10.10.2007 | 23:19
"SÁTTIN", - MISTÖK SJÁLFSTÆÐISMANNA.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ofmátu stöðu sína og gerðu mistök með því að kynna þá niðurstöðu sem sátt í REI-málinu og endanlega lausn að selja strax eign almennings sem stígur hratt í verði. Þeir orðuðu þetta eins og afstaða Björns Inga Hrafnssonar skipti ekki máli en í ræðu hans á borgarstjórnarfundinum í dag kom berlega í ljós að hann mun ekki gangast undir þessa "sátt" og að málið er ekki aðeins í hnút hjá borgarstjórnarmeirihlutanum heldur eru nú galopnar dyr til myndunar nýs meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og F-listans.
Það er klókt hjá Birni Inga að spila sterkt og djarft í þessu máli og snúa vörn í sókn. Núna er Framsókn í stjórnarandstöðu og myndi stimpla sig vel inn með myndun svona meirihluta og hefna þess að vera sparkað út úr stjórnarráðinu.
Í öðru lagi er hefð fyrir því að myndun meirihluta í sveitarstjórnum þarf ekki að fara eftir ríkisstjórnarmynstrinu og því getur Samfylkingin vel verið með í þessum leik og komist aftur til valda í ráðhúsi Reykjavíkur.
F-listinn getur ekki gengist inn á söluhugmynd Sjálfstæðismanna, - engir nema Sjálfstæðismenn ljá máls á slíku.
Sumir hafa talað um það að staða Björns Inga væri afleit í málinu en menn skyldu ekki vanmeta þá möguleika sem upprennandi pólitískur bragðarefur eins og hann getur fundið til að snúa taflinu við.
Staða Björns Inga gefur honum færi á að þjarma að Sjálfstæðismönnum og þvinga þá til niðurstöðu sem gæti orðið til þess að hann kæmi miklu sterkari út úr þessum hildarleik en nokkurn grunaði.
Þetta er spennandi, - þegar allt er upp í loft alls staðar getur allt gerst.
Það verður verulega áhugavert að sjá hvernig málsaðilar fara út úr þessu, - snilldarleikir eða afleikir í hinni pólitísku refskák geta ýmist lyft mönnum eða valdið hrapi þeirra.
Athugasemdir
Hefjum tangarsókn nú!
Blásum í byltingarlúðrana og endurheimtum auðlindir fólksins. Endurheimtum fiskimiðin úr höndum sægreifanna, endurheimtum orkuveitur almennings úr klóm spilltra pólitíkusa! Byltingu nú!
Hér má sjá Rauða herinn rústa Berlín, sjáið eldmóðinn: http://youtube.com/watch?v=Arivw0qXfxQ
Bræður og systur, stund byltingarinnar er upp runnin! Við munum eigi af hólmi renna: kvótann burt, og orkuveiturnar í eigu almennings!
Byltingarvörðurinn (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 03:57
Lesið grein Sikurðar Kára Kristjánssonar HÉR
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.10.2007 kl. 12:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.