18.11.2007 | 14:02
JÖRÐIN HLÝTUR AÐ VERA FLÖT, ÓLAFUR TEITUR.
Ólafur Teitur Guðnason heldur því mjög á lofti í Silfri Egils, sem ég er að horfa á, að Hjörleifur Guttormsson, sá mæti sérfræðingur um íslenska hálendið, hafi sagt í ferðabók sinni um Kringilsárrana að þar væri ekkert merkilegt að sjá. Þessu hafa fylgismenn Kárahnjúkavirkjunar haldið mjög á lofti við að réttlæta virkjunina.
Hjörleifur Guttormsson vann afreksverk á sínum tíma með því að ganga um stóran hluta landsins sem einna erfiðastur er yfirferðar og rita um það merkar bækur.
Í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar fóru hins vegar margir vísindamenn um þann hluta þessa víðfeðma ferðasvæðis Hjörleifs og afraksturinn var fjöldi nýrra vísindalegra niðurstaðna um lónstæði Hálslóns.
Ein þeirra var sú að hólaröð yfir þveran Kringilsárrana sem nefnist Hraukar ætti sé enga hliðstæðu annars staðar í veröldinni, - ekki einu sinni á Svalbarða eins og nefnt var í matsskýrslunni. Þetta gat Hjörleifur ekki vitað.
Hraukarnir eru afrakstur þess að enginn skriðjökull heims hleypur eins hratt fram og Brúarjökull, - annað einsdæmi í Kringilsárrana.
Rannsóknir á sethjöllunm í Hjalladal bentu til þess að Jökla væri afkastamesti listamaður jökulfljóta heims, - hefði grafið Hafrahvammagljúfur að mestu á aðeins 700 árum. Þetta vissi Hjörleifur ekki né nokkur annar á hans ferðatíma.
Þar sem ég lenti flugvélum á því sem sýndist vera lítill sethjalli í botni dalsins var í raun árbotninn eins og hann var fyrir fjörutíu árum því að áin hafði á þessum örfáu árum grafið sig niður í 10-15 metra djúpt gljúfur framhjá lendingarstaðnum og búið til frábær náttúrufyrirbæri, hina litfögru kletta Stapana, Rauðuflúð og Rauðagólf.
Hún hefði vafalaust haldið áfram að búa til Rauðugljúfur ef öllu þessu svæði hefði ekki verið sökkt.
Þetta vissi Hjörleifur ekki og hefur líklega ekki gengið um þennan hluta dalsins. Ég vissi þetta ekki fyrr en tíu dögum áður en dalnu var sökkt. Bændurnir á Aðalbóli í Hrafnkelsdal vissu þetta en voru aldrei spurðir.
Rauða bergtegundin sem mótaði þetta svæði og gaf Rauðuflúð, Rauðagólfir og Stöpunu litfegurðina er sjaldgæf djúpbergtegund sem sýnir að þarna er eldvirkt svæði.
Ólafur Teitur og hans skoðanasystkin vilja halda sig við hina eldri vitneskju en ekki hina nýrri.
Á sama hátt má maður búast við því að Ólafur Teitur muni telja visku færustu vísindamanna heims á fjórtándu öld sýna fram á að jörðin sé flöt og að í verkum færustu líffræðinga og dýrafræðinga heims í byrjun 19. aldar sé óyggjandi vitnisburður um það hve fráleitt sé að maðurinn sé kominn af öpum.
Hin eldri vitneskja skal blíva, hin nýrri og fullkomnari að engu höfð.
Í málflutningi Ólafs Teits eru í raun settir fram tveir kostir:
1. Hjörleifur Guttormsson er og var frábær fræðimaður og þess vegna var ekkert merkilegt að sjá í lónstæði Hálslóns og hið besta mál að sökkva Hjalladal undir leiðsögn hans.
2. Ef eitthvað merkilegt var að sjá í lónstæði Hálslóns sýnir það að ekkert var eða er að marka Hjörleif Guttormsson.
Ég hef hér að framan fært að því rök því hve ósanngjörn og grunnfærinn þessi málflutningur er af hálfu þess blaðamanns sem hefur nú sett sig á stall nokkurs konar hæstaréttardómara yfir starfsbræðrum sínum.
Athugasemdir
Takk fyrir þessi skrif, kærlega, Ómar.
Ég hlustaði á Ólaf Teit og var brugðið.
Með hlýrri öræfakveðju,
Ingibjörg G. Guðmundsdóttir
IGG , 18.11.2007 kl. 14:19
Sæll Ómar!
Þú misskilur málið og gerir mér upp skoðun. Athugasemd mín um ummæli Hjörleifs er ekki á nokkurn hátt innlegg af minni hálfu inn í umræðuna um hvort Kárahnjúkavirkjun hafi verið réttlætanleg. Athugasemdin felur ekki í sér neina afstöðu til virkjunarinnar. Það eina sem ég er að vekja athygli á er að ummæli Hjörleifs vöktu enga athygli meðal fjölmiðlamanna þegar bent var á þau í Fréttablaðinu. Það finnst mér stórmerkilegt - og ég leyfi mér að giska á að það hefði ekki verið þagað í hel með þessum hætti ef fundist hefðu gömul ummæli frá Valgerði Sverrisdóttur um einstæða náttúrufegurð svæðisins. - Menn geta verið ósammála þeirri ágiskun minni en vinsamlegast ekki gera mér upp þá skoðun að með því að vekja máls á þessu sé ég að taka afstöðu til virkjunarinnar. Það nær engri átt.
Kær kveðja,
Ólafur Teitur
Ólafur Teitur (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 14:55
Það er kolrangt hjá þér Ómar, að Jökla hafi grafið Hafrahvammagljúfur á aðeins 700 árum. Í athugasem Guðmundar Sigvaldasonar við umhverfismatið á upphaflegu matsskýrslu Landsvirkjunar um Kárahnjúkaverkefnið, segir hann að Hafrahvammaglhúfur hafi myndast á mjög skömmum tíma, eða 3.000 árum, en það er reyndar mjög stutt á jarðsögulegum mælikvarða.
Hjörleifur barðist með kjafti og klóm gegn Straumsvík á sjöunda áratugnum. Þegar hann varð Iðnaðarráðherra þá samþykkti hann Fljótsdalsvirkjun og lón á Eyjabökkum. Hjörleifur er manna fróðastur um náttúru Austurlands og stofnaði Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST). Andstöðunni við Eyjabakka og Kárahnjúka stjórnaði Hjörleifur frá upphafi og í umræðunni um Kringilsárrana í fjölmiðlum á árunum 2002-2006 mátti m.a. sjá eftirfarandi:
"Einstakar og einstæðar náttúruminjar - náttúrugersemar - einstakar jarðmyndanir - kóróna svæðisins - hvílík fegurð - undraveröld - hvergi upplifað annað eins - stórkostlegt - heilagt - orðlaus yfir náttúrufegurðinni - tár í augum - vinsælasta göngusvæði landsins - útivistarparasdís á heimsmælikvarða - náttúruundur - einstakt á Íslandi - dýrðarsvæði - óviðjafnanleg náttúra "
Um þennan sama stað sagði hinsvegar í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1987:
"Þetta er afar afskekkt svæði og fáfarin, nema helst af smalamönnum á haustin. Þangað er líka fremur fátt að sækja fyrir ferðamenn, nema þá til að skoða hreindýr og minjar um framrás Brúarjökuls. Hvort tveggja er þó aðgengilegra með auðveldari hætti annars staðar, hreindýr við Snæfell og á Vesturöræfum og jökulgarðar vestan við útfall Sauðár eða á Eyjabökkum".
Og höfundur þessarar greinar var Hjörleifur Guttormsson.
Hjörleifi hefur kannski bara orðið á "tæknileg mistök"? Nei, ég get ekki séð að það geti átt við hér. Maðurinn er einfaldlega óheiðarlegur í gegn og er að nýta sér þann meðbyr sem náttúruvernd gefur í hinum vestræna heimi. Gamli A-Þýskalandskomminn gerir hvað sem er til að koma höggi á hinn vestræna kapitalisma. Hvern heldur hann að hann sé að blekkja?
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.11.2007 kl. 15:24
Ég bloggaði um þetta 29. mars sl. sjá HÉR
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.11.2007 kl. 15:27
Gat verið, að þú hengdir þig í þetta og blandaðir Bush í það. Sannleikanum er hver sárreiðastur
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.11.2007 kl. 18:54
Ég bið Ólaf Teit afsökunar ef ég hef gert honum upp skoðun í Kárahnjúkamálinu. Allir sem ég veit um að hafa haldið hátt á lofti umsögn Hjörleifs Guttormssonar hafa gert það til þess að réttlæta virkjunina. Ef Ólafur Teitur er undantekning þar á er það vel.
Hvað snertir upplýsingar um tímann sem Jökla hefur grafið meginhluta Dimmugljúfra á er um að ræða nýjustu rannsóknir, ekki eldri rannsóknir í upphafi mats á umhverfisáhrifum.
En Gunnar vill samkvæmt þessu heldur halda sig við eldri og ófullkomnari rannsóknir en hinar nýrri og það er í góðu samræmi við efni þessa pistils um að hin eldri vitneskja skuli blíva, jörðin vera flöt, gljúfrin grafin á 3000 árum og ekkert merkilegt að sjá í lónstæðinu.
Ómar Ragnarsson, 18.11.2007 kl. 19:11
Það var bara alveg rétt, árið 1987, að aðgengi ferðamanna var þá "aðgengilegra og auðveldara annarsstaðar" en að Kringilsárrana.
Það lágu heldur ekki fyrir nákvæmar hæðarmælingar á Þjórsárverum þegar Landsvirkjun fékk fyrst vilyrði fyrir stíflu í ákveðinni hæð fyrir Norðlingaölduveitu. En þegar nákvæmari upplýsingar lágu fyrir, var þeim vísað frá með því að til væri gamalt leyfi sem ekki mátti svíkja. Landsvirkjun hefur vel að merkja ekki gefið sína Norðlingaveitu upp á bátinn ennþá, bara "ekki í bili".
Það var rætt um það á sínum tíma að virkja við Eyjabakka í stað Norðlingaölduveitu og hlífa þannig Þjórsárverum. En þegar þekking á svæðinu norðan Vatnajökuls eykst, þá á auðvitað að taka mark á þeirri nýju þekkingu, en ríghalda ekki í gamla vanþekkingu.
Ég hlustaði líka á Ólaf Teit í Silfri Egils áðan og þú þarft ekkert að biðja hann afsökunar á að þú hafir misskilið hann. Hann var að gera lítið úr Hjörleifi en ekki úr skorti á athygli í fjölmiðlum.
Soffía Sigurðardóttir, 18.11.2007 kl. 23:40
Ferðaþjónusta við Kringilsárrana myndi seint bæta upp fjárfestingar í vegagerð á svæðið. En nú er aðgengið ágætt, þökk sé Landsvirkjun og framkvæmdum þeirra. Enn er hægt að skoða Kringilsárrana og mun verða um ókomin ár. Aðeins 30% hans fór undir vatn. Neðsti hlutinn er bara aðeins ofar. Einnig er hægt að skoða Hafrahvammagljúfur þar sem þau eru hrikalegust og fallegust og vonandi ferður ferðamönnum gert kleift að ganga í gljúfurbotninum þurrum fótum. En fyrst verður auðvitað að meta slysahættu og öryggi.
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.11.2007 kl. 09:25
"Þökk sé Landsvirkjun" að einu "Hraukarnir" í heiminum sem lágu í halla í Kringiilsárrana eru sokknir, "þökk sé Landsvirkjun" að fallegasti sethjallinn í Kringilsárrana er sokkinn, "þökk sé Landsvirkjun að stærsti fossinn á hálendinu norðan Vatnajökuls og vestan Snæfells er sokkinn, "þökk sé Landsvirkjun að kláfurinn og flugbrautin sem opnuðu aðgengi að Kringilsárrana eru sokkin, "þökk sé Landsvirkjun að gilið Stuðlagátt fyrir neðan Töfrafoss með grónum hlíðum sínum og stuðlabergshömrum á báðar hendur er sokkið.
Það er óþarfi að þakka Landsvirkjun fyrir það að hægt sé að komast niður í Hafrahvammagljúfur, - það hefur alltaf verið hægt að fara niður svonefnt Niðurgöngugil en "þökk sé Landsvirkjun" að hafa svipt í burtu óperusöngvaranum og myndhöggvaranum Jöklu úr gljúfrunum þannig að í stað þess að standa niðri við botn gljúfursins og hrífast af afli og mikilleik hins mikla listamanns, Jöklu, er nú hægt að standa þar hljóður og dapur í þögn hins mannlausa óperumusteris og þakka Landsvirkjun fyrir mestu mögulegu umhverfisspjöll á Íslandi.
Ómar Ragnarsson, 19.11.2007 kl. 11:07
Það verður einmitt í gljúfurbotninum, sem ferðamaðurinn verður andaktugur. Að taka mikilfenglega dýpt og stærð gljúfursins svona beint í æð og skoða í návígi verk skaparans er ómetanlegt.
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.11.2007 kl. 11:14
Um HG og Kringilsárrana tók Ólafur Teitur bara þetta dæmi, eins og hann bendir á hér að ofan, til að útskýra aðalatriðið, þ.e. slagsíðu margra fjölmiðla. Besta dæmið þar er nefnilega að ummæli þeirra sem tjá sig í nafni náttúruverndar eiga einstaklega greiða leið inn í fjölmiðla. Upplýsingar um sama málaflokk, t.d. svör þeirra sem fyrir gagnrýni verða eða ábendingar um óáreiðanleika fyrri frétta, eiga mjög erfitt uppdráttar gagnvart sömu fjölmiðlum. Þetta er fakta og það var dásamleg tilbreyting að fá að hlusta á þessi ummæli í Silfrinu. Ef einhver ætti að fá blaðamannaverðlaun hér á landi þá er það Ólafur Teitur - sem fær þau líklega manna síðastur.
Það væri vel við hæfi að Spegillinn á RÚV tæki nú langt og gott viðtal við Ólaf Teit um þessa slagsíðu, en sá þáttur stendur galopinn hverjum þeim sem ræskir sig í nafni þess sem viðkomandi telur vera í þágu umhverfisverndar. Egill Helgason virðist aðeins vera farinn að átta sig á hvað þetta sífur í nafni umhverfisins er oft (ekki alhæfing hér) innantómt, og er það vel. Sjálfur var hann með fulltrúa Sólar þetta og Framtíðar hitt í drottningarviðtölum lon og don fyrir bara hálfu ári síðan (viðtalið við Ólaf Teit var ekki umhverfismál, NB, heldur um fjölmiðla).
Fossvoxari (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 11:21
Lætin í Jöklu í gljúfrinu eru örugglega mikilfengleg en þó hygg ég að hávaðinn geti verið þreytandi til lengdar, ólíkt hinni Guðdómlegu kyrrð sem umfefur manneskjuna sem í lotningu sinni andar að sér stemningunni.
Auk þess fáum við "hávaða" í nokkrar vikur á ári frá yfirfallinu. Og talandi um yfirfallið, þá er fossinn sem myndast við það, búinn að slá út Dettifoss sem kraftmesti foss Evrópu. Kárahnjúkafossinn hinn nýji er listaverk í sjálfu sér. Kraftmesta listaverk í heimi.
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.11.2007 kl. 11:34
Það kann að vera rétt hjá ÓT að það að fjölmiðlar hafi ekki velt sér neitt upp úr þessum sinnaskiptum HG sé til marks um einhvers konar slagsíðu. Ég veit það ekki. Í umræðunni um Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma þótti mér þó slagsíðan á margan hátt í hina áttina.
En hinu má velta fyrir sér hvort það kunni ekki að vera ósköp eðlilegur hlutur að skipta um skoðun. Oft er eins og stjórnmálamenn megi alls ekki gera það. Hvers vegna ætli það sé?
Þorsteinn Siglaugsson, 19.11.2007 kl. 11:36
HG virðist ekki bara hafa skipt um skoðun, heldur smekk líka. Hvað breytti mati hans á hraukunum í Kringilsárrana? Þeir hafa ekkert breyst á 20 árum. "Auðveldara er að skoða svona hrauka vestan við útfall Sauðár eða á Eyjabökkum".
Það að þeir lágu í halla eða jafnsléttu, snúi í austur eða vestur...? Það má alltaf finna eitthvað einstakt.
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.11.2007 kl. 11:45
Gunnar, ertu að grínast?
Eru náttúrunnar hljóð bara einhver hávaði og læti sem best er að losna við?
Jóhann (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 14:48
Gaman að lesa hér fróðlegar umræður , en Gunnar, blessaður settu upp bloggsíðu sjálfur og skrifaðu þar, þú skemmir svo málefnalegar umræður hér.
Bjartur (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 15:41
Nei, nei, en ég held að maður hafist nú lengur við í kyrrðinni
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.11.2007 kl. 15:45
Til að meta það Bjartur minn, hvort að umræðurnar eru fróðlegar eða ekki þá þarftu að lesa umræðurnar. Þú virðist njóta þeirra. Skautarðu framhjá þeim athugasemdum sem bera þess merki að vera ekki samhljóma þínum eigin skoðunum? Ég tók nefnilega fram að ég hefði "bloggað" um þetta mál 29. mars sl.
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.11.2007 kl. 15:50
Alveg rétt Gunnar, ég skauta framhjá forarpyttum og drullu, en stoppa og nýt hins.
Bjartur (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 16:05
Þú skautaðir þó ekki fram hjá síðustu athugasemd minni. Hentar bara að svara athugasemdum, ef þú sérð færi á útúrsnúningum og skæting?
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.11.2007 kl. 16:17
"Þökk sé Landsvirkjun" að Dettifoss er ekki lengur kraftmesti foss Evrópu. Þar með losuðum við ferðamenn við að fara að skoða hann og "þökk sé Landsvirkjun" að malbikaður vegur liggur alla leið að Kárahnjúkafossi en lélegir slóðar að Dettifossi.
"Þökk sé Landsvirkjun" ef við getum sparað okkur vegabætur að fossinum sem að mati Gunnars hefur verið sviptur Evrópumeistaratitli og er því lítils virði hér eftir eða hvað?
Ómar Ragnarsson, 19.11.2007 kl. 18:14
Því má bæta við að hinn nýi Evrópumeistari fossa verður reyndar ekki sjáanlegur nema fáar vikur á haustin. En það er reyndar heppilegt því í hlýjustu sunnan- og suðvestanvindunum verður hvort eð er sandrok úr þurru lónstæði Hálslóns yfir Kárahnjúkastíflu þangað til lónið er orðið fullt og fossinn kominn í gang.
Ómar Ragnarsson, 19.11.2007 kl. 18:42
E.t.v. þarf að bæta aðgengið að Dettifossi. Ég hef hins vegar aldrei átt í vandræðum með að nálgast hann, frá hvorugri hliðinni. Og reyndar finns mér það partur af sjarma fossins, þessir vegaslóðar í kringum hann. En auðvitað þarf að bæta vegina ef umferð og vinsældir staðarins kalla á það. Umferð og vinsældir Kárahnjúka kölluðu strax á góðan veg að svæðinu.
Dettifoss heldur alveg krúnunni Ómar, Kárahnjúkafoss er bara skemmtiatriði.
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.11.2007 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.