ASKJA OG GJÁSTYKKI - TUNGLIÐ OG MARS.

Skemmtileg bloggfærsla Ágústar H. Bjarnasonar með nýjum myndum af yfirborði mars minnti mig á að í Öskju var æfingasvæði tunglfaranna og það á áreiðanlega stóran þátt í tregðu manna til að fara þar inn með jarðvarmavirkjanir og eyðileggja þannig upplifun þeirra sem koma þangað í fótspor Armstrongs og Sigurðar Þórarinssonar. Í Gjástykki völdu vísindamenn á vegum alþjóðasamtaka áhugamanna um marsferðir æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar.

Þessi ferð þeirra var farin í kjölfar könnunarferðar Bob Zubrin marsferðafrömuðar tveimur árum fyrr þar sem hann sá á Íslandi þau skilyrði sem mest líktust yfirborð mars.

En það er lýsandi fyrir virkjanagræðgi okkar Íslendinga að nú er á fullri ferð undirbúningur fyrir jarðvarmavirkjun í Gjástykki á grundvelli siðlauss og líkast til löglauss leyfis fyrrverandi iðnaðarráðherra tveimur dögum fyrir kosningar.

Þótt lengra sé kannski þangað til menn verða sendir til mars en á milli áranna 1967 og 69 ættum við að athuga að með því að eyðileggja möguleika Gjástykkis á að standa jafnfætis Öskju tökum við fram fyrir hendur afkomenda okkar.

Gjástykki er mjög viðkvæmt svæði þar sem rask af völdum jarðýtna í nýrunnu hrauni er óafturkræft.

Munurinn á að virkja eða virkja ekki er sláandi: Með því að halda landinu ósnortnu er ekki komið í veg fyrir að virkjað verði síðar.

Með því að virkja á þann hátt sem gert yrði í Gjástykki er komið í veg fyrir að svæðið og náttúra þess verði ósnortin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

"Jarðvarmaorkuver eru hagkvæmari en jarðgufuvirkjanir" sagði Stefán Arnórsson í Fréttablaðinu. Og Þorsteinn Ingi Sigfússon í Mogganum 18.október : Þorsteinn benti á að við raforkuframleiðslu með jarðhita nýtist um 12% af orkunni sem kemur úr iðrum jarðar. Hin 88% fari út í umhverfið, fyrst og fremst í mynd varmaorku. "Mér finnst þetta ekki forsvaranleg nýting á auðlindinni,"  Það er þannig nýting sem yrði í Gjástykki,Kröflu,Bjarnarflagi og Þeistareykjum fyrir álver á Húsavík.

Pétur Þorleifsson , 31.10.2007 kl. 23:51

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fáránleg rök hjá þér Pétur. Hver er nýtingaprósentan ef við virkjum ekkert? Auk þess hef ég nú trú á því að nýtingin aukist með bættri tækni og þróun en það verður bara engin framþróun á þessu sviði ef við ætlum að lifa á því að góna á þetta.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.11.2007 kl. 01:31

3 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Mér skilst að gufan sé virkjuð til rafmagnsframleiðslu, en heita rennandi vatnið, sem er megnið af því sem kemur upp úr holunni, nýtist ekki þegar ekki er þörf á hitaveitu.  Þess vegna væri rétt að tala um jarðgufuvirkjun í slíku tilfelli.  

Pétur Þorleifsson , 1.11.2007 kl. 06:08

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hér er aðeins minnst á Zubrin, The Mars Society og Ísland á vefsíðunni www.space.com

http://www.space.com/scienceastronomy/solarsystem/mars_society_020327.html 

Varðandi nýtni jarðgufuorkuvera er það rétt að með hefðbundnum aðferðum er nýtnin lág eins og Pétur bendir á, en Gunnar spyr réttilega hver nýtingarprósentan sé ef við virkjum ekki.

Í Svartsengi og á Nesjavöllum er umframorkan, sem annars færi til spillis, notuð til að hita upp vatn fyrir hitaveitu. Til er tækni (binary turbines) sem gerir kleift að breyta lághitavarma í raforku og auka þannig nýtnina enn frekar með því að virkja afgangsvarmann. Þá er lághitagufan látin hita upp rokgjarnan vökva sem knýr hverflana, eins og gert er að hluta í Svartsengi (ORC tækni) og á Húsavík (Kalina tækni). Sjá t.d. hér.

Ágúst H Bjarnason, 1.11.2007 kl. 07:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband