HILMAR ÞORBJÖRNSSON - MENNSK ELDFLAUG.

Í Morgunblaðinu í gær var bent á fimmtíu ára gamalt Íslandsmet Hilmars Þorbjörnssonar í 100 metra hlaupi. Það er athyglisvert að þeir tveir Íslendingar sem kepptu á OL í Melbourne 1956 eiga tvö elstu Íslandsmetin og verður áreiðanlega langt þangað til 16,70 metra met Vilhjálms Einarssonar í þrístökki verður bætt. Það vill svo til að ég horfði á 100 metra hlaup Hilmars 18.ágúst 1957 og það sem var ótrúlegaslt var hve langt hann var á undan næsta manni, um það bil tíu metrum ef ég man rétt.

Hann stakk alla keppinauta sína af strax í viðbragðinu og þaut í mark eins og eldflaug. Hilmar svo óheppinn að eiga við meiðsli að stríða í Melbourne þar sem náðist svo sem ekkert sérstakur árangur í hlaupinu, þótt sigurvegarinn, Bobby Morrow, sigraði bæði i 100 og 200 metra hlaupi.

Þegar Hilmar spretti svo eftirminnilega úr spori 1957 var hlaupið á malarbraut og tæknibúnaður allur annar en síðar varð með bæði tartanbrautum og betri skóm, að ekki sé talað um mun betri og meiri þjálfun.

Notkun stera, sem síðar ruddi sér til rúms, var óþekkt á þessum tíma og hlaupararnir hrein náttúrubörn. Steranotkunin sem sveif yfir vötnunum þegar leið að 1970 setur ævinlega svolítið spurningamerki við bestu afrekin þá.

Árangur Hilmars er sambærilegur við þau afrek sem voru unnin á undan honum og þá áttu Ármenningar nokkra frábæra spretthlaupara, Hörð Haraldsson í kringum 1950, sem hefði átt góða möguleika á að komast á verðlaunapall á EM í Brussel í 200 metra hlaupi, - Guðmund Lárusson á sama tíma sem missti fyrir óheppni af þriðja sætinu í 400 m á sama móti, - og í kringum 1957 var Þórir Þorsteinsson skæður 400 metra og 800 metra hlaupari.

TÍmabilið 1947 - 57 var einstakt spretthlauparatímabil. ÍR-ingar áttu gullaldarlið, - Haukur Clausen varð Norðurlandameistari í 200 metra hlaupi kornungur og átti Norðurlandamet í 200 metra hlaupi sem stóð í hátt á annan áratug, 21,3 sekúndur og hefði líklega komist á verðlaunapall í 200 m á EM 1950 ef honum hefði ekki verið meinað að taka þátt fyrir grátbroslegar sakir.

Örn bróðir hans stóð honum lítt að baki í 100 og 200 og var betri í 400, en tugþrautin var hans aðalgrein.
Á árunum 1946-49 var Finnbjörn Þorvaldsson einn albesti spretthlaupari Norðurlanda.

Ekki má gleyma KR-ingnum Ásmundi Bjarnasyni sem blómstraði frá 1948-54 og komst í úrslit í 200 metra hlaupi á EM 1950.

Nú er að sjá hvort Sveinn Elías Elíasson geti bætt hið hálfrar aldar gamla met. Það yrði mikið gleðiefni í fjölskyldunni, Jónína, dóttir mín þjálfaði hann fyrstu sex árin og hann lánaði mér skó til að hlaupa í 100 metrana í hitteðfyrra á Laugardalsvelli eftir 40 ára keppnishlé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gaman að rifja þetta upp. Þarna erum við að tala um íslenska frjálsíþróttavorið.

Alltaf gremst mér þegar ég finn að þjóðin er búin að skipta glæsilegum afreksmönnum frjálsíþróttanna út fyrir sparkíþróttirnar sem er fjölkeppni.

Garparnir sem þú varst að lýsa voru stórkostlegir! Margir voru þarna ónefndir, eins og Jón Þ. Ólafsson til dæmis og svo auðvitað margir, margir fleiri.

Árni Gunnarsson, 19.8.2007 kl. 19:36

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Við meigum reyndar ekki gleyma því að frá stríðslokum og fram undir 1960 var Evrópa í sárum og í þeim miklu þrengingum sem hún gekk í gegnum þegar hún var að rísa úr rústum sínum, þá voru hvorki miklir peningar né tími fyrir íþróttir á meðan Íslendingar voru ein örfárra þjóða sem græddu á styrjöldinni. (fyrir utan mannfall okkar í sjómannastéttinni, sem var þó nokkuð miðað við höfðatölu) Með þessu er ég ekki að gera lítið úr okkar helstu afreksmönnum á þessum árum, þeir voru sumir án efa okkar allra fremstu afreksmenn frá upphafi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.8.2007 kl. 02:48

3 Smámynd: Karl Tómasson

Heill og sæll Ómar.

Hilmar var merkilegur maður. Hann átti heima í fyrstu götunni sem var byggð í Mosó, nánar tiltekið Markholti 9. Það vóru einnig mínar æsku slóðir. Hann var ekki bara sprettharðasti maður Íslands, nei, hann var líka lögga og það sem meira var. Hann átti alltaf flottasta bílinn, ekki bara í Markholti, heldur sveitinni allri. Hann var líka alltaf svo góður og skemmtilegur við okkur börnin. Hilmar var merkis kall eins og þú.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 22.8.2007 kl. 00:32

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kenningin um að Evrópuþjóðirnar hafi verið svo illa leiknar að ungt fólk hafi ekki haft sömu aðstæður og jafnaldrar á Íslandi útskýrir það ekki hvers vegna Íslendingar stóðu svo framarlega.

Svíþjóð, Portúgal, Spánn og Sviss voru hlutlausar þjóðir með næstum þrjú hundruð sinnum fleiri íbúa en Ísland og samt fengu Íslendingar fleiri Evrópumeistara 1950 en þessar þjóðir.

Örn Clausen var þriðji besti tugþrautarmaður heims 1949, 1950 og 1951, og aðeins einn til tveir Bandaríkjamenn stóðu honum framar, og mannfall Bandaríkjamanna var ekki meira hlutfallslega en Íslendinga og því síður var skortur að mat eða aðstöðu í Bandaríkjunum.

Bandaríkjamenn voru auk þess þúsund sinnum fleiri en Íslendingar.

Í stríðlok voru erlandir jafnaldrar Clausensbræðra 15 ára og bestu þjálfunarár íþróttamanna því framundan hjá þeim alveg eins og Clausensbræðrum.

Hér á landi var æfingatímabilið miklu styttra en hjá samkeppnisþjóðunum og sumarið það lang svalasta. Æfingaraðstaðan var mun frumstæðari hér en í öðrum löndum.

Dæmi um æfingaaðstöðuna: Veturinn 1962 náði Jón Þ. Ólafsson besta hástökki innanhúss í Evrópu, öðrum besta árangri í heimi og þeim fjórða besta í heiminum frá upphafi. Hann stökk 2,11 metra með þriggja skrefa atrennu vegna þess hve húsið var lítið!

Ómar Ragnarsson, 22.8.2007 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband