200 MÍLNA FERÐAMANNALANDHELGI?

Ég hef stundum sagt í gamni að við Íslendingar ættum að taka upp nokkurs konar 200 mílna ferðamanna"landhelgi" og opna þar með stórkostlegt ferðamannasvæði handan við Grænlandssund, - að sjálfsögðu í samvinnu við Grænlendinga og í mesta bróðerni. Ég hef þrisvar farið í ferðir yfir að Blosserville-ströndinni sem er aðeins rúmlega 280 kílómetra frá Hörnströndum og hrifist ákaflega af landslagi sem er svo hrikalegt að þegar komið er til baka segir maður við sjálfan sig: "Hornbjarg úr djúpinu rís - hvað?" 

Fyrir innan Blosserville-ströndina rísa fjöll til himins sem eru allt að 3700 metrar yfir sjó eða sjö sinnum hærri en Hornbjarg, nær fjórum sinnum hærri en hinir svonefndu "Vestfirsku Alpar", næstum tvöfalt hærri en hæstu fjöll Íslands og Skandinavíu og banka í sjálf Alpafjöllin. 

Firðirnir eru jafningjar norsku fjarðanna að hrikaleik og hafa, ásamt sæbrattri strönd, stórbrotið landslag hafíss og jökla fram fyrir íslenska og norska firði.

Ég hef einnig farið landleið yfir Grænlandsjökul og óravíddir hans eru ólýsanlegar. Miðað við hann er Vatnajökull nánast eins og skafl, - 200 sinnum minni að flatarmáli og með þúsund sinnum minna rúmmál. 

Sá markhópur ferðamanna sem stækkar mest í heiminum eru þeir sem sækjast eftir lífsreynsluferðum undir kjörorðinu: "Get your hands dirty and your feet wet."

Eini raunverulegi keppinautur Grænlands er Suðurskautslandið sem er margfalt fjarlægara.

Þegar dregin er lína leiðar evrópskra ferðamanna til þessa hluta Grænlands liggur hún yfir Ísland. Frá Ísafirði eru aðeins rúmlega 300 kílómetrar að Grænlandsströnd. Frá Nuuk eða Narsassuak eru meira en 1200 kílómetrar og það úr öfugri átt ef miðað er við ferðamenn frá Evrópu.

Flugvélum er hægt að lenda á tvennan hátt Grænlandsmegin, - skíðaflugvélum uppi á jöklinum og landflugvélum í Sördalen sem er við suðurmörk Blosserville-strandar.

Snjallir flugmenn á Akureyri hafa reynslu af að lenda 19 farþega Twin Otter skíðaflugvélum á jöklinum en einnig hafa bandarískir herflugmenn æft lendingar á stórum Herkúlesvélum við yfirgefna ratsjárstöð sunnar á miðjum jöklinum.

Á sínum tíma notuðu Loftleiðir fragtflutningagerð af Canadair CL-44 skrúfuþotum til farþegaflugs og voru eina flugfélagið í heiminum sem gerði það. Tæknilega ætti að vera hægt að útbúa vélar á stærð við Herkúles til að lenda með farþega á jöklinum.

Grænland er í bókstaflegri merkingu stærsti og nálægasti leyndardómur mögulegs ferðaþjónustusvæðis fyrir íslenska útrás.

Ef farið verður að bora eftir olíu undan ströndum Austur-Grænlands mun það beina ljósinu betur að þessu svæði sem sefur við bæjardyr okkar.

Í raun er það aðeins í þrjá mánuði  á veturna sem myrkur kemur í veg fyrir ferðir að ströndinni. Fyrir nokkrum árum flaug ég á einshreyfilsvél í nóvember upp að Blosserville-ströndinni og það er einhver eftirminnilegasta flugferð sem ég hef farið.- slíkir voru ógnvekjandi töfrar heims hafíss, stórhrikalegra fjalla og jökla, rökkurs og kulda sem er nánast steinsnar undan Hornströndum.

Þetta er upplifun sem bíður þess að vera nýtt sem öðruvísi og einstök ferðamennska. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll vertu og þökk fyrir nær endalausar þarfar ábendingar. Vatnajökull er reyndar ekki bara 20 sinnum stærri en Vatnajökul heldur tvöhundruð (200) sinnum stærri að flatarmáli og rúmmálið er að minnsta kosti þúsund sinnum meira (gróflega giskað).

Trausti Jónsson (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 23:47

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir Trausti að benda á vöntina á einu núlli, sem gerir tífalda skekkju. Verður leiðrétt snarlega (klukkan 02:12)

Ómar Ragnarsson, 26.9.2007 kl. 02:12

3 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Það er alltaf gott þegar hægt er að stækka okkar ferðamannaiðnað.  Þetta væri hluti sem gaman væri að skoða.

Þórður Ingi Bjarnason, 26.9.2007 kl. 07:56

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég hef aldrei komið til Grænlands, en sá það úr flugvél á leiðinni vestur um haf. Það var stórkostlegt að sjá hvernig jökullinn skreið út í sjó og brotnaði í risastóra ísjaka. Ég hugsaði með mér að það væri sennilega mikil upplifun að vera þarna niðri, þó aðeins vel útbúinn með góðum leiðsögumanni.

Þetta er Extreme Survival, og eins og Ómar bendir á er það vinsælt. Mágur minn er einhleypur og fer einu sinni á ári með fjögurra manna hóp í ferðalag. Nú var það New York, Costa Rica og eitthvað meira í Karabíska Hafinu. Þeir hafa farið til Kúbu, siglt um í Króatíu og ferðast um Kenýa. Nú eru þeir að skoða Kanada, Ástralíu og Kína fyrir næsta ár. Þeir eru að nálgast þrítugt, í góðu starfi og hafa gaman af að lifa lífinu. Þessi hópur er stór og fer stækkandi. Það er alveg örugglega markaður fyrir Ísland-Grænland.

Það væri gaman að sjá myndir, ef þú átt þær til. Af lýsingunum að dæma er um stórkostlegt landslag að ræða.

Villi Asgeirsson, 26.9.2007 kl. 11:45

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Einu aðgengilegu myndirnar í fljótheitum er smá pistill um nóvemberflugið á FRÚ-nnni til Grænlands á Stiklu-spólu, sem seld var í hitteðfyrra fyrir jól og fæst á DVD í hjá söludeild RUV. Þetta eru tveir þættir, annar með flakki um Grænlandssund, Hornstrandir og Strandir með Steingrím Hermannsson sem leiðsögumann að hluta, - hinn með flakki um sunnanverða Vestfirði frá Dýrafirði til Rauðasands með Davíð Oddsson sem leiðsögumann að hluta. 

Ómar Ragnarsson, 26.9.2007 kl. 14:41

6 identicon

Sæll Ómar

Ég fór í ógleymanlega vikuferð til Austur Grænlands í ágúst s.l. þar sem flogið var til Kulusuk og siglt inn fjörð þar sem við hoppuðum í land og gengum í 3 daga meðfram Sermilik firði í ósnortinni magnaðri náttúru.  Grænland er óuppgötvuð paradís í útivist og ferðamennsku en Grænlendingar sjálfir hafa ekkert gert til að byggja upp þann iðnað.  Það voru Íslendingar sem búa þarna sem sigldu með okkur, leigðu okkur hús og seldu okkur minjagripi. 

Hér eru myndir frá ótrúlegu landslagi úr ferðinni:

http://public.fotki.com/snorrib/feralg/gngufer-um-grnland/

Snorri B. Jónsson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 19:00

7 identicon

Sæll Ómar

Ég er þér hjartanlega sammála í þessu enda er ég og mínir kollegar á Ísafirði að  gera út ferðir til austurstrandar Grænlands á 60 feta skútu til að gefa fólki tækifæri til að upplifa dýrðina. Við fórum í þrjár ferðir í sumar sem gengu mjög vel og verður svipað uppi á teningnum á næsta ári.

Hægt er að sjá myndirnar á http://boreaadventures.com/photos/23/  ef fólk hefur áhuga.

Þú ættir bara að skella þér með á næsta ári!

kv

Rúnar Karlsson
Borea Adventures
Ísafirði

Rúnar Karlsson (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband