30.10.2007 | 00:01
MÚRAR TIL MÆÐU.
Skæruher nægir að tapa ekki, - og þá hefur hann sigrað. Venjulegur her verður að sigra, - annars hefur hann tapað. Þetta spakmæli rifjast upp þegar ég glugga í nýja og ágæta heimildarbók um styrjaldir síðustu aldar og finnst athyglisvert að rifja upp hvernig Bandaríkjamenn trúðu á það í upphafi Vietnamstríðsins að hægt væri að vinna stríðið með því að gera varnargarða umhverfis þorpin í syðri hluta landsins svo að íbúarnir yrðu einangraðir frá skæruliðum og varðir gegn árásum þeirra.
Þetta hafði þveröfug áhrif á fólkið miðað við það sem ætlunin var, - því fannst það vera múrað inni í stórum fangelsum og fékk aukna samúð með málstað skæruliðanna. Þeir töpuðu ekki og urðu því sigurvegarar.
Allir vita hvaða áhrif Berlínarmúrinn hafði, - enda féll hann um síðir.
Apartheid aðskilnaðurinn í Suðu-Afríku og múr Ísraelsmanna milli þeirra og Palestínumanna, - allar bjöllur hljóta að hringja þegar slíkt er gert.
Í prýðilegum Kompásþætti voru sýndar girðingarnar sem Kanar reisa nú í Írak á milli borgarhverfa með sama hugarfari og þeir gerðu í Vietnam og væntanlega með svipuðum árangri, þ. e. þveröfugum áhrifum miðað við það sem ætlunin er.
Sama kvöld var sá ég bút úr heimildarmynd sem um Írakstríðið sem sýnd var á kvikmyndahátíðinni hér. Þar kom fram að yfirleitt fjalla fréttir vestrænna fjölmiðla um árásir skæruliða á saklaust fólk þótt raunveruleikinn sé sá að 74% árásanna sé á bandaríska herinn.
Hvernig myndu Bandaríkjamenn una við það að 1,6 milljón kuflklæddra vopnaðra Araba hefðu hernumið Bandaríkin og færu þar hús úr húsi með alvæpni til að leita að hugsanlegum skæruliðum? En 1,6 milljón Arbabahermanna í BNA eru hlutfallslega jafnmargir og 160 þúsund bandarískir hermenn í Írak.
Rússar fóru inn í Afganistan og sögðust gera það vegna beiðni löglegrar stjórnar landsins sem var þó auðvitað leppstjórn þeirra en hafði lotið í lægra haldi fyrir Talibönum.
Bandaríkin og fleiri þjóðir studdu Talibana, sendu þeim vopn og refsuðu Sovétmönnum með því að sniðganga Ólympíuleikana í Moskvu. Skæruliðar Talibana töpuðu ekki og þar með unnu þeir sigur á Sovétmönnum.
Það er erfitt að sjá hvernig Bandaríkjamönnum á að takast það sem Sovétmenn gátu ekki. Meðan Talibanar tapa ekki og geta haldið áfram skæruhernaði sínum verða þeir að öllum líkindum endanlegir sigurvegarar í stríðinu.
Rússar fordæma einangrun Gasa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.