13.9.2007 | 15:00
VÍST VARAÐI ÍSLANDSHREYFINGIN VIÐ SÖLU ORKULINDA
Þorsteinn Pálsson skrifar athyglisverðan leiðara í Fréttablaðinu í dag og færir að því gild rök að skipulag orkumála á Íslandi sé í uppnámi. Hann segir m.a.: "Enginn stjórnmálaflokkur hefur í reynd litið á slíka sölu sem grundvallarmál eða stefnufrávik..." Þetta er ekki rétt. Í öllum yfirlýsingum sínum, jafnvel þegar þurfti að greypa áhersluatriði í örfáar setningar á dreifimiðum, lagði Íslandshreyfingin þunga áherslu á það sem gæti gerst ef ekki yrði spyrnt við fótum í þessu efni.
Við vöruðum aftur og aftur við því, síðast í ályktun stjórnar sem send var öllum fjölmiðlum eftir kosningar, að andvaraleysi kynni að leiða til svipaðrar niðurstöðu um orkulindirnar og auðlindir hafsins, að örfáir aðilar, jafnvel erlendir, eignuðustl þessar auðlindir allar.
Síðan er smám saman að koma fram það sem við vöruðum svo sterklega við. Nýjasta dæmið er kaup erlends banka á þriðjungs hlut í íslensku fyrirtæki sem á þriðjung í Hitaveitu Suðurnesja.
Þótt Íslandshreyfingin kæmi ekki vegna ranglátra kosningalaga, ólikum þeim sem eru í nágrannalöndum okkar, þeim tveimur mönnum á þing sem hún hafði atkvæðafylgi til, - er í fullu gildi það sem segir í fyrrnefndri ályktun stjórnarinnar frá því snemmsumars, að hreyfingarinnar verður þörf áfram og að því verður stefnt að hún starfi áfram og sé tilbúin í slaginn um þessi mál, hvenær sem þess verður þörf.
Athugasemdir
Ómar stattu þig! Kárahnjúkar eru ekkert á við það sem nú er á döfinni og það hefur ekkert með einstaka nöfn manna að gera heldur græðgisvæðinguna alla og skuldasúpuna sem menn eru búnir að koma sér í.
Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 15:12
Þetta er að mínu mati alvarlegasta atlagan að sjálfstæði Íslendinga , að selja í erlendar hendur sjálf fjöreggin , auðlindinar.
Fiskurinn, vatnið og orkan allt er þetta undir. Fjármálaspekekúlantar virðast hafa um þetta frjálsar hendur...eins og dæmið sýnir með kaup hins bandaríska banka á hlut í HS og þar með í sjálfri orkuauðlindinni.
Ég tel að Alþingi Íslendinga eigi og verði að taka á þessari atlögu ...strax
Sævar Helgason, 13.9.2007 kl. 15:21
Ég "dobla" allar þessar ályktanir!
Árni Gunnarsson, 13.9.2007 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.