20.9.2007 | 12:17
"BÚIÐ OG GERT" - HEILKENNIÐ.
Ofangreint heilkenni er eitt sterkasta vopnið sem virkjanafíklar Íslands hafa beitt og beita enn. Upptalningin er löng: Of stór Múlavirkjun, of stór Fjarðarárvirkjun, stórfelld óbætanleg spjöll vegna rannsóknaborana við Trölladyngju, rannsóknarleyfi í Gjástykki, - Hraunaveita, þar sem unnið er að á fullu með byggingu tveggja stórra stíflna og greftri ganga og á eftir varða mynduð tvö miðlunarlón og þurrkaðir upp fossar í tugatali.
Í einni af athugasemdunum við næstu bloggfærslu mína á undan þessari er talað um "þráhyggju" mína út af verki eins og Káranhjúkavirkjun þar sem allt sé búið og gert. Nú fer því fjarri að sú virkjun sé það eina sem ég fjalla um og hún er ekki "búin og gerð", - Hraunaveita og fleiri verkefni allt frá Reykjanesi til Gjástykkis eru í fullum gangi.
"Búið og gert" - aðferðin hefur svínvirkað og gerir það enn. Iðnaðarráðherra vill ekki afturkalla siðlausa og löglausa veitingu rannsóknarleyfis fyrrverandi iðnaðarráðherra tveimur dögum fyrir kosningar, - það er búið og gert.
Ég nota orðin siðlausa veitingu því að í alvöru lýðræðisríkjum taka menn ekki svona afgerandi ákvarðanir rétt fyrir kosningar. Í Bandaríkjunum tala menn um "lame duck-president", - að forsetinn sé eins og lömuð önd að því leyti að honum beri að binda ekki um of hendur eftirmanns síns.
Hér keppast ráðherrar oft við að ráðstafa afgerandi málum rétt fyrir kosningar og komast upp með það.
Þáverandi umhverfisráðherra afþakkaði boð mitt um að eyða hálftíma í að skoða spjöll verktakanna við Trölladyngju, - það var búið og gert.
Þau spjöll voru margfalt verri en spjöll eftir vélhjólastráka í grenndinni sem fjallað var ítarlega um af okkar beggja hálfu..
Engu virðist ætla að verða um þokað við Múlavirkjun og Fjarðarárvirkjun, - þetta er búið og gert.
Haustið 2003 var vísað frá ályktun á landsþingi VG um að ítreka andstöðu við Kárahnjúkavirkjun, - þetta var búið og gert og formaðurinn talaði um það fyrir kosningar að við þyrftum að "lifa með" virkjuninni.
Virkjanamenn æða áfram á mesta mögulega hraða og treysta á það að ekki komist upp um það hvernig raunverulega er í pottinn búið fyrr en allt er búið og gert.
Viljayfirlýsingar og samningar út og suður varðandi ný álver eru hluti af þessu heilkenni, - fyrr en varir er allt búið og gert.
Nú er bara að vona að einhver fyrirstaða verði hjá þeim sem stór hluti kjósenda hélt að meinti eitthvað meira með Fagra Íslandi en að gefa út fallegan bækling.
Athugasemdir
Ef það er hægt að tala um þráhyggju í sambandi við umræðu um virkjanir og raforkunýtingu þá held ég að sumir stóriðjusinnar skjóti helst örvum í eigin rass. Þeir sem sífellt æpa á álver og olíuhreinsunarstöðvar og vilja helst þagga niður allar gagnrýnisraddir eru sjálfir haldnir þráhyggju á alvarlegu stigi. Það er líka þráhyggja að þurfa að græða sífellt meiri peninga hvernig sem farið er að því; með misbeitingu valds, misnotkun á erlendu vinnuafli og stórfelldri eyðileggingu á þjóðargersemum.
Sigurður Hrellir, 20.9.2007 kl. 13:08
Það er einfalega bullandi arðsemi af þessu og það lýsir sér best hvað verðið er hátt á HS. Hins vegar er umræðan hér alveg furðuleg i víðara samhengi. Evrópumenn leita logandi ljósi að orkuppsrettu sem ekki er mengandi og tjalda öllu til, minni á alla vindmylluspaðana út um allt. Hvað væri sagt hér á landi ef hvínandi spaðar væru upp á öllum fjöllum.???????'' Þetta einkennist af einhverskonar luxus þar sem talað er um gróða og að græða meiri peninga sem eitthvað af hinu slæma. (þannig tölluðu kommúnistarnir í den. og fóru á hausinn)Ekki veit ég betur en ég reyni að græða á minni vinnu, annars fer ég líka á hausinn. Allar þessar frakvæmdir hafa farið að lögum, hvaða misbeytingu ertu að tala um Sigurður?
Guðmundur Geir Sigurðsson, 20.9.2007 kl. 14:40
Gefum okkur að það sé í lagi að virkja á hentugum stöðum. En munu Íslendingar njóta ávaxtanna? Skálkaskjóli einkavæðingarinnar var ekki fyrr búið að klambra saman en gripdeildir hófust og byrjað var að selja útlendingum hlut í orkufyrirtækjunum, í trássi við gildandi lög Alþingis. Forráðamenn umræddra fyrirtækja á að láta svara til saka fyrir LÖGBROTIÐ. Við hvaða þjóð munum við þurfa að keppa um afnotagjald af OKKAR orku í framtíðinni? Skorað þarf á alla ábyrga stjórnmálamenn að taka af skarið og ALMENNING að mótmæla þessu ráðabruggi og svívirðu gegn íslenskri þjóð. Ekki þarf forspáan til að sjá að sneitt er að rótum lífsskilyrða á Íslandi. Vekja þarf athygli á nöfnum þeirra pólitíkusa (kvislinga) sem styðja þessa lymskulega tilraun til ÞJÓFNAÐAR Á ÞJÓÐAREIGN. Látum þá vita að við sjáum til þess að þeir vermi ekki sæti á Alþingi né í öðrum kjörnum embættum til frambúðar! Fljótum ekki sofandi að feigðarósi. Myndum þverpólitíska samstöðu fólksins í landinu! Það eru síðustu forvöð!
Hrúturinn (IP-tala skráð) 20.9.2007 kl. 16:28
´Þú nefnir Múlavirkjun Ómar, sem er skondið í ljósi þess að eigandi þeirrar virkjunar hefur barsist með kjafti og klóm gegn Kárahnjúkavirkjun og fór meðal annars til Noregs með Hákoni Aðalsteinssyni til drápuflutningsins fræga. Leynast fleiri hræsnarar meðal ykkar?
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.9.2007 kl. 16:41
Guðmundur Geir, þú talar um bullandi arðsemi og hittir þar naglann á höfuðið. Ef Landsvirkjun sæti ekki á upplýsingum um útsöluverð á orku til stóriðju eins og ormur á gulli, þyrftu menn ekki að bulla eins mikið og vera með getgátur um arðsemi eða tap á Kárahnjúkavirkjun. Nokkrir hagfræðingar höfðu samt spáð því að framkvæmdin verði óarðbær en ætla ég ekki að þykjast öðrum fróðari um þau mál. Síðan þá hafa ýmsar tafir orðið á framkvæmdinni og trúi ég því ekki að arðsemin hafi aukist við það. Búið og gert.
Þú einfaldlega blandar öllu saman í einn graut; arðsemi af virkjunum, markaðsvirði Hitaveitu Suðurnesja, vindmyllum í Evrópu og ég veit ekki hvað. Það er engin furða að þú komist að þeirri niðurstöðu sem þér hentar.
Þessi bullandi arðsemi reynist mér erfitt að koma auga á. Hins vegar sé ég stórfellt og óafturkræft tap á ómetanlegu landslagi sem ekki hefur verið metið á krónu með gati í þeim arðsemisútreikningum sem reiknimeistarar Landsvirkjunar hafa staðið fyrir. Búið og gert.
(þannig tölluðu kommúnistarnir í den. og fóru á hausinn) -
Dæmi um misbeitingu valds: Þegar nokkrir mótmælendur birtast með spjöld og borða er sent 30 manna lögreglulið með bróðir fyrrverandi umhverfisráðherra fremstan í flokki. Mótmælendurnir eru handteknir og færðir til yfirheyrslu. Hins vegar þegar uppvíst verður um að stór hópur erlendra verkamanna er ólöglegur, óskráður og ótryggður við vinnu á svæðinu þá eru sendir 2 lögreglumenn sem drekka kaffi inni á skrifstofu allan daginn og yfirgefa svo staðinn án þess að aðhafast nokkuð. Búið og gert.
Sigurður Hrellir, 21.9.2007 kl. 00:31
Hrútur: ég á minn hlut í öllum stráum og steinvölum á hálendinu. Þegar einhver ferðaþjónustugaur selur fólki ferð upp á fjöll, þá hlýt ég að heimta minn skerf. Líka auðlindagjald af krækiberjum sem týnd eru upp til fjalla. Og af súrefninu sem liðið andar. Af því að ég er hluti af þjóðinni og þjóðin á þetta allt og bla bla bla. Heimta minn skerf af tekjum þessa Ungverja sem ætlar að gera teiknimynd um Egil Skallagrímsson, hann er þjóðareign!!! Einfaldast þó ef enginn gerir nokkurn tímann neitt, þá þarf ég ekki að missa svefn yfir að fá ekki minn skerf. Verð reyndar trúlega ekki lifandi en það má fórna því fyrir málstaðinn, þarf þá ekki að missa af mínum skerf af neinu í framhaldinu.
Fossvoxari (IP-tala skráð) 21.9.2007 kl. 16:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.