6.8.2007 | 23:50
ELLERT OG ÓSKOÐUÐU NÁTTURUPERLURNAR.
Í blaðagrein lýsir Ellert Schram kynnum sínum af Urriðafossi og vill koma honum til varnar. Mikið vildi ég óska að þessi drenglundaði og góði maður skoðaði líka Gljúfurleitarfoss, Dynk og stóru fossana sem verða þurrkaðir upp þegar Jökulsá í Fljótsdal verður beisluð. Að ég ekki tali um svæðið við Leirhnjúk og Gjástykki sem og mörg fleiri fyrirhuguð virkjanasvæði.
Grein Ellerts lýsir í hnotskurn hvernig þekking á því hvaða náttúruverðmætum á að fórna fyrir smánarfé hefur áhrif á mat fólks.
Þess vegna hefur það verið og verður helsta keppikefli hinna virkjanafíknu stóriðjusinna að koma með öllum ráðum í veg fyrir að fólki séu kynntir allir málavextir áður en vaðið er áfram á svipaðan hátt og verið hefur.
Því miður er þegar búið að ræna Dynk, magnaðasta stórfoss Íslands 40 prósentum af vatnsmagni sínu. Og samt hygg ég að Ellert myndi nota stærri lýsingarorð um hann en Urriðafoss ef hann kæmist að honum og nyti afls hans og fegurðar.
Áfram Ellert! Það var gott að fá þig á þing.
Athugasemdir
Heill og sæll, Ómar !
Fagnaðu ekki of snemma, þótt Ellert sé kominn á þing; fyrir kratana. Ekki heyrst múkk í pilti, vegna heimskulegrar ''ráðgjafar'' Jóhanns frænda míns Sigurjónssonar; forstjóra Hafrannsóknastofnunar Íslands, hvað þá niðurstöðu Einars Kr. Guðfinnssonar; hvað varðar fiskveiðikvótann 2007 - 2008.
En........... Ómar, líklega er þetta bara í góðu lagi, er það ekki ?
Hyskið úti á landsbyggðinni má éta það sem úti frýs, meðan þið Reykvíkingar baðið ykkur í ''menningarsól'' suður við Faxaflóa. Vonandi, að glæsileiki stórborgarlífsins þverri ekki. Annars,...................... eruð þið svo sem velkomin út á land, til búsetu; þegar þið áttið ykkur á, á hverju venjulegt fólk lifir; frá degi til dags, af einskærum hetjuskap, í þessu spillingardíki; og foraði, sem Ísland, því miður er að verða, með hverju árinu sem líður.
Vona, að þú getir; að endingu svarað því, hverjir eiga að njóta óspilltrar náttúru, þegar einkavæðingarplágan hefir lagt allt mannlíf á landsbyggðinni, í rústir ?
Með sæmilegum kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 00:08
Heyr heyr Ómar. Vonandi veit þetta á gott
Ása Hildur Guðjónsdóttir, 7.8.2007 kl. 11:57
"Að ég ekki tali um svæðið við Leirhnjúk og Gjástykki sem og mörg fleiri fyrirhuguð virkjanasvæði". Má ekki hreifa við þessum svæðum Ómar? Hves vegna?
"Þess vegna hefur það verið og verður helsta keppikefli hinna virkjanafíknu stóriðjusinna að koma með öllum ráðum í veg fyrir að fólki séu kynntir allir málavextir áður en vaðið er áfram á svipaðan hátt og verið hefur". Svona málflutningur er mikill ljóður á ráði þínu Ómar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2007 kl. 01:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.