12.11.2007 | 21:53
HRÆÐSLUÞJÓÐFÉLAGIÐ - EKKERT NÝTT.
Á óvart kemur að jafnreyndur blaðamaður og Agnes Bragadóttir skuli fyrst nú sjá merki um að hræðsluástand geti ríkt í þjóðfélagi okkar. Svo virðist sem það ástand sem hér ríkti og fór versnandi um og upp úr aldamótunum hafi farið að mestu fram hjá henni. Hún virðist ekki hafa tekið eftir því á sínum tíma hvernig aðeins tilhugsunin um tilvist og völd Davíðs Oddssonar gat gert menn óttaslegna.
Það sem olli mér áhyggjum þá var hve tiltölulega lítið þurfti á þessum árum til að gera fólk hrætt. Aðeins þurfti fáa en áhrifamikla opinbera atburði, svo sem bréfið til Sverris Hermannssonar, símtalið til umboðsmanns Alþingis, niðurlagning Þjóðhagsstofnunar og tiltalið til Skipulagsstofnunar.
Eftir það þurfti ekki hótanir, - fólk sá um það sjálft að haga sér þannig að engin hætta væri á hugsanlegum eftirköstum.
Ég lýsti þessum ótta í viðtölum þegar árið 2003 með því að útskýra hvers vegna aðeins einn kunnáttumaður þorði að koma fram í viðtali í heimildarmyndinni "Á meðan land byggist".
Rétt er þó að taka fram að Guðmundur Sigvaldason jarðeðlisfræðingur hefði vafalaust komið óhræddur fram ef þess hefði verið kostur.
Allir nema Sveinn Runólfsson sögðu það sama: Þú mátt ekki taka við mig viðtal, ekki vitna í mig og helst að setja þekkingu þína þannig fram að ekki sé hægt að rekja hana til mín. Annars hætti ég á að verða smám saman kæfður fjárhagslega og faglega.
Háskólamaður einn sagði við mig:
"Besti vinur minn nam sín fræði í Austur-Þýskalandi þar sem vísindamenn voru hægt og rólega teknir faglega og fjárhagslega af lífi ef þeir mökkuðu ekki rétt. Mismunurinn á Íslandi og Austur-Þýskalandi er einungis sá að þar í landi var þessum aðferðum beitt svo harkalega að smám saman varð það á vitorði alls heimsins. Hér er þetta miklu lymskulegar gert. Ég get ekki tekið neina áhættu á að missa smám saman þá styrki og þau verkefni sem ég á undir yfirvöldum og halda mér á floti. Þar með verð ég smám saman kæfður faglega og þar með fjárhagslega líka, svo mikils virði eru verkefnin langt og dýrt háskólanám getur fært mér.
Sama var uppi á teningnum þegar ég reyndi að fá vísindamenn hjá einkafyrirtækjum til að koma fram í myndinni. Þeir sögðust ekki geta afborið það að hætta á að fyrirtækin, sem þeir unnu hjá og áttu mestallt sitt undir því að fá verkefni fjármögnuð af ríkinu, misstu þessi verkefni og færu út í kuldann.
"Ég get ekki afborið þá hugsun", sagði einn þeirra, "að missa vinnuna og horfa upp á bestu félaga mína og vini hjá fyrirtækinu ganga um atvinnulausa, - ég get ekki hætt á neitt. "
Á þessum árum nægði að vinir manna segðu þeim frá því að þeir hefðu frétt að ótiltekinn hópur manna myndi fara fram með ófrægingu og aðdróttanir og koma af stað gróusögum ef bátnum yrði ruggað. Þessir vinir sögðu sig vilja manni vel með svona aðvörunum.
Slíkar viðvaranir dugðu vel á þessum árum.
Ég minntist á þetta lítillega í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár"í fyrra en greinilegt er að þetta ástand hefur farið það mikið fram hjá Agnesi Bragadóttur að hún hefur ekki talið það þess virði að taka það upp opinberlega á þeim tíma.
Rétt er að taka fram að þetta hræðsluástand hjaðnaði eftir brottför þeirra félaga Davíðs og Halldórs af vettvangi enda hafa arftakar þeirra yfir sér annað yfirbragð.
En það er áhyggjuefni hve langt svona hræðsla, hugsanlega stórlega ýkt í huga hins óttaslegna, getur leitt fólk. Það leiðir hugann að orðum Roosevelts Bandaríkjaforseta um það að við ættum ekki að óttast neitt eins og óttann sjálfan.
Rétt er einnig að minnast kröfuna um fjórfrelsi sem Roosevelt setti fram 1941:
Tjáningarfrelsi. (Freedom of speech)
Trúfrelsi. (Freedom of worship)
Frelsi frá skorti. (Freedom from want)
Frelsi frá ótta. (Freedom from fear)
Ef eitthvert af þessu fernu vantar er illt nærri. Þess ættum við að minnast þegar við óttumst afleiðingarnar af því að leita sannleikans og leiða hann í ljós.
Athugasemdir
Góður pistill Ómar, vona að sem flestir lesi. Þetter gersamlega ófyndið hve þjóðfélagið okkar er þessu marki brennt. kveðja Kvika litla
Erna (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 22:26
Þetta vandamál hefur lengi loðað við hér á landi. Ég minni á t.d. að þegar Þórbergur gaf út Bréf til Láru árið 1924 var hann kennari í Iðnskólanum og Verzlunarskólanum. Í kjölfar útgáfu Bréfsins var hann umsvifalaust rekinn úr báðum stöðunum sem hann hafði gegnt farsællega frá 1919 því yfirvöldum hugnaðist ekki skrifin.
Óttinn sem ríkti í ríki Davíðs var með eindæmum, enginn þorði að segja neitt eftir að ljóst varð að fólki hefndist fyrir orð sín og gerðir. Auk þess sem þú nefnir, Ómar, minni ég á séra Örn Bárð Jónsson og dæmisöguna í lesbókinni.
Við sem stöndum að vefsíðunni www.hengill.nu til varnar Ölkelduhálsi og Hengilssvæðinu urðum óþægilega vör við að ennþá eimir eftir af óttanum. Við höfðum spurnir af alls konar fólki sem þorði ekki að senda inn athugasemdir af ótta við að verða refsað á einhvern hátt. Því miður viðgengst þetta ennþá.
En óttinn svínvirkar sem stjórntæki, það hefur rækilega sannað sig í Bandaríkjunum undanfarin ár... og reyndar er mannkynssagan uppfull af dæmum um slíkt.
Lára Hanna Einarsdóttir, 12.11.2007 kl. 22:40
Þessi pistill er ekkert annað en sori. Fullyrðingarnar í honum eru tryggðar í bak og fyrir, aldrei hægt að sannreyna neitt vegna nafnleyndar. Nákvæmlega sama taktíkin er notuð í áróðri andvirkjunar og andálverssinna. Ekkert sannað, bara getgátur, ýkjur og aðdróttanir.
Ef það er rétt að Davíð hafi verið svona voðalega vondur maður, hvar eru þá fórnarlömbin? Þau hljóta að vera til, fólkið sem missti styrkina sína, vinnuna sína og fyrirtækin sín. Þau hljóta þá að geta komið fram núna úr því það er búið að setja þau út af sakramentinu. Þau hafa þá engu að tapa, er það?
Hve lágt geturðu lagst, Ómar? Á sama tíma og þú hefur gert allt sem í mannlegu valdi stendur og rúmlega það, að sverta virkjunarframkvæmdir á landinu, þá veit ég ekki betur en þú hafir þegið styrki, m.a. af Landsvirkjun.
Sagt er að þjóðfélög endurspegli þegna sína. Ég vona að það séu einhverjar undantekningar á því.
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.11.2007 kl. 23:01
Það hafa bændur í Gnúpverjahrepp sagt mér af verri fyrirgreiðslu vegna andstöðu þeirra við virkjanir í neðri Þjórsá. Aðrir af því að Landsvirkjun bjóði þeim tvo kosti: semja eða "óháðan" matsaðila af skaða þeirra. Í flestum tilfellum þurfa þeir ekki á eignarnámsákvæðum að halda vegna Titansamningsins. Þó að bændur þar neiti að semja eru vatnsréttindin ekki þeirra.
Leið Samfylkingarinnar til að bjarga andlitinu?
Er þessi kúvending Landsvirkjunar ekki bara partur af leikriti sem hefur verið sett upp til að Samfylkingin haldi haus með fagra Íslandið sitt? Viðskiptaráðherra er allt í einu farinn að tala um nýja möguleika í kjölfarið á því að hryðjuverkin í neðri-Þjórsá eigi ekki að nýtast fyrir álver. Hann var alfarið á móti þessum virkjunum en nú eru hann og umhverfisráðherra farnir að ýja að því að nú sé allt í lagi að virkja af því að orkan fer í annað. Geir og aðrir sjálfstæðismenn eru allt í einu orðnir grænir og vænir og allt virðist svo jollí. En Landsvirkjun er enn að kúga bændur við Þjórsá með afarkostum sínum. Fagra Ísland snýst þá væntanlega um flottari umbúðir utan um ofbeldið.
Ævar Rafn Kjartansson, 12.11.2007 kl. 23:16
Dæmi um óttann sem ekki er undir nafnleynd.
Þrátt fyrir viðleitni mína til að reyna að fá styrki eða kostun til gerðar myndarinnar "Á meðan land byggist" allt frá Kvikmyndasjóði til einstaklinga varð niðurstaðan sú að listi yfir styrktaraðila þessarar myndar er hinn stysti í íslenskri kvikmyndasögu: Í mynd sem að öllu eðlilegu hefði kostað 30 milljónir króna fengust tveir styrkir: 400 þúsund krónur frá Arngrími vini mínum Jóhannssyni og 200 þúsund hjá Toyotaumboðinu vegna þess að verksmiðjan í Japan vill styðja umhverfismál.
Uppi á hillu hjá mér stendur Eddu-styttan sem sú mynd fékk sem talin var svo varasöm að menn fóru á límingunum við tilhugsunina um að tengjast henni.
Allir forsvarsmenn fyrirtækja sögðu það sama: "Viðskiptaumhverfi okkar kemur í veg fyrir að við getum tengst þessari mynd á nokkurn hátt."
Gunnar, ef það sannar ekkert fyrir þér að til þess að gera þessa mynd neyddumst við hjónin til að fórna nær öllum eigum okkar þá þýðir heldur ekkert fyrir mig að nefna þá hræddu einstaklinga sem urðu gripnir ótta við það eitt að tengjast nafni mínu.
Ómar Ragnarsson, 12.11.2007 kl. 23:44
Ómar og Agnes hafa lög að mæla. En sem betur fer er til fólk sem lætur ekki
stjórnast af óttanum og tjáir sig þrátt fyrir hótanir, ímyndaðar eða ekki.
Það er til fyrirmyndar og grefur undan viðvarandi tilhneigingu meðal
stjórnmálamanna til þess að beita valdinu af geðþótta. Svo eru þeir
sem ávallt flaðra upp um valdhafa, og segja allelúja þar sem þeim er
gefið á eta. Eru þeir ekki jafnan í meirihluta?
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 23:56
Gunnar; nú þarf ég að fara að heimsækja þig og eiga við þig orð undir álvegg. Lítið dæmi um óttan sem hér er til umfjöllunar. Þegar fyrsti í fiskeldi var í fullum gangi og menn fyrirframtöldu gull í haugum voru nokkrar raddir sem óttuðust afleiðingar blöndunar kvíafisks við þann náttúrulega. (ég veit að þér nægir að fiskurinn syndi í rétta átt til að vera fínn fiskur) Ég minnist opins húss hjá Ármönnum þar sem þessi mál voru til umræðu. Ég hafði þá beðið vel menntaðan líffræðing um að halda tölu um málið, vitandi að hann deildi áhyggjum með okkur. Daginn fyrir opna fundinn hringdi hann í mig og sagðist ekki geta komið og þegar ég innti hann eftir ástæðu þá sagðist hann einfaldlega óttast um vinnuna sína en hann vann þá á Veiðimálastofnun sem á þeim tíma var undir stjórn manna sem vildu hag eldismanna sem mestan. Minnistæðar eru ofsóknir á hendur Prófessors Hans Nordeng eins fremsta líffræðings sem uppi hefur verið, en hann varaði við áhrifum fiskeldis á villta stofna í Noregi. Hann var niðurlægður, rægður og honum hótað lífláti þegar mest gekk á. Allar spár Nordengs komu fram og enginn hótar þessum manni framar. Ég veit það Gunnar að þú verst öllum þeim sem ekki fíla álrykið og virkjunarbröltið fyrir austan eins og þeir séu óvinir þínir númer 1. það er þér til minnkunnar að láta svona.
Pálmi Gunnarsson, 13.11.2007 kl. 00:17
Ég lít ekki á þá sem eru mér ósammála sem óvini mína, svo það sé á hreinu, en ég áskil mér fullan rétt til þess að segja mína skoðun eins og aðrir.
Í pistli sínum segir Ómar: "...aðeins tilhugsunin um tilvist og völd Davíðs Oddssonar gat gert menn óttaslegna". Og síðar: " ...hræðsluástand hjaðnaði eftir brottför þeirra félaga Davíðs og Halldórs af vettvangi".
Þetta hefur svo sem heyrst áður en það breytir því ekki að þetta eru dylgjur. Það er gjarnan þannig, að ef menn eru ósammála ríkjandi stjórnvöldum og meirihluta almennings og komast ekki lönd né strönd með sín mál, þá beita menn oft svona vinnubrögðum. "Let them deny it" taktíkin.
Það þarf enginn að segja mér að náttúrufræðingar og aðrir sérfræðingar hjá ríkinu eða einkafyrirtækjum sem Ómar vildi helst vitna til, hafi þurft að óttast um vinnu sína. Það væri ljótur afleikur ef menn sem ekkert hafa til saka unnið eru látnir gjalda fyrir skoðanir sínar. Í Bandaríkjunum hafa þeldökkir notfærst sér það á síðari árum, að hóta vinnuveitendum sínum ef á að segja þeim upp, með því að fullyrða að ástæða uppsagnarinnar hafi verið litarháttur þeirra. Sumir vinnuveitendur hafa beygt sig undir þetta af ótta við fjölmiðlafár.
Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að fólk vilji ekki láta bendla sig við öfgasinnaðar skoðanir. Sumir einstaklingar hafa "hérahjarta" og þora ekki að styggja einn né neinn. Aðrir eru "paranojaðir" og ímynda sér að allt hrynji í kringum þá ef þeir tjá sig um umdeild málefni, sérstaklega ef það stríðir gegn meirihlutaáliti almennings. Einnig geta afmörkuð atriði stutt skoðanir ykkar en heildar myndin breytist ekki. Fræðingur sem styður eina tiltekna fullyrðingu, getur verið ósammála ykkur í öllum öðrum. Var líffræðingurinn þinn Pálmi með hérahjarta? Eða vildi hann bara ekki vera í sviðsljósinu? Öllum svona spurningum er ekki svarað, enda hentar það ykkur ekki.
Ef peningamenn eða fyrirtæki hugnast að styrkja einstaklinga þá geta þeir gert það án þess að nafn þeirra sé bendlað við styrkinn. Ef Björgólfs eða Bónusfeðgar væru skoðanabræður Ómars, þá væri þeim í lófa lagið að gauka að honum einhverjum brauðmlum, undir nafnleynd, ef þeir eru svona hræddir við almenningsálitið. Ef þeir hafa ekki gert það, þá segir það mér að þeir hafi ekki haft áhuga á því. Ekkert annað.
Barátta ykkar á þessum nótum skaðar málsstað ykkar. Skaðar hinn göfuga málsstað náttúru og umhverfisverndar.
Ásakanir um hótanir eru alvarlegar og þeir sem sitja undir slíkum ásökunum kæra sig sjaldan um að henda sér í ormagryfjuna. Mér hins vegar ofbýður, og ég er óhræddur.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.11.2007 kl. 02:14
Ég tek undir orð Ómars, það er lýðum ljóst að ástandið var svona, þá þeim tímum þegar Davíð var við völd, og er jafnvel að hluta til ennþá. Dæmin sem hann og aðrir hér tekur, taka af allann vafa um það. Svona tilsvör hafa margir fengið sem starfa í pólitík sem ekki var stjórnvöldum þóknanleg.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.11.2007 kl. 08:23
Þetta er nú mjög svo lífseig flökkusaga um þá ,,ógn" sem stafaði af Davíð. Pólistískir andstæðingar hans hafa verið duglegir að halda þessari þjóðsögu við.
Raunverulegur er hinnsvegar armur peningana, sme slær menn í gras og hótanir um málsóknir á hendur manna, ef þeir leyfa sér, að hafa skoðanir á mönnum og málefnum.
Ásthildur Cesil þekkir dæmin þar um af spjallvef nokkrum, Málefnunum. ÞAr rituðu menn vangaveltur um hvaðeina en þegar hýsing vefsins breyttist, tóku að berast til manna (auðvitað símleiðis) hótanir um málsóknir og létu menn svona vita af því, að ef ekki væri látið af tilteknum skrifum, gætu aðilar haft af því veruleg vandræði.
Svo eru allmargir framleiðendur og þjónustuaðilar til, sem hafa þurft, annaðhvort að láta af sinni starfsemi ellegar selja til einhvers ,,sterkari" þetta heita ,,frjáls" viðskipti.
Nei Davíð var sem kórdrengur ef borið er saman við hina raunverulegu stórkarla hérlendis, þeir eru með heilu og hálfu lögmannsskrifstofunar á sínum snærum og geta gert mönnum lífið afar leitt og óþjált, svo ekki sé tekið dýpra í árinni.
Hér er, líkt og í BNA, stjórnmálamenn frekar veikir til raunverulegra áhrifa en þeir sem stjórna fyrirtækjunum og peningunum eru því sterkari.
Í Mannheimum er það því miður regla frekar en undantekning, að þeir sem telja sig sterka, vilja sína á sér breiddina og gera það óspart sumir, fer að vísu nokkuð eftir uppeldi og innræti hve mjög er látið vaða á súðum en svo eru undantekningarnar, sem eru jafn góðar og gefa manni von um að með framræktun þeirra eiginleika verði til aðstæður sem mannsæmandi megi teljast.
Hér eins og svo oft áður, verður hver að prófa sjálfan sig OG LÁTA SAMVISKUNA RÁÐA.
Miðbæjaríhaldið
Þekkir gjörla hótanir stórbokka
Bjarni Kjartansson, 13.11.2007 kl. 08:48
Gunnar Th.: Á Davíðs/Halldórstímanum var einræði tveggja manna hér á Íslandi. Hvor fyrir sig eru ábyggilega hinir vænstu menn en einræði hefur hvergi gefist vel sem stjórnskipulag.
Þórir Kjartansson, 13.11.2007 kl. 08:49
Góð grein hjá þér Ómar,
Þetta sem að þú ert að tína til þarna hef ég fengið að prófa á eigin skinni og þú líka!
Það eru margar aðferðir sem hægt er að nota til að láta þá sem ekki hlýða fá smá hirtingu. Í dag er ekki notast við vald með beinum hætti eins og áður fyrr, heldur hefur pólitíska valdið komið sér upp miklum fjölda af stofnunum sem síðan sjá miskunnarlaust um þá vinnu á kostnað skattborgaranna og skiptir þá litlu hver kostnaðurinn verður!
Sá sem verður fyrir slíku getur verið að sprikla í einhverju ósýnilegu neti kerfisskrifræðis í mörg ár, enda er það tilgangurinn!
Á Ísandi á að vera til eitthvað sem heita stjórnsýslulög. Þau virðast nákvæmlega ekki hafa neina þýðingu þegar einstaklingur þarf að reyna sig gagnvart hinu miðstýrða kerfi.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 13.11.2007 kl. 09:21
Stórkostleg og góð umræða um, því miður, staðreyndir. Staðreyndir sem hægt er að sjá í mjög mörgum útgáfum hér á Landinu Bláa, í fortíð, nútíð og því miður, líklega í framtíð. Gott hjá þér Ómar að taka þetta upp!!!
Þessar staðreyndir má t.d. sjá eftirfylgni stjórnvalda og stofnana þeirra við mjög mörgum athugasemdum Umboðsmanns Alþingis, sem oftar en ekki, eru orðin tóm um réttindi fólks til þessa eða hins, á blöðum sem fáir, ef nokkrir lesa. Þannig er stjórnvaldinu oft á tíðum beitt. Stofnanirnar eru fyrir hendi, þangað sem fólk getur leitað með ágreiningsefni sín og leitað "réttar síns" en þegar svo álitin liggja fyrir eru annarsvegar flestir búnir að gleyma því um hvað málið fjallaði og hinsvegar fer það stjórnvald, sem Umboðsmaður gagnrýnir, ekki eftir því áliti sem þaðan kemur.
Ég ákvað að taka mér það bessaleyfi að setja hér inn smá texta úr annars hinu ágætasta plaggi, sem er stjórnarskrá Bandaríkja Norður Ameríku en í fyrsta hluta hennar er fjallað sérstaklega um skyldur þegnanna til að koma frá völdum þeim stjórnarherrum, sem ekki hugsa fyrst, fremst og síðast um hag þeirra þegna, sem þeir sitja í umboði fyrir. Jafnframt ákvað ég að vera ekki að rembast við að þýða textann:
"IN CONGRESS, July 4, 1776.
The unanimous Declaration of the thirteen united States of America,When in the Course of human events, it becomes necessary for one people to dissolve the political bands which have connected them with another, and to assume among the powers of the earth, the separate and equal station to which the Laws of Nature and of Nature's God entitle them, a decent respect to the opinions of mankind requires that they should declare the causes which impel them to the separation.We hold these truths to be self-evident, that all men are created equal, that they are endowed by their Creator with certain unalienable Rights, that among these are Life, Liberty and the pursuit of Happiness.--That to secure these rights, Governments are instituted among Men, deriving their just powers from the consent of the governed, --That whenever any Form of Government becomes destructive of these ends, it is the Right of the People to alter or to abolish it, and to institute new Government, laying its foundation on such principles and organizing its powers in such form, as to them shall seem most likely to effect their Safety and Happiness. Prudence, indeed, will dictate that Governments long established should not be changed for light and transient causes; and accordingly all experience hath shewn, that mankind are more disposed to suffer, while evils are sufferable, than to right themselves by abolishing the forms to which they are accustomed. But when a long train of abuses and usurpations, pursuing invariably the same Object evinces a design to reduce them under absolute Despotism, it is their right, it is their duty, to throw off such Government, and to provide new Guards for their future security.--"
Allan textann er svo hægt að nálgast á neðangreindri vefslóð, fyrir þá sem það vilja og áhuga hafa:
http://www.archives.gov/national-archives-experience/charters/declaration_transcript.html
Texti þessi var saminn, eins og flestir sjálfsagt vita, þegar hinar þrettán fyrstu nýlendur BNA sögðu sig úr lögum við konungsíkið Bretland, vegna harðstjórnar bretakonungs.
Vald er vandmeðfarið verkfæri og því lengur, sem það helst á fárra manna höndum, þeim mun vandmeðfarnara virðist það verða.
Að veita gagnrýni er auðvelt verk, að taka við gangrýni er að sama skapi erfitt. Að hafa völdin og nota þau réttlátlega er erfitt og alls ekki öfundsvert hlutverk. Því miður hafa einhverjir valdhafar, stofnana þessa annars ágæta samfélags okkar, farið misvel með það vald, sem þeim hefur verið trúað fyrir og kannski tekið þá gagnrýni, sem þeim hefur verið veitt, persónulega inn á sig og í framhaldi af því farið að nota vald sitt til að "berja" þegnana til hlýðni.
Ég, fyrir mitt leyti, hef orðið vitni að slíku atferli (hræðslustjórnun) innan ríkisgeirans!
Snorri Magnússon (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 10:25
Gunnar þú ert óttalaus maður heyri ég. Það held ég reyndar að flestir sem hér hafa tjáð sig séu líka. Allt þetta tal þitt um öfgaskoðanir dæma þið sjálfan útí Reyðarfjarðarminni og þar ættir þú að vera um stund og íhuga. Og af því að þú nefnir líffræðinginn minn þá skal það upplýst að hann kom og hélt frábært erindi um hættuna sem fylgir blöndun eldisfisks við þann villta, enda snerist málið eingöngu um það, án öfga.
Pálmi Gunnarsson, 13.11.2007 kl. 10:32
Rðéttlætir ein ógn aðra Ómar ? Hafnar þú að auðmenn hafi kverkatak á þjóðinni og þess vegna þori fólk ekki að tjá sig ?
Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 10:46
Er sú gífurlega skuldsetning hjá þjóðinni svona almennt stór partur af þessum mikla ótta sem fólk er haldið - að þora með ekki að tjá sig opinberlega undir nafni- af ótta við að hugsanlega geti það orðið fyrir einhverjum hremmingum á efnahagssviðinu og að ofurþanin skuldaspilaborgin hrynji á einu andartaki ?
Stórskuldugur maður er í raun þræll skulda sinna og lánadrottna og tilveran snýst um að halda sjó á þeim vígvelli -öllum stundum. Skuldlaus maður er frjáls.
Er ekki ráð hjá þessari þjóð að fara að sýna meiri ráðdeild - spara - koma sér út úr skuldafeninu og geta um frjálst höfuð strokið ?
Það er eitthvað mikið að hjá þjóð sem stendur í biðröð við opnun nýrrar leikfangaverslunnar og sperðar á einum degi 70 milljónum í plastdót og síðan daginn eftir er önnur slík verslun opnuð og sagan endurtekur sig - allt keypt væntanlega útá yfirdrátt eða krítarkort og skuldahalinn lengist...
Sævar Helgason, 13.11.2007 kl. 11:49
Ég tel þau orð Roosevelts sígild og algild, hvenær sem er og hvar sem er, að það sem við eigum helst að óttast sé óttinn sjálfur. Burt með hann!
Ómar Ragnarsson, 13.11.2007 kl. 12:17
Byrjaður þá á sjálfum þér Ómar, losaðu þig við óttann, ekki ala á honum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.11.2007 kl. 12:29
Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
Þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
En láttu það svona í veðrinu vaka
Þú vitir, að hann hafi unnið til saka.
En biðji þig einhver að sanna þá sök,
Þá segðu, að til séu nægileg rök,
En náungans bresti þú helzt viljir hylja,
Það hljóti hver sannkristinn maður að skilja.
Og gakktu nú svona frá manni til manns,
unz mannorð er drepið og virðingin hans,
og hann er í lyginnar helgreipar seldur
og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur.
Já, hafir þú öll þessi happsælu ráð,
ég held þínum vilja þá fáir þú náð
og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður.
En máské, að þú hafir kunnað þau áður!
Fyrstu þrjú erindin og það síðasta af sjö eftir Pál J. Árdal.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.11.2007 kl. 13:25
Ágætt hjá þér Gunnar Th að útlista aðferðirnar sem ákveðin forsætisráðherra beitti í sinni tíð. Hann kallaði þetta reyndar sjálfur "smjörklípur"
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.11.2007 kl. 20:13
Það var ansi fróðlegt að sitja nýafstaðið Umhverfisþing og hlust á þær ræður sem þar voru fluttar.
Þó situr eftir einna sterkar ræða Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, en hún talaði um frelsi vísindamanna og að þeir ættu að fá að tjá sig óáreittir og án þess að eiga það á hættu að verða frystir úti vegna rannsókna sinna og þeirra niðurstaðna sem út úr þeim rannsóknum kæmi. Það var greinilegt að hún hafði orðið fyrir þvingunum þó ekki fastara sé að orði kveðið.
Brynjar Hólm Bjarnason, 14.11.2007 kl. 20:49
Ræðurnar á Umhverfisþinginu eru ennþá inni á netinu.
Pétur Þorleifsson , 14.11.2007 kl. 21:26
Það er einkennilegt ef vísindamenn "þora" að nefna það í ræðu og riti að þeir séu beittir þvingunum og órétti, en þora ekki að nefna nein nöfn! Ómar þorði þó að nefna Davíð og Halldór.
Vísindamenn sem augljóslega haga rannsóknum sínum og niðurstöðum eftir pöntun umhverfissamtaka öðlast ekki virðingu í vísindasamfélaginu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 15.11.2007 kl. 00:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.