16.9.2007 | 18:26
VERÐMÆTI TILFINNINGANNA.
Veldi tilfinninganna heitir stórgóður pistill Davíðs Þórs Jónssonar í fréttablaðinu. Hann leiðir hugann að verðmæti tilfinninganna sem margir vilja oft gera sem minnst úr. Þessir menn tefla þeim gegn peningalegum verðmætum, - tala niðrandi um þá sem telja verðmæti ekki eingöngu felast i mælanlegum verðmætum. Oft vill gleymast að velsæld snýst um tilfinningar, - um öryggistilfinningu eigin húsnæðis og góðrar arvinnu, - um vellíðan og lífsnautn sem peningar geta keypt.
Þegar menn gera lítið úr þeirri lífsnautn sem felst í að varðveita stórbrotið umhverfi og náttúru eru þeir að leggja mismunandi mælikvarða á tilfinningar, hefja hluta þeirra upp til skýjanna en tala með lítilsvirðingu um aðrar.
Sem dæmi um verðmæti tilfinninga má nefna að nú er hlutur lista, tónlistar, kvikmynda, bókmennta o. s. frv. orðinn stærri í þjóðarframleiðslunni en landbúnaður.
Hér er um hreina framleiðslu á fóðri fyrir tilfinnigar að ræða svo notað sé efnishyggjulegt orðalag, og tilvist Bjarkar, Sigurrósar, íslensku kvikmyndanna, Gullfoss, Geysis, Vatnajökuls, Öskju og einstæðra náttúru er hægt að meta til gríðarlegra fjármuna ekki síður en tonna af áli og þorski.
Athugasemdir
Já Ómar, barátta okkar hinna "svokölluðu umhverfissinna" mun skila árangri þrátt fyrir andóf skammsýnna auðhyggjupredikara. Þarna er ég ekki að halda því fram að menn eins og Davíð S. Jónsson hafi þurft að skipta um skoðun,-öðru nær. Hann er hinsvegar góður liðsmaður.
Árni Gunnarsson, 16.9.2007 kl. 19:04
Undarlegur andskoti að gera alltaf svona lítið úr tilfinningum okkar og rökum byggðum á þeim. Ég veit ekki betur en að stærstu ákvarðanatökur lífs okkar séu byggðar á tilfinningum, t.d. hverjum við ætlum að giftast. Og ég held því líka fram að flestir landsmenn kjósi eftir tilfinningu. Þeir halda kannski að þeir séu búnir að taka ákvörðun með rökum en í raun er það hjartað sem ræður og svo sér heilinn um að styðja þá ákvörðun með rökum.
Svo er nú það.
Ibba Sig., 17.9.2007 kl. 00:23
Ég get nú ekki betur séð en að rök stóriðjusinna séu að verulegu leyti tilfinningarök. Það á að reisa álver í hverju krummaskuði til þess að fólk þurfi ekki að flytja frá heimahögunum eða vegna þess að Alcan gefur starfsfólki sínu svo fínar jólagjafir. Hvað er þetta annað en tilfinningarök?
Umhverfissinnar eru auk þess margbúnir að tefla fram rökum sem sýna fram á óhagkvæmni þessarar öfgakenndu stóriðjustefnu sem hér er rekin, til langs tíma litið, einnig óaftukræf áhrif á lífríkið (sem hafa ófyrirsjáanlegar efnahagslegar afleiðingar í för með sér) og hættu á flóðum vegna jarðskjálfta svo nokkuð sé nefnt. Svo ef tilfinningarök eru ómerkileg þá getum við bara haldið okkur við efnahags- og öryggisrök.
Ég býst ekki við að þeir sem gefa skít í tilfinningarök, setji neitt fyrir sig siðferði þessara stóriðjusóða sem hafa hrakið hundruð þúsunda fátæklinga frá bújöðrum sínum (t.d. Alcan í Indlandi) mengað drykkjarvatn í fátækum þorpum þar sem almenningur er ólæs og ekki í neinni aðstöðu til að bera hönd yfir höfuð sér og eytt hitabeltisskógum til að ná í báxít. Það er náttúrulega ekki von að hagsýnt fólk taki mark á tilfinningasemi þeirra sem telja eitthvað merkilegt við þessa regnskóga.
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 08:55
Ég missti af greininni, svo ég þakka Ómari fyrir að vekja athygli á henni. Eins og Eva segir eru sennilega sterkari "alvöru" rök gegn stóriðju, en það sem hér er nefnt er ekki síður mikilvægt. Það er svo merkilegt að þessi stórfyrirtæki og miður fallegar aðgerðir þeirra annars staðar í heiminum eru aldrei rædd. Það skal byggja álver í hvaða firði og vík sem hentar, og ef staðurinn hentar ekki er það þagað í hel. Það að stór hluti Jamaica sé svöðusár og jarðvegurinn eitraður skiptir ekki máli því fólk vill búa og vinna heima í héraði. Ekkert nema tilfinningar sem ráða þar, því ekki eru rökin sterk.
Annars var ég að reikna út að Kárahnjúkavikjun hafi kostað 9,8 mijjónir á hvern austfirðing, ef gert er ráð fyrir að hún hafi kostað 115 milljarða og austfirðingar séu 11755 (1. des. 2002). Hvað hefði mátt gera til að peppa upp á atvinnulífið á austurlandi fyrir 10 milljónir á mann?
Villi Asgeirsson, 17.9.2007 kl. 15:48
Enn og aftur er eins og þið skiljið ekki að það var ekkert "laust" fjármagn til í eitthvað annað. Þess vegna er tilgangslaust að tala um hvað hefði mátt gera fyrir Kárahnjúkapeningana ef við hefðum hætt við Kárahnjúka. Þá hefðu engir Kárahnjúkapeningar verið til. Og rök Evu sem Villi tekur undir halda ekki vatni. Stendur ekki steinn yfir steini hvað staðreyndir varðar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.9.2007 kl. 16:29
Gunnar, hvaða rök standast ekki?
Villi Asgeirsson, 17.9.2007 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.