"EIGI LEIÐ ÞÚ OSS Í FREISTNI..." - RÉTT ÞÝÐING?

Umræðan og deilurnar um nýja þýðingu Biblíunnar sýnir ítök hennar hjá þjóðinni. Fyrir mörgum árum heyrði ég í útvarpsviðtali að mætur prestlærður maður hélt því fram að setningin "Eigi leið þú oss í freistni..." í Faðirvorinu væri ekki rétt þýdd ef miðað væri við upphaflega textann. Ég man ekki nákvæmlega í hverju þessi villa ætti að vera fólgin en hún gæti hafa verið falist í því að í stað þess að biðja Guð um að lokka okkur ekki í freistni væri beðið um að hann hjálpaði okkur til að forðast freistingar, en á þessu tvennu er mikill munur.

Þekkt er sú mikla áhersla sem lögð er á það í hegðun fíkla sem eru nýkomnir úr meðferð að þeir forðist umhverfi sem freisti þeirra til að falla fyrir fíkninni.

Fíkillinn fær "sponsor" eða hjálparmann sem bannar honum að vera þar á ferð þar sem freistingarnar eða neysla er mikil.

Ég man dæmi fíkils sem var bannað að fara í stórafmæli vinar síns vegna þess hve þar væru margir á ferð sem væru í neyslunni. "Viltu verða lifandi til að fara í fimmtugs- sextugs og sjötugsafmæli hans eða ekki? sagði hjálparmaðurinn.

Fíkillinn umræddi var líka að reyna að hætta að reykja en engdist sundur og saman við það að fara á gamlar bíómyndir þar sem leikararnir reyktu.

Þekkt er líka hve erfitt það er að hætt að reykja fyrir annan aðilann í hjónabandi ef hinn heldur áfram.

Alþjóðlegar rannsóknir styðja þetta og þess vegna er það líklega ávísun á meiri áfengisneyslu að selja áfengi í matvörubúðum.

Mér fyndist það vera mikil heimtufrekja að krefjast þess af Guði að hann sé ekki að setja upp freistingar fyrir áfengisfíkla í matvörubúðum þegar ljóst er að þetta gerum við sjálf ef það verður ákveðið á Alþingi.

Þess vegna gæti ég vel trúað því að umrædd setning í Faðirvorinu ætti að vera svona: "Hjálpa oss til að forðast freistingarnar."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eru viðhorfin að breytast í landinu?  Ég er ekki það gamall að ég muni stórstúkur en samt nógu gamall til að þekkja mjög vel til áfengisbölsins.  Ef það ætlar að renna í gegn um þingið að leifa að selja alcohol í matvöruverslunum; sem allt stefnir í fyrr eða síðar þá er að verða úti um þær girðingar sem setja ætti um áfengi vegna freistinga fólks í þjóðfélaginu sem Bakkus hefur vægðarlaust barið til óbóta eða til dauða.  Ég þekki persónulega afleiðingar ofnotkunar áfengis á eigin skinni og þekki nokkra sem látist hafa beint og óbeint að völdum þess.  Alþingismaður nokkur háttvirtur Guðlaugur (vona að ég fari rétt með nafn) talaði niður til fólks sem á við áfengissýki að stríða í Kastljósþætti fyrir nokkrum dögum þegar hann sagaði: ,,þetta fólk sem ekki kann að fara með áfengi" á hvað öld er þessi háttvirti alþingismaður staðsettur núna.  Veit hann ekki að áfengi skapar vímu sem skapar svo aftur fíkn sem hópur fólks ræður ekki við að höndla og sumir verða svo langt leiddir af ofdrykkju að þeir skemma í sér heilastöðvarnar og verða geðveikir og deyja svo að lokum ef ekkert verður til að stöðva hraðlestina.  Ef hleypa á háttvirtum alþingismönnum áfram með það að eitra fyrir sumum hópum sjúklinga í þjóðfélaginu og tala niður til þeirra í leiðinni þá er mér nóg boðið.  Já mér er nóg boðið þeir hópar sem ekki þekkja til áfengissýki ætla að halda áfram að hlæja að þeim þjóðfélagsþegnum sem ,,hafa ofnæmi" fyrir áfengi en klappa öðrum hópum á bakið ,,svo sem þeim sem græða mest" fyrir að koma fram með þá snilldar hugmynd að ,,þægilegt sé að sækja rauðvínið með steikinni" og strjúka svo á sér belginn og fussa ,,þetta fólk"

Friðrik Kjartansson (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 04:30

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Þetta fólk sem kann ekki að fara með áfengi", þ. e. þeir sem hafa erfðafræðilega tilhneigingu til þess að "geta ekki farið með áfengi" er líkast til um um 10% prósent þjóðarinnar og böl þetta tengist flestum fjölskyldum á landinu. 

Þetta eru um 30 þúsund manns sem eru veikir fyrir og það hefur áhrif til ills á líf minnsta að minnsta kosti á annað hundrað þúsund manns.

Við erum ekki að tala um smámál því að aðeins 5% prósent aukning bölsins samsvarar 1500 manns og áhrif á líf þúsunda fólks.  

Ómar Ragnarsson, 23.10.2007 kl. 16:47

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Eru íslendingar veikari fyrir alkóhóli en aðrar þjóðir? Í flestum evrópulöndum (öllum nema norðurlöndunum?) er bjór og léttvín selt í matvöruverslunum. Ég get ekki séð að áfengisvandinn sé stærri í þeim löndum.

Þeir sem veikir eru fyrir áfengi eða eiturlyfjum munu fara í ríkið eða til dílersins.

Ef við eigum að fjarlægja freistingar úr verslunum, er þá ekki alveg eins mikilvægt að fjarlægja sælgæti, snakk, gos og majones? Er þyngd íslendinga ekki að verða stærra heilsuvandamál en áfengi og tóbak? 

Villi Asgeirsson, 24.10.2007 kl. 08:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband