ÓGREIÐAR GÖTUR, - HVERS VEGNA?

Í blogginu hér á undan minnist ég á vestfirsku vegina. Ótrúlegt en satt, þá var Þorskafjarðaheiðin gleðilegasti kaflinn á hringferðinni um Vestfirði um síðustu helgi. Vegur hefur verið lagaður mikið síðan ég fór hann síðast og var í miklu betra ástandi en búast mátti við um svo "frumstæðan" veg. Öðru máli gegndi um ýmsa vegakafla á hringnum, svo sem kaflann frá Þingeyri til Vatnsfjarðar, þar sem manni finnst að sömu klappirnar standi upp úr veginum og fyrir 30-40 árum.

Eyrarfjallið og hluti malarvegarins í Mjóafirði var líka herfilega á sig kominn, - hvernig er það eiginlega, eru ekki til vegheflar á Vestfjörðum?

Hættulegastar eru sumar holurnar sem gapa á móti vegfarendum þegar ekið er inn á brýr, - Helga hrópaði oft upp yfir sig þegar ég fór yfir brýrnar aðeins nokkra sentimetra frá handriðinu til þess að sleppa við hvassa steinsteypueggina þar sem brúin mætir mölinni.

Þó ekki væri nema að senda einn lítinn pallbíl með möl sem mokað væri ofan í þessar einu holfur, myndi það gera mikið gagn. Hjólbarðar á nýjustu bílunum eru orðnir svo lágir að þeir mega ekki við neinu, aðeins nokkrir sentemetrar frá veginum upp í felgu.

Nú er farið að tala um olíuhreinsistöðvar fyrir vestan og maður heyrir strax sönginn: Þegar þær koma verða til nógir peningar til að laga vegakerfið.

Ég er núna á ferð um Norðausturland þar sem þessi söngur er sunginn sí og æ: Haldið þið að það sé munur að hafa fengið Kárahnjúkavirkjun, - annars gæti enginn notið náttúru austurhálendisins.

Það er búið að syngja þennan söng í áratugi og þegar við Friðþjófur Helgason hittum eitt sinn hóteleiganda hér um árið eftir að hafa eytt heilum degi í að ganga niður með Jökulsá í Fljótsdal og mynda fossarröðina einstöku, þar sem tveir samliggjandi fossar eru á hæð við Gullfoss, - og lýstum þessu einstaka landslagi fyrir hótelhaldaranum, - andvarpaði hann og sagði: "Haldið þið að verði ekki munur þegar Landsvirkjun verður búin að leggja vegi um þetta allt og opna það fyrir ferðamönnum.

"Til að skoða hvað?" spurðum við. "Nú, þetta stórkostlega landslag sem þið voruð að lýsa," svaraði hótelhaldarinn, "fossana og allt það."

"Fossana?", spurðum við. "Þeir verða horfnir, því að áin verður leidd í göng fyrir ofan þá."

"Æ, ég ég gleymdi því", svaraði hótelhaldarinn.

Þetta var eitt af mörgum dæmum þess hvernig hægt er að þylja sömu síbyljuna nógu oft til að hún verði óhagganleg.

Þar sem ég hef farið um þjóðgarða erlendis (25 slíka) hef ég hvergi séð að það hafi skort neitt á að kerfi vega og slóða væri eins gott og hugsast gat svo og öll önnur þjónustumannvirki, og hvergi þurfti að reisa risaverksmiðjur eða stórar eða smáar virkjanir til þess að það væri hægt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er réttlætanlegt að miða alltaf við útlönd þegar verið er að bera saman vega framkvæmdir á islandi þar sem búa ekki nema 300 000 manns þar af 200 000 vinnadi fólk en miljónir eru á bakvið vegaframkvæmdir víða erlendis

Garðar Svavarsson (IP-tala skráð) 28.8.2007 kl. 18:11

2 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Það er nú einu sinni þannig Ómar minn, að ráðamenn (með peningaglampa í augunum) virðast ekki skilja að þeir fjármunir sem þeir leggja í bættar samgöngur, skila sér í auknum atvinnutækifærum.  Fólk setur það fyrir sig, að flytja út á landsbyggðina (Vestfirði) þar sem samgöngur eru ótryggar, og oft ekki einu sinni hægt að treysta á flug.  Ég er þess handviss, að um leið og vegirnir verða bættir, og vegalengdir milli staða styttar, þá verður fólk sem hefur tök á því að vinna hvar sem er fúsara að flytja vestur, þar sem húsnæðiskostnaður er minni, og vegalengdir styttri innan bæjar.  Og í öllum bænum trúið ekki Kolbrúnu Bergþórsdóttur.  Það er víst menningarlíf úti á landi.  

Sigríður Jósefsdóttir, 28.8.2007 kl. 22:30

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er nú fyrirhuguð olíhreinsunarstöð orðnar að mörgum hjá þér Ómar. Hef ég misst af einhverju?

Þú ert duglegur við að bera saman þjóðgarða erlendis og hérlendis. Heldur þú virkilega að hér væri ekki betra vegakerfi um óbyggðirnar (sem þú ert reyndar á móti sjálfur) ef af því væri bullandi gróði? Finnst þér fjölmennari og þéttbýlli lönd samanburðarhæf við stórt og dreifbýlt land eins og Ísland? Heldurðu að rekstur hálendisvega á Íslandi sé sambærilegur við rekstur vega í löndum sem hafa mun mildara loftslag en hér er? Eigum við Íslendingar að veita miklu fé í fáfarna ferðamannaslóða, þegar þjóðvegur 1 er eins og hann er? Er ekki réttara að gera vegakerfið í byggð örugara, áður en við förum í gæluverkefni? Er hálendið okkar og náttúra almennt ekki afar takmörkuð auðlind, sem þyldi aldrei þann ágang sem þjóðgarðar erlendis þurfa að þola og þú virðist sjá í hyllingum?

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.8.2007 kl. 00:54

4 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Ágæti Gunnar.  Á Vestfjörðum búa yfir fimm þúsund manns.  Það eru langt frá því að vera óbyggðir.  Dæmi: Á milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar eru þrír fjallvegir.  Þar af tveir sem eru lokaðir átta mánuði á ári.  Patreksfirðingar þurfa að keyra yfir 600 kílómetra í átta mánuði á ári ætli þeir sér að komast til Ísafjarðar.  Ég er ansi hrædd um að þetta þætti ekki boðlegt annars staðar.  Jú, og þessir tveir fjallvegir sem voru báðir lagðir um og fyrir 1950 hafa ekki verið mikið lagfærðir síðan.  Þetta er það sem Vestfirðingar hafa mátt búa við á meðan aðrir landshlutar hafa fengið malbik og göng.  (Jú takk fyrir Vestfjarðagöng, en betur má ef duga skal).  Og mér finnst þú taka ansi stórt upp í þig að kalla vegabætur á Vestfjörðum gæluverkefni.  Vona að þú kynnir þér málin...... 

Sigríður Jósefsdóttir, 29.8.2007 kl. 09:28

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Lastu ekki pistil Ómars Sigríður? Helmingur pistilsins fjallar um vegi á austurhálendi Íslands.

Ég segi sjálfur í minni athugasemd: Er ekki réttara að gera vegakerfið í byggð örugara, áður en við förum í gæluverkefni?

Vona að þú lesir betur það sem skrifað er, Sigríður.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.8.2007 kl. 10:14

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Og þá á ég að sjálfsögðu við fjallvegi sem tengir byggðir saman, það kalla ég vegakerfi í byggð

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.8.2007 kl. 10:16

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Gaman að sjá þig á blogginu Sigga! Ég hef farið nokkuð oft keyrandi vestur síðustu 2-3 ár og það er sorglegt að sjá hve litlar framfarir hafa orðið á samgöngum þar.

Sem dæmi um úrbætur þá mætti gera Kollafjarðarheiði færa fólksbílum. Það myndi ekki kosta mikið. Þó það stytti ekki vegalengdina milli Reykjavíkur og Ísafjarðar mikið þá er það skemmtilegri leið en að þurfa að fara Þorskafjarðar- og Steingrímsfjarðarheiði.

Guðjón Arnar Kristjánsson hefur lagt til að könnuð verði hagkvæmni þess að gera jarðgöng milli Kollafjarðar og Ísafjarðar (fjarðarins, ekki kaupstaðsins!)

Theódór Norðkvist, 29.8.2007 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband