7.9.2007 | 00:11
ÓHEPPILEGT RÚTUSLYS
Var að koma að austan og ók þrisvar í dag og í gær niður Bessastaðabrekku í Fljótsdal. Vonandi verða allir heilir sem slösuðust í rútuslysinu þar á dögunum. Þessi brekka og brekkan niður Hellisheiði eystri á suðurleið eru með mikilli fallhæð og því áríðandi að hemlum sé ekki ofgert. En að allt öðru. Rútuslysið var líka óheppilegt vegna þess að ef það hefði ekki átt sér stað hefði ekki komist upp hvernig komið er fram við erlent verkafólk. Hægt hefði verið að halda áfram til síðustu verkloka á Kárahnjúkasvæðinu án þess að upp kæmist um eitt eða neitt. Sem virðist hafa verið og verða stefnan í þessum málum.
En auðvitað leysist þetta deilumál með því að aldrei verður staðið við hótanirnar um stöðvun vinnu, heldur haldnir nauðsynlegir sex stunda samningafundir eftir því sem tilefni gefast til. Þótt 1-2000 manns séu við vinnu hér á landi utan kerfis og réttinda samkvæmt nýjustu fréttum sýnist málið vera komið í þann farveg sem félagsmálaráðherra vill beina því í, - að Vinnumálastofnun setji fram tillögur um fyrirkomulag mála.
Svo er bara að sjá hvort útkoman verði enn ein opinbera nefndin sem tekur sér góðan tíma. Þá geta allir beðið rólegir á meðan og setið samningafundi svona tvisvar í mánuði til að komast hjá vandræðum.
Samkomulag um undirverktaka Arnarfells | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það verður að taka hart á þessum útlendingum sem eru að vinna hér. Ef þeir lenda í vinnuslysi þá eru þeir réttindalausir. Fyrirtæki sem ráða til sýn erlent vinnuafl gera þetta til að halda launum niðri og kemur það niður á okkur Íslendingum. Ég hef unnið á vinnustað sem erlendir starfsmenn eru að ná meirihluta og er ástandið í dag á þeim vinnustað slæmt þar því ef íslenskir starfsmenn óska eftir launahækkun og hætta því að hætta ef hækkun kemur ekki þá er þeim sagt að maður kemur í mans stað og í staðin flytja þeir inn Pólverja. Ég er ekki á móti því að fá utlendiga í vinnu en það verður að standa rétt af ráðningu þeirra og hafa öll leifi í lagi til að allir séu rétt skráðir og tryggðir hér á landi.
Þórður Ingi Bjarnason, 7.9.2007 kl. 08:11
Útlendingar sem hingað koma sækjast ekki eftir réttleysi. Taka þarf hart á þeim fyrirtækjum sem brjóta á þeim rétt og lög. Það gerir Vinnumálastofnun af einhverjum ástæðum ekki: http://visir.is/article/20070907/FRETTIR01/70907011
Tapið á Kárahnjúkavirkjun er lýðum ljóst, og þó eru ekki öll kurl komin til grafar: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1043493
Framkvæmdin öll er í óefni, en varla stendur það í forstjóra Vinnumálastofnunar?
Lögum samkvæmt er á hreinu hverra hagsmuna Vinnumálastofnun á að gæta og hvaða ráð hún hefur til þess sinna sínu hlutverki.
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 10:23
Mig langar til að bæta því við að þetta ófremdarástand hefur verið á margra vitorði í þau bráðum fimm ár sem liðin eru síðan riðið var í stórum stíl á vaðið við Kárahnjúkavirkjun. Í öll þessi ár hafa af og til komið upp mál af þessu tagi án þess að séð verði að nein almennileg og endanleg lausn sé fundin af neinni alvöru. Fresturinn til 20. september gæti þess vegna enst í fimm ár í viðbót.
Ómar Ragnarsson, 7.9.2007 kl. 11:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.