HAFÐIR AÐ GINNINGARFÍFLUM.

Nú er það komið fram sem ég spáði fyrir tæpu ári í bæklingnum "Íslands þúsund ár" að landeigendur á svæði Kárahnjúkavirkjunar uppgötvuðu það endanlega að þeir hefðu verið hafðir að ginningarfíflum. Fölva hefur slegið á dollaraglampann í augum þeirra.

Rétt er að birta á ný eftirfarandi lýsingu lögfræðings Landsvirkjunar sjálfra á hinu raunverulega eðli þessarar dæmalausu framkvæmdar:

"...Áhættusöm framkvæmd...", "....erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilelgu-, umhverfislegu- og markaðslegu tillti, - er í raun eyland í raforkukerfinu og það rýrir meðal annarra þátta gildi vatnsréttinda við Kárahnjúka...ekki hægt að útloka að stofnkostnaður fari fram úr áætlunum vegna tæknilegra örðugleika á byggingartíma og rekstrarkostnaður Hálslóns geti orðið umtalsverður ef beita þurfi ítrustu mótvægisaðgerðum vegna skilyrða um umhverfisþætti."

Einn landeigendanna hittir því naglann á höfuðið þegar hann segir landeigendur verða fórnarlömb þess kostnaðar sem fyrrgreind lýsing sjálfrar Landsvirkjunar tíundar og að þeir verði lántir greiða hugsanlegan samfélagslegan skaða vegna virkjunarinnar.

En fleiri munu þurfa að borga þegar öll kurl verða komin til grafar.

Fullyrðingar talsmanns Landsvirkjunar í dag um að virkjunin muni standast arðsemiskröfur eru kokhreysti, - spádómurinn og röksemdirnar fyrir hinu gagnstæða í "Íslands þúsund ár" eiga eftir að koma fram.

Og jafnvel þótt þessar arðsemiskröfur stæðust eru þær byggðar á forsendum sem ekkert einkafyrirtæki hefði vogað sér sætta sig við.

Virkjunin er risaframkvæmd í sovéskum stíl, byggð á hugsuninni sem talsmaður Landsvirkjunar orðaði svo vel þegar hann var inntur eftir því hvers vegna ekki hefði verið rannsakað fyrirfram misgengissvæðið sem sást úr lofti þar sem til varð meira en hálfs árs seinkun borana og framkvæmda með ómældum kostnaði:

Hann svaraði því til að ekki hefði þótt ástæða til að eyða tíma og fé í þessar rannsóknir sem svo augljóslega hefðu verið bráðnauðsynlegar, - "...við þurftu að fara þarna í gegn hvort eð var!"

Svo heppilega vildi fyrir virkjanafíklana að þessi hluti gangaleiðarinnar var inni í miðri leiðinni og því myndu vandræðin ekki dynja yfir fyrr en á síðasta kafla borana.

Auðvitað ekkert mál að vaða út í þetta á þessum nótum þegar vitað var að þjóðin myndi borga allan brúsann síðar meir, hvernig sem allt færi.

Landeigendur eru nú að upplifa það að þeir verði með þeim fyrstu til að blæða, - við hin komum seinna.


mbl.is „Landeigendur látnir greiða hugsanlegan samfélagslegan skaða vegna Kárahnjúkavirkjunar"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessar virkjanir og stóriðja eru svo ábátasöm og mikil lyftistöng fyrir okkur á Íslandi, að mér finnst bara eins og orkukostnaður okkar á heimilunum sé nánast horfinn.  Við hitum húsin okkar og keyrum tölvur, sjónvörp og hvað sem okkur lystir fyrir bara ekki neitt.  Það eina sem vantar er að stjórnmálamenn myndu leyfa okkur að keyra bílana okkar á rafmagni líka, þá gætum við öll hætt að vinna og sest að snæðingi við næringarríka ávaxtakörfu þungaiðnaðarins.

Að vísu refsaði Alfreð okkur hér um árið þegar allir voru að nurla með heita vatnið... og sumir segja að það væri liggur við ódýrara fyrir almenning að framleiða rafmagnið með heima díselrafstöð, en það eru nú bara einhverjir kjánar sem skilja ekki alvöru þungaviktar hagfræði.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 21:30

2 identicon

Ísland okkar fagurt er, engin af því lætur
nokkrir vilja virkja, nú stóriðjan málið tekur,
þó mannskarinn standi þar í stað, þá bregða þeir á fætur
áætlunin líður skjótt, enga buddu þeir tæma betur.

Áttin vísar fólkið á, skuldin sett á alla
enn sem áður lítið má, opna kjaft og kalla,
ríkisvaldið sendir út, "rukkið þessa dalla"
spurning dagsins verður sú, hvar mun os vatn falla.



Gefið mér það að ég er að læra þetta ennþá. Þarf að "Gúggla" upp "Hów to rime".



p.s ég þarf að hafa vasareikni á þessa ruslpóstvörn, "summan af átján og sex", verð að taka þetta á fringrunum eins og í gaggó.  Haha!



Kv. frá Baunum!

Ágúst Guðbjörnsson (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 00:12

3 identicon

Hver á þá að hirða arðinn af væntanlegri laxveiði í breyttri Jöklu? Landeigendur eru búnir að stofna veiðifélag, rekstraraðili kominn að uppbyggingunni og eitt glæsilegasta veiðihús landsins risið.
Á sá arður þá að renna til Landsvirkjunar, ríkisins eða ...?

Gunnar Geirsson (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 13:12

4 Smámynd: Kristján Pétursson

Það er rétt hjá þér Ómar,að landeigendur urðu ginningafífl og fórnalömb Kárahnjúkavirkjunar.Græðgin er miskunarlaus húsbóndi,í þessu til tilfelli munu bændur blæða og reyndar mun þjóðin öll bera varanlegt og óendurkræft tjón.  

Kristján Pétursson, 23.8.2007 kl. 13:54

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þarna er verið að tala um bætur fyrir vatnsréttindi sem aldrei hefði verið um að ræða, ef ekki hefði verið fyrir álverið á Reyðarfirði. Þ.e., ónýtt auðlind. Þarna er líka verið að tala um bætur á afréttum, sem að mínu mati er á gráu svæði. Auðvitað vilja bændurnir sem mest og vel að merkja, afar fáir þeirra, ef nokkur, var á móti framkvæmdunum.

En varðandi arðsemina, er ekki rétt að bíða bara úr því sem komið er, eftir endanlegri niðurstöðu. Hún mun liggja fyrir á endanum, hafðu ekki áhyggjur af því Ómar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2007 kl. 14:10

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Skil ekki alveg hvað þú átt við Jóhann að ég þurfi að róa mig. En Þetta er ágætis punktur já þér með; "En að ætla OKKUR hinum að greiða milljarða fyrir "bætur" af landi sem þeir sjálfir samþykktu að eyða...."

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.8.2007 kl. 16:00

7 identicon

Er ekki lágmark að menn viti hvað er verið að tala um Jóhann? Hér er ekki verið að tala um bætur fyrir land heldur vatnsréttindi. Það var alltaf vitað að landeigendur yrðu að og myndu fá greitt fyrir þau vatnsréttindi sem þeir áttu. Deilan snerist og mun áfram bara snúast um upphæðir.

Það er sorglegt að sjá hvernig einn af okkar reyndustu fjölmiðlamönnum snýr þessu máli á hvolf og reynir að láta líta út eins og landeigendur hafi tapað einhverju fé. Landeigendur fá greitt fyrir sín vatnsréttindi, m.a.s. meira en áður hefur þekkst. Það hefði þó sennilega átt að vera meira og ég vona að dómstólar muni komast að þeirri niðurstöðu. En Landsvirkjunarmenn eru engir kjánar og gerðu sér án vafa grein fyrir þessu í sínum áætlunum þó svo að þeir kveinki sér opinberlega. það hefur enginn heilvita maður gert ráð fyrir því að þeir slyppu með að borga 400 milljónir fyrir vatnsréttindin.

Stefán Bogi Sveinsson (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 16:50

8 Smámynd: Þórbergur Torfason

Stefán, vatnsréttindi. Hverju eru landeigendur þarna að tapa? Af hverju eru þeir að missa? Til hvers notuðu þeir vatnið úr ánni fram að því að rennslið var stöðvað?

Vatnsbætur! Alveg sprenghlægilegt lögfræðiundur. Þessir aðilar hafa bölvað ánni í sand og ösku alla tíð þangað til hún hvarf. Þá allt í einu er þjóðin dæmd til að borga skaðabætur fyrir það sem kallað er vatnsréttindi.

Hvern á að rukka fyrir rigninguna sem vantar á Fagurhólsmýri í sumar?

Þórbergur Torfason, 23.8.2007 kl. 18:49

9 Smámynd: Sigurjón

Voru það bændur á þessu svæði sem ákváðu að þessi framkvæmd færi fram?  Var gerð skoðanakönnun meðal þeirra?  Hvað ert þú að tala um Jóhann þegar þú segir að þeir sem eiga jarðir við árnar hafi samþykkt þessar aðgerðir?  Höfðu þeir eitthvað um það að segja?

Auk þess sýndist mér í fréttum í kvöld að ríkið fengi meirihlutann af þessum vatnsréttarbótum, vegna grófrar eignaupptöku ríkisins á löndum í eigu bænda við hálendið.  Ekki rísið þið á afturlappirnar vegna þeirrar aðgerðar, eða hvað? 

Sigurjón, 24.8.2007 kl. 04:00

10 identicon

Góðan dag!

 Hér gætir skelfilegs misskilnings og/eða útúrsnúinga bæði hjá greinarhöfundi og þeirra sem hér hafa lagt orð í belg. Landeigendur voru ekki hafðir að ginningarfíflum því þeir voru einfaldlega aldrei spurðir. Jökla var tekin í þetta verkefni að þeim forspurðum. Hvað varðar afstöðu þorra austfirðinga um þessa virkjun kemur málinu alls ekki við.

Annað sem menn ættu að hafa í huga er að miðað við niðurstöður þessa matsnefndar, sem augljóslega er handbendi Landsvirkjunar, eru vatnsaflsorka landsins öll -- þetta er eingreiðsla -- um 12 milljarða virði. Sem jafngildir virði einnar boingþotu. Finnst mönnum það ásættanlegt? Ef vatnsfallsorkan er föl fyrir þá upphæð þá vildi ég gjarnan fá að kaupa. Og ætli það sé til það flón á Íslandi sem ekki vildi vera með mér í því?

Enn eitt atriði... þá slaga vatnsréttindi ríkisins af umræddu vatnsfalli hátt í 70%. M.ö.o. það er verið að afhenda Landsvirkjun, ríki í ríkinu sem er í einkavæðingarferli, vatnsorkuna á silfurfati. Svo þeir geti haldið uppteknum hætti og gefið orkuna til að laða hingað að auðhringa og stóriðjufakíra. Finnst mönnum það ásættanlegt?

Og enn eitt atriði sem menn ættu að athuga. Ef niðurstaða óbyggðanefndar stenst hvað varðar Brú þá á ríkið, fólkið sjálft, 70 prósent af vatnsréttindum Jöklu. Finnst mönnum það ásættanlegt að Landsvirkjun greiði landsmönnum 1,2 milljarða fyrir Jöklu? Er vatnsorkan ekki meira virði? Þetta mál snýst ekki um að henda milljörðum í einhverja Gísla á Uppsölum heldur er það miklu stærra í sniðum.

Matsnefndin miðar við arðsemiskröfu Landsvirkjunar í mati sínu. Þetta jafnast á við það að ef ríkið gerði hús Gunnars Th. upptækt. Myndi þá ákveða að gefa Kattavinafélaginu húsið í staðinn fyrir að selja Bjöggunum húsið. Því er niðurstaðan sú að bæturnar sem Gunnar fær eru ekki 60 milljónir eins og kannski virði hússins segði til um á frjálsum markaði heldur 500 þúsund. Finnst Gunnari það sanngjarnt?

Það að Jökla hafi enn ekki verið nýtt þýðir ekki það að hún sé einskis virði. Á sama máta gæti ég, hefði ég til þess vopnin, seilst í bankareikning Jóns Ásgeirs og nælt mér í 400 milljónir á þeim forsendum að hann hafi ekki verið að nota þær.

Og eitt ættu menn að skoða. Handbendi Landsvirkjunnar sagði ég um matsnefndina... miðað við 70% eignarhald ríkisins sjálfs á vatnsréttindunum þá er það 1,2 milljarðar. Eftir standa 400 milljónir til landeigenda. Sem er nákvæmlega upphæðin sem Landsvirkjun reiknaði með að þurfa að greiða. Tilviljun?

Kveðja,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 24.8.2007 kl. 12:30

11 Smámynd: Sigurjón

Jóhann sagði: ,,Voru það ekki ykkar kjörnu fulltrúar í sveitastjórnum sem ákvað þessar framkvæmdir..."

Þetta er ekki það sem þú sagðir hér ofar.  Það að sveitarstjórn samþykki aðgerðirnar er alls ekki það sama og að landeigendur við fljótin samþykki þær.  Hvernig er hægt að vita nema þeir hafi flestir greitt minnihlutanum atkvæði sín í sveitarstjórnarkosningunum?  Hvers eiga þeir að gjalda sem voru alla tíð á móti þessu, en samt fá þeir litlar bætur fyrir?  Mega þeir éta það sem úti frýs fyrir þér Jóhann? 

Sigurjón, 24.8.2007 kl. 13:28

12 identicon

Góðan daginn já!Ég vil byrja aðeins á að commenta á fyrstu athugasemd Jóhanns Arnar, Þar er ekki annað hægt en að lesa afskaplega mikla minnimáttarkennd og landsbyggðar hatur ef svo má að orði komast. Mér finnst nú sorglegt ef menn geta nú ekki talað um þetta af meiri visku en svo að tala um að honum finnist ekki ástæða til að greiða OKKUR sem á landsbyggðinni erum neinar bætur! Ég bara skil ekki svona rökstuðning, að við sem erum á Austurlandi eigum þá ekki að hafa neitt um það að segja hvernig verði farið með landið eða auðæfi þess!Vegna þess að við verðum að taka afleiðingum ákvarðana okkar? Fengu þá bara Austfirðingar að kjósa ríkisstjórnina? Svo vil ég líka koma inn á eitt, það eru þarna nokkrir landeigendur sem eiga í hlut, en eins og þú skrifar Jóhann þá ertu bara að tala eins og allir sem eru hér á Austurlandinu séum að fá bæturna og það í vasann. Langar líka að fá að heyra frá þér hvernig hægt er að tala um hryðjuverkastarfssemi varðandi það að þessi virkjun hafi orðið að veruleika??

Einnig væri gaman að koma inn á annað málinu alls óviðkomandi, af því að þú ert í þessum gír að vera með landsbyggðar ríg. Ykkur þarna á stórhöfuðborgarsvæðinu finnst ekkert sjálfssagðara en að þið ein/ir hafið atkvæðisrétt hvað varðar hvar og hvort eigi að færa þennan flugvöll þarna hjá ykkur. Ykkur finnst að það megi ekki vera þjóðarinnar að ákveða. Sem er alveg magnað, þar sem þetta er höfuðborg landsins og væntanlega ansi mikið af þjóðinni ef ekki nær öll þarf að hafa afnot af þessu samgöngutæki . En nei við skulum bara hafa RÚSSA KOSNINGU UM ÞAÐ!!

Þetta er svona svipuð rökleysa og það sem þú ert hérna að alhæfa og bulla um okkur sem erum hér að við eigum bara ekkert að hafa um neitt að segja af því að ríkisvaldið sem Þjóðin kaus ákvað að hrinda af stað Kárahnjúkavirkjun hér Eystra . Væri þá ekki bara nærtækast að arðurinn sem verður af þessari virkjun skili sér alfarið til allra á Austurhluta landsins og að við verðum bara sér ríki á þessu landi.. Ef einhver á að róa sig Jóhann þá ert það þú! Þú ert ekki að ég tel að tala af þekkingu um málið hér eystra og ræð þér heilt að kynna þér það bara betur! Nema þér sé alfarið sama hvort Landsvirkjun eða aðrir sem hafa hag af stóriðju og raforkudreifingu og framleiðslu, geti leyft sér það sem þeir eru að gera , og bara allir aðrir víkji og það bara fyrir 0 kr þínar. Þér fyndist kannski eðlilegast að víkja af borgartorfunni ef þeim dytti í hug að reisa nýja typpalind yfir lóðina þína?? Þetta snýst ekki eingöngu um peninga þó vissulega sú umræða sé ansi hávær, heldur líka bara common sense. Hvað er eðlilegt í lýðræðislegu samfélagi að sé leyfilegt að gera á kostnað landeigenda og fólksins í landinu! Erum við ekki þjóð? þó við skiptumst í landshluta?!

Síðan langar mig að taka undir með Stefáni Boga , það er sorglegt hvernig einn af okkar reyndustu fréttamönnum snýr þessari fétt á hvolf, þetta er ekki nýtt að hans hálfu, og segir alla stóriðju sinna eða stóriðju elskendur sem eru samþykkir Kárahnj

ukavirkjun, er það þá sama sem merki bara að það eigi þá bara að reisa áfram fullt af virkjunum.?? Þetta er álíka mikil rökleysa hjá kalli eins og hann snýr mikið útur fréttum og spurningum sem á hann eru lagðar. Hvar er háttvirtur yfir umhverfissinni þegar verið erað virkja upp á Hellisheiði og verið með jarðrask þar og víðar, ekki heyrist múkk í manninum varðandi þau mál. Þetta er hrein og bein hræsni. Síðan vil ég koma inn á annað, þegar kosningabaráttan var í hávegum hjá flokkunum græna hans Ómars voru þeir hér Eystra að kynna sig og sínar stefnur, meira að segja í hádegi á matsölustað hér á mið- Austurlandinu og urðu þar á vegi fólks. Þá kom þar fram, hjá Frambjóðendum hans , að þeir væru alveg hlynntir því að virkja og virkjun væri ekki slæm að öllu leyti og þannig reyndi fólkið að veiða atkvæðin? Er þetta ekki soldið skakkt? Aðal stefna hans og flokksins ef ég man rétt var að fella stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta finnst mér ekki trúverðugt. Og í þessari baráttu sinni fyrir landsins gæðum finnst mér hann því miður vera búinn að missa trúverðuleika sinn.

Við það stend ég að margir hér á þessu landi vissu ekki hvað væri til hér fyrir Austan né heldur hvar Kárahnjúkar væru ef ekki hefði komið til þessara framkvæmda. Sem síðan mun auðvelda ferðamanninum um gjörvallann heiminn sem sækir þetta land að koma og skoða þetta. Nú er það nefninlega mögulegt fyrir þær samgöngubætur sem orðið hafa, áður hefðu menn þurft að hafa vel útbúin ökutæki til að komast þarna nærri.

Erlingur Guðjónsson (IP-tala skráð) 24.8.2007 kl. 20:10

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Jakob Bjarnar, það skiptir einmitt máli að húna hafi ekki verið nýtt (og hefði ekki verið nýtt) og svona stór stífla eins og við Kárahnjúka hefði aldrei verið byggð nema fyrir lægi stór raforkukaupandi. Og að reikna út frá orkunni einni saman úr Jöklu, er villandi samanburður. Alveg eins og Landsvirkjun þarf að slá verulega af raforkuverðin til síns kaupanda, þá ættu landeigendur á svæðinu einnig að þurfa þess. Þú berð ekki saman litla einkavirkjun og margfaldar svo verðið á vatnsréttindum sem hún notar með margfeldinu úr Jöklu. Kárahnjúkadæmið er of stórt til að bera svona saman.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.8.2007 kl. 21:37

14 identicon

Heill og sæll Gunnar Th.!

Þú gleymir einu einu mikilvægu atriði. Landeigendur voru ekki spurðir. Hver er kominn til með að segja að þeir, og athugaðu eignarhaldið er að 70 prósentum á hendi þjóðarinnar, hefðu viljað nota Jöklu í Kárahnjúkavirkjun? Til dæmis: Handan við hornið eru patent sem gætu gert bændum á Dal kleyft að framleiða vetni í stórum stíl til langframa, framleiðsla sem gæti byggt á orku úr Jöklu. Nákvæmlega engin rök eru í málinu að áin hafi ekki verið nýtt fram til þessa til raforkuframleiðslu. Það er líkt og þú ættir lóð á góðum stað, segjum í Kópavogi þar sem ku vera gott að búa, og hafir ekki byggt þar. Gerir það lóðina verðlausa? Þýðir það að þú ætlir aldrei að byggja á lóðinni af því þú ert ekki búinn að því? Er yfirvöldum þá frjálst að slá eign sinni á lóðina og borga þér málamynda skaðabætur í krafti þess að þar hafi ekki verið byggt enn? Hræddur er ég um að þér þætti það sérkennileg afgreiðsla. Og eignarrétturinn fótum troðinn.

Kær kveðja,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 24.8.2007 kl. 23:12

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já,það mátti misskilja mig, ég er að segja að í svona stóra framkvæmd hefði ekki verið farið nema fyrir lægi kaupandi að orkunni á mun lægra verði en í smásölu. Þess vegna er samanburður villandi. En varðandi raforkuframleiðslu fyrir vetni þá er það bara ekkert í farvatninu, langt í land með það. Og kannski verða einhverjar allt aðrar lausnir komnar fram í orkunotkun en vetni í framtíðinni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.8.2007 kl. 00:37

16 identicon

Já Jóhann. Þú þekkir ekki minnimáttarkenndina? Og ert af landsbyggðinni og segist vera dreifbýlistútta. Ég byðst afsökunar á þeim mislestri milli línanna hjá mér að þú værir ekki af höfuðborgarsvæðinu, eins og þú talar í 3 athugasemd þessarar fréttar var ekki hægt að lesa það út að svo væri? Einnig fannst mér ekki vera vert að fara í þjóðskrá til að athuga slíkt. Mín mistök,en þau eru komin á hreint núna. Svo þá verð ég að spyrja hvernig geturu þá litið á þig sem dreifbýlistúttu þegar orð þín hljómi nær því að fyrirlíta minni sveitarfélög á landinu.?? 

Síðan langar mig að koma með smá innslag inn i þetta hjá þér , þú segir að þú hefðir vilja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu, til að landið gætið tekið afstöðu til framkvæmdarinnar, en bítur svo sjálfur skömmina úr hattinum svo ég noti þín orða tiltæki, þegar þú svara öðrum hérna á síðunni. Ferð þá að tala um það að sveitastjórnamenn sem við kusum hér eystra hafi samþykkt það og svo framvegis og þar af leiðandi í líðræðislegu samfélagi á Íslandi þurfi þessir bændur ekki að vera svona hissa á þessu öllu og heimta svo bætur.

En þá langar mig að leggja eitt fyrir þig. Ég atla alls ekki að tala um það á þann hátt að menn geti tekið of mikið mark á skoðanna könnunum, en við það höfum við hér á Íslandi samt stuðst við í ára raðir. Gallup, Dv og Price Waterhouse Cupers gerðu árið 2001 skoðanna könnun varðandi Kárahnjúkavirkjun úrtak gallup og PWC var 1200 manns en hjá Dv aðeins 600 manns eða um 50% minna. Svarhlutfall var á þessa leið

PWC = 57,7% Gallup = 67,8% Dv =74,5% Fylgjandi 40,3%(Gallup) 39,8% (DV) 34,8% (PWC) Óákveðnir 23,6% (gallup) 25,5%(DV) og 30,7% (PWC) Á Móti Virkjun 36,1%(Gallup) 34,7%(DV) og 34,4%(PWC)

Þetta var niðurstaða skoðannakönnunnar árið 2001 en bíddu við svo kemur annað sama ár er miðstjórnarfundur há ASI sem styðja gerð Kárahnjúkavirkjunar og stuttu seinna lýsir starfsgreinasamband Íslands einnig yfir stuðningi við það, ásamt Bæjarráði Akureyrarbæjar.  En gallup gerði könnun fyrir Landsvirkjun 29 maí - 12 júní 2001 og krufningar skoðanna könnunnarinnar þá var á þessa leið Gallup spurði: Þekkiru mikið,nokkuð ,lítið eða ekkert til áforma um byggingu Kárahnjúkavirkjunnar útkoman var þessi. Mikið = 6,1% sem mér finnst ansi lítið. Nokkuð =29,3% Lítið = 42,6% ekkert 22,0% þannig að hægt er að merkja af þessu úrtaki að 64.6% vissu bara mjög lítið um þessa framkvæmd. En þetta er ekki allt auðvitað, 4 Flokksmenn Sjálfstæðisflokksins sem er síðast þegar ég gáði stærsti stjórnmálaflokkur landsins, Davíð Oddsson , Björn Bjarnason , Geir H.Haarde sem þá var varaformaður flokksins og Sigríður Anna þórðardóttir  komu öll fram eftir vettfangsferð um kárahnjúka svæðið og lýstu stuðningi sínu við framkvæmdirnar. þá atla ég að nefna gallup 2002 3-17. júlí 1200 manna úrtak svarhlutfall 69,9% þá var þetta svona hlynntir 53% andvígir 30% hvorki með né á móti 17% Álveri í Reyðarfirði 61% með 23% andvígir 0g 16% vorki með né á móti.  Svo árið 2003 var enn á ný gerð könnun og þá var þetta orðið 64.4% meðfylgjandi eða 2 af hverjum 3 sem voru spurðir. Niðurlagið var svona  3 af hverjum 4 á Landsbyggðinni meðfylgjandi Kárahnjúkavirkjun og Álveri á Reyðarfirði, Höfuðborgarsvæðinu 57,5% með en 42,5% á móti 70% Karla meðfylgjandi Virkjun um 60% kvenna meðfylgjandi. Svo kemur þetta Pólitískt, 84% stuðnigsmanna framsóknarflokksins fylgjandi 80% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins 55% stuðningsmanna Samfylkingarinnar um 50% frjálslyndra en svo aftur 1 af hverjum 5 Vinstri Grænum. Sem kemur inn á það að þetta er fólkið sem kýs ríkisstjórnina og þetta var ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Sem landsmenn kusu rétt eins og þú sagðir við einn hér að ofan svona virkar Lýðræðið í Landinu. En af þessu má draga ályktanir að hefði þetta farið í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá eru ansi miklar líkur á að hún hefði ekki stoppað þessa framkvæmd. En auðvitað er ég að tala á líkum ekki af því að það sé hægt að fullyrða það með vissu, en tölurnar tala sínu máli og maður sér frá 2001 -2003 aukinn stuðning við framkvæmdina og ekki bara fólkið í landinu líka stór samtök atvinnulífsins og önnur sveitarfélög. Svo segir mér það líka meira um þig en margt sem þú skrifar að þú skulir vera umhverfissinni og mótir skoaðnir þínar á því. Ég er ekki stóriðju sinni almennt og móta skoðanir mínar ekki tengdu stóriðju. Heldur tel ég og taldi á sínum tíma þetta vera nauðsynlegt uppbrot í mannlífi hér eystra og nauðsynleg lyftistöng fyrir atvinnulífið sem teigir sig á landsvísu ekki bara hér á Austurlandi. Þú verður að afsaka landlokuna , en þetta verður stundum að vera langt þegar verið er að rökræða og fara yfir málin. Svo kall minn ég veit líka ýmislegt um málið......

Erlingur Guðjónsson (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 14:21

17 identicon

Sæll Gunnar aftur!

"... ég er að segja að í svona stóra framkvæmd hefði ekki verið farið nema fyrir lægi kaupandi að orkunni á mun lægra verði en í smásölu." Athugaðu: Grundvallarforsenda fyrir þessari framkvæmd er Jökla. Hið geggjaða í þessu máli er að farið var í framkvæmdina áður en samið hafði verið við þá sem fara með vatnsréttindin.

Enn langar mig að setja fram dæmi. Á sumarbústaðalóð þinni við Þingvallavatn er lind. Þar sprettur upp dýrðlegt vatn sem fjölfróðir segja að búi yfir lækningarmætti. Friðrik Sopi ríkisstyrktur ferðmálafrömuður & athafnamaður sér fram á stórkostleg tækifæri. Hann getur boðið þýskum ferðamönnum upp á billlegar ferðir til Íslands og gulrótin á stöng hans er lindin sem ferðamennirnir fá að bergja á og verða heilir -- allra meina bót. Frikki er maður sem lætur ekki við hugmyndirnar sitja. Hann bókar hundruði þúsunda túrista í ferðina miklu. Gengur frá samningum við Icelandair sem eðlilega sjá þegar í hendi sér arðsemina. Friðrik er meira að segja búinn að byggja risastórt hótel við lóðamörkin til að hýsa ferðafólkið. Verktakarnir þeir eru himinlifandi. Aðeins eitt lítið atriði er ófrágengið. Það hafði gleymst í dugnaðinum. Hvort það sé ekki í góðu þín vegna að hóparnir fái að ganga hjá bústaðnum þínum að lindinni þinni góðu og fá sér sopa? Það getur ekki verið mikið mál því allir hljóta að sjá hversu þjóðhagslega hagkvæmt það er að Friðrik flytji inn allt þetta mikla þýska stóð. Þú ferð nú varla að setja þig mikið á móti því? Þú getur ekki haft neitt á móti því að þýskir þyrstir munnar fái svalað þorsta sínum?

Þú ert ekki svo mikið sem spurður hvort þér hugnist þetta bauk Friðriks. Enda skiptir þitt álit engu máli. Vinur Frikka frá í klíku í framhaldsskóla er forsætisráðherra og honum finnst þetta snilldarhugmynd - gott fyrir mikilvæg fyrirtæki og þjóðarbúið í heild. Svona tímabundið í það minnsta. Og besti vinur vinar forsætisráðherra situr í Hæstarétti þannig að engin verður nú fyrirstaðan þar verðir þú með eitthvert múður. Og þú segir, nánast til málamynda: "... jámmm... huhummm... en, fæ ég engar bætur fyrir átroðninginn? What´s in it for me? Ég sjálfur var nú að gæla við þá hugmynd að koma á fót lítilli og átöppunarfabrikku svo selja megi lindarvatnið um heim allan."

En Frikki svarar að bragði: "Sorri Gummi minn! Þú bara varst bara ekkert að gera með lindina. Þannig að þú verður bara að feisa það að hún var og er verðlaus. Og ... sko, samningarnir sem ég er búinn að gera við þýsku ferðaskrifstofuna eru nú þannig að ég er ekki að fá neinn svívirðilegan arð að þessu. Enda er þetta allt svona meira og minna góðgerðarstarfsemi að minni hálfu. Þannig að ég var að spökulera hvort það væri ekki sanngjarnt, sé miðað við þá samninga, að ég borgi þér ... tja, tuttugu þúsund kall?"

Og þú segir: "Ha? Á viku?"

Frikki segir: "Nei. Sem eingreiðsla. Auðvitað. En ekki hvað? Gunni minn. Vertu nú ekki með neitt vesen."

Þú veist ekki hvort þú átt að hlæja eða gráta. Og ert svo kallaður ginningarfífl ofan í kaupið af mönnum sem virðast ekki hafa grænan grun um hvað gengur á.

Kveðja,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 16:05

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ekk góð samlíking Jakob.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.8.2007 kl. 16:28

19 Smámynd: Villi Asgeirsson

Mér fannst þetta bara nokkuð fínar samlíkingar hjá Jakobi Bjarnar. Það er nefnilega svo merkilegt að mörgum þykja hlutir, eða staðir, einskis virði nema bókhaldari geti sýnt fram á að þeir hafi skilað arði.

Svo er það auðvitað alveg stórmerkilegt að ekki hafi verið gengið frá þessum hlutum fyrir fram. Nema að maðkur sé í mysunni... 

Villi Asgeirsson, 25.8.2007 kl. 20:29

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Huglægt mat á þessum verðmætum verður jafn fjölbreytt og mennirnir eru margir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.8.2007 kl. 22:53

21 identicon

Gunnar Gunnar!

Þetta er ekki huglægt mat. Kröfur sem lögmenn landeigenda setja fram eru grundaðar vel. Þar er meðal annars stuðst við nýlega raforkusamninga bæði hérlendis sem og í Noregi. Þú gerðir vel í að lesa það sem þeir hafa sett fram í þessum efnum. Til dæmis þetta: http://regula.is/Apps/WebObjects/Logmenn.woa/wa/dp?detail=1000269&name=frett

1,6 milljarðar fyrir Jöklu er brandari. Málið á án efa eftir að hafna að endingu fyrir alþjóðadómstólnum í Haag. Því íslenska stjórnsýslan er samansúrruð því miður og dómstólar með. Meðan hækkar orkuverð. Þar í borg munu menn hrista hausinn vegna þessarar vitleysu og Landsvirkjun verður skikkuð til að greiða það sem ber. Mér segir svo hugur að Landsvirkjunarmenn muni grátbiðja íslenska dómara um að hækka þessa upphæð verulega í sinni umfjöllun í þeirri veiku von að málið endi ekki þar.

Kær kveðja,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 25.8.2007 kl. 23:42

22 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tel mig ekki hafa "snúið öllu á hvolf með því að láta eins og landeigendur hafi tapað fé."

Í bloggi mínu legg ég ekki dóm á það hvort greiðslan fyrir vatnsréttindi sé sanngjörn heldur bendi ég á það að landeigendur voru ginntir með því að telja þeim trú um hve frábær þessi framkvæmd væri og að landeigendur telji nú að gróði þeirra verði ekki sá sem þeir trúðu að hann yrði miðað við gyllingu framkvæmdarinnar.

Beina tilvitnunin í álit lögfræðings Landsvirkjunar á því hve mjög hin áhættusama virkjun minnki virði vatnsréttindanna sýnir að nú telur fyrirtækið sig ekki þurfa lengur að gefa landeigendunum falskar vonir heldur megi þeim nú vera ljóst, - eftir að ekki verður aftur snúið, - að þeir ofmátu gróðamöguleika sína.

Ómar Ragnarsson, 26.8.2007 kl. 23:20

23 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fyrirgefðu Jakob, var að svara athugasemd Villa Ásgeirs

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.8.2007 kl. 13:38

24 identicon

Ómar!

Ginntir hvernig? Það liggur fyrir að í framkvæmdina var farið án þess að landeigendur væru svo mikið sem spurðir. Jökla var tekin að þeim forspurðum. Þannig að það er ekkert um það að ræða að þeir hafi ofmetið gróðamöguleika sína hvorki til né frá. Hvað ertu að tala um?

Kveðja,

Jakob

 Ps. Sæll Gunnar! Já, ég sé það núna. Þau verða oft slungin þessi fléttuðu samtöl á athugasemdakerfum.

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 28.8.2007 kl. 19:43

25 identicon

Erlingur.

"En gallup gerði könnun fyrir Landsvirkjun 29 maí - 12 júní 2001 og krufningar skoðanna könnunnarinnar þá var á þessa leið Gallup spurði: Þekkiru mikið,nokkuð ,lítið eða ekkert til áforma um byggingu Kárahnjúkavirkjunnar útkoman var þessi. Mikið = 6,1% sem mér finnst ansi lítið. Nokkuð =29,3% Lítið = 42,6% ekkert 22,0% þannig að hægt er að merkja af þessu úrtaki að 64.6% vissu bara mjög lítið um þessa framkvæmd."

Hvaða hug hefði þetta fólk (64,6%) til Kárahnjúkavirkjunar ef það hefði verið upplýst og vitað meira um framkvæmdina? Ég geri ráð fyrir að stór hluti þess hefði þá a.m.k. myndað sér skoðun á málinu, byggða á staðreyndum en ekki áróðri yfirvalda og Landsvirkjunar, tilfinningum eða þvaðri.

Þú mátt, eins og svo margir aðrir í umræðunni, reyna að leggja smá skilning í það að þeir sem eru og hafa verið á móti því að virkjað var við Kárahnjúka, eru ekki mótfallnir atvinnuuppbyggingu á Austfjörðum. Það er ljóst að ekki verður brætt ál nema rafmagn sé til staðar en mátti ekki afla þess annarsstaðar með minna raski?

Jökla og umhverfi hennar "var" flott og að mínu mati frábært svæði með mikla framtíðarmöguleika fyrir hundruði manna til að afla sér tekna t.d. í ferðaþjónustu. Samgöngumannvirkin á þessu svæði, hefðu þau verið reyst einum til tveimur áratugum fyrr, hefðu rennt sterkum stoðum undir ferðaþjónustutengda starfsemi á svæðinu. Það er alveg öruggt því krafturinn í austfirðingum og héraðsbúum er þvílikur að þeir væru alveg örugglega búnir að koma sér upp mikilli og góðri aðstöðu þarna uppfrá og hagnast á "verðlausri ánni og verðlausu uppfoka landi".

Er það ekki líka atvinnuupbbygging?

Verst að það skuli ekki vera rekin ríkisferðaskrifstofa með sömu drift og Landsvirkjun.

Þú komst að grundvallaratriði fyrir framförum í skrifum þínum en það eru samgöngur. Bættar samgöngur hefðu fyrir löngu þurft að koma til þarna uppfrá til að bæta aðgengi að hálendinu. Fram að virkjun var ekki talið hagkvæmt að leggja fé í svoleiðis vitleysu því það hafði hvort eð er enginn erindi á þetta svæði. Magnað viðhorf.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en ég bara varð að setja aðeins hérna inn vegna þess að ég skynja misskilning af þinni hálfu gagnvart þeim sem ekki vilja virkja á þann hátt sem gert var við Kárahnjúka.

Karl Guðmundsson (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 04:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband