26.8.2007 | 22:51
GREIDDU MÉR GÖTU - EÐA HVAÐ?
"Greiddu mér götu...o.s.frv." Þessar hendingar við lag Megasar hafa hljómað í huga mér í ökuferð okkar hjónanna til Bolungarvíkur og til baka um helgina. Sinnuleysi verktaka gagnvart vegfarendum er ekki aðeins í Reykjavík, heldur hvar sem er. Á leið vestur eru vegamót í Þorskafirði þar sem velja má um að aka vestur fyrir til Ísafjarðar eða fara yfir Þorskafjarðarheiði um Djúp 16 km styttri leið. Flestir þeirra sem voru á sömu leið við hjónin fóru síðarnefndu leiðina. En í morgun var hún var ekki styttri heldur lengri og þeir sem fóru hana og bölvuðu því í sand og ösku að aka fram á lokaða leið yfir Eyrarfjall og þurfa að fara mun lengri leið út fyrir Vatnsfjörð og inn Mjóafjörð.
Þegar þau komu vestur var þeim sagt að þessi lokun Eyrarfjalls vegna vegaframkvæmda hefði verið auglýst í útvarpinu. Ég kaupi ekki þessa sífellda afsökun að vegatálmar ýmsir séu auglýstir í útvarpi. Í útvarpi er um að velja margar rásir í stærsta þéttbýlinu og svona auglýsingar fara því framhjá þorra fólks.
Á ferð um landið er útvarpssambandslaust á stórum köflum og stundun enn minni möguleikar á að vegfarendur heyri auglýsingar í úvarpi.
Ég hef ákveðna skoðun á þessu máli. Bæði í þéttbýli og dreifbýli er aðeins einn boðlegur möguleiki til upplýsingar um svona lagað: Upplýsingarskilti við þau vega- eða gatnamót þar sem fólk getur valið um mismunandi aksturleiðir í tíma. Það er ekki nóg að auglýsa í útvarpi og jafnvel ekki heldur að auglýsa á netinu eða í textavarpi.
Á ferðalagi eru takmakaðir möguleikar á að fylgjast með í textavarpi eða á netinu og eina leiðin til að allir hlutaðeigandi fái upplýsingar í hendur er að láta þá vita á leiðinni sjálfri á þann hátt að allir megi sjá.
Við vegamót í Þorskafirði stendur á skiltinu sem vísar veg til Ísafjarðar að þangað séu 218 kílómetrar. Þetta var rétt síðdegis á föstudag en lygi í morgun, - vegalengdin var þá í raun nokkrum tugum kílómetra lengri og menn hefðu valið vestari leiðina ef þeir hefðu vitað þetta.
Það á ekki að vera stórmál að handmála einfalt leiðbeiningarskilti þegar svona stendur á og setja upp við viðeigandi vegamót.
Mér er í minni þegar verktaki lokaði þegjandi og hljóðalaust bíla 700 íbúa við Háleitisbraut inni klukkan átta á mánudagsmorgni vegna malbikunar akreinar á Háaleitisbraut. Handmáluð upplýsingaskilti daginn áður við botnlangagöturnar þrjár hefðu breytt miklu.
Fleiri slík dæmi þekkja margir úr Reykjavík þegar ökumenn eru teymdir á asnaeyrunum fram á skurðbakka eða lokaðar götur og mynda síðan umferðarvandræði í þröngum götum sem fara verður í gegnum í stað þess að með einföldu leiðbeiningarskilti við gatnamót fjær verkstaðnum hefði verið hægt að greiða mönnum götu á margfalt skaplegri og kostnaðarminni hátt.
Á leiðinni til baka í dag gerðist svipað. Mágur minn og kona hans fóru til Reykjavíkur fyrr í dag og sögðu mér að það gengi ágætlega þrátt fyrir vegaframkvæmdir við gatnamót Þingvallavegar og Vesturlandsvegar.
Þegar við Helga komum síðan í kvöld var þetta breytt og samfelld bílaröð náði langleiðina upp að Hvalfjarðargöngum. Ástæðan: Jú, verktakinn hafði tekið upp á því að loka annarri akrein Vesturlandsvegar einmitt þann tíma þessa sunnudags þegar flestir eru að koma til borgarinnar eftir helgina.
Gat greinilega ekki beðið með þetta þangað til mesta umferðarþunganum linnti seinna í kvöld.
Aðeins var hægt að aka aðra leiðina í einu og hleypt var inn á þá leið til skiptis, ýmist til suðurs eða norðurs.
Frábær tímasetning eða hitt þó heldur að hálfloka leiðinni á þessum tíma helgarinnar.
Ég sá einn jeppaökumann beygja til hægri og sýndist hann ætla að aka leið framhjá hnútnum. Hugsanlega hafa aðrir reynt þetta líka og kannski var þessi leið fær.
Ef hún var fær hefði verið gott að sjá það tilgreint á einföldu upplýsingarskilti. Það hefði létt á umferðinni og minnkað töfina.
Ef hún leiddi menn í ógöngur hefði líka verið gott að fá um það upplýsingar.
Þegar fólk kemur saman úti á landi á fjölskyldumótum setja einstaklingar oft upp einföld upplýsingaskilti á leiðinni svo að allir geti ratað á staðinn.
Það virðist hins vegar ofraun fyrir fyrirtæki með veltu upp á tugi milljarða.
Ástand veganna á Vestfjörðum er síðan efni í sérstakt blogg.
Athugasemdir
Er nema von Ómar að maður spyrji, hvar eru eftirlitsmenn vegagerðarinnar?
Högni Jóhann Sigurjónsson, 26.8.2007 kl. 23:05
Hárrétt og orð í tíma töluð hjá Ómari. Hinsvegar hefur öllum svona ábendingum venjulega verið svarað með hroka eins og Ómar lýsir. Tilkynningar í RÚV eru tilgangslausar, á það hlustar ekki nokkur sála lengur nema vistfólk á elliheimilum. Flest fólk á virkum aldri hefur ferðast meira og minna erlendis og þekkir af eigin raun hvernig að þessu er staðið í siðmenntuðum löndum. Vegagerðin og verktakar á hennar vegum eiga margt ólært, bæði í verkmennt og mannasiðum.
Norðanvindurinn (IP-tala skráð) 27.8.2007 kl. 07:24
Það er rétt hjá ykkur manni er svarað með hroka, ég átti stutt samtal við starfsmann hjá vegagerðinni á Selfossi um nokkur atriði þar með talið lélegar merkingar við framkvæmdir og það munaði engu að hann skelti á mig, ég tek fram að ég var mjög kurteis og hreinskilinn við hann, svo varð hann reiður að hann er sagður hafa verið í samtölum við sjálfann sig síðann.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 27.8.2007 kl. 14:57
Karl faðir minn (þ.e. karlinn faðir minn; hann heitir ekki Karl :-) ), er 87 ára gamall og enn keyrandi eins og herforingi.
Hins vegar fer að koma að því að hann þurfi að fara að hægja á sér aðeins, kannski ekki síst út af einmitt þessu vandamáli sem Ómar stingur hér á. Gamli maðurinn sótti mig út á Keflavíkurflugvöll um daginn, en það hefur hann gert nokkuð oft. Þegar hann var á leiðinni á Völlinn frá Hafnarfirði áttaði hann sig illa á akreinamerkingum þar sem verið var að færa umferð á milli vegna framkvæmda og var næstum lentur út í gjótu. Ég verð að segja að á leiðinni til baka þegar hann benti mér á hvar þetta hefði verið var ég ekkert hissa. Sýndist þarna vera eitt blátt örvaskilti og kannski eitt hálfbatteríslaust blikkljós sem sagði ekkert um hvert ætti að beygja. Á vegi þar sem er 90 km/klst hámarkshraði á að vera skilti við skilti síðustu 500-800 metrana á undan svona tilfæringum á veginum, eins og menn eiga að venjast í nágrannalöndum okkar. Svo þar sem umferð er færð yfir á hina akbrautina (ekki bara akrein, heldur akbraut) á náttúrulega að gera það með keilum í löngum röðum.
Svo er annað sem ég tók eftir akkúrat í þessari ferð, en það er að þar sem akbrautin suður til Reykjavíkur var notuð fyrir umferð í báðar áttir (þar sem kominn er 2+2 vegur að mestu) olli það nokkrum bílstjórum ruglingu (að maður tali nú ekki um hættu) þar sem þeir áttuðu sig ekki á því að það væri umferð á móti og notuðu þeir því vinstri akreinina. Það voru engin skilti sem sögðu til um að það væri umferð á móti. Maður bara svona fékk að vita það þegar maður mætti bíl á 90 km hraða. Aftur þarna, við svona aðstæður á að vera 'contra-flow' skilti á a.m.k. 50 metra fresti að mínu mati.
Karl Ólafsson, 28.8.2007 kl. 00:49
Kæra Helga Vala. Í Bolungarvík eigum við hjónin marga góða vini og þar býr til dæmis bróðurdóttir mín með fjölskyldu sinni. Í þessari ferð hafði það þó algeran forgang að vera samvistum við Guðrúnu tvíburasystur Helgu og fjölskyldu hennar þann tíma sem við höfðum fyrir vestan, en við vorum þarna til að fylgja til að fylgja syni hennar, öðlingnum Björgmundi Bragasyni, til grafar, en hann var burt kallaður snögglega aðeins rúmlega fertugur.
Næst þegar ég kem vestur og þá vonandi í gleðilegri erindagjörðum vona ég að ég geti haft rýmri tíma til að hitta ykkur enda full ástæða til, ekki aðeins vegna góðra fyrri kynna, heldur vegna þess hvað þið spjarið ykkur öll vel, - það mætti stundum halda að það séu bara einn bæjarstjóri úti á landi, Grímur Atlason.
Ómar Ragnarsson, 28.8.2007 kl. 11:22
Ómar. Ég votta þér og mágkonu þinni samúð mína. Ég þekkti Björgmund, hann var bekkjarfélagi minn í Menntaskóla Ísafjarðar. Hann var einstaklega glaðlyndur maður og skemmtilegur.
Theódór Norðkvist, 29.8.2007 kl. 20:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.