MÝVATN, - ÆTLUM VIÐ ALDREI AÐ LÆRA?

Það er ekki í fyrsta sinn nú að Mývatn kemur til álita á Heimsminjaskrá UNESCO. Þetta kom fyrst upp yfir tæpum áratug en þá skildist mér að tilvist Kísiliðjunnar hefði gert ómögulegt að setja þessa perlu á viðeigandi stað meðal dýrmætustu djásna heimsins. Ég man að ég ræddi við þáverandi sveitarstjóra og hann gat alls ekki skilið hvaða gildi gæti falist í því að vatnið kæmist á heimsminjaskrá heldur sá hann ekkert nema Kísiliðjuna og tilvist hennar.

Þegar ég benti honum á einn helsta ferðamannabækling Norðmanna þar sem bryggjuhúsin í Björgvin voru á forsíðu vegna þess að þau væru á heimsminjaskrá og gæfu Norðmönnum ímynd og velvild sem gæfi stórfelldar tekjurvirtist skilningsleysi hans aukast um allan helming.

Nú er Kísiliðjan horfin og hrunið, sem þessi sveitarstjóri sagði að myndi fylgja því að hún hætti starfsemi, hefur látið standa á sér.

Hins vegar hyggjast menn nú margfalda orkuöflun á svæðinu frá Bjarnarflagi norður í Gjástykki og gera þetta einstæða svæði að samfelldum skógi af borholum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum og háspennulínum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig Íslendingar munu reyna að fela þá staðreynd að með þessum virkjanaáformum er svo stórlega spillt landslagsheild sem Mývatn er órofa hluti af, að vafasamt er að Mývatn geti farið inn á hina dýrmætu skrá nú fremur en fyrir áratug.

Einnig að eyðilagðir verða möguleikar á að gera þetta fyrirhugaða virkjanasvæði að einstæðu ferðamannasvæði ekki síður en Öskju, - við Gjástykki hafa sérfræðingar um ferðir til Mars valið sér stað þar sem komandi marsfarar geti æft sig fyrir geimferðir sínar líkt og tunglfararnir gerðu í Öskju 1967.

Að ekki sé minnst á einstæða möguleika á að nýta sér kvikmyndir og ljósmyndir sem teknar voru af fjórtán gosum á svæðinu 1975-84 þannig að ferðamenn geti með hjálp þeirra gengið um svæðið og upplifað þessa mikilfenglegu atburði.

Líklegt er að það verði reynt að þegja framangreint í hel og að hver sá sem reynir að fjalla um þetta mál í stærra samhengi verði snarlega útnefndur "óvinur Norðausturlands númer eitt. "

Ég ætla nú samt að hjóla í þetta mál enda munar mig ekkert um að bæta svona nafnbót við nafnbótina "óvinur Austurlands númer eitt" frá árinu 1999, þegar sú nafnbót var veitt fyrir það eitt að fjallað var um Kárahnjúkavirkjun á þann hátt sem stóðst sérstaka rannsókn á því hvort ég hefði "misnotað aðstöðu mína með gróflega hlutdrægum hætti" eins og það var kallað.

Minnugur samtalsins við sveitarstjórann þarna um árið verður hugsanlega fyrr en varir tímabært að spyrja: Ætlum við aldrei að læra?


mbl.is Ný yfirlitsskrá um fyrirhugaðar tilnefningar á heimsminjaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er augljóst að ef þú fengir að ráða, þá yrði aldrei hróflað við neinu í náttúrunni á Íslandi.

 Ef mannvirkin í Björgvin eru á heimsmynjaskrá UNESCO, hvers vegna þá ekki einstök mannvirki á Íslandi, t.d. jarðvarmavirkjanir?  Vísindamenn koma allsstaðar að úr heiminum til þess að skoða Kröflu. þar er um einstaka frumkvöðlastarfsemi að ræða sem  vísindamenn fjölmennustu þjóða heims koma til þess að skoða (Bandaríkin, Kína, Japan, Þýskaland o.fl) Krafla, eins umdeild og hún var á sínum tíma, ekki vegna náttúruspjalla heldur vegna þess að glámskyggnir menn töldu þetta vera tóma vitleysu og að verkefnið vera sóun á almannafé. Í dag er virkjunin heimsfræg og í raun grundvöllur þekkingar okkar í dag á orkunýtingu úr iðrum jarðar og að margra mati mun útrás tækniþekkingar okkar á þessu sviði verða jafnvel enn meiri tekjulind fyrir íslensku þjóðina en bankaútrásin.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.8.2007 kl. 22:53

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Einhversstaðar minnir mig að Laxness tali um djöful hagvaxtarins og þá áráttu hans að ráðast helst á þá staði sem þjóðin hefur helgi á.

Ég er þeirrar skoðunar að Íslandi stafi ekki meiri ógn af öðru en Íslendingum.

"Og þá felldu margir tár." Þessi orð hef ég eftir mínum ágæta frænda Árna Waag, en þá var hann að lýsa fyrir mér ferð með hóp útlendinga um Norðurland. Ferðin endaði við Mývatn í skini miðnætursólar. Þetta var reyndar fyrir daga Kísilgúrverksmiðju. 

Árni Gunnarsson, 10.8.2007 kl. 23:49

3 Smámynd: Stefán Stefánsson

Ómar minn, hvað fær þig til að segja þessi orð að svæðið verði gert að samfelldum skógi af borholum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum og háspennulínum?
Þú lýtur að vita það að þetta eru  ósannindi.

Ég skil ekki hvernig stendur á því að málflutningurinn hjá þér byggist oft upp á fölsunum og ósannindum.
Mývetningar þekkja þetta ágætlega af gamalli reynslu þegar þú fjallaðir um upprekstrarmál á austurafrétti .

Væri ekki ódýrara fyrir þig að hugsa um náttúruperlurnar þarna í nágrenni þinnar heimabyggðar........ eða skipta þær engu máli í þínum huga eins og oft áður hefur komið fram.

Staðreyndin er sú að það á ekki að fara að eyðileggja þetta svæði hér þó að virkjað verði og málflutningurinn hjá þér kemur umhverfisvernd lítið við..... öfgarnar virðast ráða og þér virðist fyrirmunað að fjalla um málin af raunsæi.

Þú fyrirgefur mér Ómar minn......... en mér ofbýður bara þessi málflutningur þinn vegna þess að ég vil að menn hafi sannleikann að leiðarljósi þegar fjallað er um mál. 

Stefán Stefánsson, 11.8.2007 kl. 10:04

4 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Sæll Ómar! Ég virði viðhorf þín, en skoðanir þínar eins og þú setur þær fram eru yfirdrifnar og ekki vænlegar til samúðar né almenns fylgis. Núna má spyrja: Hvað verður um okkur og afkomendur okkar þegar Ísland, landið og miðin, verður komið á Heimsminjaskrána? Ég bý ekki yfir stóra sannleika um menn og málefni, en ég þekki nógu mikið til varðandi ferðaþjónustu almennt og hérlendis til þess að fullyrða að náttúran hvar sem er væri einskis virði ef enginn fengi notið hennar - nema ef til vill utan úr himingeimnum.

Herbert Guðmundsson, 11.8.2007 kl. 13:49

5 Smámynd: Stefán Sig.Stef

Ómar ég spyr þig ætlar þú sjálfur aldrei að læra,og hætta að fara með ósannindi og ómerkilegan málflutning hér á þinni bloggsíðu.Ég held að það sé orðið tímabært fyrir þig ofl fleiri að fara hugsa um þá ferðamenn sem þegar koma hingað og vaða hér um allt gangandi,hjólandi,bílandi og skoða síðan marga merka staði og skilja þar eftir sig rusl og síðan og ekki síst eins og kom fram í fréttum um daginn þá ganga þeir örna sinna út í guðsgrænni náttúrunni og fynnst það í lagi.Ég bið þig síðan bara um að hjóla bara í Hljómskálagarðinum og þar í grennd og láta okkur hér fyrir norðan í friði.

Stefán Sig.Stef, 11.8.2007 kl. 17:53

6 identicon

Sæll Ómar. Mér þykir gott að sjá að þú ætlir að beina kastljósinu að Mývatnssveitinni og Gjástykki. Þar eru verðmæti sem eru einstæð í heiminum og sorglegt til þess að vita að skammsýni eigi að fá að stjórna þar för. Telja má með ólíkindum hvað margir átta sig lítið á því hvað ímynd svæðis skiptir miklu og hversu feiknalega mikilvæg hún er fyrir íbúa þess sem framtíðarauðlind. Þó Gjástykkissvæðið (ef maður getur ekki skilið orð nema bókstaflega) verði ekki samfelldur skógur virkjana, vega og lína, þá verður svo mikið af þessu ef núverandi hugmyndir ná fram að ganga, að það mun eyðileggja ímynd þess sem náttúruperlu með óspilltri náttúru. Og þar með verða heimamenn sviptir auðlind sem til lengri tíma litið felur í sér miklu meiri möguleika en orkuvinnslan. Þegar er búið að spilla því svæði sem ferðamenn koma mest á nú, t.d. með borholu og vegalagningu inní eldána frá Mývatnseldum, en vegurinn þverar t.d. merkta gönguleið sem er býður upp á frábæra náttúruskoðun. Stór borhola er komin í bakgrunn Vítis og þykir mörgum það miður. Sem betur fer hefur Landsvirkjun kappkostað að halda svæðinu hreinlegu og þannig lágmarkað neikvæð áhrif. Eftir sem áður er það staðreynd að mikilvægi hins óraskaða lands í gosbeltinu fyrir ferðamennsku í Mývatnssveit er ómetanlegt og eyðilegging þess aðför að atvinnugreininni og lítilsvirðing við náttúruna.

Allir vita að ferðamennska er engin allsherjarblessun, þó hún skapi mikla möguleika þar sem aðstæður bjóða upp á slíkt. Það þarf því í samhengi við baráttuna fyrir verndun svæðisins að setja öfluga landvörslu í fyrirrúm, með lifandi fræðslu sem kennir fólki að skilja umhverfi sitt og um leið að öðlast aukna virðingu fyrir gildi náttúruverndar. Þar, eins og víðast hvar, hafa stjórnvöld  staðið sig dapurlega. Sem betur fer er núverandi sveitarstjórn í Mývatnssveit vel meðvituð um þessi mál og ég hef ekki áhyggjur af því að þeir sem vilja berjast fyrir þessu svæði muni almennt mæta andstöðu íbúanna .

Þegar upp er staðið skiptir litlu þó ýmsir kjósi að tala niður til þeirra sem eru á öðru máli en þeir sjálfir og kenni sig við framfarir og aðra við afturhald. Tíminn mun dæma framferði okkar nú eins og síðari kynslóðir hafa alltaf metið verk þeirra sem á undan eru gengnir. Margt bendir til þess að umgengni okkar við umhverfið nú verði dæmd með svipuðum hætti og við gerum þegar við hugsum til þeirra sem forðum notuðu skinnhandrit í skó . Þá eins og nú voru fáir sem eitthvað veltu vöngum yfir því sem í húfi var. Flestir eru sammála um að syrgja hvað mikið glataðist vegna hugsunarleysis og af því menn gátu ekki áttað sig á því hvaða verðmæti voru í húfi. Hvernig væri að læra aðeins af sögunni, fara sér hægt, skoða og ræða opinskátt á jafnréttisgrunni um framtíðargildi Mývatssveitar og Gjástykkis en ekki bara að bregðast við þröngum sjónarhornum virkjunaraðila sem setur tímapressu á umræðuna. Það væri framför sem líklega leiddi til farsælli niðurstöðu fyrir heimamenn, land og þjóð til lengri tíma. 

Friðrik Dagur Arnarson (IP-tala skráð) 11.8.2007 kl. 18:20

7 Smámynd: Stefán Stefánsson

Þú ert með ágætis innlegg Friðrik Dagur og nálgast umfangsefnið af skynsemi.
Þú skrifar að sumir kjósi að tala niður til þeirra sem eru á öðru máli og það er rétt að sumir gera það. En það á ekki aðeins við um þá sem vilja nýta landið, það á líka við um hina sem eru á móti.

Mín gagnrýni á Ómar og suma aðra sem kenna sig við náttúruvernd er út af því hvernig þeir haga málflutningi sínum oft á tíðum. Oft er aðeins sagður hálfur sannleikur og stundum hreinlega sagt ósatt og hlutirnir ýktir stórlega.
Það var nú kveikjan af  minni umsögn  hér fyrr í umræðunni vegna þess að  mér ofbauð þessi málflutningur hans.

Ég er líka sammála þér að rétt sé að setjast niður og ræða framtíð svæðisins opinskátt og á jafnréttisgrundvelli. 

Stefán Stefánsson, 11.8.2007 kl. 21:09

8 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Hvenær á árinu 1999 var fjallað um Kárahnjúkavirkjun í sjónvarpinu, var það ekki Fljótsdalsvirkjun á því ári ?  Allavega var sú fyrrnefnda ekki mikið í umræðunni fyrir kosningarnar vorið 1999.

Pétur Þorleifsson , 12.8.2007 kl. 10:59

9 identicon

mig minnir að að ég hafi lesið viðtöl í blöðunum þar sem mývetningar þökkuðu guði fyrir kárhnjúkavirkjun því að þar fengu þeir vinnu eftir að kísil. verksmiðjan lokaði.

samúel (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 00:17

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er ekki talað um Kárahnjúkastíflu og Fljótsdalsvirkjun. Það er engin virkjun á Kárahnjúkum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.8.2007 kl. 17:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband