11.10.2007 | 16:51
"KOM Í LJÓS"
Í knattspyrnunni er stundum sagt "kom í ljós" t.d. þegar óverðskulduð vítaspyrna er misnotuð. Það sem ég bloggaði um næst á undan þessari bloggfærslu hefur nú "komið í ljós." Með nokkrum fundum sex borgarfulltrúa án borgarstjórans unnu Sjálfstæðismenn gegn sterkustu röksemd sinni um árabil þegar þeir buðu ævinlega upp á einn samstæðan hóp borgarfulltrúa sem stæði þétt að baki borgarstjóranum. Þar að auki gleymdu þeir því að þeir höfðu ekki átta fulltrúa eins og þeir voru vanir hér áður þegar þeir áttu borgarstjórann og settu fram "sátt" sem hvorki Framsóknarmenn né hinir flokkarnir gátu sætt sig við.
Þeir áttuðu sig ekki á hinni sterku stöðu sem bæði Björn Ingi Hrafnsson og Margrét Sverrisdóttir höfðu, ekki aðeins til að mynda meirihluta með Sjálfstæðismönnum, heldur einnig til að mynda þann meirihluta sem nú hefur verið myndaður.
Vísa að öðru leyti til fyrri bloggfærslu um þá málefnalegu samstöðu sem er með nýju meirihlutaflokkunum í því að láta auðlindirnar ekki af hendi úr almannaeigu með hraði.
Það er athyglisvert að það eru í raun umhverfismál sem skipta sköpum um það sem gerst hefur. Það sýnir enn og sannar að þau mál eru eru mál málanna á nýrri öld.
Athugasemdir
Voru allir að bíða eftir Birni í mat á Höfða
Er Villi ekki búnin að taka 3G tæknina í notkun
Hann hefði getað hringt og sagt "Við erum hér, hvar ert þú?"
og Björn hefði svarað "Er búið að seigja gjörið þið svo vel"
Jónas Heinsson (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 17:20
Hahahahhah góður, Jónas! hahah
Ragnhildur Jónsdóttir, 11.10.2007 kl. 18:00
Skemmtileg samlíking Jónastar hljómar eins og efni í létt stjórnmálakvæði fyrir þig Ómar
Svanur Sigurbjörnsson, 11.10.2007 kl. 20:45
Þetta er algjört grín hjá þessu liði. Allir í regnföt og út að moka. Björn, ekki gleyma að koma með skófluna tilbaka. Margrét, vertu góð við nýja borgarstjórann. Það er bannað að toga í hárið á honum. Svandís, leyfðu hinum krökkunum líka.
Björn Heiðdal, 11.10.2007 kl. 20:57
Það verður örugglega gaman að sjá Spaugstofuna um helgina.
Ásdís Sigurðardóttir, 11.10.2007 kl. 22:38
Jahá, Spaugstofan stingur sko á kýlin, svo út vellur fúll gröfturinn. Ekki missa af því.
Hemmi hressi (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 08:37
Ómar fyrir hvaða flokk er Margrét Sverrisdóttir í borgarstjórn ??
Elías Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 15:06
Já það er svo sannarlega Júdasar lykt af málinu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.10.2007 kl. 15:37
Svar við spurningu Elíasar:
Margrét er í dálítið óvenjulegri aðstöðu því að hún var kjörin sem fulltrúi "Frjálslyndra og óháðra" í öðru sæti á eftir Ólafi F. Magnússyni, sem var "óháður" þegar hann settist fyrst á listann. Margrét og Ólafur gengu, ásamt fleirum í Reykjavík, úr Frjálslynda flokknum fyrr á þessu ári og Margrét er nú varaformaður Íslandshreyfingarinnar.
Efstu menn á listanum eru ekki í Frjálslynda flokknum, fimm af sex efstu eru í Íslandshreyfingunni. Margrét, Ásta Þorleifsdóttir og Guðrún Ásmundsdóttir gengu í Íslandshreyfinguna í vor og tóku þar sæti á listum, - Margrét og Guðrún í Reykjavík og Ásta leiddi I-listann í Suðurkjördæmi.
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Fjálslynda flokksins, hefur bent á að fólk sem nú er í Frjálslynda flokknum hafi tekið þátt í nefndastörfum hjá borginni á vegum F-listans og því er ekki hægt að segja að Íslandshreyfingin eigi óskoraða aðild að nýja meirihlutanum í Reykjavík.
Margrét hefur orðað þetta svo sjálf að Frjálslynda flokknum hafi verið rænt á frægum landsflundi í vetur.
Íslandshreyfingin hefur fylgt stefnu sem hún hefði viljað að Frjálslyndi flokkurinn fylgdi og Margrét hefur sagt að hún og hennar fylgismenn á listanum eigi vissum skyldum að gegna gagnvart þeim sem kusu þau 2006 þótt sumt af því fólki sé nú í öðrum flokkum.
En einnig er ljóst að sem varaformaður og stofnandi Íslandshreyfingarinnar eru hún og fylgismenn hennar á F-listanum að vissu leyti fulltrúar Íslandshreyfingarinnar í borgarstjórn þótt þau vilji taka tillit til alls þess fólks sem studdu þau í upphafi.
Af framansögðu má sjá að skilgreining á þessu er ekki auðveld, enda var Íslandshreyfingin ekki til þegar kosið var til borgarstjórnar 2006.
Minna má á að þegar Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn 1980 voru hann, Friðjón Þórðarson og Pálmi Jónsson þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Albert Guðmundsson þingmaður flokksins varði ríkisstjórnina vantrausti en flokkurinn var þó að öðru leyti á móti stjórninni.
Ríkisstjórnin sú var mynduð af hluta af Sjálfstæðisflokknum ásamt Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi.
Nú er ekki sum slíkan klofning að ræða að fólk sé sitt hvorum megin víglínunnar og hvorki Íslandshreyfingin né Frjálslyndi flokkurinn hafa lýst yfir athugasemdum við það Margrét með stuðningi og að frumkvæði Ólafs F. Magnússonar myndi núverandi meirihluta.
Eftir er að sjá hverjir af F-listanum taka þátt í nefndum fyrir hönd listans. Ef eitthvað af því verður fólk sem ekki er í Íslandshreyfingunni verður kannski réttast að segja að í heildina sé það og Íslandshreyfingarfólkið "óháðir".
Ómar Ragnarsson, 12.10.2007 kl. 21:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.