26.10.2007 | 11:39
HJÓNABAND - HJÓNNABAND - HJÓNUBAND ?
Deilan um hjónabandið snýst ekki aðeins um mismunandi sjónarmið heldur líka hugtök og orð. Þetta síðastnefna á okkar dásamlega og lifandi tungumál að geta leyst með nýyrðasmíð. Hjón er fleirtöluorð og er í hvorugkyni á sama hátt og orðin barn og börn og orðið fólk því að tungan leysir vandann með hvorugkynsorðum þegar tvö kyn koma saman. Þetta liggur að mínu mati málfræðilega að baki skilnings kirkjunnar á orðinu hjón og hjónaband.
Karl og kona vígjast og bindast böndum til að geta sameiginlega af sér börn. Ég styð kröfu samkynhneigðra um að vígð sambúð þeirra séu jafnrétthá sambúð gagnkynhneigðra og að og reisn og tillfinningar aðila þeirrar sambúðar séu jafngildar og heilagar og gagnkynhneigðra.
Að öðrum kosti hefði ég ekki tekið þátt í gleðigöngu þeirra undanfarin tvö ár á þann hátt sem ég hef gert.
Það breytir ekki því að tæknilega er sá eðlismunur á þessum samböndum að í hjónabandi í skilningi kirkjunnar eru bæði hjónin kynforeldrar barna sinna en aðeins annar aðilinn í sambúð samkynhneigðra.
Ef við gerum þá kröfu að íslenskan eigi í orðaforða sínum skilgreiningar yfir sem flest má hugsa sér nýyrðasmíði sem nær þeim tilgangi að skilgreina hvert sambandi fyrir sig en kemur hins vegar eins langt til móts við sjónarmið samkynhneigðra og unnt er.
Áður en lengra er haldið er rétt að hafa það sterkt í huga að ævinlega þegar leitað er að nýyrðum virka þau brosleg og jafnvel kjánaleg í fyrstu.
Nýyrðin "þyrla" og "hyrna" virkuðu þannig á mann þegar þau komu fyrst fram, - en blærinn breyttist við notkun og kynningu.
Þetta er hið erfiða við að finna góð nýyrði í tengslum við jafn tilfinningaþrungið og alvarlegt fyrirbæri og vígð sambúð er. En hafa ber í huga að með tímanum ætti þessi blær að hverfa. Göngum þá til verks af fullri alvöru.
Ég hef leitað að orðum eins og "gumaband" hjá hommum, skylt orðinu brúðgumi, og "kvonband" hjá lesbíum, skylt orðinu kvonfang, en með þessum orðum held ég að við nálgumst ekki nóg þann vilja samkynhneigðra að orðið hjónaband gildi um öll samböndin.
En lítum þá á orðið "hjón." Það er ekki til í eintölu en vel mætti hugsa sér að búa til eintöluorð fyrir bæði kyn.
Það gæti þá orðið "hjónni" fyrir karlinn, - karlkynsorð sem beygist eins og orðið kúnni, - hjónni um hjónna frá hjónna til hjónna, og fleirtalan yrði "hjónnar", - hjónnar um hjónna frá hjónnum til hjónna.
Vígð sambúð tveggja karla yrði nefnt "hjónnaband."
Fyrir konuna yrði notað orðið "hjónna" sem beygðist eins og orðið kanna - hjónna um hjónnu frá hjónnu til hjónnu, - og fleirtalan yrði "hjónnur", - hjónnur um hjónnur frá hjónnum til hjónna.
Vígð sambúð tveggja kvenna yrði "hjónnuband."
Í texta kirkjunnar við vígslu sambúðarinnar myndi presturinn mæla fram þrjá mismunandi texta í samræmi við eðli sambandsins."
1. Karl og kona: "...þið eruð hjón fyrir Guði og mönnum..."
2. Karl og karl: "....þið eruð hjónnar fyrir Guði og mönnum..."
3. Kona og kona: "...þið eruð hjónnur fyrir Guði og mönnum..."
Til greina kemur líka að láta orðið "hjónn" um karlinn beygjast eins og orðið þjónn. Þá yrði sambúðin kölluð hjónaband, samanber orðið þjónaband.
Ef notað er orðið "hjóna" um konuna myndi það beygjast eins og orðið trjónu og sambúðin þá kölluð hjónaband, samanber "trjónaband".
Gallinn við síðustu tvo möguleikana hvað snertir hina kirkjulegu nákvæmni er sá að þá er algerlega sama orðið notað um sambúðina í öllum þremur tilvikum. Samkynhneigðir myndu hins vegar verða ánægðari með þessa lausn enda yrði eini mismunurinn í texta vígslunnar sá að presturinn myndi segja við hommana: "...þið eruð hjónar fyrir Guði og mönnum..." og við "lesbíurnar: "....þið eruð hjónur fyrir Guði og mönnum.
Kem ég þá að lokum að miliveg milli þessara tveggja tillagna minna en hann felst í því að orðið sem felur í sér "bandið" vísar til eintölu en ekki fleirtölu þ. e. til hvors um sig, samanber orðið "þjónshlutverk".
Þá lítur málið svona út:
Sambúð konu og karls: Hjónaband. "...þið eruð hjón fyrir Guði og mönnum..."
Sambúð karls og karls: Hjónsband. "...þið eruð hjónar fyrir Guði og mönnum...."
Sambúð konu og konu: Hjónuband. "...þið eruð hjónur fyrir Guði og mönnum...."
Út úr þessu fæst nákvæmari útlistun á hjónabandi karls og konu því að það verður hjónaband hjóns og hjónu.
En þá er að lokum að tilgreina þá lausn sem mér sýnist skást miðað við að nota grunnorðið "hjón"miðað við heildarsvip orðaforðans.
Þá líst mér skást á þennan milliveg:
Karl og kona: Hjónaband, samband hjónna og hjónu. "...þið eruð hjón fyrir Guði og mönnum..."
Karl og karl: Hjónnaband, samband hjónna og hjónna. "...þið eruð hjónnar fyrir Guði og mönnum..."
Kona og kona: Hjónuband, samband hjónu og hjónu. "...þið eruð hjónur fyrir Guði og mönnum..."
Þetta er mikilsvert mál og því tel ég ómaksins vert að kanna hvort frjómagn íslenskunnar geti leitt okkur til lausnar sem geti til framtíðar skapað sem víðtækasta sátt.
Við eigum ekki að vera hrædd við það þótt nýyrðin virki framandi og skrítin í fyrstu heldur minnast þess hvernig skrýtin og framandi nýyrði á sinni tíð urðu tungutöm og eðlileg með tímanum.
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Þetta eru góðar pælingar. Því miður held ég samt að þeim verði tæpast tekið vel af helstu talsmönnum "hjónna-" og "hjónnubanda" því af einhverjum ástæðum, sem eru reyndar verðugt rannsóknarefni út af fyrir sig, virðist samhengið milli málkenndar og jafnréttisástar gjarna öfugt í þessu máli.
Þorsteinn Siglaugsson, 26.10.2007 kl. 12:00
Ég bendi á að í þessum pælingum mínum er verður ein tillagan, með nýyrðunum "hjónn" og "hjóna", - sú að orðið "hjónaband" er hægt að nota um allar þrjár gerðir þess og að mismunur í texta við vígsluna verður aðeins í einni setningu: "...þið eruð hjónar / eruð hjónur..."
Meira að segja væri hægt að segja "hjón" í fyrrgreindum texta prests í öllum þremur tilvikunum, samber það að hvorugkynsorðið "lið" er notað jafnt um karlalið, kvennalið eða blöndð lið.
Möguleikarnir eru margir að ótöldum þeim möguleika að útvíkka hina hefðbundnu merkingu orðsins hjón svo að það nái yfir öll hin þrjú mismunandi sambönd og sleppa allri nýyrðasmíð.
Ómar Ragnarsson, 26.10.2007 kl. 12:50
Þetta eru athygliverðar pælingar. Það sem mér finnst orka tvímælis er að þurfa að kalla þetta eitthvað annað en hjónaband. Myndu samkynhneigðir eftir sem áður kalla sig gifta eða giftar? Kvæntur er einungis notað um karlmann og orðið er á undanhaldi. Gift lesbía gæti bæði sagst vera gift og kvænt en homminn yrði eðli málsins samkvæmt aldrei kvæntur.
Ég er persónulega fylgjandi því að nota einfaldlega þau orð sem fyrir eru í málinu; þau eru, þeir, þær eru hjón. Þau eru gift, þær eru giftar, þeir eru giftir. Ástæðan fyrir þeirri skoðun minni er sú að t.d. þegar fólk fyllir út umsóknir ýmiskonar þá er oft spurt um hjúskaparstöðu, og mér þætti það óeðlilegt ef samkynhneigðir þyrftu að nota þar einhver önnur orð en við hin sem erum gift fólki af gagnstæðu kyni. Þá væri um leið verið að neyða fólk til að upplýsa kynhneigð sína, sem ætti ekki að koma málinu við, til dæmis þegar sótt er um vinnu.
Gaman væri að heyra skoðun þína (ykkar) á þessum fleti málsins.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 26.10.2007 kl. 13:19
Hjónaband - Karlaband - Konuband.
Þú ert alltaf óragur Ómar, og pistlarnir þínir skemmtilegir. Þetta er fínar pælingar um orðin. Það er ein hliðin á þessari fyrirferðamiklu umræðu. Sjálfum finnst mér þetta eins og með innflytjendamálin að það er bannað að vera með skoðun nema vera einn af þeim sjálfur.
Hvað um það, væri ekki nær að fara bara alla leið og nota gagnsæi íslenskunnar. Hvað með samstæður eins og hjónaband, karlaband og konuband? Þá helst allur fókusinn á kynið en ekki endilega kynhneigðina eins og öll þessi umræða hefur tilhneigingu til að gera.
Í málinu og formlega séð getur hjúskaparstaða mín sem karlmanns verið ókvæntur, ekkill, skilinn að borði og sæng, skilinn að lögum, í sambúð, í staðfestri samvist og kvæntur. Allt þetta er hjúskaparstaða en þó helst ekki nema eitt í einu.
Og vonandi verð ég ekki fláður lifandi fyrir að leggja orð í þennan belg.
Kveðja,
Kristján
Kristján Björnsson, 26.10.2007 kl. 14:12
Sæll Ómar.
Í tilefni skrifa þinna hér að ofan vísa ég í mjög góða umfjöllun um þetta mál á MBL bloggi hjá Sigurði Hreiðari 22.10. sl. ("Í guðanna bænum, ekki kalla ykkur hjón!") og þar eru margar ágætar ábendingar. Mín skoðun birtist þar í athugasemd nr. 29.
Kveðja
Guðm. R. Ingvason
Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 16:38
Mér finnst þessar hugmyndir að málamiðlun, einfaldlega snjallar
Jónína Dúadóttir, 26.10.2007 kl. 16:54
Þetta er að verða dálítið náttúrulaust tal.. Karl og kona saman viðhalda mannkyninu og ala önn fyrir afkvæmunum og koma þeim út í lífið o.s.frv. Til að treysta þetta samband og viðhalda því hefur þjóðfélagið skapað þessu sambandi trausta og lögformlega einingu og kallað gerningin " Hjón" auðvitað er og verður þetta undirstaða áframhaldandi mannlífs það þarf ekki mikla speki til að átta sig á því.
Siðan eru það hin náttúrulegu frávik sem enginn ræður við ., þegar kyneðli manneskju leitar sama kyns. Þessi frávik bera engan ávöxt . þau viðhalda ekki mannkyninu séu þau iðkuð eingöngu. Auðvitað eiga þessir hópar að geta í friði og sátt lifað sínu lífi, hamingjusamt, en " hjón" í hinum venjulega skilningi geta þau ekki gert kröfu til að kallast. Mér finnst alveg nægjanlegt að þjóðfélagið viðurkenni þessi samkynja sambönd og veiti þeim löglegt gildi og það þau njóti sömu virðingar.
Sævar Helgason, 26.10.2007 kl. 18:37
Sæl
Ég ber afar mikla virðingu fyrir Ómari Ragnarssyni, en hér virðist mér honum fatast aðeins flug.
Ómar fellur í sömu gildur og svo margir, þar sem hann segir:
"Karl og kona vígjast og bindast böndum til að geta sameiginlega af sér börn."Þetta er hreinlega alls ekki algilt. Hjónaband er sáttmáli tveggja einstaklinga sem felur í sér margt, en það að geta saman börn er alls ekki endilega eitt af því.
Hvað með fólk sem giftist en getur ekki átt börn? Hvað með fólk sem giftist en vill ekki eiga börn? Hvað með fólk sem vill frekar ættleiða börn en geta þau sjálf?
Hver er grundvallarmunur á stöðu þeirra og samkynhneigðra, annar en að vera af sitthvoru kyninu? Væri þá ekki alveg jafnnauðsynlegt að fara að smíða nýyrði um samband þeirra sem ekki hyggjast endilega geta börn saman?
Ég held að það sé tímabært að hætta þessari vitleysu og kalla hlutina bara sínum réttu nöfnum.
Gunnlaugur Fr. (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 19:10
Hvernig verða hommar og eða lesbíur eitt hold. Hjónaband getur aldrei orðið nema milli karls og konu og orðið eitt hold. Það er að segja í barninu sínu. Við vitum að margt fólk ( karl og kona ) búa saman árum og áratugum saman án þess að vera vígð við kirkjulega athöfn. Hvað gengur þeim til (Hommum og Lesbíum ) Dugir ekki sambúðarformið sem ætti að vera í höndum sýslumanns. En ekki á vegum kirkjunnar. Við verðum að athuga hvað vígsla þýðir . Eða er þetta í nýju Biblíunni . Ég vona ekki. ESSGE
Sigurður Guðleifsson, 26.10.2007 kl. 20:19
Þetta eru fínustu hugmyndir að orðum.. Óþjál eru þau en einsog þú bendir á Ómar þá venst það eflaust með tímanum..
Ég er nú reyndar á þeirri skoðun að samkynhneigðir fái bara að kalla sig hjón líkt og aðrir giftir einstaklingar. Hjónaband er hjónaband tveggja einstaklinga og það mun vera nokkuð ljóst að samkynhneigðir eru einstaklingar.
Hjónaband er sáttmáli milli einstaklinga um samvistir og sameiginlega ábyrgð, þar sem einstaklingarnir ákveða að eyða lífinu saman. Oftast er hjónaband bæði siðferðislegur og lagalegurmanna, og jafnvel í elstu heimildum virðist sem hjónaband hafi verið orðið að hefð. Þótt ýmsir mannfræðingar hafi rannsakað hjónaband í mismunandi samfélögum er lítið vitað um uppruna þess. sáttmáli. Hjónaband fyrirfinnst í nánast öllum samfélögum (tekið af Wikipedia.com)
Ég held að það væri bara gott mál að sleppa þessari skilgreiningu á orðinu hjón = karl+kona út og kalla þetta hjónaband einstaklinga.
Stefán Þór Steindórsson, 26.10.2007 kl. 20:40
Sæll Ómar. ('Eg leifi mér að vera kumpánlegur,þar sem þú ert "þjóðareign")
Þetta er góður flötur á viðkvæmu máli..hjónaband. Hvað er það í skilningi fólks ?
'Eg var þeirrar gæfu aðnjótandi að alast upp á heimili hjóna , ásamt fleiri börnum. 'Eg drakk móðurmjólk, sem kornabarn. Sótti fyrirmynd í föður minn, er ég óxs upp.Lærði um stöðu kynjanna, af sambandi foreldra minna, ég lærði um stéttarbaráttu af föður mínum og móður. 'Eg lærði að fjölskylda er ein eining,karlmaður,kona og börn. Og þar voru börnin í fyrsta eða mikilvægasta sætinu. Þetta var ekki spurning um kynhneigð pabba og mömmu. Þetta var spurning um fjölskyldu, fullorðið fólk og börn. Hjónaband.
'Eg skil (?) samkynhneigða að einhverju leyti, held ég. Kannski er ég sam eða bi kynhneigður sjálfur, hver veit. Það sem ég meina, er að kynhneigð ,eða hvaða önnur hneigð,hefur ekkert með fjölskyldu að gera.
'Eg sé ekki pabba minn með honum Gauja í næsta húsi í Efstasundinu vera hjón og reyna að ala mig og bræður mína upp. Eða hana mömmu og Dísu í Skipasundinu í sömu sporum. Mér fynnst bara kynhneigð, ekki koma fjölskyldu við, ( hjónum )
Litlir menn þurfa fyrirmynd í feðrum sínum, litlar stúlkur í mæðrum sínum.
'I sambandi við nýyrðasmíðina, er mín tillaga : karlaband og kvennaband og hjónaband.
Sigurður Sæmundsson (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 21:54
Orðið hjón er mjög gamalt í málinu og einu sinni merkti það vinnuhjú eða heimilisfólk, þ.e. ekki bara húsbónda og húsfreyju. Það mætti því alveg nota það yfir hjón af sama kyni, það hefur breyst áður og getur alveg gert það aftur. Nú er ég ekki með orðabók fyrir framan mig og eflaust getur einhver flett upp á þessari orðanotkun. En mér finnst orðið hjón ekki virka nema í 3. prs. flt. eins og við höfum vanist því, það er bara mín máltilfinning sem er byggð á vana eins og hjá flestum, geri ég ráð fyrir. Við erum ekkert nema vaninn og það tekur smá tíma að breyta því en ég spái því að eftir nokkra áratugi muni enginn skilja í því að einhver hafi haft á móti því að fólk af sama kyni gengi í hjónaband og yrði hjón. Þá verður það orðinn svo hversdagslegur hlutur. Alveg eins og við rekum alltaf upp stór augu þegar við sjáum samkynhneigt par leiðast eða kyssast úti á götu, hvernig eigum við að venjast því sem við fáum aldrei að sjá? Vonandi verður það hversdagsleg sjón sem allra fyrst og þá verða fordómarnir bara hlægilegir.
Margrét Birna Auðunsdóttir, 26.10.2007 kl. 21:56
Það er hárrétt að ég skauta kannski á yfirborðinu og "tæknilegri" hlið hjónabandsins þegar ég tek fyrir hjónabandið sem aðferð til að viðhalda kynstofninum og mynda fjölskyldur. Hjónabandsheitið um eilífa tryggð, að elska og virða hvort annað er að sjálfsögðu aðalatriðið sem og að annast saman afkomendur sína og standa vörð um þá ef þeir eru ávöxtur hjónabandsins.
Kannski eru fegurstu hjónaböndin þau sem fela í sér djúpa ást og fegurð allt til hárrar elli þrátt fyrir barnleysi.
Ómar Ragnarsson, 26.10.2007 kl. 23:34
Allar pælingar eru skemmtilegar. En þetta mun ekki ganga því samkynhneigðir hafa greinilega litið á allar hinar nafna tillögurnar sem "lappadrátt í málinu" af því þeir vilja fá "hjónabandið yfir sig" líka ". Meira að segja "staðfest samvist" hugnast þeim ekki!
En hafið þið kynnt ykkur stefnu réttindabaráttu homma og lesbía sem birtist í blaði þeirra "The Advocate" eftir Steve Warren (frá sept.1987)? Þar er krafan að allur heildarpakki þeirra verði samþykktur og virtur til jafns við hjónaband annars munu þeir sjá til þess að engin kirkja eða söfnuður fái að hafa rétt til giftinga! Athyglisvert?
kær kveðja
Snorri í Betel
snorri (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 01:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.