TIL SÓMA FYRIR BÆNDUR Á AUSTURLANDI

Ég var að koma til Reykjavíkur úr leiðangri til Akureyrar og Egilsstaða. Á Akureyri var opnað Flugsafn, sem kannski verður notað sem leikhús í vetur og á Egilsstöðum héldu bændur uppskeruhátíð. Stemningin á þessari hátíð og bragur allur yfir fólkinu sem fyllti Valaskjálf minnti mig á ógleymanlegar stundir í gamla daga á uppskeruhátíðinni á sjómannadaginn í samkomuhúsinu í Vestmannaeyjum. 

Á svona samkomum er gaman að vera Íslendingur í hópi fólks sem kemur þangað í sínu besta pússi og er einhuga um að njóta samveru og skemmtiatriða af innlifun og opnum huga. Því miður er það oft svo á árshátíðum að erfitt getur verið á köflum fyrir ræðumenn og skemmtikrafta að fá hljóð vegna skvaldurs, sem oft skapast af völdum örfárra ölvaðra einstaklinga en breiðist út. 

Sem sagt: Þetta dæmigerða íslenska fyllerí.

Annað var uppi á tengingnum í Valaskjálf í gærkvöldi þar sem Magnús Jónsson veðurstofustjóri, heiðursgestur og ræðumaður kvöldins, söngdúettinn Heimasæturnar og söngkvartettinn Vallargerðisbræður fengu afburða góðar verðskuldaðar viðtökur.

Þegar fólk kemur saman glatt á góðri stund á þennan hátt er það ekki bara uppbyggjandi og skemmtilegt heldur til mikls sóma fyrir þá sem að því standa. Í gærkvöldi voru það bændasamtökin á Austurlandi sem áttu heiðurinn af því skapa eftirminnilega kvöldstund og höfðu fyrr um daginn glatt gamla fólkið á staðnum við góðar undirtektir. 

Þetta kunna bændur á Austurlandi enn og það gleður gamlan kúarektor úr Langadalnum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband