14.10.2007 | 00:35
"HREIN OG ENDURNÝJANLEG ORKA?"
Ítarlegar upplýsingar og skoðanaskipti eru sá grundvöllur lýðræðis og farsældar í víðum skilningi sem hefur einna mest skort á undanfarin ár og skortir enn á hér á landi. Við gerð myndarinnar "Á meðan land byggist" rak ég mig á múr í þessu efni sem sést best á því að aðeins einn þeirra sérfræðinga sem ég leitaði til um mikilsverð atriði, sem yfirvöld höfðu ekki velþóknun á, treysti sér til að koma fram í myndinni, - Sveinn Runólfsson.
Þóra Ellen Þórhallsdóttir rökstuddi vel á Umhverfisþingi skyldu þeirra sem búa yfir vitneskju að láta ekki hræða sig frá því að koma henni á framfæri.
Ástandið hefur skánað eitthvað síðustu árin en en ennþá er fyrir hendi viðleitnin til þess að hamla gegn því að óþægilegar staðreyndir og sjónarmið komi fram.
Þóra Ellen minnti á að Kárahnjúkavirkjun hefði verið kynnt sem "endurnýjanleg og hrein" þótt vitað væri að hún eins og fleiri virkjanir jökulfljóta sem fylla upp miðlunarlón með aurI skilaði ekki endurnýjanlegri orku.
En allan tímann sem virkjunin var keyrð í gegn var staglast á því hve orkan væri "hrein og endurnýjanleg" og fengin undanþága í Kyoto út á rangar upplýsingar.
En fleiri spurningar vakna um hvað sé "hrein og endurnýjanleg orka." Yoko Ono gerði að skilyrði að orkan sem notuð væri í friðarsúlunni væri hrein og endurnýjanleg. Hún er það ef við segjum að hún komi frá Sogsvirkjununum.
En hvað um orkuna frá Hellisheiðarsvæðinu? Það er vitað að vegna þess að kreist eru 600 megavött út úr svæði sem ekki getur skilað meira en 300 megavöttum til frambúðar, þá mun þessi orka verða uppurin eftir 40 ár og þá mun taka einhverja áratugi þangað til svæðið jafnar sig.
Þessa áratugi eftir að heiðin er orðin köld verður því annað hvort að loka þeim fyrirtækjum sem nota orkuna eða virkja jafn mikið annars staðar.
Nema að djúpborunartæknin geri þá kleift að taka meiri orku upp. En sú tækni er ekki fyrir hendi og óábyrgt að treysta á það að hún muni gefa þann árangur sem vonast er eftir vegna þess að enn vita menn ekki hvort hinn mikli hiti og eiturgufur sem koma munu upp af svon miklu dýpi muni gera þessa nýtingaraðferð óframkvæmanlega.
Ég hef nýlega heyrt töluna 60 þúsund tonn af útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá Heillisheiðinni fullvirkjaðri, en það er álíka mikið og útblástur frá litlu álveri.
Útblástur brennisteinstvíildis verður meiri en frá stóru álveri.
Lyktarmengun í Reykjavík vegna virkjananna á Hellisheiðar-Henglissvæðinu fer nú þegar 40 daga á ári yfir hámarkið sem gildir í Kaliforníu.
Þegar hlutur er seldur er ekki nóg að segja kaupandanum að hann sé svona og svona og leyna mikilsverðum atriðum.
Á Umhverfisþingi fékk ég ekki svar við fyrirspurn minni um það hvort við gætum komist upp með þetta og hvort hegðun okkar gerði okkur trúverðug þegar við stöglumst á því við helstu ráðamenn heims að orkan sé undantekningarlaust algerlega endurnýjanleg og hrein.
Einn pallborðsmanna sagði að hugsanlega væri hægt að þróa tækni til að binda co2.
En meðan það liggur ekki fyrir sé ég ekki hvernig við getum haldið áfram síbyljunni um "hreina og endurnýjanlega orku" af þessu svæði án þess að greina þeim sem við skiptum við frá hinu sanna.
Það eru fleiri en vísindamenn sem ber skylda til að koma öllu því á framfæri sem skiptir máli.
Náttúruverndarmál rædd á Umhverfisþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Margt gott sem kemur þarna fram hjá þér Omar, ég hef verið að skiptast á skoðunum við Ástralskan jarðfræðing sem vinnur við djúpboranir í Ástralíu og hann hefur tjáð mér að eins og er eru djúpboranir ekki arðbærar vegna orkunar sem þarf við að dæla vatninu niður á þetta dýpi. þrýstingurinn er svo mikill.
Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 14.10.2007 kl. 00:54
Ekki er langt síðan ég las hvern pistilinn af öðrum hér á blogginu þínu Ómar, þar sem þú fullyrtir ítrekað að miklu betri og fýsilegri árangur af djúpborunum væru handan við hornið. Nú er komið annað hljóð í strokkinn. Þú ert bara andvígur virkjunum, punktur.
Vísindamenn þurfa óhræddir að láta rödd sína heyrast segirðu. Þú hampaðir Ástu Þorleifsdóttur jarðfræðingi í fyrsta sæti á framboðslista flokks þíns í einu kjördæmanna, Reykjanesi að mig minnir. Hún átti að vera einn aðal ásinn í ermi þinni. Hún tjáði sig m.a. um það að vernda bæri Reykjanesskagann í heild sinni og gera hann að eldfjallaþjóðgarði sambærilegan við þá þekktustu og mögnuðustu í veröldinni, líkt og á Hawai.
En það er fleira sem Ásta Þorleifsdóttir vísindamaður hefur tjáð sig um í gegnum tíðina sem komið hefur mönnum spánskt fyrir sjónir.
Þegar ráðgert var að hefja byggingu ráðhússins við tjörnina þá fann Ásta það út ásamt tveimur öðrum vísindamönnum, þeim Guðna Jóhannessyni verkfræðingi og Guðrúnu Pétursdóttur líffræðingi (fyrrum forsetaframbjóðanda og háværustu raddarinnar í mótmælum um byggingu ráðhússins) að ef grafinn yrði grunnur fyrir húsinu á þessum stað, þá hyrfi tjörnin á nokkrum vikum. Frá niðurstöðu vísindamannanna var greint í hádegisfréttum í ríkisútvarpinu og vakti að vonum mikla athygli og þótti þung lóð á vogarskálar röksemda mótmælendanna, þann daginn.
Gunnar Th. Gunnarsson, 14.10.2007 kl. 05:35
Tökum þetta saman á einfaldan hátt: Möguleikarnir með djúpboranirnar eru tveir:
1. Þær heppnast og verða sannanlega mögulegar eftir 5-15 ár. Þá er augljóslega fráleitt að vaða áfram í að virkja á nýjum svæðum ef hægt er að ná margfaldri orku upp úr þeim svæðum sem þegar hafa verið virkjuð. Segja síðan eftir á: Sorrý, við urðum að halda áfram og miða við þá vitneskju sem fyrir hendi var á hverjum tíma.
2. Djúpboranirnar skila ekki þeim árangri sem vænst var. Þá blasir það við að með því að taka alltof mikið út úr núverandi borsvæðum er verið að ávísa á að þurfa að virkja á nýjum svæðum eftir 40 ár.
Þá verður sagt eftir á: Sorrý, við sáum þetta ekki fyrir. Sem verður rangt. Þess vegna rita ég bloggfærsluna hér að ofan.
Niðurstaða af möguleika 1 og 2: Það er rétt að staldra við og kanna nánar hvaða náttúruverðmætum á að fórna og hafa alla vitneskju uppi á borðinu. Orkan hleypur ekki frá okkur í heimi þar sem hún verður sífellt verðmætari og verðmætari og náttúra Íslands, eitt af undrum veraldar, verður líka sífellt verðmætari.
Ómar Ragnarsson, 14.10.2007 kl. 14:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.