BÚSETUSKYLDAN Í NOREGI.

Á ferð okkar hjóna um Noreg fyrir nokkrum árum kynntumst við því hvernig Norðmenn viðhalda því menningarlandslagi sem er í norsku fjörðunum. Þar er á vissum svæðum skylt að búa allt árið á hverri jörð og hafa þar búpening í samræmi við norska hefð. Þetta er ekki vegna landbúnaðarins heldur vegna þess að Norðmenn vilja varðveita sjálfsmynd sína og lands síns með því að geta upplifað umhverfi tónverka og bóka þeirra Griegs, Björnssons, Hamsuns og annarra stórskálda.

Dýrt, segja einhverjir, en Norðmenn sjá peninga í þessu því að þú átt bæði sem heimamaður og erlendur ferðamaður að geta upplifað til dæmis stemninguna í Sunnudegi selstúlkunnar. Með því býður ferðaþjónustan upp á sérnorskt umhverfi og stemningu sem stór hluti ferðamanna sem þekkir norska menningu sækjast eftir og er tilbúinn að borga fé fyrir. 

Þetta kemur upp í hugann þegar meira umrót er á eignarhaldi á jörðum á Íslandi en nokkru sinni fyrr. Í stórri nýrri og flottri bók sem færir sérfræðingar hafa gert um hundrað undur veraldar eru undur númer 1 og 2 norsku firðirnir og eldvirka svæðið á Íslandi. Aðeins fimm önnur náttúruundur í Evrópu komast á listann.

Norðmenn eru sér meðvitaðir um gildi landslags og menningar í landi sínu. Meðal annars þess vegna er enn óvirkjað jafn mikið vatnsafl að magni til í Noregi og á Íslandi og Norðmenn myndu hlæja að þeirri röksemd Péturs Blöndals að umhverfisverndarmenn heimsins muni krefjast þess að þetta vatnsafl verði virkjað.

Ef til stæði að bræða alla góðmálma sem fáanlegir er í heiminum fyrir málmbræðslur myndu menn ekki byrja á því að bræða hvolfþök frægustu kirkna og halla í heiminum.

Norsku firðirnir og eldvirka svæðið á Íslandi eru hliðstæða glóandi hvolfþaka þeirra bygginga heims sem eru á lista yfir 100 undur veraldlar. Ef þyrfti að bræða allan góðmálminn yrðu þau brædd síðast, - ekki fyrst.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Það er af sem áður var, um aldamótin 18-1900 - þá ortu menn óð til landsins og hófu landið allt í æðraveldi . Landið var tignað, gögn þess og gæði.

Nú eru það bara milljarðar og milljarðar hér og þar og um heim allann- græða og græða meir-eyða og eyða meir. Neysluæðið er stjórnlaust.

Í fréttum í dag var skýrt frá því að nýlegir bílar eru sendir í brotajárn kom fram smá bilun- og nýjir keyptir. Við kaupum meira af ofurdýrum bílum en Danir og Svíar til samans. 

Og krafan er ,virkja meir og meir - ekkert er heilagt- landið skal mergsogið á altari neysluhyggjunnar.

Sævar Helgason, 14.11.2007 kl. 22:40

2 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Sævar, ég verð að benda þér á hið augljósa: aðal landslofgjörðarljóðskáldið okkar er náttúrulega Ómar Ragnarsson Fallegasta ljóðið (allavega uppáhaldið mitt) er á DVD "Ómar lands og þjóðar" og heitir "Kóróna landsins" í fallegum söng Diddúar og Egils Ólafs. Að þeim algjörlega ólöstuðum er ógleymanlegt að heyra Ómar flytja þetta ljóð.

Ómar, þetta ljóð er algjör snilld! og mun vera mér ógleymanlegt um alla ævi að hafa heyrt þig og séð, flytja það síðastliðið vor.

Ragnhildur Jónsdóttir, 14.11.2007 kl. 23:30

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fyrir nokkrum árum keyrði ég og fjölskylda mín frá Svíþjóð yfir þveran Noreg þar sem hann er breiðastur og til Bergen. Á leiðinni keyrðum við í gegnum 67 jarðgöng. Norðmenn hafa nefnilega efni á slíku vegna ólíugróðans. Við komum niður í Gudvagen og hvílík sjón að sjá. Þar gistum við í svokallaðri "hittu" sem var ljómandi gott. Um morguninn tókum við rúnt um svæðið og keyrðum mjóan sveitaveg og komum þá að einbreiðum jarðgöngum um 1600 m. löngum. Þegar við höfðum keyrt í gegn komum við fljótlega að enda vegarins og þar var litill bóndabær. Einn lítill bóndabær fyrir 1600 m. jarðgöng! Við bóndabæinn var lítil bryggja og þessi sjón var náttúrulega stórkostleg. Hvergi sálu að sjá og snarbratta skógi vaxnar hlíðarnar ofan í örmjóan fjörðinn. 

Það er ósanngjarnt að bera saman norskt þjóðfélag með allan sinn olíuauð við litla, en þó stóra og dreifbýla Ísland sem ekkert á af auðlindum nema orkuna í fallvötnunum og jarðvarmann, og svo e.t.v. fiskinn sem þó þverrandi fer.

Mig grunar að upp hefði risið mótmæli frá háværum minnihlutahópum á Íslandi, ef raska ætti ró og ósnortinni fegurð svona fjarðar "hér á landi á", eins og skáldið sagði, með jarðgöngum. En ekki þar fyrir að við hefðum farið að grafa svona göng fyrir einn sveitabæ.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.11.2007 kl. 01:05

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ferðaþjónusta á Íslandi er stórlega vanmetin atvinnugrein og tekjulind fyrir þjóðina, enda litið á hana af stjórnvöldum sem "hliðaratvinnugrein" og hún geymd í skúffum ráðuneyta hér og hvar í kerfinu. Það vantar mikið upp á að hún sé metin til fjár til jafns við aðrar atvinnugreinar á Íslandi. Samt sem áður er áætlað að hálf milljón erlendra ferðamanna sæki Ísland heim á þessu ári og gjaldeyristekjur af þeim verði um 60 milljarðar króna - sjá hér.

Ég man mjög vel eftir því þegar fjöldi erlendra ferðamanna fór fram úr íbúafjölda landsins. Það var árið 2000. Á aðeins 7 árum hefur þeim fjölgað úr 300 þúsundum í 500 þúsund. Það er gríðarleg fjölgun á mjög skömmum tíma. Og af hverju? Kannanir hafa sýnt að erlendir ferðamenn sækjast fyrst og fremst eftir að upplifa ósnortna náttúru Íslands... víðáttuna... þögnina... hreinleikann... Náttúran er einstök upplifun fyrir íbúa iðnvæddra, fjölmennra ríkja að ef við viðhöldum henni eins ósnortinni og mögulegt er verður hún vaxandi tekjulind um ókomna tíð.

Engu að síður keppast menn við að leggja forsendur ferðaþjónustunnar í rúst, ósnortna íslenska náttúru. Og til hvers? Okkur vantar ekki störf hérna á suðvesturhorninu. Við þurfum að flytja inn tugþúsundir útlendinga til að sinna þeim störfum sem skapast hafa undanfarin ár. Okkur vantar ekki peninga - við erum með ríkustu þjóðum heims og eins og Sævar bendir á hér að ofan er neysluæðið orðið gjörsamlega stjórnlaust.

Hver verður arfleifð okkar sem nú lifum? Hverju ætlum við að skila komandi kynslóðum? Hvernig munu barnabörnin og barnabarnabörnin okkar upplifa ljóð Jónasar og annarra sem ortu um náttúru Íslands? Ætlum við að koma hlutunum svo fyrir að þau hafi ekki hugmynd um hvað þeir voru að yrkja um? Ætlum við að vera búin að ganga svo freklega á allar auðlindir landsins að það verður ekkert eftir handa þeim?

Spyr sú sem ekki skilur.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.11.2007 kl. 02:21

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er nú mótsögn í því að verið sé að leggja forsendur ferðaþjónustunnar í rúst,  með því að hrófla við ósnortinni náttúru. Og ferðamönnum alltaf að fjölga! Það hafa reyndar verið rök andstæðinga virkjunarframkvæmda, m.a. við Kárahnjúka að nú muni ferðamannaiðnaðurinn á Austurlandi ekki bera sitt barr framar. Tóm vitleysa náttúrulega.

En hefur verið gerð úttekt á því hve stór hluti ferðamanna er að koma hér eingöngu vegna náttúrunnar? Mér hefur sýnst að næturlífið í Reykjavík sé töluvert aðdráttarafl, sem er hið besta mál. Þar liggja möguleikarnir í peningaplokkinu og enginn er átroðningurinn á náttúrunni...tja nema kannski náttúru íslenskra meyja.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.11.2007 kl. 02:29

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það er einmitt engin mótsögn í því að forsendur ferðaþjónustu séu lagðar í rúst með því að hrófla við einmitt því sem þeir sækjast eftir - ósnortinni náttúru. Og Kárahnjúkar eru ekki eina svæðið á landinu, gleymdu því ekki.

Já, Gunnar... það hafa verið gerðar margar kannanir á því. Ég legg til að þú gerist fylgdarmaður leiðsögumanna, t.d. á Austfjörðum, og upplifir að vera með erlendum ferðamönnum í ósnortinni, íslenskri náttúru. Ég get lofað þér því að það er engu líkt.

Næturlífið í Reykjavík höfðar til þröngs hóps erlendra gesta. Meirihlutinn verður aftur á móti fyrir miklu ónæði af næturlífinu í Reykjavík um helgar - svefnlausar nætur á hótelum í miðborginni og þar fram eftir götunum.

Og Gunnar minn...  ekki vera með fullyrðingar sem þú getur ekki með nokkru móti staðið undir. Það er ekki mjög karlmannlegt.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.11.2007 kl. 02:53

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er ótrúlegur hroki í þér Lára. Þú gefur þér að ég hafi ekki verið í fylgd erlendra ferðamann í íslenskri náttúru, þú afneitar augljósri mótsögn um ferðamannastrauminn sem stöðugt er að aukast, þú talar um þröngan hóp erlendra gesta sem heimsækir næturlífið í Reykjavík og segir svo að ég eigi ekki að vera með fullyrðingarsem ég geti ekki staðið við! Og blandar svo karlmennsku minni í það.

Maður veit stundum ekki hvort maður á að hlæja eða gráta

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.11.2007 kl. 05:15

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þar kom að því að ég var kölluð hrokafull, það er alveg ný upplifun fyrir mig. Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Engu að síður kom upp í hugann orðatiltæki sem vísar í vissan öfugsnúning - og gettu nú.

Ég nenni ekki að eyða tíma mínum í að munnhöggvast við fólk, en ég get fullvissað Gunnar um, að ég veit nákvæmlega hvað ég er að tala um þegar ég segi að næturlífið í miðborg Reykjavíkur höfði aðeins til brotabrots af þeim erlendu gestum sem hingað koma. Mikill meirihluti þeirra vill upplifa náttúruna og landslagið og ver tíma sínum hér í að ferðast um en ekki að hanga á börum heilu og hálfu næturnar.

Svo legg ég til að þú hlæir, það er skemmtilegra og þá líður manni betur.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.11.2007 kl. 10:00

9 identicon

http://www.ferdamalastofa.is/konn_vetur0405_vefur/index.html

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 10:08

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta mál Ómar, er mér of heitt til þess að ég þori að taka til máls um það.

Hitt þykist ég sjá að þegar að því kemur að augu stjórnvalda opnast þá verður það nokkrum byggðarlögum of seint.

Versta vandamál þessa lands er að heimska þjóðarinnar sem það byggir vex hraðar en heimska stjórnvalda. Er þá mikið sagt.

Árni Gunnarsson, 15.11.2007 kl. 20:51

11 Smámynd: Fannar frá Rifi

Íslensk ferðaþjónusta er ríkisstyrkt um milljarðar á ári hverju, beint og óbeint.

Lára þú setur þig á frekar háan hest og telur að allir þeir sem mótmæli þér séu greinilega ekki eins upplýstir og þú sem virðist vera handhafi hins æðsta sannleika. allavega varðandi ferðamennsku.

Það þýðir nú lítið að vera að bera saman Noreg og Ísland þó að landfræðilega séum löndin nálægt hvort öðru. Þar hafa miklar niðurgreiðslur verið til þess að halda úti byggð. Olían er óspart notuð til þess. 

ef við settum íþyngjandi lög um búsetu skilyrði þá myndi bara eitt gerast. Bændur yrði bundnir í vistar bönd. Gaman reyndar að sjá að menn eru farnir að fara með það sama stef og Framsóknarmenn fóru með fyrir rúmum 100 árum. Þá litu þeir niður á þann óþverra lýð sem bjó á mölinni eða sem verra er, við sjóinn.

Það er kannski vilja hjá mörgum í dag að taka upp aftur þau gömlu lög um vistarbönd?  

Fannar frá Rifi, 15.11.2007 kl. 21:05

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég kannaði fyrir nokkrum árum hlutfölin í efnahag Íslendinga og Norðmanna. Þá kom í ljós að miðað við mannfjölda var margumtalaður olíugróði þeirra álíka mikill hluti af þjóðartekjum þeirra og fiskurinn hjá okkur.

Tekjur þjóðanna og þjóðarframleiðsla á mann voru mjög á líku róli.

Munurinn á byggðinni, sem jarðgöngin hans Gunnars lágu til,. og Héðinsfirði er sá að byggðin eða sveitabærinn í Noregi er svipuð og ótal líkar byggðir þar í landi og þær hafa hvergi nærri allar fengið til sín jarðgöng.

Þannig þarf enn að fara á ferju yfir Dalsfjörð til Hrífudals þaðan sem Ingólfur Arnarson fór til Íslands.

Héðinsfjörður hefur hins vegar þá sérstöðu að hann er eini eyðifjörðurinn allt frá Ingólfsfirði nyrst á Ströndum og austur á Loðmundarfjörð.  

Hvað snertir ferðamennina þá er ég oft sakaður um að vilja stuðla að stórfelldum náttúruspjöllum af völdum þeirra með því að vilja fjölga þeim.

Ég hef hins vegar komið í nógu marga þjóðgarða og friðuð svæði erlendis (25) til að sjá að með réttri skipulagningu er hægt að koma í veg fyrir spjöll.

Mér er svosem ekkert umhugað að fjölga ferðamönnum hér einhver ósköp en neyðist til að benda á möguleikana á því sviði vegna þess að gróðasjónarmið eru hér allsráðandi og þess vegna verður að benda á möguleika umhverfisverndarmanna í baráttunni við virkjanafíklana sem lýsa má upp á bandarískan hátt: "Let´s beat them at their owm game."

Á íslensku myndi ég orða þetta svona: Við viljum sigra þá á okkar forsendum og getum það, en ef við erum tilneyddir getum við líka sigrað þá á þeirra forsendum.  

Ómar Ragnarsson, 15.11.2007 kl. 23:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband