20.8.2007 | 00:27
OLÍUBÁL, EKKERT MÁL FYRIR JÓN PÁL!
Í Kastljósþætti kvöldið eftir siðustu kosningar söng þáverandi iðnaðarráðherra með mér: "Mig dreymdi ég væri uppi árið 2012 / Þeir tunglið höfðu malbikað og steypt í hólf og gólf". Ekki er að sjá annað en svipuð bjartsýni ríki nú hjá olíuhreinsistöðva-draumóramönnum þótt umhverfisráðherra kveðið upp úr með það sem ég og fleiri höfum verið á benda á að stóri draumurinn um olíuhreinsistöðvar sem bjargvætti fyrir landsbyggðina gengur ekki upp hvað snertir skuldbindingar okkar samkvæmt Kyoto-samningnum.
En í að mörgu leyti fróðlegu viðtali við hinn geðþekka og ágæta talsmann þessara áforma, Ólaf Egilsson má ráða af orðum hans að þeir sem fyrir þessu standi hafi engar áhyggjur af þessu.
Þeir ætli sér að hefja framkvæmdir á næsta ári þótt umhverfisráðherra sjá á því öll tormerki að hægt sé að láta þetta flókna ferli ganga svo ofurhratt. Væntanlega hafa þeir olíugróðavonarmenn það sem fyrirmynd þegar talsmaður Alcoa sagði að undirbúningsferli og samningar vegna Kárahnjúkavirkjunar hefðu gengið sjö sinnum hraðar hér á landi en í öðrum löndum.
Af viðtalinu við Ólaf Egilsson var ekki annað að ráða en að einfaldlega stæði til að reisa stöðina með látum en bíða með að gangsetja hana þangað eftir að Kyoto-samningurinn rennur út 2012!
Er þetta ekki dæmigert fyrir óðagot Íslendinga þegar þeir fyllast framkvæmdagleði með dollaraglampa í augum?
Á sínum tíma þurfti talsverðan tíma til að koma þeim sem ætluðu að leggja Norðurveg um Stórasand, Kaldadal og Þingvelli í skilning um að svona trukkaflutningavegur með tilheyrandi umhverfisáhrifum og hættu á umhverfisslysum stangaðist á við UNESCO-stimpil Þingvalla og lög um vatnsverndarsvæði Þingvallaþjóðgarðs.
Einnig yrði Stórisandur mjög misviðrasamur vegarkafli hátt yfir sjó.
Nú virðast ákafamennirnir um olíuhreinsistöðina hafa fundið út að það sé ekkert mál fyrir Jóna Pála olíudraumamanna að stjórna því að Íslendingar losi sig undan skuldbindingum um takmörkun á losun á gróðurhúsalofttegundum árið 2012.
Með sömu bjartsýninni er auðvitað heldur ekkert mál að reisa öll fyrirhuguðu risaálverin, - aðeins þurfi a sjá til þess að þau fari ekki fram úr Kyoto-kvótanum fyrr en eftir að hann rennur út.
Auðvitað þurfa menn árið 2012 ekki heldur að taka neitt mark á stefnu núverandi ríkisstjórnar varðandi stórfelldan samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2050, því núverandi ríkisstjórn hefur ekki umboð kjósenda nema til 2011.
Í hinu annars um margt ágæta og upplýsandi viðtali við Ólaf Egilsson kom hvergi fram hvort ætlunin verði að kaupa losunarkvóta flyrir olíuhreinsunina enda er ekki að heyra annað en að menn telji alla vegi færa og allar skuldbindingar fallnar niður frá og með 2012.
Það var innistæða fyrir hinum fleygu orðum Jóns Páls í Sjónvarpssal á sínum tíma. Hvar er innistæðan fyrir bjartsýniskasti olíuhreinsunarmanna?
Athugasemdir
Ómar minn. Þú hefur sko notað margfallt flugvélabensín og bílabensín á við mig
um ævina., sem ÞURFTI SKO ÆRLEGA AÐ HREINSA í viðkomandi olíuhreinsunarstöðvum.,
ekki satt ?
Guðmundur Jónas Kristjánsson, 20.8.2007 kl. 01:00
Afhverju ertu að blanda Kyoto bókuninni í andstöðu þína við þetta atvinnutækifæri fyrir 500 manns á Vestfjörðum? Þú værir alveg jafn mikið á móti þessu þó sú bókun væri ekki fyrir hendi. Auk þess snýst Kyoto bókunin um hnattræn áhrif mengunarinnar vegna hlýnunar jarðar (sem æ háværari raddir efast um, þ.e. að hlýnunin sé af mannavöldum). Heldur þú virkilega að olían verði bara ekkert hreinsuð ef hún er ekki hreinsuð hér? Er verið að stinga hausnum ofan í sandinn?
"Væntanlega hafa þeir olíugróðavonarmenn það sem fyrirmynd þegar talsmaður Alcoa sagði að undirbúningsferli og samningar vegna Kárahnjúkavirkjunar hefðu gengið sjö sinnum hraðar hér á landi en í öðrum löndum".
Dæmigert fyrir tækifærissinnaðan málflutning þinn. Það kom margoft fram í fréttum að samningar vegna orkusölu til áliðnaðar frá Kárahnjúkum, (Fljótsdalsvirkjun) voru nánast komnir í höfn þegar Norsk Hydro hljóp frá verkefninu og sú vinna skilaði sér í samningum við Alcoa.
En talandi um Norsk Hydro, þá naga þeir sig í handarbökin í dag eins og fram hefur komið í fréttum, að hafa hlaupið frá þessu og ákveðið í staðinn að byggja álver í Qatar, sem notar gas sem orkugjafa. Ég talaði við tvo norska menn á Reyðarfirði í gær sem sögðu það hlægilegt að Norðmenn hefðu lokað fyrir frekari vatnsaflsvirkjanir og háværar raddir væru um að hverfa frá þeirri vitleysu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.8.2007 kl. 09:55
Skelfing er hún ómálefnaleg þessi tugga hjá sumum að Ómar hafi nú mengað svo og svo mikið og notað flugvélabensín og bílabensín á við meðaljóninn. Þurfa menn að vera heilagir dýrlingar til að hafa pólitískar skoðanir? Vitanlega þarf að hreinsa olíuna e-s staðar svo lengi sem hagkvæmt er og leyfilegt að nýta hana sem eldsneyti. Það er þó víst að ekki þarf að byggja olíuhreinsunarstöð fyrir það bensín sem búið er að brenna.
Loksins er komin í gang á Vesturlöndum einhver alvöru áhugi að nýta vistænni orkugjafa eins og rafmagn til að knýja bifreiðar. Þá vilja steinaldarmennirnir á Íslandi skella upp einni olíuhreinsunarstöð í einum grænum sem mætti hugsanlega gangsetja árið 2012 ef Íslendingum tekst að svíða út enn meiri mengunarkvóta eða sleppa því alfarið að taka þátt í alþjóðlegum skuldbindingum eins og fyrirmyndin Sámur frændi. Þessi fyrirhugaða fabrikka í öllu sínu veldi gæti eftir örfáa áratugi orðið gríðarmikill minnisvarði um forsjárleysi Íslendinga snemma á öldinni.
Svo er það hann Gunnar á Reyðarfirði sem varla er við bjargandi. Ekki kemur það mér á óvart að hann taki undir þær "æ háværari raddir" sem hann nefnir í athugasemd sinni. Vonandi rennur samt sá dagur upp að hann gangi ekki um með hárið fullt af sandi sjálfur.
En af hverju vill enginn benda mér á þá 500 manns sem bíða óþreyjufullir eftir að starfa í olíuhreinsunarstöð í Vesturbyggð? Samkvæmt nýrri skýrslu frá Forsætisráðuneytinu voru í fyrra 937 íbúar í Vesturbyggð og 292 í Tálknafjarðarhreppi og hefur fækkað töluvert sl. áratug. Atvinnuleysi er mjög lítið og samgöngur erfiðar yfir heiðar á vetrarlagi. Ég fæ því ekki betur séð en að það þurfi að flytja inn stóran hluta af því fólki sem á að vinna í stöðinni og hýsa það í næsta nágrenni. Skyldi ef til vill rísa rússneskt þorp í úthverfi Bíldudals?
Sigurður Hrellir, 20.8.2007 kl. 10:58
Já, eyðileggjum íslenska náttúru! Ef flytja þarf inn 500 Pólverja til þess að láta drauminn rætast, þá er bara að gera það.
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 11:56
Ég held að allir tækju því fagnandi ef annað en jarðefnaeldsneyti yrði ráðandi í orkunotkunn heimsins en þetta mál snýst ekki um það. Atvinnuuppbygging af því tagi sem olíuhreinsunarstöð er, er ekki til þess að sporna við atvinnuleysi, ekki frekar en áliðnaður á Reyðarfirði. En stórir vinnustaðir laða atgerfi á svæðið, bæta þjónustu og mannlíf og kemur í veg fyrir frekari fólksflótta og styður einnig við aðra atvinnustarfsemi.
Satt að segja er það ekkert sérstakt áhugamál hjá mér að þarna rísi olíuhreinsunarstöð en rökin gegn henni er af sama sauðahúsi og gegn áliðnaðinum hér á Reyðarfirði. Mér finnst það skylda mín gagnvart þeim sem vilja þetta tækifæri fyrir vestan að styðja þá með því að benda á rökvillurnar hjá andstæðingunum. Ég get alveg skilið þá sem ekki vilja þennan iðnað á svæðið, en þeir eiga að láta nægja að segja þá skoðun sína en ekki styðja hana með bulli.
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.8.2007 kl. 13:30
Áhyggjur út af því hvort við náum að "svíða út" loftkvóta úr öðrum þjóðum eru þarflausar, því að ekki sé ég Íslendinga munu vilja greiða t.d. úreltu rússnesku kolaveri milljarða (í gegn um verðbréfamarkaði) til þess að við getum stundað nútímaframleiðslu, hverju nafni sem hún nefnist. Kyoto- samkomulagið hefur í raun runnið sitt skeið, þar sem alvöru mengunarþjóðir setjast nú niður til þess að ákveða með sér hver fær hvaða loftkvóta, allt miðað við 1990 þegar Ísland var með allt á hreinu eins og endranær og fær því naumann kvóta. Höldum okkur því fjarri því "samningaborði".
Nútíma- olíuhreinsunarstöð reist sakvæmt nýjustu stöðlum á friðsæla Íslandi á fyllilega rétt á sér. Ég hvet vestfirðingana til þessa gæfuspors fyrir okkur öll.
Ívar Pálsson, 20.8.2007 kl. 16:46
Það er oft voðalega leiðinlegt að koma inn á bloggið hans Ómars. Alls ekki vegna þess að hann er leiðinlegur, heldur vegna þess hve athugasemdirnar eru oft ómálefnalegar og fara oft út í persónulegt skítkast. Ég ætla að reyna að vera hlutlaus í spurningum mínum hér að neðan, ekki minnast á mengun, skammsýni eða neitt annað sem ekki eru talin rök.
Það sem ég skil ekki við þessa olíuhreinsunarstöð er hvað hún væri að gera uppi á Íslandi. Það þyrfti að flytja olíuna frá miðausturlöndum, Rússlandi eða hvar sem hún kemur upp, til Íslands. Það eru einhverjar þúsundir kílómetra. Svo, þegar búið er að hreinsa olíuna þarf að setja hana í skip og flytja nokkur þúsund kílómetra í viðbót. Hvað er hagkvæmt við þetta? Ég tala ekki um vistvænt.
Á Íslandi er ekki alltaf sól og blíða. Vetur eru misslæmir og norður-Atlantshafið, þar sem Ísland er staðsett, er þekkt fyrir slæm vetrarveður. Á að vera að leika sér með áhættuna á stórkostlegu umhverfisslysi við strendur Íslands?
Er þetta þess virði?
Villi Asgeirsson, 20.8.2007 kl. 18:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.