MÓTSAGNIR UM VINNUAFLIÐ HJÁ ALCOA.

Um nokkurra missera skeið hafa verið fluttar síbyljufréttir um hina miklu aðsókn Íslendinga að störfum í álveri Alcoa á Reyðarfirði. Á sama tíma hefur blasað við sú mótsögn sem felst í endurteknum heilsíðuauglýsingum eftir starfsfólki sem ekki virðist sjá fyrir endann á. Það er einkennileg notkun á fjármunum að auglýsa að óþörfu. Núna er verksmiðjan aðeins keyrð á fimmtungi af afköstum hennar en samt vinna þar um 100 útlendingar, mest Pólverjar.

Í kvöld voru fluttar þær skýringar á þessu að þetta væri aðeins tilfallandi, - þessir starfsmenn myndu ekki vinna þar áfram og brátt stefndi í að færri Íslendingar kæmust að en vildu. Sem sagt, - sami söngurinn er kyrjaður og fyrr um eftirspurn eftir störfum þótt útlendingafjöldinn og auglýsingarnar eftir starfsmönnum segi allt annað. Og fullyrt að þegar framleiðslan fimmfaldast muni það hafa þær afleiðingar að verksmiðjan verði fullmönnuð með Íslendingum og færri komist að en vilji!

Á sínum tíma var Kárahnjúkvirkjun gyllt fyrir verkalýðssamtökunum með því að fullyrða að 80 prósent vinnuaflsins við virkjanirnar yrðu Íslendingar en aðeins 20 prósent útlendingar.

Raunin varð hins vegar sú að þetta varð öfugt, - 20 prósent voru Íslendingar og 80 prósent útlendingar. Þess vegna verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvenær mótsögnunum linnir hjá Fjarðaráli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það eru nokkrir mánuðir síðan ég heyrði það fyrst að illa gengi að ráða Íslendinga til starfa hjá álverinu. Og ég heyri þetta reglulega, en merkilegt nokk, aldrei frá fólki sem vinnur í álverinu. Það er hinsvegar töluverður fjöldi fólks víða að úr heiminum sem er þarna og verður viðloðandi næstu mánuðina, sennilega út næsta ár, til leiðbeiningar og þjálfunar þeirra Íslendinga sem þarna munu vinna. Á heimasíðu Alcoa.is má lesa þetta:

"Hjá Alcoa Fjarðaáli verða 383 stöðugildi til lengri tíma, en að auki verður annar eins fjöldi nýrra starfa til í nærsamfélaginu í tengdum iðnaði og þjónustu. Á meðan á undirbúningi og gangsetningu álversins stendur verða stöðugildi innan fyrirtækisins þó fleiri; einhverjir verða fengnir í tímabundin verkefni og jafnframt mun hópur sérhæfðra álversstarfsmanna úr erlendum systurálverum Alcoa Fjarðaáls vera til aðstoðar".

Stærsti hluti vinnuafls Kárahnjúkaverkefnisins eru ófaglært fólk og véla og tækjamenn og í þenslunni sem einkennt hefur íslenskan vinnumarkað undafarin ár, þar sem nánast er slegist um hvern mann, þá hefur reynst erfitt að manna  þessi störf með Íslendingum. Það var hins vegar aldrei fullyrt Ómar að þarna yrðu 80%  Íslendingar, einungis að vonir stæðu til þess. Það hefur einnig reynst erfitt að manna í störf ófaglærðs fólks á höfuðborgarsvæðinu með íslensku starfsfólki en það hentar sjálfsagt ekkert að ræða það.

Capacent heldur utan um atvinnuumsóknir til Alcoa og samkvæmt þeirra upplýsingum hafa verið um 6 umsóknir um hvert starf (Íslendingar) sem auglýst hefur verið. Þeir fá kannski greitt aukalega fyrir að ljúga að fjölmiðlum svo allt líti betur út fyrir Alcoa?

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.9.2007 kl. 04:09

2 identicon

Ítrekaðar heilsíðuauglýsingar hljóta að benda til þess að mannaráðningar gangi ekki vonum framar.  Kannski ekki að undra þar sem tilvonandi starfsmenn geta átt von á því að verða beðnir um þvagsýni og fleira til. 

En Ómar, hvað er annars að frétta úr Skagafirðinum?  Mun væntanleg álþynnuverksmiðja á Akureyri þurfa rafmagn úr Héraðsvötnum?

Jóhann (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 07:11

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var sagt að álþynnuverksmiðjan myndi ekki kalla á nýja virkjun. Auðvelt er að segja slíkt ef ekkert tillit er tekið til allra annarra aðila sem nú slást um íslenska orku. Í hvert skipti sem talað er um nýjar verksmiðjur er talað um hverja fyrir sig rétt eins og hinar séu ekki uppi á borðinu.

Þingeyingarnir tala um að svo mikil jarðvarmaorka fáist fyrir austan og norðaustan Mývatn að ekki þurfi á virkjun Skjálfandafljóts og Héraðsvatna að halda.

Samt hafa þeir ásamt Orkuveitu Reykjavíkur stofnað félag um virkjun Skjálfandafljóts.

Ég hef í bloggi og blaðagreinum bent á hvað getur verið í húfi við Leirhnjúk og Gjástykki. Þingeyingarnir gera ráð fyrir orku þaðan.

Ef mér væri stillt upp við vegg í dag og látinn velja á milli virkjun Skjálfandafljóts eða virjunar Leirhnjúks-Gjástykkis myndi Skjálfandafljót fara undir virkjanahnífinn. Þarf talsvert rými til að rökstyðja það og get gert það siðar.

En Skjálfandafljót mun ekki duga í þeim æðibunugangi sem nú ríkir og kemur í veg fyrir að menn bíði eftir niðurstöðum djúpborunartilrauna.

Þess vegna eru árnar í Skagafirði í stórhættu, því miður, og má alls ekki slaka á verðinum gagnvart þeim.

Ómar Ragnarsson, 19.9.2007 kl. 10:55

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þegar búið er að virkja alla nýtanlega orku landsins eins og nú stefnir í að verði á allra næstu árum, hvernig leysa þá næstu kynslóðir þörfina fyrir þeirra atvinnutækifæri?

Árni Gunnarsson, 19.9.2007 kl. 11:33

5 identicon

VAKNIÐ! Farið er að selja útlendingum hlut á orkufyrirtækjunum. Skorað er á alla ábyrga stjórnmálamenn að taka af skarið og almenning að mótmæla þessu ráðabruggi og svívirðu gegn íslenskri þjóð. Forráðamenn umræddra fyrirtækja á að láta svara til saka fyrir LÖGBROTIÐ. Ekki þarf forspáan til að sjá að sneitt er að rótum búsetu á Íslandi. Vekja þarf athygli á nöfnum þeirra pólitíkusa (kvislinga) sem styðja þessa lymskulega tilraun til ÞJÓFNAÐAR Á ÞJÓÐAREIGN. Látum þá vita að við sjáum til þess að þeir vermi ekki sæti á Alþingi til frambúðar! Fljótum ekki sofandi að feigðarósi og snúmst strax til varnar. Þetta varðar framtíð niðja okkar. Sýnum þverpólitíska samstöðu fólksins í landinu!

Hrúturinn (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 12:22

6 identicon

Ómar, þetta er stór vinnustaður og það tekur tíma að ráða þangað fólk.  Það munu örugglega bætast við þarna sjómenn og fiskvinnslufólk sem missir vinnuna þegar niðurskurður fiskveiða fer að segja til sín. 

Mikið óskaplega leggur þú þig í líma við að níða niður þessar framkvæmdir þarna fyrir austan.  Það er greinilega ekki það sama; álver og álver, þ.e. hvar þau eru staðsett. Ætlar þú að verða jafnduglegur við að níða niður álversframkvæmdir við Keilisnes og Helguvík þegar þar að kemur, nú eða þá Þorlákshöfn.  Ekki heyrðist mikið í þér þegar Grundartangaálverið var stækkað í fyrra, álver sem staðsett er í náttúruperlunni Hvalfirði rétt við bæjardyrnar að Höfuðborgarsvæðinu.

Guðsbænum farðu nú að hætta þessari Kárahnjúka-þráhyggju þinni.  Þetta er orðið sjúklegt hjá þér maður, eins og þú getur reyndar verið að öðru leyti skemmtilegur.  Ert þú kannski einn af þeim sem vilja gera alla landsbyggðina að einum allsherjar þjóðgarði og byggðasafni sem einungis er opin 3 mánuði á ári?

Óttar Pálsson (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 12:54

7 identicon

Alcoa hefur ítrekað verið að auglýsa eftir rafvirkjum og vélvirkjum. Alls staðar á landinu er skortur á þessum hópum, bókstaflega slegist um þá, og því ekkert skrýtið að það sé áskorun að fá þá til að flytjast milli landshluta.

Hrútur. Býst við að þér liði betur ef bankarnir hefðu aldrei verið einkavæddir og öll sú verðmætasköpun sem þar hefur orðið hefði barasta ekkert orðið. Og að þú missir svefn þegar íslensk fyrirtæki fjárfesta í nýtingu orkulinda eða nýtingu sjávarauðlinda erlendis. Var ekki búið að leggja niður Kommúnistaflokk Íslands?

Fossvoxari (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 13:50

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég held að Ómar sé fullfær um að svara fyrir sig sjálfur. Þó verð ég að minnast á það sem Óttar Pálsson segir hér að ofan. Er það þráhyggja að reyna að koma í veg fyrir stórkostlegt umhverfisslys? Þegar það er orðið, er það þá þráhyggja að benda á það sem stendst ekki í málflutningi þeirra sem stóðu að slysinu? Ég get ekki séð að Ómar þagi yfir öðrum virkjunaráformum. Það þarf ekki annað en að lesa færslur síðustu daga til að sjá að hann talar um fleira en Kárahnjúka.

Kárahnjúkar eru búið mál, en það er ekkert að því að benda á það sem miður fer í því máli og öðrum skyldum. Er það ekki þráhyggja að valta yfir landið á ofsahraða og virkja allt áður en fólk áttar sig fyllilega á hvað er að gerast? Er það ekki þráhyggja að vilja virkja allar sprænur landsins og byggja álver í öllum smáþorpum á landsbyggðinni? Er það ekki þráhyggja að vilja nýta allar auðlindir landsins núna og skilja ekkert eftir fyrir framtíðarkynslóðir? 

Villi Asgeirsson, 19.9.2007 kl. 13:56

9 Smámynd: Villi Asgeirsson

Fossvoxari. Átti þetta verkefni ekki að skapa atvinnu fyrir austfirðinga? Hvernig stendur þá á því að það fæst ekki fólk í störfin, ef rétt er? Það þarf að flytja fólk frá öðrum landshlutum, jafnvel frá útlöndum. Eru þá ekki öll rök fyrir virkjuninni og álverinu fokin út í hafsauga? Ekki það að ég hafi nokkurn tíma trúað þeim rökum, því hvernig á álver á Reyðarfirði að hjálpa fólki á Egilsstöðum, Seyðisfirði, Fáskrúðsfirði, Borgarfirði Eystri og svo framvegis? Kannski það fólk ætti að flytja til Reyðarfjarðar. Góð byggðastefna það.

Svo er það þetta með Kommúnistaflokk Íslands. Hvað hefur kommúnismi með náttúruvernd að gera? Eftir því sem ég best veit voru kommúnistalöndin skítugustu og menguðustu lönd heims. Virkjanir hafa svo ekkert með einkavæðingu banka að gera. Ég er persónulega fylgjandi frjálsum markaði á meðan ekki er verið að gefa ríkisfyrirtæki í einkavinavæðingu. Að selja banka eða kaupa verslanir í Bretlandi skaðar ekki íslenska náttúru. Þessi tvö mál koma hvoru öðru ekkert við.

Villi Asgeirsson, 19.9.2007 kl. 14:14

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

´Villi: Ómar hefur ekki bent á eitt né neitt, allt er í formi getgáta, t.d. um arðsemi virkjunarinnar, um tafir og skaðabótaskyldur, um moldrok, um lífríki í Héraðsflóa, um áhrif á Löginn, um 100 Pólverja... o.s.fr.v.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.9.2007 kl. 14:16

11 Smámynd: Villi Asgeirsson

Eru til opinberar tölur um arðsemi virkjunarinnar?

Villi Asgeirsson, 19.9.2007 kl. 14:57

12 Smámynd: Sævar Helgason

Svona smá innlegg í umræðuna:

Þegar samið var við Svisslendinga um byggingu álversins í Straumsvík árið 1966, þá var það krafa frá okkur íslendingum að þessi verksmiðja yrði eins sjálfvirknivædd og besta þekking gerði mögulegt..afhverju ?  Jú menn höfðu af því miklar áhyggjur að erfiðlega gengi að manna verksmiðjuna. Á samningstímanum stóðu síldveiðarnar fyrir Austurlandi sem hæst og að mati fiskifræðinga gæti sú mikla veiði þess vegna spannað áratug eða lengur kannski allt til ársins 1977 - 78.

 Mikill fjöldi fólks starfaði við þetta allstaðar af landinu, í síldarverksmiðjum,á síldveiðum, við söltun o.s.frv. og tekjur miklar.  Ástæðan fyrir áhuga okkar á að þessi stóriðja kæmist á legg var fyrst og fremst vegna skorts okkar á rafmagni og með því að selja stórnotanda um 75-80% orkunnar þá yrði okkur mjög hagkvæmt að virkja Þjósá..sem og varð.  Árið 1967 hverfur síldin gersamlega fyrir Austurlandi...það verður efnahagslegt hrun..atvinnuleysi. Á sama tíma hefjast framkvæmdir við Búrfell og í Straumsvík. Margir sem voru í sídinni fá vinnu við þessar framkvæmdir..sumir flytja til Svíþjóðar og jafnvel Ástralíu í leit að vinnu.  Það urðu því engin vandkvæði á að manna Ísal verksmiðjuna við gangsetningu árið 1969.

Uppistaðan í mannaflanum voru fyrst og fremst sjómenn, bændur sem hætt höfðu búskap og iðnaðarmenn allskonar . Fólk þetta ílengdist við þessi störf , flestir til starfsloka ,vegna aldurs.  Bragurinn á verksmiðjumenningunni var því æði fjölskrúðugur í áratugi.  Einkun reyndust bændurnir vel við kerreksturinn og af hverju ? Ef kerin fengu ekki alúðlega og umhyggjusama meðferð þá datt nytin niður..þetta skildu bændurnir vel..reynslan úr fjósinu nýttist við áliðnaðinn.

Ef síldin hefði ekki brugðist á þessum tíma og veiðar orðið sem fiskifræðingar höfðu spáð, þá ef mjög líklegt að veruleg vandkvæði hefðu orðið á mönnun ÍSALverksmiðjunnar á þessum tíma. Ekki var neitt um erlent verkafólk á þessum tíma ,kannski nokkrir Færeyjingar.

Og nú eru blómatímar og ekki er ég hissa á að erfiðlega gangi að manna að fullu verksmiðjuna á Reyðarfirði..en nú er af sem áður var..erlennt vinnuafl er fyrir hendi, verði þess þörf.

Góða skemmtun 

Sævar Helgason, 19.9.2007 kl. 15:08

13 identicon

Villi. Ég skrifaði að illa gengi að ráða rafvirkja og vélvirkja, ekki fólk yfir höfuð. Þótt þú skrifir um að einhverjir vilji "virkja allar sprænur" og byggja álver í "öllum smáþorpum" á landsbyggðinni þá þýðir það ekki að aðrir séu jafn alhæfandi í sínum málflutningi. Og ef þú telur engan ávinning á Egilsstöðum af uppbyggingunni á Reyðarfirði, þá þekkir þú greinilega ekkert til á Egilsstöðum sem eru í gríðarlegri uppbyggingu VEGNA ÞESSARA FRAMKÆMDA Á REYÐARFIRÐI OG VIÐ KÁRAHNJÚKA.

Loks, þetta með íslenska Kommúnistaflokkinn, þá skrifaði ég um það þegar Íslendingar kaupa rétt til að nýta náttúruauðlindir erlendis, að Hrútur hlyti þá að tapa svefni yfir því. En þú ert kannski eins og Ómar sjálfur, sem flokkar náttúru "annarra landa" sem eitthvað Íslandi miklu óæðra. Alparnir eru þá eitt dæmi um mjög ómerkilegt pleis. Hvaða máli skiptir það þótt erlent fjármagn komi að svona verkefnum hér? Almannaþjónustuhlutinn er algjörlega aðskilinn í lögum og ströng ákvæði um tekjur og arðsemi. En sú var jú tíðin, að hér var starfræktur stjórnmálaflokkur sem hafði allt á hornum sér gegn fjármagni, stórfyrirtækjum, "erlendum auðhringum", kapítali... reyndar er líklega þessi flokkur ennþá til hér í orði en hann þvældist þó ekkert fyrir Orkuveitu Reykjavíkur í þessum efnum þegar hann þó hefði getað það í gegnum R-listann.

Fossvoxari (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 16:27

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Um daginn hitti ég aðkomumann hér á Reyðarfirði. Sá var fyrrverandi framámaður í Alþýðubandalaginu sáluga á Vesturlandi. Hann var einnig í forystusveit verkalýðsmála á Vesturlandi en sagði sig úr slíku vafstri þegar hann var ráðinn í álverið á Grundartanga. Þar var hann í nokkur ár, allt í öllu að eigin sögn og sagðist þekkja Tómas, forstjórar Fjarðaáls, sem var þá samstafsmaður hans á Grundartanga.

Þessi ágæti maður sagði mér að erfiðlega gengi að manna störf á Grundartanga með íslensku vinnuafli. Starfsmannavelta væru mjög mikil og stöðugt hækkaði hlutfall útlendinga á vinnustaðnum. Þessar fréttir komu mér mjög á óvart og voru algjörlega á skjön við það sem ég hafði áður heyrt. Ég benti m.a. manninum á að í Straumsvík væri afar lítil starfsmannavelta, það hefði ég frá fyrstu hendi, þ.e. frá starfsmönnum þar. Hik kom á manninn þegar ég sagði þetta en hann sagði þá að Grundartangi og Straumsvík væru eins og svart og hvítt.

Það væri gaman að fá staðfestingu á orðum þessa fyrrverandi stjórnmála og verkalýðsforkólfs um starfsmannamál á Grundartanga, eða mun það e.t.v.  reynast erfitt?

Annars skora ég á ykkur úrtölumenn að skoða bara málið hér eystra eftir u.þ.b. ár, en ekki mála skrattann alveg strax á vegginn. En þið lifið sjálfsagt í voninni um að þetta misheppnist allt saman.

Og Villi: Já, það eru til opinberir útreikningar á arðsemi virkjunarinnar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.9.2007 kl. 17:18

15 Smámynd: Villi Asgeirsson

Fossvoxari, er einhver að segja að náttúra erlendis sé minna virði? Ekki gerði ég það. Ég sé hins vegar ekki að íslensk náttúra sé minna virði, en þó er keppst við að virkja sem mest meðan önnur lönd eru að vernda sín svæði. Ég held að fáir séu á móti virkjunum yfir höfuð, en að byggja þær um allt land og selja orkuna á tombóluverði virðist vera séríslensk íþrótt. Svo viðurkenni ég að ég þekki lítið til á Egilsstöðum. 

Villi Asgeirsson, 19.9.2007 kl. 18:15

16 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Þessi samþykkt miðstjórnar ASÍ hafði ekki lítið að segja fyrir framgang Kárahnjúkavirkjunar.  Þar með var stuðningur stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Samfylkingarinnar, kominn og þeir sem voru innan og utan á þeim flokki töluðu miklu frekar um hin ýmsu dægurmál en Kárahnjúkavirkjun í fjölmiðlum.  Þannig rann þetta tiltölulega hávalaust í gegn á miklum hraða.

Talandi um arðsemi.  Hagfræðingur Samtaka atvinnulífsins var sisona rekinn  fyrir að skrifa þessa grein.

Pétur Þorleifsson , 19.9.2007 kl. 18:23

17 Smámynd: Villi Asgeirsson

Rekinn fyrir þetta? Hann hlýtur þá að hafa rétt fyrir sér, því annars hefði þessu verið hafnað með mótrökum.

Svo efast ég að hægt sé að reikna út arðsemi Kárahnjúka, því við vitum ekki hvað verið er að selja raforkuna á. Eða getur einhver bent mér á einhvern stað þar sem slíkar upplýsingar er að fá?

Villi Asgeirsson, 19.9.2007 kl. 19:45

18 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Þetta álver verður allt mannað með útlendingum.  Þróunin er að verða sú að fyrirtæki halda að þau komist upp með að borga læri laun ef þau nota útlendinga og meðan svo er þá ganga þeir fyrir vinnu.  því miður er markaðurinn orðinn svona í dag.

Þórður Ingi Bjarnason, 19.9.2007 kl. 20:30

19 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ætli Gunnar Th. sé búinn að sækja um starf í álverinu? Ég trúi varla öðru en að hann hlaupi undir bagga og reddi málunum fyrst þá vantar ennþá mannskap. Ekki geta þeir fengið tryggari stuðningsmann og hafa varla ástæðu til að biðja hann um þvagsýni heldur.

Sigurður Hrellir, 19.9.2007 kl. 21:27

20 identicon

Ég hef aldrei verið svo frægur að tjá mig hér en hef oft haft gaman af því að lesa þetta. Þekki þetta mál ekki til hlýtar þó ég sé fæddur og uppalinn í Fljótsdalnum þar sem stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunnar rís. Hef svo búið á Reyðarfirði síðustu 20 ár eða svo með hléum. Ég er íslenskufræðingur að mennt er kennari og hef kennt hér síðustu 7 ár er þó að starfa í leikskólanum núna. 

Þegar ég byrjaði að kenna 2000 voru um 100 nemendur í Grunnskóla Reyðarfjarðar en núna 160. Það segir mér ýmislegt. Þá rjúka væntanlega einhverjir upp til handa og fóta og spyrja hvort þetta séu ekki eintómir útlendingar. Þeir eru eitthvað í kringum tuginn og hafa svo sem ekki verið fleiri hér enda ekki verið fiskvinnsla að neinu viti hér í tuttugu ár. Á þeim stöðum hér austanlands þar sem fiskvinnsla er mikil hefur verið mikið um útlendinga þó álver hafi ekki verið hér.

Síðan þessi uppbygging hófst hér þá hef ég endurheimt gamla kunningja sem bjuggu hér áður. Sumir komnir til að vinna hjá Fjarðaáli en aðrir annars staðar. Verkfræðingar, kennarar, sjúkraþjálfar, viðskiptafræðingar og áfram mætti telja. Fólk sem fór suður að mennta sig komið aftur og er það að hinu góða.

Hvað varðar ráðningamál í álverinu veit ég ekki hvað skal segja. Á marga vini þar og þeir eru allir íslenskir en sjálfsagt er það bara ímyndun í mér. Hef einnig verið að kenna mörgum Kanadamönnnum sem eru hér tímabundið íslensku  en það er kannski ímyndun líka. Vissulega segja auglýsingar mér að illa hljóti að ráða í sum störf en það er um fleiri staði. Gengur ekki vel að fá leikskólakennara eða grunnskólakennara. Skólarnir hafa líka misst starfsmenn bæði beint til Alcoa og óbeint till annarra sem tengjast álverinu enda ekki samkeppnishæfir um laun.

Hvort lífið er betra eða verra eftir þessa ákvörðun þá segi ég betra alla vega ef ég hugsa um sjálfan mig. Er öruggur um að hafa nóg að gera og þarf ekki að flyta suður til þess eins að fá vinnu við mitt hæfi.

Veit ekki hvort þetta innlegg mitt á heima hér en langaði bara að tjá mig aðeins enda eiga allir rétt á því. Svíður mest þegar að fólk er að slá um sig með einhverjum stóryrðum án þess að virðast hafa kynnt sér nokkuð um hvað málið snýst. 

Annars bara bestu kveðjur frá Reyðarfirði. 

Kjartan Glúmur Kjartansson (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 21:54

21 identicon

Ómari til fróðleiks, og til að stuðla að því að hann tapi ekki svefni af áhyggjum yfir því hversu illa gangi að manna álverið á Reyðarfiði ætla ég að endurtaka það sem starfsmannastjóri Alcoa sagði um ráðningamál í Svæðisútvarpi Austurlands í dag:

Ráðnir verða 365 starfsmenn, þar af eru komnir til starfa 342. Af þeim eru nú 40 í þjálfun. Eftir á því að ráða 23 og liggja nú þegar fyrir umsóknir um þau störf.

Ráðnir verða 67 iðnaðarmenn og búið er að ráða 63 og því vantar enn 4.

Kannski er bara ekkert að marka manninn, allt tóm lygi og hluti af hinu stóra samsæri, eða hvað Ómar? 

Gunnar Geirsson (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 22:51

22 identicon

Till Villa vil ég segja að í fljótu bragði (án þessa að þekkja manninn nokkuð) get ég mér til að hann sé 101 búi (þó svo að hann búi erlendi nú um stundir), hann er Samfylkingarmaður, mjög sennilega listamaður eða rithöfundur sem er að reyna að ná fótfestu, og svo virðist hann ekki skilja hugtakið "atvinnulíf".  Mjög líklega er hann einnig á móti hverskonar uppbyggingu á landsbyggðinni (finnst það hreinlega vera sóun á fé) og til að friða samviskuna.  Einnig er hann  líklega talsmaður þess að dreifbýlisfólk eigi hreinlega að hypja til Höfuðborgarsvæðisins, því hann dreymir um að Reykjavík verði alvöru stórborg, en til að friða samviskuna, lítur hann á sig sem náttúruverndarsinna, og því brýst út þessi andstaða hans við framkvæmdir úti á landi.

Villi, þetta er þráhyggja í Ómari þegar hann eyðir svona miklum kröftum í að úthúða, ekki bara Kárahnjúkavirkjuninni, heldur er hann líka byrjaður að úthúða ALCOA-Fjarðaráli.  Ætli hann byrji líka á því að úthúða Austfirðingum fyrir að taka þessum atvinnuskapandi framkvæmdum fagnandi?

Ég get ekki séð að hvorgi Ómar né aðrir hans líkar (les; með sömu skoðanir) mótmæli stækkun Grundartangaálversins, byggingu álvers á Keilisnesi, Helguvík eða í Þorlákshöfn, heldur beinist gagnrýni Ómars nær eingöngu að Kárahnjúkum og framkvæmdirnar fyrir austan. 

Villi, það er enginn að tala um að virkja eigi hverja sprænu eða byggja álver í öllum fjörðum landsins, þó svo að bent sé á að ekki eigi að leggja öll egg í einu körfu með því að bara að byggja upp atvinnustarfsemi sem skipti máli á Suð-Vesturhorninu......

Ótta Pálsson (IP-tala skráð) 21.9.2007 kl. 10:52

23 Smámynd: Villi Asgeirsson

Til Ótta(rs) Pálssonar. Ég hef búið í 101, en þá var ég barn. Fluttist úr 101 þegar ég var átta ára. Ef ég flytti heim á morgun myndi ég helst vilja búa í Bústaðahverfinu eða úti á landi.

Ég er ekki Samfylkingarmaður. Hvernig gæti ég verið það? Skrifaði Ingibjörg Sólrún ekki undir Kárahnjúka? Ég hef aldrei getað valið mér flokk. Ég er vinstrisinnaður að sumu leyti en öðru ekki.

Þetta með listamanninn eða rithöfundinn er nokkuð gott, ég er að búa til kvikmyndir. Það er svo sem einfalt að komast að því með því að klikka á nafnið mitt hér að neðan. Ég sé að vísu ekki hvað það hefur með neitt að gera, nema þú haldir að "listamenn" séu bara kaffiþambandi skýjaglópar. Veit ekki.

Ég skil hugtakið "atvinnulíf". Þó ég sé að rembast við kvikmyndagerð núna hef ég unnið "venjuleg" störf fram að þessu. Geri það reyndar enn.

Ég er alls ekki "á móti hverskonar uppbyggingu á landsbyggðinni", þvert á móti. Ég sé enga ástæðu til að hafa allt í Reykjavík. Uppbygging á lansbyggðinni er alls ekki "sóun á fé". Mér finnst það reyndar sóun að setja 115 milljarða í eina virkjun þegar hægt hefði verið að byggja upp alls konar atvinnu á austurlandinu öllu. 115 milljarðar voru 9,8 milljónir á hvern austfirðing. Það hefði mátt gera stórkostlega hluti.

Það að ég sé "líklega talsmaður þess að dreifbýlisfólk eigi hreinlega að hypja til Höfuðborgarsvæðisins" og að mig "dreymi um að Reykjavík verði alvöru stórborg, en til að friða samviskuna, lítur hann á sig sem náttúruverndarsinna, og því brýst út þessi andstaða hans við framkvæmdir úti á landi." Veit ekki alveg hvernig á að svara þessu. Ekkert samviskubit í gangi hér þar sem ég hef enga skoðun á því hvar fólk á að búa. Ég hef búið í alvöru stórborgum (London) og þjáist ekki af þessari minnimáttarkennd sem oft virðist ríkja heima. Ef eitthvað er, finnst mér Reykjavík vera að vaxa of hratt, en það er hennar mál. Ég er talsmaður þess að fólk geri það sem það vilji og búi þar sem það vill. Mér dettur ekki í hug að segja ísfirðingum að kaupa sér blokkaríbúð í bænum. Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að gera það? Ég ólst að miklu leyti upp í sveit. Ég veit allt um það hve sterk böndin geta verið við átthagana. Ef ég mætti velja mér einhvern stað í heiminum til að búa á yrði það rétt austan við Selfoss. Þetta er reyndar eitt mál þar sem ég er afskaplega hægrisinnaður, blárri en sjálfstæðismenn, sennilega. Fólk á að ráða sér sjálft, ríkið á að hafa puttana sem minnst í hagsmunum fólksins. Það kemur ráðherrum ekkert við hvar fólk vill búa. Ef 1000 manns vilja búa á Djúpuvík, ætti það að vera hægt. Ríkið ætti að hjálpa þessu fólki jafn mikið eða lítið og öðrum.

Að leggja öll eggin í eina körfu er nákvæmlega það sem er að gerast þegar virkjað er stórt fyrir einn kaupanda. Svo á að endurtaka leikinn aftur og aftur. Ég er á móti frekari stóriðju af náttúruverndarástæðum, en líka vegna þess að ég er fullviss um að peningunum væri betur rytt í annað. Svo er það þetta með eggin og körfuna og að virkja allt núna þegar við vitum að orkuverð á eftir að margfaldast á komandi árum og áratugum. 

Villi Asgeirsson, 21.9.2007 kl. 19:31

24 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Villi: Hvaðan myndurðu taka 115 miljarða til að setja í eitthvað annað á Austurlandi?

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.9.2007 kl. 21:59

25 Smámynd: Villi Asgeirsson

Hvaðan komu Kárahnjúkapeningarnir?

Villi Asgeirsson, 22.9.2007 kl. 03:45

26 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ekki úr ríkissjóði og ekki frá öðrum verkefnum. Landsvirkjun tók stærstan hluta peningana að láni í þetta tiltekna verkefni að undangengnum útreikningum á arðsemi framkvæmdarinnar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.9.2007 kl. 13:38

27 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það að segja að peningarnir hafi ekki komið í  ríkissjóði er úrúrsnúningur því að um er að ræða lán með ríkisábyrgð. Landsvirkjun er nú einu sinni ríkisfyrirtæki en var á sínum tíma einnig í eigu Reykvíkinga að töluverðu leyti. Útreikningar um arðsemi skipta litlu eða engu máli fyrst að ríkið og Reykjavíkurborg ábyrgjast greiðslur, enda forsendum útreikninga haldið leyndum. Þess vegna hefði vel mátt fjármagna margskonar vitsmunalega starfsemi víða á Austurlandi með lánsfé og hefði væntanlega ekki þurft 12 stafa krónutölu til! Sjálfum þætti mér meiri sanngirni í að skrifa upp á lán fyrir bræður mína á Austurlandi ef ég sæi peningunum varið af skynsemi og með umhyggju fyrir umhverfi og náttúru í huga.

Sigurður Hrellir, 22.9.2007 kl. 14:35

28 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Ég man að borgarhagfræðingur sagði þetta líka að það hafi ekki aðrir 45 milljarðar verið í boði fyrir borgina til að fjárfesta í annarri atvinnustarfsemi.  Sumir kölluðu þetta sjónhverfinga.

Pétur Þorleifsson , 22.9.2007 kl. 14:55

29 Smámynd: Villi Asgeirsson

Sigurður og Pétur tóku af mér ómakið.

Villi Asgeirsson, 22.9.2007 kl. 17:40

30 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er erfitt að rökræða við einstaklinga sem færa svona rök fyrir máli sínu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 22.9.2007 kl. 17:47

31 Smámynd: Villi Asgeirsson

Hvernig rök? Ríkið ábyrgðist lán ríkisfyrirtækis. Lánið hljómar upp á næstum því 400.000 kr. á hvern íslending. Fólk var ekki spurt álits. Fjárfestingin er hæpin. Hún hlýtur að vera það því ekki er sagt neitt um afkomuna. Þar að auki er íslenskri náttúru fórnað. Allt án þess að fólki væri gefið færi á að segja sitt álit.

Hvernig rök viltu? Á að sanna að virkjunin standi ekki undir sér? Hvernig? Meðan ekki eru gefnar út tölur er það ekki hægt. Áttirðu kannski við rök eins og í athugasemd 22?

Villi Asgeirsson, 22.9.2007 kl. 19:20

32 identicon

Hmmm....  Ég gat mér nokkuð rétt til um Villa.  Villi er þar að auki haldinn vitsmunaþráhyggju.  Hann mótsegir sig.  T.d. segist hann vera að mörgu leiti vinstrisinnaður, en svo nokkrum línum neðar, segist hann vera mikill hægrimaður.  Hann vissi heldur ekki að það fé sem fór í álverið og virkjunina fyrir austan, kom ekki úr vösum skattborgaranna.

Einnig segir hann (og fleiri) að hægt hefi verið að byggja upp "vitsmunastörf" á Austurlandi í staðinn fyrir virkjun og álver.  Hmm...  Ég veit ekki betur að það hafi orðið mikill hugvitsflótti frá Austurlandi á undanförnum árum, þ.e. fólk flyst í burtu til að mennta sig, og kemur svo ekki tilbaka, þar sem að engin störf eru fyrir þetta fólk í heimabygg, auk þess að ekkert þolinmótt fjármagn er að fá í þróun "vitsmunastarfa".  Stór hluti fólks er sem nú býr á Austurlandi, er harðduglegt verka- og iðnverkafólk, (auk sjómanna og fiskvinnslufólks), sem vant er að vinna líkamlega krefjandi störf með höndunum og tekur því fagnandi að fá álverið til að vinna í auk þeirra afleiddu starfa sem það skapar.

Hvenær ætla þessir svokallaðir umhverfis- og náttúruverndunarsinnar að mótmæla, framkvæmdum í Helguvík, Grundartanga, Keilisnesi, Hellisheiðarvirkjun, svo ekki sé minnst að útþennslu Höfuðborgarsvæðisins sem er eitt mesta umhverfisslys á Íslandi??  Tvískynningurin er svo mikill hjá þessu fóki, að það er ekki orðum takandi.  

Óttar Pálsson (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 00:32

33 Smámynd: Villi Asgeirsson

Var ég í mótsögn við sjálfan mig? Ég sagðist vera vinstra megin í sumu, hægra megin í öðru. Að setja sig í vinstri eða hægri dálk er úrelt. Mér finnst að samfélagið eigi að hjálpa þegnunum (vinstri) en hafa lítil afskipti af atvinnulífinu (hægri). Ég er ekki Samfylkingarmaður.

Ég hef sagt það áður að féð sem fór í virkjunina er lán ríkisfyrirtækis á ríkisábyrgð. Ef ríkið var að fara í framkvæmdir á annað borð hefði mátt gera það öðru vísi. Ekki það að uppbygging ´"vitsmunastörfum" væri slæm ef það er svona mikill fólksflótti.

Svo er ég ekki svo snobbaður að ég kalli á "vitsmunaleg" störf. Ég sagði alls konar störf.

Hvað er vitsmunaþráhyggja? 

Villi Asgeirsson, 24.9.2007 kl. 07:00

34 Smámynd: Sigurður Hrellir

Hinum djúpvitra sálkönnuði og persónuleikarýni Óttari Pálssyni finnst ákveðinna þversagna gæta í sumum athugasemdum hér á síðunni. Sjálfur bendir hann á að stór hluti fólks á Austurlandi sé harðduglegt verka- og iðnverkafólk(auk sjómanna og fiskvinnslufólks) og að fólk sem flytji í burtu til að mennta sig, komi ekki tilbaka vegna skorts á störfum við hæfi.

Því er stöðugt haldið fram af ýmsum talsmönnum álvera og olíuhreinsunarstöðva að þar sé hátækniiðnaður á ferðinni og að í boði séu fjölmörg störf fyrir langskólagengið fólk með viðhlítandi menntun.

Hér sýnist mér að þversagnir séu á þversagnir ofan. Í fyrsta lagi er vægast sagt hæpið að telja álver og olíuhreinsunarstöðvar til hátækniiðnaðar. Ef það er hátækniiðnaður, hvernig á þá að skilgreina fyrirtæki eins og Össur og DeCode? Ég veit ekki betur en að starfsmenn í álverum hér á SV-horninu þurfi að vera með rykgrímur fyrir vitum mestallan daginn til að fylla ekki lungun af ryki og óhollum gufum. Hvernig hátækniiðnaður er það??

Það er líklega rétt túlkun hjá Óttari Pálssyni að hér sé frekar verið að bjóða upp á störf fyrir ófaglært fólk sem sættir sig við verri aðstæður en bjóðast víða annars staðar. Ekki virðist auðvelt að fá fólk til vinnu í álverinu á Reyðarfirði, svo mikið er víst.  Það er líklega rétt hjá honum líka að brottflutt fólk sem hefur aflað sér menntunar komi ekki til baka vegna skorts á störfum í heimabyggð. En af hverju þá að eyða milljörðum á milljörðum ofan í að byggja risavirkjun fyrir álver? Væri ekki nær að styðja menntafólkið til dáða í heimabyggð sinni?

Sigurður Hrellir, 25.9.2007 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband