24.8.2007 | 11:18
TVEIR ÞJÓÐVERJAR TÝNAST, 1907 OG 2007
Sumarið 1907 hurfu Þjóðverjarnir Knebel og Rudloff sporlaust í Öskju og það er sérkennileg tilviljun að einmitt öld síðar skuli tveir Þjóðverjar týnast á svipaðan hátt í íslensku fjallendi og að árið 2007, rétt eins og 1907, skuli líða vikur þangað til uppgötvast að eitthvað hafi farið úrskeiðis. 1907 var engin leið að tryggja að hjálp bærist ef eitthvað bæri útaf í Öskju, - þangað var tveggja dagleiða ferð á hestum. Nú tekur 20 mínútur að fljúga frá Mývatnsflugvelli yfir Öskju.
Á hitt er að líta að ekkert símasamband er innan úr Öskju við umheiminn, ekki einu sinni um gervihnött.
Öðru máli gegnir um Öræfajökul og því er sárt til þess að vita að ferðamenn sem þar eru að príla geti verið týndir svo lengi án þess að um vandræði þeirra sé vitað.
Í þjóðgörðum erlendis er vandlega fylgst með fólki sem þar er í gönguferðum og það við miklu hættuminni aðstæður en hér á landi. Í Yellowstone þarf til dæmis leyfii til að ganga eftir 1600 km löngu göngustígakerfi garðsins og göngufólk verður að halda nákvæmar tímaáætlanir.
Boð og bönn eru hvimleið en það er mikill munur á því að segja "nei" eða segja "já, ef..." og síðan að tilgreina eðlileg skilyrði. Í tilfelli Þjóðverjanna á Svínafellsjökli hefði ekki þurft annað en að þeir tilkynntu hvert þeir ætluðu og hve lengi þeir yrðu og að þeim yrði gerð sérstök grein fyrir því hve hættulegt svæðið væri og bent á heppilegri gönguleið.
Vanur jöklagöngumaður sagði mér í gærkvöldi að hafi þeir fallið niður í sprungu á Svínafellsjökli lendi þeir í mörgum tilfellum í þvílíkum vatnssvelg þar niðri að aldrei muni finnast af þeim tangur né tetur.
Hafi þeir lent í slíku slysi hefði svo sem ekki breytt neinu hvort hvarf þeirra uppgötvaðist strax eða síðar. Það breytir því hins vegar ekki að menn geta líka lent í óhöppum þar sem skiptir sköpum að það uppgötvist sem fyrst.
Svo vikið sé aftur að hvarfi Rudloffs og Knebels setti Jón Jónsson heitinn jarðfræðingur fram þá kenningu skömmu fyrir andlát sitt að sjá mætti enn ummerki um hrun úr bakka Öskjuvatns sem líklegast hefði sökkt þeim félögum á siglingu upp við hann.
Til stóð að við Jón færum þangað næsta sumar og skoðuðum staðinn en Jón lést áður en það gæti orðið að veruleika.
Þar með hvarf sú vitneskja og gátan um afdrif þeirra er jafn dulúðleg og fyrr og sennilega áfram reimt af þeirra völdum samanber þessar hendingar:
Beygðir í duftið dauðlegir menn
dómsorði skaparans hlíta.
Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn
sig ekki frá gröf sinni slíta.
Tungfarar upplifa ósköpin tvenn: -
eldstöð og skaflana hvíta.
Alvaldsins sköpun og eyðingu í senn
í Öskju þeir gerst mega líta.
Höll íss og eims, -
upphaf vors heims, -
djúp dularmögn, -
dauði og þögn.
Á þriðja tug björgunarsveitarmanna leitar á Svínafellsjökli við erfiðar aðstæður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
4. ágúst 1952 lögðu tveir ungir menn frá Skotlandi, upp í göngu. Takmarkið var hæsti tindur landsins og fóru þeir á Skaftafellsjökul s.s. vestan Hafrafells. Veðrið var dágott er þeir lögðu upp en síðdegis skall á slæmt veður sem versnaði næstu daga. Ekki var hægt að hefja leit að ungu mönnunum fyrr en veður gekk niður en skemmst er frá því að segja að þeir hafa aldrei fundist.
Í fyrrasumar birtist frétt í Morgunblaðinu þess efnis að hluti viðlegubúnaðar þeirra hafi fundist og hófu menn að leita á nýjan leik, en nú að líkamsleifum þessara ungu pilta. Ekki fannst neitt við þá leit en hafi maður í huga að jökullinn skilar ávallt því er hann tekur þá er ekki útséð um það.
Þorgerður Jónsdóttir (IP-tala skráð) 24.8.2007 kl. 14:56
Það góða við frelsið á fjöllunum er að hægt er að ferðast víða og labba eins og mann lystir. Það getur gripið mann víðáttubrjálæði og hægt að dekka góða spotta á einum góðum göngudegi. En lágt skýjafar með súld og rigningu ruglar hvern sem er í áttum og frelsið til að labba hefur þennan dragbít að það er ekki með öllu hættulaust. Það þarf ekki birni eins og í Norður Ameríku til að komast í hættur. Jöklarnir eru mjög varasamir og er mér sjálfum afar illa við að fara út á þá.
Vona það besta með þessa tvo Þjóðverja.
Ólafur Þórðarson, 24.8.2007 kl. 15:59
Ég efast um að einhverskonar tilkynningaskylda væri heppileg eða praktísk leið til að koma í veg fyrir að fólk "gleymist" uppi á hálendinu. Þetta eru hlutir sem ferðamenn ættu að sjá um sjálfir. Það er einfalt mál að hringja, emila eða smassa á ættingja og segja hvert förinni er heitið og hvenær má búast við að heyra í manni aftur.
Það sem ríkið gæti gert er að prenta bækling með almennum upplýsingum um ferðir á hálendinu og viðvörunum um hættur. Þar mætti einnig vera símanúmer sem ferðamenn geta gefið ættingjum, skyldi ekki heyrast til þeirra á tilsettum tíma. Landinu yrði skipt upp í svæði í bæklingnum, svo viðkomandi gæti sagt nokkuð nákvæmlega hvar ferðamennirnir voru án þess að vita nokkuð um landið.
Villi Asgeirsson, 25.8.2007 kl. 20:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.