EYÐA STRAX - ÁÐUR EN ÞAÐ ER OF SEINT !

Í gegnum aldirnar hafa Íslendingar bjargað sér með því að grípa gæsina meðan hún gefst, ná fiskinum um leið og hann sést og heyjunum inn um leið og þornar. Á okkar tímum lýsir þetta sér þannig að séu taldar líkur á þenslu, verðum við eyðsluglöð bara út á tilhugsunina, - og ef líkur eru á samdrætti, eyða menn peningunum strax á meðan það er hægt. Ef fréttist af nýjum leikföngum verður allt vitlaust og það selst upp á hálftíma í Höllina á allt að 6900 krónur miðinn á tónleika þar sem sungin verða að mestu jólalög sem allir þekkja.

Meira en ári áður en framkvæmdir hófust við Kárahnjúka varð hér þensla sem sérfræðingur í Seðlabankanum fann út að fólst að mestu leyti í stórvaxandi yfirdráttarlánum. Ástæðan til þenslunnar voru eingöngu væntingarnar.

Vinur minn sem hefur sérhæft sig í innflutningi bíla hafði svona lala að gera 2002, þegar skyndilega allt varð vitlaust. Hann hafði ekki undan og menn voru stórtækir, vildu kaupa stóra ameríska pallbíla hér og nú.

Þegar þeir voru spurðir um það hvernig þeir ætluðu að fjármagna kaupin svöruðu langflestir því til að það ætti að spenna yfirdráttinn á kortunum í botn og fá allt lánað vegna þess að von væri á þenslu vegna virkjanaframkvæmda.

Nú svífur yfir vötnunum efi um áframhaldandi þenslu og gæti verið að halla í samdrátt. Þá finnur Íslendingurinn það út að nú verði hann að eyða eins miklu eins og hann geti og njóta sem best lystisemda þenslunnar áður en samdrátturinn komi. 

Það hugarfar virðist vera okkur Íslendingum fjarlægt að einmitt vegna hættu á samdrætti eigi að fara að með gát og safna til mögru áranna.

Þvert á móti gildir það sama um þenslu og samdrátt, - hvort tveggja verður okkur afsökun fyrir að vera eins flott á því og augnablikið getur gefið okkur. "Take the money and run!"  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það eru ekki bara hinir ríku sem eyða og spenna. Millistéttarfólkið hagar sér hins vegar eins og það eigi nóg af peningum enda segja yfirdráttarheimildir  allt sem segja þarf. Hinir ríku þurfa ekki að nota slíkar heimildir.

Kárahnjúkaverkefninu hefur alfarið verið kennt um háum stýrivöxtum, verðbólgu og þenslu undanfarin misseri, aðallega af andstæðingum framkvæmdanna og V-grænum. Í því sambandi er vert að benda á það að þegar bankarnir komu inn í húsnæðislánakerfið með 100% lán og vexti sem ekki höfðu áður sést á Íslandi þá var hent inn í hagkerfið um 1.400 miljörðum, eða sjö sinnum meira fjármagni en Kárahnjúkaverkefnið og álver Alcoa kostuðu samnlagt. Töluverður hluti þessara 1.400 miljarða fór í neyslufyllerí almennings, en eins og kunnugt er notuðu margir tækifærið til þess að endurfjármagna gömul húsnæðislán og notuðu mismuninn í neyslu, nýja bíla, nýjar innréttingar, ferðalög.....

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.11.2007 kl. 23:33

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hluti af þessum 1.400 miljörðum fór í að borga niður gömlu yfirdráttarheimildirnar en nú er allt að fara á sömu lund á ný. Fólki er ekki viðbjargandi held ég stundum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.11.2007 kl. 23:35

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rétt hjá þér, Gunnar, að sprengjan sem Framsóknarmenn vörpuðu af óvarkárni og ábyrgðarleysi inn í kosningabaráttuna 2003 var slík, að enn rísa vandamál af hennar völdum.

En árið 2002 vissi enginn um þetta heldur voru væntingarnar allar byggðar á væntanlegri þenslu vegna Kárahnjúkavirkjunar og stækkunar álvera.  

Ómar Ragnarsson, 12.11.2007 kl. 00:05

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Bankarnir riðu reyndar á vaðið með 100% lánin en framsókn lagði auðvitað línurnar með 90% kosningaloforðið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.11.2007 kl. 00:36

5 Smámynd: Sævar Helgason

Þegar Framsókn fer í framsókn á einhverju sviði er ástæða til að óttast um þjóðarhag-Íbúðalánamálin, Kárahnjúkar - við verðum lengi að jafna okkur á þeirri framsókn.

Sævar Helgason, 12.11.2007 kl. 14:23

6 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Já ég sé ekki að þorri þjóðarinnar hafi það neitt betra en 1980. Utan við sumar breytingar sem tengjast meira lífsstíl ákveðinni umræðu ofl. í þeim dúr.

Ólafur Þórðarson, 12.11.2007 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband