VERSLUNARMANNAHELGIN AÐ BREYTAST.

Það stefnir í að það verði úrelt að vera með fréttamenn í beinum útsendingum fyrir og um verslunarmannahelgina. Síðastliðinn föstudag var ekkert meiri umferð út frá Reykjavík en um venjulega helgi. Verslunarmannahelgin er að ganga í gegnum breytingaskeið breyttra tíma og það á sér hliðstæður.

Um miðja síðustu öld blómstruðu héraðsmót stærstu stjórnmálaflokkanna. Síðan kom breyttur tími og Sumargleðin ríkti frá 1972-86.

Enn breyttust tímar, samgöngur bötnuðu, úrval af myndefni til heimanota jókst og fólk lagðist í utanlandsferðir.

Frá því um 1960 hefur verslunarmannahelgin borið ægishjálm yfir aðrar sumarhelgar en tímarnir breytast enn, æ fleiri fara í sumarhús um hverja helgi, fólk hefur fleiri tækifæri til að fara í helgarferðir en áður var.

Ýmis bæjarfélög hafa skynjað þessar breytingar með því að brydda upp á hátíðum aðrar helgar sumarsins, Humarhátíð, Fiskidaga, Írska daga o. s. frv.

Verslunarmannahelgin er hálfum mánuði eftir að sumarhitinn nær hámarki og oftar bjóða helgarnar á undan upp á betra veður. Það er því hið besta mál að þær eflist og verði jafnokar verslunarmannahelgarinnar.

Verslunarmannahelgin hefur verið gósentíð íslenskra fjölmiðla í heila viku á hverju sumri undanfarin ár en nú held ég að fjölmiðlarnir verði að fara að endurskoða hlutföllin á milli umfjöllunar þeirra um þessa helgi og annarra helga sumarsins.  

Útihátíðir í gamla stílnum hafa hopað, - sú var tíðinn að 10 þúsund manns voru í Húsafellsskógi, Atlavík og í Galtalækjarskógi.

Galtalækjarhátíðin þraukaði, - fyrsta embættisverk núverandi forseta Íslands var að koma þangað 1996 en síðan eru ellefu ár breytina á högum fólks.  

Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum er sennilega eina hátíðin sem ekki mun hverfa, - hún er byggð á 130 ára hefð og ef hátíðargestum fækkar niður í það sem var fyrir 50 árum er það bara í góðu lagi, - þá verða það fyrst og fremst Vestmannaeyingar sjálfir sem verða í Herjólsdal og hátíðin komin í gamla klassíska Eyjahorfið.

Þannig fannst mér hún alltaf best og sönnust.

Og meðal annarra orða: Ef Árni Johnsen gerði eitthvað af sér sem kynnir árið 2005 sem átti að vera ástæða til að víkja honum til hliðar, - af hverju var það ekki gert í fyrra, heldur fyrst nú?

Mér finnst ég finna lykt af málinu og furða mig á þessu.

Í hitteðfyrra fauk þessi vísa hjá mér í orðastað Árna eftir að hönd hans hafði snert Hreim söngvara:

Mitt fylgi er feikna sterkt.

Ég er frægur víða um lönd

og get ekki að því gert

þótt menn gangi mér á hönd.

 


mbl.is Margmenni á heimsmeistaramóti í traktorsralli á Flúðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Gildi verslunarmannahelgarinnar er svo sannarlega að breytast. Fór út á land á föstudeginum sem átti að vera háannartími en það var engin umferð.

Var Árni ekki í fangelsi í fyrra? Eða var það árið þar áður eða er Árni bara í heild sinni gamlar fréttir sem við viljum helst gleyma. 

Halla Rut , 5.8.2007 kl. 01:53

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Ó Ómar þú ert milljón, brilljant vísa .

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 5.8.2007 kl. 02:04

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Árna er afar laus hönd

er bresta af honum öll bönd

Á kjaftinn gefur,

sá gamli refur,

svo enginn fær reist við rönd.

Theódór Norðkvist, 5.8.2007 kl. 02:47

4 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þjóðhátíðarnefnd treysti sér ekki til að bera ábyrgð á Árna Johnsen. Þar fara væntanlega menn og konur sem þekkja hann og framgöngu hans af langri reynslu. En skyldi einhver vilja bera ábyrgð á honum á Alþingi?

Sigurður Hrellir, 5.8.2007 kl. 11:16

5 Smámynd: Brynjar Hólm Bjarnason

Gott mál að verslunarmannahelgin breytist. Slæmt mál að allar aðrar helgar breytist í standandi fylleríshelgar.

Það er orðið umhugsunarefni hvað við þurfum mikið að láta skemmta okkur með alslaks hátíðum og hvað við finnum litla ánægju bara í því að ferðast og skoða okkar frábæra land án þess að þurfa að vera ofurölvi einhverstaðar í þéttbýli.

Ég hef ekkert á móti víni og víndrykkju. Það er bara þetta skeytingaleysi sem tröllríður orðið öllu og öllum þegar vín er við hönd, hvort sem það er hér í höfuðborginni eða úti á landi.

Brynjar Hólm Bjarnason, 5.8.2007 kl. 11:46

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Verslunarmannahelgin er hálfum mánuði eftir að sumarhitinn nær hámarki og oftar bjóða helgarnar á undan upp á betra veður.

Hvað hefurðu fyrir þér staðreyndalega og tölfræðilega í þessari fullyrðingu Ómar? Föstudagur verlsunarmannahelginnar getur fyrst orðið 29. júlí en frídagur verslunnarmanna síðast orðið 7. ágúst. Meðaltal sólarhringshita í Reykjavík er hæst og hefur sömu tölu alveg frá 21. júlí til 7. ágúst. Það er hlýjasti tími ársins þar á bæ. Og líkt þessu mun hitafarið vera víða en þó kannski aðeins seinna á sumrinu út við sjó á norður og austurlandi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.8.2007 kl. 10:40

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Föstudagur verslunarmannahelgarinnar á nú að standa þarna!

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.8.2007 kl. 10:42

8 Smámynd: Grétar Örvarsson

Skemmtilegar vangaveltur um verslunarmannahelgina. Ég er þér sammála Ómar, þjóðhátíð eyjamann mun standa þetta breytingaskeið af sér og vona að Hreimur hafi ekki látið Árna slá sig út af laginu þessa helgina. . .

Grétar Örvarsson, 7.8.2007 kl. 23:52

9 identicon

Ómar minn. 

Þjóðhátíðarnefndin skipti Árna út á Þjóðhátíð Vestmannaeyja 2006, strax á föstudagskveldi, og var hann kvaddur öðruvísi en með sjómannasið sem sjálfsagt hefði látið hlakka í mörgum. 

Árni hefur sungið brekkusöng FRÍTT fyrir Eyjamenn í áraraðir og nú alla landsmenn og verið kynnir einnig á sömu kjörum.  Veit ekki alveg hvort þú myndir vera til í það Ómar, en eitt er víst að Þjóðhátíðarnefnd vill þakka fyrir sig og kveðja með sæmd. 

Hinsvegar gerðust atburðir sem ekki var hægt að verja og niðurstaðan er sú að öðrum manni hefur verið falið að sjá um framvindu dagskrár Þjóðhátíðar, enda um mikið álags og ábyrgðarverkefni að ræða.  Árni syngur enn brekkusöng og ég geri ráð fyrir því að það skaði engann og allir sofi þokkalega rólegir yfir því að Árni spili og syngi enn þrátt fyrir allt.

Jón Óskar Þórhallsson (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband