"ÁVALLT VIÐBÚINN"

Þekkt er kjörorð skáta: Skáti, ávallt viðbúinn!. Ég hef fyrr vitnað í Garrí Kasparof þess efnis að þótt ekki sýnist grundvöllur í augnablikinu til að ná tilætluðum árangri í stjórnmálum sé versti kosturinn að leggja upp laupana. Betra sé að halda baráttunni áfram og senda með þvi þau skilaboð að viðkomandi stjórnmálahreyfing sé tilbúin þegar kallið kemur.

Fyrir tíu dögum hefði engan getað órað fyrir þeim pólitísku atburðum sem sem síðan hafa gerst, þar með því að varaformaður Íslandshreyfingarinnar yrði einn af oddvitum í borgarstjórnarmeirilhluta.

Það sýnir að hvenær sem er getur komið upp staða þar sem mikilvægt er að vera tilbúinn í slaginn í stað þess að leggja niður rófuna og kasta þar með á glæ miklu starfi sem unnið hefur verið við stefnumótun og baráttu fyrir hugsjónum.

"Minn tími mun koma" sagði Jóhanna Sigurðardóttir á sínum tíma. Enginn veit hvort eða hvenær það mun geta komið skyndilega upp að Íslandshreyfingarinnar eða hliðstæðs afls verði þörf.

Á síðasta vori var sett saman flugvél og hún mönnuð og henni flogið. Það væri óráð að taka vélina í sundur og tvístra fólkinu sem flaug henni. Betri kostur er að flugvélinni sé haldið við og áhöfnin haldið sér við efnið þótt ekki næði hún að fljúga inn á þing.

Þegar og ef að því kemur gæti þá áhöfnin stokkið um borð og farið í annað flug með meiri meðbyr.

Svo að vikið sé borgarstjórnarsviptingunum á léttum nótum má velta því fyrir sér hvort það hefði breytt einhverju ef Guðlaugur Þór Þórðarson hefði beðið lengur með það að víkja Alfreð Þorsteinssyni úr starfi við hátæknisjúkrahúsið. Þá hefði Alfreð ekki verið sár út af þessari meðferð og ekki haft tíma til að taka þátt í myndun nýs meirihluta í borginni.

Björn Ingi hefur sagt að Alferð hafi haft nógan tíma til þess að hjálpa til, og þegar reynslurefur eins og Alfreð hefur nógan tíma til að gera það sem hann er bestur í, að plotta og makka og vera fljótur að því, - þá getur ýmislegt gerst.

Sjálfstæðismenn gleymdu því að tveir menn töldu sig eiga harma að hefna, Alfreð og Ólafur F. Magnússon.

Svo virðist sem báðir hafi haft frumkvæði og hönd í bagga við myndun nýs meirihluta. Ólafi F. er áreiðanlega enn í minni eftirmál kosninganna 2006, þegar svo leit út sem Vilhjálmur ætlaði að leita samstarfs við hann en tók Björn Inga með sér í staðinn og Ólafur sat eftir með sárt ennið.

Enginn skyldi vanmeta særð ljón þegar þau hafa verið sett út í horn, - þá geta þau verið skæðust enda aðeins um eina leið að ræða fyrir þau, - að brjótast út úr horninu, þótt síðar verði.

Nú þarf Vilhjálmur að búa sig undir að sjá oddvita F-listans í þeirri virðingarstöðu að stjórna fundi borgarstjórnar sem forseti borgarstjórnar, nú eða að taka á móti mikilsverðum gestum í fjarveru borgarstjóra.

Á fyrsta borgarstjórnarfundinum þegar þetta gerist er hægt að sjá í anda að forseti borgarstjórnar nikki höfðinu til Villa á líkan hátt og gerðist hér forðum hjá Steina og Olla þegar þeir voru að jafna leikana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: 365

Íslandshreyfingarinnar verður aldrei þörf. Láttu þig dreyma.

365, 12.10.2007 kl. 23:41

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Særð ljón eru Vilhjálmur og Bingi sem þarf að gefa eftir einhverja hundraðkalla í laun miðað við fyrri díl. Ólafur og Margrét eiga ekki í sér þeirra hugsanahátt vona ég. En allar samsetningar með framsókn innanborðs boða eingöngu eitt. Hvað fáum við í okkar hlut? Og hefur ekkert með hagsmuni kjósenda að gera. En Margrét fær kannski loksins að sýna fyrir hvað hún stendur.

Ævar Rafn Kjartansson, 13.10.2007 kl. 00:49

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Ómar.

Gat nú ekki betur lesið og heyrt en viðkomandi hafi afneitað tilvist sinni sem varaformaður téðra stjórnmálasamtaka í þáttöku í stjórnarsamstarfi meirihluta í borginni.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 13.10.2007 kl. 03:19

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er nýtt fyrir mér ef Margrét hefur neitað því að vera varaformaður Íslandshreyfingarinnar. Hún sat sem slíkur fund hjá hreyfingunni kvöldið eftir borgarstjórnarfundinn fræga og við höfum talað saman oftar en einu sinni síðan sem formaður og varaformaður.

Ómar Ragnarsson, 13.10.2007 kl. 23:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband