HVENÆR ER AÐ MARKA FORSTJÓRANN?

í heilsíðufyrirsögn byggðri á viðtali við forstjóra Landsnets í Morgunblaðinu 13.febrúar segir að aðeins loftlínur geti tryggt afhendingaröryggi háspennulína. Ef þessi ummæli forstjórans áttu að þrýsta á Sandgerðinga að hverfa frá höfnun þeirra 7. febrúar á línum í gegnum sveitarfélag þeirra til Helguvíkur, - þá tókst sú ætlun forstjórans ekki því að sveitarstjórn Sandgerðis ítrekaði höfnun sína 14.mars. Í kjölfar samskonar höfnunar Grindavíkur 13. sept dregur forstjórinn nú í land og segir að þessar hafnanir komi ekki í veg fyrir lagningu línanna og þar með álver í Helguvík heldur skapi aðeins óvissu.

Rökstuðningurinn gegn línum í jörð, sem var að baki fyrri yfirlýsingu forstjórans, var öflugur. Fyrir línur yfir 200 kílóvolt er slík lausn fimmfalt dýrari en loftlína og nífalt dýrari fyrir línur yfir 400 kílóvolt. Jarðrask á yfirborði er mun meira en við jarðlínu en loftlínu og ekki hægt að sveigja þetta jarðrask eftir landslaginu eins og með línuvegi.

Mun meiri hætta er á bilunum í línum í jörð á skjálftasvæðum og jarðhitasvæðum, svo sem á stæði fyrirhugaðrar línu um Sveifluháls og margfalt lengri tíma tekur að finna bilun og gera við ef línan er í jörðu.

Það gæti skapað óbærilega hættu á stórfelldu tjóni í álverum.

Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar tók ekki dýpra í árinni í svo um ummæli forstjórans 13. febrúar að hann vitnaði í þau og fyrirsögn Morgunblaðsins með orðunum: "Ef marka má orð forstjóra Landsnets...."

Nú kemur í ljós að miðað við nýjustu ummæli forstjórans var ekki að marka orð hans 13. febrúar og fróðlegt væri að vita hve mikið er að marka orð hans nú. Hvenær er yfirleitt að marka forstjórann?

Vitna að öðru leyti til heimasíðu Landverndar um frekari upplýsingar um þessi mál, svo sem um höfnun sveitarfélagsins Voga á því að taka afstöðu til tillagna um línulögn í landi þess sveitarfélags vegna þess að upplýsingar skorti.

Verður þá mikið að marka þær upplýsingar sem berast kunna?

Maður heyrir raddir sem segja að andóf gegn virkjanaæðinu sé lítilvægt kvak öfgafólks byggt á tilfinningum en ekki rökum. Ekki er svo að sjá í þessu tilfelli og ég minni á næsta blogg mitt á undan þessu um verðmæti tilfinninganna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Ég held að það sé aldrei hægt að taka mark á forstjórnaum.  Hann seigir það sem hinum hentar hverju sinni. þetta er gott hjá Grindavík að standa við höfnun á loftlínu og vona ég að þeir nái að halda því þannagað ekki verði reistar loftlínur við þetta væntlega álver. 

Þórður Ingi Bjarnason, 17.9.2007 kl. 11:12

2 identicon

Þakka þér fyrir að vekja athygli á þessu Ómar.

Mér er ekki kunnugt um að það hafi orðið neinar meiriháttar tækniframfarir á þessum jarðstrengjum frá því að því var lýst yfir í febrúar að "aðeins loftlínur tryggi afhendingaröryggi fyrir álver". Því þótti mér merkilegt að heyra í forstjóran Landsnets í kvöldfréttum Rúv í gær.

Eins og Ómar bendir á í pistli sínum þá er hægt að nálgast allar upplýsingar, m.a. kort af línuleiðum og tilvitnaða frétt í Morgunblaðinu, hér á heimasíðu Landverndar.

Góðar kveðjur,
Bergur Sigurðsson,
framkvæmdastjóri Landverndar.

Bergur Sigurðsson (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 11:43

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er eitt sem ég skil ekki í þessari umræðu.  Af hverju er hægt að hugleiða útflutning raforku um sæstreng (sem mér finnst afleitur kostur), en ekki kemur til greina að flytja raforku til Helguvíkurálvers þá leið.  (Ef það á annað borð verður reist.)  Vissulega er umhverfisröskun af slíku, en hún er varla neitt umfangsmeiri en ef hinar leiðirnar eru valdar.  Ég fæ t.d. ekki betur séð en að línuleiðin frá Hafnarfirði til Helguvíkur sé styttri sjóleiðina en landleiðina.  Hvað varðar orkutap, þá verður það umtalsvert minna en á leiðinni til Skotlands.

Marinó G. Njálsson, 18.9.2007 kl. 09:22

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Málið snýst að stórum hluta um nýjar línuleiðir til nýrra orkuvera í Krýsuvik og Trölladyngju þar sem sjóleiðin kemur augljóslega ekki til álita.

Ómar Ragnarsson, 18.9.2007 kl. 11:31

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þá er bara að taka jarðstrenginn í hina áttina og svo út í sjó.  Síðan er hægt að taka sæstrenginn í land við Reykjanesvirkjun eða þess vegna fyrir Garðskaga.  Ég geri mér grein fyrir að þetta er drjúgur spotti samanborið við stystu loftlínu, en aðrir kostir eru að leggja jarðstreng eða að koma raforkunni ekki á markað, ef ekki næst samkomulag við sveitarfélögin sem eiga í hlut.  Ef horft er til þess hve langa vegalengd er verið að flytja rafmagn fyrir ýmis önnur stóriðjuver, þá er það ekki svo langur vegur að krækja með sæstreng fyrir Reykjanestá og Garðskaga.

Marinó G. Njálsson, 18.9.2007 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband