnsstöðu allt að 500 metrum frá Lagarfljóti og hún verði miklu hærri við Hálslón.  Svo er spurning hvort vatnsþrýstingurinn glenni sprungur í sundur undir lóninu.

Pétur Þorleifsson , 3.8.2007 kl. 16:55

3 identicon

Hvað er þessi umræddi vegaspotti að Urriðafossi langur,  þessi versti spotti undirlendisins.......???

Ágúst Jónatansson (IP-tala skráð) 3.8.2007 kl. 21:14

4 Smámynd: Karl Ólafsson

Ágút, ég hef ekki lengdina á vegspottanum á hreinu, en ætli hann sé ekki svona ca. 4-7 km frá þjóðvegi 1 (rétt vestan við Þjórsárbrú) og niður að Villingaholti (Þjórsárveri nánar tiltekið). Urriðafoss er örstutt neðan við Þjóðveg eitt, ég giska á ca. einn km, en ég er ekki mikill nákvæmnismaður í fjarlægðum.

Karl Ólafsson, 4.8.2007 kl. 00:51

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ja, hver skollinn. Ég sem hélt að Suðurstrandarvegur ætti að liggja á milli Þorlákshafnar og Grindavíkur en samkvæmt þessu á hann semsagt að vera í Flóanum.

Sæmundur Bjarnason, 4.8.2007 kl. 05:34

6 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Ómar! Þegar þú og þínir sálufélagar eru búnir að ganga frá orkumálum og atvinnuvegum

dauðum hér á landi, ætlar þú þá að baka lifibrauðið úr þeim úgangi sem útlendir túrhestar,

sem ekki geta borgað fyrir hreinlætisaðstöðu á hálendisvegum landsins, skilja eftir sig.

Leifur Þorsteinsson, 4.8.2007 kl. 10:29

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Þar eystra segja menn að Landsvirkjun hafi beitt sér fyrir því gagnvart Vegagerðinni og Símanum að láta þessar framkvæmdir eiga sig".

"Ofangreint er ekki hugsað sem sérstakt níð um Landsvirkjun". 

Þessi pistill þinn Ómar er náttúrulega lyginni líkiastur og tilvitnunin hér að ofan er í sjálfur sér tilefni til málshöfðunar vegna meiðyrða. Ég á þó ekki von á því að Landsvirkjun fari að elta ólar við þig með þetta, þetta er á of lágu plani til þess.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.8.2007 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband