ÞÓRUNN, - ANDÓFSMAÐUR Í RÍKISSTJÓRNINNI.

Athyglisverð voru lokaorð Þórunnar Sveinbjarnardóttur þegar hún sleit umhverfisþingi í gær og sagðist líta á sig sem andófsmann í ríkisstjórninni. Þetta hefur enginn forveri hennar sagt svo að ég viti og varpar ljósi á hvernig við erum á eftir nágrannaþjóðum okkar í þessu tilliti. Hjá þeim er litið á umhverfisráðuneytið svipað og litið er ýmsar eftirlitsstofnanir og enginn umhverifsráðherra feiminn við það að telja sig andófsmann.

Orð Þórunnar áttu þann aðdraganda að í pallborði hafði verið rætt um það hvernig búið væri að setja neikvæðan blæ á umhverfisverndarfólk með því að kalla það andófsmenn. Þessu þyrfti að breyta.

Þórunn sagðist hins vegar vera þessu ósammála, - hún teldi sig hiklaust vera andófsmann og það allt eins innan ríkisstjórnarinnar. Hún kvaðst vera stolt af því.

Hún getur verið það að mínum dómi. Umhverfisráðuneytið á ekki að vera þæg afgreiðslustofun fyrir hin ráðuneytin sem gæta hagsmuna þeirra sem vilja helst framkvæma hvaðeina sem þeim dettur í hug á sem þægilegastan hátt.

Andóf hefur í gegnum tíðina að sjálfsögðu verið misjafnlega útfært og aðferðirnar umdeildar, sumar "ólöglegar". Gandhi, Mandela og Martin Luther King notuðu "ólöglegar" aðferðir. Líka Mývetningar þegar þeir sprengdu stífluna í Miðkvísl með dínamiti. Ef þeir hefðu ekki gert það hefði risið í sveit þeirra virkjun sem væri stærsti bletturinn á framferði íslensku þjóðarinnar gagnvart landi sínu. Það er miður að svo róttæka aðgerði þyrfti að nota og vonandi þarf þess ekki aftur.

Andóf Guðmundar Páls Ólafssonar þegar hann tafði vinnuvélar með því að dreifa litlum íslenskum fánum á vegarstæði Kárahnjúkavegar var strangt til tekið "ólöglegt."

Ganga hans í fararbroddi í Jökulsárgöngunni við hlið Vígdísar var hins vegar "lögleg."

Málefnalegt andóf umhverfisráðherra í ríkisstjórn er hin ekki aðeins eðlilegt og sjálfsagt, - það er brýn nauðsyn.

Berum það saman við það hlutverk fjármálaráðherra að samþykkja ekki allar kröfur hinna ráðherranna heldur stunda "andóf" við því að fjármunum borgaranna sé ráðstafað stjórnlaust. Öllum finnst það andóf eðlilegt og sjálfsagt.

Sama á við um nauðsynlegt andóf umhverfisráðherra. Mæli Þórunn manna heilust. Svo er að sjá hvernig henni farnast við þetta andóf sitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svo er það hinn andófsmaðurinn, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem vill ólm koma landinu undir klafa Brussel-valdsins og breyta til þess stjórnarskránni, lýsandi þessu yfir fáeinum dögum eftir þá yfirlýsingu forsætisráðherra, að upptaka evru og innganga í ESB sé ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Stefnir gamla borgarstýran á vinstristjórn í landsmálum?

Jón Valur Jensson, 14.10.2007 kl. 15:58

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Gott hjá henni.

María Kristjánsdóttir, 14.10.2007 kl. 17:42

3 identicon

Ef einhver klafi er í Brussel þá er hann sannarlega léttbærari en klafinn sem Íslendingar ganga nú undir. Það þarf að koma íslenskum stjórnmálamönnum undir manna hendur. EES-samningurinn hefur gert gagn en betur má ef duga skal.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 21:13

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Eru þá hinir ráðherrarnir "out" af því þeir eru ekki andófsmenn?

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.10.2007 kl. 14:14

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hinir ráðherrarnir eru ekket "out". Í atvinnumálaráðuneytunum er unnið að hagsmunamálum atvinnuveganna og þar með nýtingu auðlinda og meðferð á eignum og fjármunu almennings. Það er skylda hvers ráðherra að benda á mál og framkvæmdir sem á döfinni eru en jafnframlt skylda fjármálaráðherra að fara vel með fé skattborgaranna, forgangshraða hlutunum og standa á bremsunni.

Sama á við um umhverfisráðherrann. Hann verður að standa vörð um þá dýrmætu eign sem þjóðin á í landi sínu, hafinu og í lofthjúpnum.

Ég fæ ekki séð að þetta sé flókið, heldur eðlilegt.

Ómar Ragnarsson, 15.10.2007 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband