9.8.2007 | 17:13
LEGGUR OG SKEL.
Sú var tíðin að íslensk börn í sveitum landsins léku sér að leggjum og skeljum og beisluðu hugmyndaflug sitt til þess að búa til óskaveröld sína með viðfangsefnum fullorðinsáranna. Þegar ég fór fyrst í sveit barn að aldri kynntist ég því hvernig sveitabörnin notuðu kindakjálka sem ímyndaðan búfénað í leikjum sem gátu enst heilu dagana.
Þessir leikir voru í raun þjálfun og undirbúningur fyrir lífið og höfðu tvennt fram yfir kennslu í formi ítroðslu: Leikirnir voru sjálfsprottnir og virkjuðu og þroskuðu það ímyndunarafl sem er nauðsynlegt fyrir hæfileikann til að hafa frumkvæði og finna upp hluti. Af því að þetta voru leikir voru þeir skemmtilegir jafnframt því sem þeir voru þroskandi og uppbyggilegir.
Smám saman vaknaði hjá mér áhugi á að verða bóndi þegar ég yrði stór og einhver yndislegasti tími sem ég hef lifað var í júníbyrjun 1954 þegar ég fékk í fyrsta sinn að sjá um búrekstur í fjarveru frænda míns á bænum en þó undir yfirumsjón roskinnar frænku minnar.
Það var erfitt en skemmtilegt, heilnæmt og gefandi.
Af hverju er ég að minnast á þetta nú?
Vegna þess að enda þótt gemsa- og tölvuveröld nútímans sé okkur svo ómissandi að við eigum erfitt með að hugsa okkur lífið án þerra, eru takmörk fyrir því hve langt við getum gengið í því að gera þessa tækni að ofurvaldi í lífi okkar.
Í gær hitti ég mann sem er atvinnurekandi og sagði mér frá því að það væru ótrúlega mörg dæmi um það að rígfullorðnir menn væru orðnir slíkir tölvuleikjafíklar að þeir kæmu úrvinda til vinnu eftir vökunætur við tölvurnar og þyrftu helgina til að reyna að jafna sig.
Ef þeir síðan "dyttu í það" um helgina kæmu þeir jafnvel ekki til vinnu á mánudagsmorgni.
Fyrst fullorðið fólk á það á hættu að ánetjast svona tölvum er augljóst að börn og unglingar eru í enn meiri hættu.
Tvennt sem ég tók eftir í fjölmiðlum síðustu daga vekur athygli mína.
Annars vegar það að nú þarf ungt fólk að takast á hendur tíu milljón króna meiri skuldbindingar við að fara út í íbúðakaup heldur en fyrir þremur árum.
Hitt var það að þeim börnum fer fjölgandi, sem koma í vinsælar sumarbúðir í fyrsta sinn, að þau hvorki geta né kunna að leika sér.
Við getum tengt þetta saman. Hvað þarf ungt fólk að gera til þess að standast þá almennu kröfu að eignast hús og innbú, bíla og hverskyns tæki, hjólhýsi, húsbíla, tjaldvagna og sumarbústaði og stunda jafnframt það samkvæmislíf, sem Emilíana Torrini kallaði "skyldudjamm", um hverja helgi?
Þetta fólk þarf að vinna eins og skepnur og neyðist til að vanrækja uppeldi og samvistir við börn sín.
Þá er mjög þægilegt að gera tölvurnar og netið að barnfóstrum.
Ég orða þetta svo í einni setningunni í nýjum texta sem ekki hefur enn verið fluttur opinberlega: "Pabbi og mamma púla og djamma..."
Margir tölvuleikir reyna sem betur fer á hæfni þátttakenda til að leysa viðfangsefni. En margir byggjast á ofbeldi í brengluðu umhverfi.
Nú kunna einhverjir að benda á að ofbeldis- og hernaðarleikir séu ekkert nýtt.
Við strákarnir skylmuðumst og þóttumst vera Gunnar á Hlíðarenda eða Skarphéðinn Njálssson hér í gamla daga í sveitinni. En við urðum aldrei háðir þessum leikjum.
Þeir efldu hreyfingar okkar og stæltu okkur, og ef eitthvað fór úrskeiðis fundum við fyrir sársaukanum í stað þess að vera tilfinningalausir áhorfendur að tölvuleik dauða og örkumla.
Tilfinningaleysið í gerviveröld tölvunnar getur skapað ískyggilega firringu.
Og þegar börn nútímans eru orðin svo háð gemsunum, netinu og tölvuleikjunum að þau "brjálast", eins og það var orðað í blaði í gær, við það eitt að vera án þessa í part úr degi, þá getur það ekki verið eðlilegt.
Netið, tölvurnar og gemsarnir eru miklu betri uppfinningar en svo að við eigum að sætta okkur við það að þau verði að plágu sem kemur lífi okkar úr jafnvægi.
Athugasemdir
Heill og sæll, Ómar !
Stórkostlegur þáttur, hjá þér. Hittir beint í mark.
Þegar við strákarnir;á Stokkseyri,og Eyrarbakka iðkuðum tunnupramma útgerð og skylmingar, sem og grjót- og moldarkögglakast, þá voru ekki þessar hjarðir alls konar ''fræðinga'' með sín boð og bönn, sem nú tíðkast; í allt of vaxandi mæli.
Þjóðfélagið var tiltölulega heilbrigt; engar kvaðir með flott og rándýr sjónvörp, á veggjum uppi - 6 - 10 milljóna jeppar ekki tiltækir og óþarfa flakk, til útlanda; á a.m.k. 2 - 4 mánaða fresti þekktust ekki, meðal almennings.
Það er þetta gamla góða Ísland, sem ég sakna mest, í dag. Ekki að furða, þótt brenglunin sé slík, sem raun ber vitni; eins og þú kemur inn á, hér að ofan; réttilega.
Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 20:38
Veistu það Ómar ég er sammála þér,
Þjóðin virðist að mörgu leyti týnd, og hef ég týnt mér oft á þessari stuttu lífsleið.
Það sem ég held að sé í gangi með internet og tölvur og peninga er að þetta er ennþá á unglingsárunum. Vita mér eldri menn klárlega að strákapör og tilgangur lífsins skýrist með árunum, en þetta er held ég allt saman partur af eðlilegri þróun, sem þó hinsvegar leggur töluvert meiri byrði á herðar hinum yngri í uppvexti.
Ég heyrði þessari setningu fleygt fram um daginn...
"Ég meina við búum í sjávarþorpi, og þegar reykjavíkurflugvöllur allt í einu er orðinn að bílastæði fyrir einkaþotur er ekki skrítið að fólk týni sér"
Margt af þessu er auðvitað firra að mörgu leyti. Á stuttum tíma hafa viðmið fyrir það að vera "ríkur" stokkið úr því að eiga 2 bíla hús, sumarbústað og geta keypt nóg í matinn , plús utanlandaferðir yfir í það að eiga 2 sumarhús, alla með bílum, maturinn er bara þarna og utanlandaferðir koma bara til þegar það er eitthvað nógu spennandi að gerast. . . og hvert er þá farið. . . í verslunarferðir til NY eða London.
Ég held hinsvegar að tölvuleikirnir séu ekki vandamál. Skoðum söguna, það hefur alltaf verið eitthvað sem nýtir veikleika mannsins við það að "missa sig" í eitthvað ákveðið, þessi svokölluðu "-istar".
Hvort sem það er vinna eða tölvuleikir áfengi eða kynlíf, þá held ég að hvöt mannsins sé sú sama í grunninn. Það hinsvegar má eflaust deila um af hverju, en ég myndi halda að fíkn, fyrir hvað sem það er, sé frekar afleiðing frekar en nokkurn tíman orsök.
(ekki koma með hvort kom á undan hænan eða eggið, af því þau eru bæði komin nú þegar og þau eru ekki að fara, svo það þýðir ekkert að segja ef þetta hefði ekki komið, þetta er bara svona)
ég held að þetta tengist miklu frekar tilgangi og hlutverki í lífinu. Ef vinnan er ekki gefandi fyrir einstakling er hann mun líklegri til þess leita út fyrir vinnuna og því er líklegt að það muni einstaka sinnum koma niður á öðrum hlutum sem eru minna mikilvægir.
Ég held að það sé best að lýsa þessu með orðunum. "Ísland er lítið land með stórt egó" - yfirfærum þetta svo í þinn búning. . . "Einstaklingurinn er lítill en með stórt veski"
en ég held að við eigum ekki að vera að hafa áhyggjur af því að aðrir séu að týna sér. Það er mun áhrifaríkara að lifa sínu lífi þannig að þú sért hamingjusamur af því að það er ekkert sem aðrir geta gefið þér nema þú getir gefið þér það sjálfur.
Einstaklingurinn er frjáls, og við verðum að hafa trú á honum til þess að taka sínar eigin ákvarðanir sjálfur. Það sem aðrir gera breyta því ekki hver þú ert.
Leo Pi., 10.8.2007 kl. 00:45
Þegar maðurinn er langt kominn með það að drukkna í flóði fjölbreytileikans þá eru góð ráð dýr og aftur verður til leitun að einfaldleika á ný.
Við þurfum að kenna börnum að velja á milli þessa eða hins, þ.e aðeins tvo valkosti það kennir fyrir lífstíð.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 10.8.2007 kl. 02:09
Guðrún María. Getum við einhverntíman kennt börnunum að aðhyllast önnur lífsgildi en við sjálf höfum sett miðið á?
Við þurfum að eignast allt em er í boði. Við þurfum að eignast það strax. Við viljum helst ekki þurfa að hafa neitt fyrir því.
Viljum við fara aftur inn í moldarkofana; viljum við tína fjallagrös og hundasúrur til að draga fram lífið?
Hver hefur ekki heyrt eða lesið svona speki frá málsmetandi fólki?
Árni Gunnarsson, 10.8.2007 kl. 14:19
Sammála þessu með börn nútímans. Allt of mörg kunna ekki að leika sér og hvað þá heldur að taka sjálfstæða ákvörðun hvernig þau eigi að hafa ofan af fyrir sér! Kannast ekki flestir við spurninguna "hvað á ég að gera núna?" ? Ég er nú ekkert gasalega gömul en þegar ég og mínir jafnaldrar vorum krakkar var flestum stundum varið í hina og þessa útileiki. Það var barnaefni einu sinni í viku í sjónvarpinu, ekkert sjónvarp á fimmtudögum, ekkert sjónvarp í heilan mánuð yfir sumartímann, engir gemsar og tölvuleikir ... ég bara spyr: Hvernig komumst við öll tiltölulega ósködduð frá þessu? ;-)
Birna (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 16:10
Það er stutt öfganna á milli og enginn er að tala um moldarkofana aftur. Hitt er ljóst að ekki stoðar að vera í afneitun gagnvart taumlausri tölvunotkun barna og unginga. Þetta er mikill tímaþjófur og hamlar útivist og hreyfingu. Ábyrgðin er foreldranna sem þurfa að setja börnunum tímamörk í sambandi við tölvusetur. Í Danmörku er því beint til foreldra að takmarka þessar setur við tvær klukkustundir á dag. Tölvufíkn er líka fyrir hendi hjá mörgum og ég hef sjálf séð barn með fráhvarfseinkenni vegna þess að það komst ekki í tölvu þegar það var í sumarfríi. Það var óhugnlegt. Þetta er umræðuefni sem þarft er að taka upp plús umræðuna um skortinn á því að foreldrar ali upp börn sín og kenni þeim almenna mannasiði.
Bryndís Júlíusdóttir (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 16:37
Þetta með öfga Bryndís. Því miður er samfélagsumræða hjá þessari þjóð ekki þroskaðri en svo að við sem leyfum okkur að benda á óhóf, græðgi og virðingarleysi fyrir gömlum gildum og verðmætamati fáum yfirleitt eitt svar:- Þú ert gamaldags, íhaldssamur, skilur ekki nútímann og góðærið sem er engu líkt. Þú vilt greinilega tína grös og skríða inn í moldarkofann.
Stundum er mér næst að halda að framfarirnar séu ofmetnar. Ég efast þá um að þau vandamál fátæktar og þekkingarleysis sem ég þekkti í æsku minni hafi verið verri þeim vandamálum sem ofneyslan og græðgin hafa skapað og sér síst fyrir endann á.
Ég tek svo sterkt til orða að búið sé að ræna blessuð börnin gleðinni sem ég og mín kynslóð þekkti. Þeirri gleði sem fylgdi því t.d. að eignast langþráð leikfang.
Og þetta er ekki bara samfélagslegt óhapp. Þetta er mikill glæpur.
Það er alþekkt að börnin verða ævinlega fyrstu fórnarlömb náttúruhörmunga og styrjalda. En jafnframt verða þau líka fórnarlömb velmegunarinnar.
"....Og allir vita að þessi maður er galinn......."
Árni Gunnarsson, 10.8.2007 kl. 17:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.